Skáru gat á síðu farþegaferju í leyfisleysi

Gat var gert á skipssíðuna á bílaþilfari Breiðafjarðarferjunnar Baldurs án leyfis Samgöngustofu og útbúin lúga til að spúla óhreinindum út af þilfarinu. Reyndur skipaeftirlitsmaður gerir alvarlega athugasemd við þetta, enda hafi vatnsþéttleiki þilfarsins þar með verið rofinn.

Skáru gat á síðu farþegaferju í leyfisleysi

Baldur siglir milli Stykkishólms og Brjánslækjar allt árið, oft með viðkomu í Flatey. Ferjan tengir þannig saman Vesturland og sunnanverða Vestfirði.

Skipið er orðið yfir 40 ára gamalt en var keypt til Íslands 2014. Eigandinn er Sæferðir, dótturfélag Eimskipafélags Íslands, en ríkið styrkir siglingarnar yfir vetrartímann.

Einar Jóhannes Einarsson er lærður vélfræðingur og var í rúmlega áratug skipaeftirlitsmaður hjá Siglingastofnun og síðar Samgöngustofu. Fréttamenn Kveiks keyptu sér far með Baldri og fengu Einar Jóhannes til að koma með og skoða skipið.

Lúga sem var gerð á bílaþilfari Baldurs, séð innan af þilfarinu. Út um gatið sést í bryggjuna.

Bílaþilfar Baldurs, sem er aðalþilfar skipsins, er lokað, en hægt er að opna stefnið og skutinn til að hleypa bílum til og frá borði.

Ein af athugasemdum Einars Jóhannesar var að gat hefði verið skorið á síðu skipsins á bílaþilfarinu og útbúin lúga sem auðveldar áhöfninni að þrífa þilfarið.

Einar Jóhannes benti á að lúgan væri ekki vatnsþétt og sagði að sjór gæti flætt inn í skipið ef eitthvað kæmi fyrir það og það legðist. „Þetta er ekki skemmtilegt að sjá,“ sagði hann eftir að hafa skoðað lúguna.

Kveikur skoðar lúguna á bílaþilfarinu með Einari Jóhannesi Einarssyni, fyrrverandi skipaeftirlitsmanni hjá Samgöngustofu.

Samkvæmt lögum má ekki gera meiri háttar breytingar á skipi án leyfis. Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, segir í viðtali við Kveik að lúgan hafi verið gerð í leyfisleysi.

Hann segir að málið sé alvarlegt. „Þetta á ekki að gera. Það er alveg klárt,“ segir hann.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, sem semur við Sæferðir um vetrarferðir Baldurs, segir að henni finnist þetta afleitt.

Eftir siglingu Kveiks og Einars Jóhannesar lét útgerðin fjarlægja lúguna og sjóða upp í gatið. Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, segir þó að skipið hafi verið öruggt allan tímann. „Ekki í nokkrum vafa, skipið er algjörlega, algjörlega öruggt. Hefur alltaf verið það,“ segir hann.

Einar Jóhannes við skoðun á skipinu.

Lúgan er á meðal ýmissa athugasemda sem Einar Jóhannes gerði við öryggismál í ferjunni. Hann taldi eftir skoðunina að rétt væri að Samgöngustofa kyrrsetti skipið.

Fjallað verður um öryggi Baldurs í Kveik í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.