Sjö ár Sýrlendinga á Akureyri

Í sjö ár hefur Kveikur fylgst með tveimur sýrlenskum fjölskyldum sem boðið var til Íslands skömmu fyrir jólin 2015, sem kvótaflóttamönnum. Á þessum tíma hefur mikið gerst í lífi fjölskyldnanna, þau upplifað sigra og vonbrigði.

Það er furðukalt í Beirút, höfuðborg Líbanons, í desember 2015. Þótt landið liggi að Miðjarðarhafinu er hitastigið lágt og rakinn talsverður. Hér er vetur. Í gráu fundarherbergi á hóteli  er hópur fólks samankominn, allt flóttamenn frá Sýrlandi. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan þeim barst tilboð um að flytja til Íslands sem kvótaflóttamenn. Furðu lostin sitja þau og velta öll fyrir sér því sama: Hvar er eiginlega Ísland? Og hvernig verður lífið þar?

Lágt til lofts og þröngt á köflum, en flóttamennirnir sem boðið var til Íslands veturinn 2015 lærðu af áhuga um Ísland.

Hjónin Khattab Almohammed og Halima Darwich Alhamo hafa ákveðið að þekkjast boðið. Halima segist þakka guði fyrir, því nú geti hún loksins boðið börnunum sínum líf í friði, fjarri vígaslóð. Þau hjónin eiga sex börn, frá smábarni upp í stálpaða táninga, og þau vonast til þess að börnin geti öðlast menntun og átt bjartari framtíð í friðsælu  landi langt í burtu.

Halima var Íslandi þakklát fyrir boðið um hæli og vildi koma því á framfæri.

Miriam Khider er leiðbeinandi á námskeiði fyrir flóttamennina. Tilboðið um flutninginn til Íslands barst með skömmum fyrirvara og því ekki svigrúm til að senda einhvern frá Íslandi til að fræða hópinn. Miriam, sem býr í Noregi, er vön svona námskeiðahaldi en þekkir að eigin sögn lítið til Íslands. Það kemur samt í hennar hlut að fara yfir skrítið veðurfar, framandi siði og samfélag, fyrir fólk sem hafði fæst heyrt talað um Ísland fyrr.

Miriam segir spurningarnar margs konar, meðal annars hvenær þau geti snúið aftur heim til Sýrlands. Hún hefur litlar áhyggjur af þeim sem kunna í það minnsta eitthvað í ensku, segir þann hluta hópsins eiga að geta spjarað sig. En það verði erfiðara fyrir hin að fóta sig í nýju samfélagi, fara til að mynda til læknis. En hópurinn í gráa fundarherberginu er fullur bjartsýni og spenntur fyrir ferðalaginu, rétt fyrir jólin 2015.

Við gátum ekki meira

Líbanon er einn tíundi af Íslandi að flatarmáli en þar búa samt milljónir flóttamanna, margir við bágar aðstæður. Heimili hjónanna Fayrouz og Ibrahims og barnanna þeirra tveggja telst gott – sundurskotin íbúðablokk í suðurhluta Beirút. Eftir áratugalangt borgarastríð, með hléum, er ástandið í borginni víða bágt.

Líbanon er lítið land en þar hafast við milljónir flóttamanna víða að.

Í Sýrlandi lifði fjölskyldan góðu lífi, hún sálfræðimenntuð og hann tölvuverkfræðingur, börnin í góðum skólum, heilbrigðiskerfið nokkuð öflugt, og þau ánægð með samfélagið. Assad-fjölskyldan réð lögum og lofum og barði af hörku niður alla andstöðu. En í kjölfar vorsins í arabaheiminum, 2011, tók að hitna í kolunum, skærur urðu að stríði með afskiptum stórvelda og í tólf ár hefur verið barist . Landið er nánast í rúst.

Fayruz, Farouq, Jana og Ibrahim vissu lítið um Ísland en krakkarnir voru spenntir að komast í snjóinn.

Hjónin segjast hafa orðið að flýja þegar vopnaðar sveitir börðust í nánd við heimili þeirra í borginni Homs. Þau hafi ekki getað meira. Börnin hafi verið skelfingu lostin, einkum dóttirin Jana, sem hafi kastað upp af skelfingu og grátið. Skólarnir voru lokaðir og lífið óboðlegt. Það sem skipti þau máli sé framtíð barnanna. Ugglaust verði á brattann að sækja í upphafi, segir Ibrahim, en þau verði að takast á við verkefnið og þá verði allt í lagi.

Börnin, Jana og Farouq, eru spennt. „Ég hlakka til að kasta snjóbolta í hausinn á honum!“ segir Jana um bróður sinn.

Yfir hundrað milljónir á flótta

103 milljónir manna eru á flótta um víða veröld, undan stríði og ofsóknum, hungri, afleiðingum hlýnunar jarðar. Samkvæmt tölum Útlendingastofnunar hafa rétt um þrjú þúsund hlotið hæli hér á landi í ár. Umræðan um getu og skyldur Íslands hefur verið hávær, en minna er rætt um hvað gerist þegar fólk hefur hlotið hæli hér, eða er jafnvel boðið til landsins sem svokölluðum kvótaflóttamönnum. Þegar teymi frá RÚV fékk tækifæri til að hitta hópinn sem boðið hafði verið til Íslands 2015 var ákveðið að halda til Beirút, en fylgja hluta hópsins lengur eftir, um eitthvert árabil, til að sjá hvernig framvindan yrði.

Ef einhver vafi lék á því í huga flóttafólksins að Ísland væri framandlegt, vék sá vafi fyrir köldum janúarmorgni í Keflavík, 2016. Það var þreytulegur hópur sem kom hingað með aleiguna eftir sólarhringsferðalag. Þar beið opinber móttökunefnd með forsætisráðherra í broddi fylkingar. Og svo hélt ferðalagið áfram. Leið fjölskyldnanna tveggja sem Kveikur fylgdist með lá út á Reykjavíkurflugvöll og þaðan til Akureyrar þar sem stuðningsfjölskyldur tóku hlýlega á móti þeim og fylgdu í fullbúnar íbúðir sem biðu þeirra.

Jana veifar íslenska fánanum á Reykjavíkurflugvelli á leið til Akureyrar eftir langt ferðalag frá Beirút. 

„Þetta er betra en mig dreymdi“

Hálfum mánuði síðar setjumst við niður með Fayrouz og Ibrahim, Jönu og Farouq á sófa í íbúð á Akureyri, ekki nema sex vikum eftir að hafa spjallað við þau á sófa í sundurskotinni íbúðablokk í Beirút.

Ibrahim segist hafa verið með mynd í huga sér af því sem búast mætti við á Akureyri en að hann hefði aldrei dreymt um að það yrði jafngott og raun bæri vitni. „Hér er allt vel undirbúið. Meira að segja minnstu smáatriði, eins og áttin að al Kaaba. Við létum okkur ekki detta í hug að hugsað yrði út í slík smáatriði“, segir hann, glaður á svip en þreyttur.

Lífið er sannarlega annað en í Líbanon eða Sýrlandi. Til dæmis eru hér stuðningsfjölskyldur sem eru flóttafólkinu til aðstoðar og leiðbeiningar. Og snjór, meiri en þau hafa nokkru sinni séð, segir Fayrouz. Sonurinn Farouq vill reyndar ekki kannast við að hafa aldrei séð snjó, því snjóað hafi í Sýrlandi. „Já, en ekki svona mikið, er það?“ spyr Fayrouz. Nei, hann verður að viðurkenna það. Ekki svona mikið.

Ibrahim sest við tölvuna þar sem hann er þegar búinn að finna kennsluvef fyrir íslensku. Krakkarnir eru hins vegar á leiðinni út í snjóinn – þessir snjóboltar kasta sér jú ekki sjálfir.

Jana og Farouq í snjónum, eftir langa bið.

Tíminn líður hratt

Fyrsta eina og hálfa árið líður hratt. Margt breytist. Í fjölskyldu Fayrouz og Ibrahims hefur til dæmis fjölgað um einn, soninn Abdulrahman. Hinir krakkarnir, Jana og Farouq, spjalla við okkur á sallafínni íslensku. Foreldrarnir hlusta af athygli en spyrja stundum hvað krakkarnir hafi eiginlega verið að segja.

Farouq á nýja vini, bestu vinirnir heita Bjartur og Gunnar. Hann segist leika sér mikið í fótbolta og það skal vera alveg á hreinu að hann er Þórsari.

Áhyggjur af lífi og limum eru horfnar. Stuðningsfjölskyldurnar á Akureyri eru líka horfnar nú þegar hversdagurinn er tekinn við. Honum fylgja allt öðru vísi erfiðleikar. Og honum fylgir líka einmanaleiki. Fayrouz segir þau hafa hlotið mikinn stuðning í fyrstu, því þau séu sýrlenskir flóttamenn og allir hafi talið þau vera að koma beint úr stríðinu. En svo hafi tíminn liðið, opinberu hlutverki stuðningsfjölskyldnanna hafi lokið og allir haldið áfram með daglegt líf og störf. En þau fjölskyldan séu svolítið ein, vinafá þótt stuðningsfjölskyldurnar séu enn einhvers staðar skammt undan. Þau sakna þess að eiga félagslíf og vini til að deila góðum stundum með. Þau sakna fjölskyldunnar. Þegar þau ætla sér að gera eitthvað eru það því bara þau hjónin og börnin.

Sumarið 2017 fannst Fayrouz hún vera einmanna og vinafá.

Þetta, eins og fleira sem sýrlenski hópurinn glímir við, er vel þekkt meðal flóttamanna. Einhverjum kann að þykja þetta vanþakklæti og ómerkilegt áhyggjuefni, en flest myndum við sjálfsagt vera áttavillt og í leit að tengingu í framandi samfélagi við svona aðstæður. Ibrahim og Fayrouz sóttu íslenskunámskeið, ásamt fleiri flóttamönnum en gáfust eiginlega upp. Þótti kennslan skrítin og tungumálið auðvitað mjög snúið.

Jana og Farouk eru hins vegar almælandi á íslensku. Ótti foreldranna er frekar að þau tapi arabískunni og að ræturnar tapist um leið, tengslin við sögu og menningararf.

Kannski eru fáar þjóðir jafnviðkvæmar fyrir þessu og einmitt Íslendingar. Hvað erum við ef tungumálið hverfur og sagan með því? Hvað gerir okkur að Íslendingum? Þetta er það sem hvílir ekki bara á Fayrouz og Ibrahim, heldur er þekkt meðal flóttafólks víða um heim. Gjaldið fyrir öryggi á nýjum stað er stundum að tapa rótunum.

Að ná tökum á tungumáli og samfélagi

Nokkrar fjölskyldur úr hópnum frá Sýrlandi fluttust til Akureyrar. Hin fjölskyldan sem við fylgjumst með, hjónin Khattab og Halima ásamt börnum, er líka að ná áttum. Halima er farin að vinna á leikskóla, hálfan dag í eldhúsinu. Og ná einhverjum tökum á íslenskunni. Á heimilinu er fjölmenni. Þau Halima og Khattab eiga sex börn og móðir Khattabs býr með þeim.

Halima vinnur hálfan dag í eldhúsinu á leikskóla og lærir íslensku.

Synirnir Ómar og Said eru táningar, að ljúka grunnskóla og í framhaldsskóla. Þeir segjast ekki alveg orðnir Akureyringar. „Við prófum stundum að vera eins og Íslendingar en það er smá erfitt,“ segir Ómar.

Ómar segist vel geta hugsað sér að fara aftur til Sýrlands þegar friður komist á. Said, sem er eldri, er ekki jafnviss. Kannski fari hann til Sýrlands í heimsókn en komi svo aftur, norður yfir heiðar.

Bræðurnir Said og Omar segja ekki vandalaust að aðlagast samfélaginu.

Það er skiljanlegt að hjartað togi í tvær áttir. Sýrland er heima, í einhverjum skilningi. En eftir því sem árin líða verður Ísland og Akureyri það líka. Fyrir okkur sem erum fædd og uppalin á Íslandi er kannski skrítið til þess að hugsa að líf og þjóðmenning geti verið framandi. En auðvitað er margt á Íslandi öðru vísi en í öðrum menningarheimi. Eins og samskipti kynjanna.

Khattab, fjölskyldufaðirinn, segist telja sig frjálslyndan og með opinn huga. Fjölskyldan hafi sest niður og rætt málin áður en haldið var til Íslands. Þau foreldrarnir hafi sagt við krakkana að lífið tæki ugglaust breytingum á nýjum stað. Þau myndu ekki gera neinar athugasemdir við kærustur og kærasta, en báðu samt um að þau hefðu hefðir og venjur í huga eins og hægt væri. Það þýddi að hefðu strákur og stelpa áhuga á að byrja saman væri það í lagi svo fremi sem þau færu ekki í felur með það.

Khattab Mohammed og fjölskylda setjast að kvöldvarðarborði á Akureyri 2017.

En auðvitað eru fleiri birtingarmyndir á menningarmuninum og því sem þarf að venjast. Fæstum Íslendingum finnst mjög spennandi að vera einir um jólin. Fyrir múslíma er Eid al-Adha hátíðin sambærileg, þegar ferð pílagríma til Mekka lýkur og mikil hátíð tekur við. Khattab rekur að múslímar fagni venjulega í fjóra daga, en það sé einfaldlega ekki hægt á Akureyri. Þau sakni þessara hefða, en annars sé lífið ósköp venjulegt, rétt eins og það þekkist um allan heim.

Khattab er mikið í mun að verða hluti samfélagsins, leggja sitt af mörkum og vinna fyrir tekjum. Í Sýrlandi var hann enskukennari en vildi reyna fyrir sér með eigin rekstur á Íslandi. Sumarið 2017 fékk hann leyfi fyrir götumatarstað í Hafnarstræti, Aleppo Kebab. Þrátt fyrir fjölmiðlaathygli í byrjun gekk reksturinn ekki sem skyldi, leyfismál flæktust fyrir og að lokum varð Khattab að gefast upp. Viljinn er ekki það eina sem þarf og við tók erfitt tímabil, deilur við yfirvöld vegna staðarins og skólagöngu krakkanna. Khattab fór mikinn á samfélagsmiðlum og í gegn skein reiði manns sem fannst allt hafa brugðist, að draumarnir um líf á nýjum stað hefðu ekki ræst.

Khattab við vinnu á Aleppo Kebab á Akureyri 2017.

Upp og niður

Fimm ár eru bæði langur tími og stuttur. Börnin sem komu til landsins 2016 eru orðin stálpaðir unglingar. Fullorðna fólkið er búið að ná áttum, að mestu. En þegar við tökum aftur hús á fjölskyldunum tveimur, sumarið 2022, eru Khattab og fjölskylda enn ósátt, telja kerfið hafa brugðist sér og að „óhæfir embættismenn“ séu jafnvel rasistar. Þau Halima eru flutt til Reykjavíkur ásamt yngri börnunum þremur. Þrjú eldri börnin eru enn fyrir norðan. Þau vilja ekki koma í viðtal, nema einn sonurinn, Ómar. Hann var 13 ára við komuna til Íslands og er því orðinn tvítugur núna. Hann lýsir sannkallaðri rússíbanareið, upp og niður. Það hafi hreint ekki verið auðvelt að skilja nýtt samfélag og tungumál, ná tökum á nýju lífi.

Sjö árum eftir komuna til landsins er Ómar ekki táningspiltur heldur ungur maður. 

Hann nefnir íslenskukennsluna sérstaklega, þar hafi ekki tekist nógu vel til. Þau systkinin hefðu þurft meiri aðstoð og kennslu í upphafi en þegar þau höfðu verið tvo mánuði á Íslandi hafi verið ákveðið að setja þau í venjulega bekki, því þannig yrðu þau fljótari að ná tökum á málinu. Það hafi verið reginmistök, þau hafi ekkert skilið.

Án tungumálaskilningsins gekk systkinunum ekki nógu vel í skóla, vonir um menntun og betra líf brugðust og einungis eitt eldri barnanna hefur lokið framhaldsskólanámi. Þetta er uppspretta reiði fjölskyldunnar og föðurins, Khattabs, að stórum hluta. Vonir um góða menntun og farsæld hafa ekki gengið eftir, sem er sárt.

„Hann ákvað að flytja með okkur öll hingað svo að við gætum lært og átt bjartari framtíð. Og þegar hann sá hvernig við eyddum mörgum árum í skóla án árangurs, hvernig við biðum skipbrot, þá varð hann leiður. Og ég held að allir foreldrar geti skilið það“, segir Ómar.

Þröskuldarnir

Annars staðar í bænum hefur hin sýrlenska fjölskyldan, þau Ibrahim og Fayrouz, Jana, Farouq og Adbulrahman, komið sér fyrir, í íbúð í fjórbýli. Farouq, sem nú er orðinn þrettán ára, rifjar upp fyrstu mánuðina á Íslandi og hvernig honum leið eins og hann væri öðru vísi en allir aðrir. „Bara að allir væru eins nema ég. Frá sama landi og ég er bara eini sem er frá... já. Það kunnu allir að tala íslensku vel. En ekki ég,“ segir hann við eldhúsborðið heima.

Tungumálið er sannarlega það sem flækst hefur fyrir mörgum. Fjölskyldufaðirinn Ibrahim stynur og segir okkur frá eftirsjá sinni, að hafa ekki reynt meira eða lagt meira á sig. „Ég held að ég hafi tapað miklu með því að ná ekki tökum á málinu og verða þannig virkari í samfélaginu. Ég held að það hefði líkað fjölgað tækifærum til að fá betri stöðu í vinnunni,“ segir hann og bætir brosandi við að svo sé veðrið nú líka stundum erfitt. Það sé ekkert hressandi að vakna á köldum vetrarmorgnum, skafa bílrúður og renna til í hálku.

Ibrahim nær sér í kaffibolla í vinnunni, þar sem hann segist mjög ánægður.

Ibrahim starfar sem rafvirki og segist mjög ánægður í vinnunni. En hann telur að núna sé hlutverk hans fyrst og fremst að styðja eiginkonu sína og börn, sem virðast um margt blómstra.

„Ég hef ekki hitt foreldra mína í tíu ár“

Við hittum Fayrouz á björtum sumardegi á Amtsbókasafninu á Akureyri. Yfirbragðið er annað en þegar við hittum hana síðast, dálítið þreytta og einmana.

„Það var erfitt fyrst þegar ég kom. Það var erfitt að vera ein, ekki með fjölskyldu. Bara ég og krakkarnir mínir. Það var mjög erfitt. Nýtt land, nýtt líf. En núna held ég að það sé betra. Ég skil betur núna,“ segir hún. „Í byrjun var ég bara heima. Og ég ákvað að ég þyrfti að gera eitthvað fyrir mig. Ég byrjaði í master, ég var að læra, ég var að vinna. Og það var mjög flott. Ég þekki margt fólk núna. Ég er glöð núna, get ég sagt. Betri en áður.“

Fayrouz gerði rannsókn í meistaranámi sínu við Háskólann á Akureyri. Hún spurði flóttakonur úr arabaheiminum, sem allar búa utan höfuðborgarsvæðisins, hvernig þeim hefði gengið að aðlagast menningu og siðum á Íslandi. Í ljós kom að flestar höfðu, einkum í fyrstu, glímt við að skilja samfélagið, allt frá samskiptum kynjanna til menntakerfisins. Þær höfðu áhyggjur af að börnin þeirra misstu tenginguna við menningararfleifð sína. En margar, segir Fayrouz, voru líka farnar að notfæra sér visst frelsi og aðrar forsendur fyrir verkaskiptingu kynjanna. Sumar voru farnar út á vinnumarkaðinn og sögðu heimilisverkin nú skiptast á milli hjóna. Ein niðurstaða Fayrouz var að aukin fræðsla strax í upphafi væri til bóta. Bæði tungumálakennsla og líka eins konar kompás á samfélag sem er í mörgum lykilatriðum ólíkt því sem flóttamenn koma úr.

En hvað með hana sjálfa? Hvernig hefur hún sjálf breyst á þessum árum? Hún brosir og segist vera í námi, sem hún hefði ekki getað gert í Sýrlandi. Brosið breytist aðeins. „Ekki getað! Ég hefði ekki þurft þess. Ég er að vinna. Ég er að læra. Ef ég væri í Sýrlandi, myndi ég vilja hafa meiri tíma með fjölskyldunni. En það er engin fjölskylda hér. Mig langar til að finna eitthvað annað til að gera. Ég ætla ekki alltaf að sitja og gráta og sakna mömmu og pabba. Mig langar að finna eitthvað til að vera ekki alltaf að sitja og hugsa. Ég hef ekki hitt foreldra mína í tíu ár núna.“

Hún fær tár í augun þegar hún hugsar um fjölskylduna, fullorðna foreldra og stóran hóp systkina, sem öll eru enn í Sýrlandi. Þau eiga, skiljanlega, ekki auðvelt með að ferðast og að komast til þeirra er heldur ekki auðvelt, þótt Fayrouz hafi ítrekað reynt það.

Nánast á augabragði eru liðin tíu ár frá því að Fayrouz hitti síðast foreldra sína og systkini. Tilhugsunin kallar fram tár.

Í upphafi voru þau ekki með íslensk vegabréf en eftir að þau fengu ríkisborgararétt var þeim samt meinað að koma til Líbanons því þangað mega flóttamenn ekki snúa aftur. Í annað skipti fór flugfélagið á hausinn. Nú vonast þau til að komast til Jórdaníu á næsta ári að hitta foreldra og systkini.

Fayrouz langar til að krakkarnir hennar geti hitt fjölskylduna sína. Abdulrahman er fæddur á Íslandi og hefur aldrei hitt ömmu og afa, sem hann heitir í höfuðið á.  Hún segir hann spyrja reglulega hvort þau eigi ekki að fljúga að heimsækja afa.

„Pabbi og mamma eru ekki ung. Mamma er alltaf lasin og pabbi líka. Og ég er alltaf að hugsa: Get ég hitt þau aftur eða ekki? Er það eitthvað sem ég get gert? Eða, af því að ég er frá Sýrlandi eða af því að ég er flóttamaður, get ég ekki gert það?“ segir Fayrouz og það fer ekki á milli mála hversu djúpt sársaukinn nær.

Hver er ég núna?

Kjarninn hjá flestum flóttamönnum, hvaðan sem þeir koma, er fjölskyldan. Vonin um betra líf, einkum fyrir börnin, á nýjum stað fjarri stríði og hörmungum, vegur salt við söknuð og trega.

En hvað með börnin? Jana er ekki lengur lítil stelpa sem vill kasta snjóboltum, heldur táningur sem hugsar um lífið og tilveruna.

„Ég er búin að breytast ógeðslega mikið síðan ég kom. Ég er búin að taka eftir því. Mér finnst það bara gaman að búa hérna, skilurðu“ segir hún þar sem við spjöllum á bekk í lystigarðinum á Akureyri. „Þegar ég kom fyrst var ég meira svona eins og gömul menning og þannig, skilurðu. Eins og ég var í Sýrlandi og þannig. En núna, ég sé hluti öðruvísi og hugsa bara svona eins og íslensk manneskja.“

Jana er á leið í menntaskóla.

Er hún þá orðin Íslendingur? Nei, ekki alveg, en samt. „Ég er sýrlensk, náttúrulega. En ég myndi samt segja að ég sé alveg Akureyringur“ segir hún, örugg og yfirveguð.

Heima undirbýr Ibrahim bænastund. Þvær fætur og snýr bænamottunni í átt að Mekka. Hvernig gengur að fá krakkana til að halda í þennan hluta menningarinnar, í tungumálið og tenginguna til Sýrlands? Það, segir Ibrahim, er erfið spurning, en kveðst vona að þau séu enn nær því að vera sýrlensk eða arabar eða múslímar en eitthvað annað. En það komi kannski fyrst í ljós þegar á það reyni, þegar þau verða eldri og taka sjálfstæðar ákvarðanir um stærri mál í lífinu.

Fayrouz segir að krakkarnir séu breyttir, hafi enda búið meirihluta ævinnar á Íslandi. „En ég er alltaf að reyna að kenna þeim um arabíska menningu, um okkur, um Íslam. En núna líður mér sem þau séu á milli. Þau eru ekki Íslendingar en ekki arabísk. Ég get ekki sagt það. Þau eru að taka eitthvað frá Íslandi en líka frá okkur,“ segir hún.

Jana er á því að foreldrarnir reyni að halda krökkunum við þá menningu sem þau ólust sjálf upp við og draga úr þeim áhrifum  sem nýtt samfélag hefur. En hún er skýr: „Annars er ekkert annað sem þau geta gert, skilurðu. Ég er búin að búa hérna í sjö ár. Ég er búin að þroskast hér.“

„Hæ, ég heiti Siggi“

En það hefur ekkert verið auðvelt, ekki síst vegna gagnkvæms skilningsleysis. Ómar, sonur þeirra Khattabs og Halimu, segir bekkjarsystkin sín hafa fengið kynningu áður en hann kom, sem hafi verið röng og líklega reist múra frekar en fjarlægt þá. Það hafi ekki breyst fyrr en einn bekkjarfélaginn kom upp að honum og kynnti sig. „Hæ, ég heiti Siggi“ var stutt kynning en afgerandi í lífi Ómars, því hann segir Sigga vin sinn vera þann sem kenndi honum íslensku og ensku. „Hann kenndi mér eiginlega allt“ segir Ómar um þennan kæra vin.

„Ég breytti nafninu mínu meira að segja fyrir þennan gaur“, segir Ómar brosandi. „Svo núna heiti ég Sigurður Ómar Jónsson“. Siggi trúði vini sínum ekki þegar hann sagði honum frá þessari hugmynd en varð himinglaður þegar hann sá að Ómar hafði látið verða af nafnabreytingunni og flaggar nú ökuskírteini með nafninu.

Vinurinn Siggi var líka sá sem kom ekki fram við nafna sinn sem flóttamann, einhvern sem væri frábrugðinn öllum öðrum. En þrátt fyrir ómetanlega vináttu og hjálp flosnaði Sigurður Ómar upp úr námi. Hann ákvað að taka örlögin í eigin hendur, finna sér vinnu og segist ánægður með lífið núna.

Minningarnar fara ekki, heldur skjóta óvænt upp kolli

Skuggi fortíðarinnar hverfur þó ekki svo glatt. Íslandsförin skapaði fjarlægð við þær hörmungar sem leiddu til flóttans en eyðir hvorki minningunum né áhrifum þeirra. Þótt liðin séu sjö ár frá því að Sigurður Ómar flutti ásamt fjölskyldunni til Íslands og þar á undan hafi þau hafst við í nokkur ár í Beirút eftir að hafa flúið Sýrland, segir hann minningar skyndilega hafa tekið að skjóta upp kollinum fyrir um tveimur árum.

„Ég hætti í skóla og var mikið heima, hitti fáa. Og kannski var ég of mikið einn og iðjulaus, sá kannski fréttabrot í símanum eða eitthvað. Og þá tóku minningarbrotin að birtast“. Hann vill ekki mikið ræða það sem gerðist í Sýrlandi en lýsir því hvernig drunur orrustuþotna hafi skelft hann þegar var yngri og þau bjuggu nálægt herflugvelli í Líbanon. Herþotur við æfingar á Akureyri vegna loftrýmisgæslu hafi komið illa við hann síðasta sumar, því rétt eins og í Líbanon hafi það rifjað upp þegar herþotur flugu yfir, skutu og vörpuðu sprengjum.

Sigurður Ómar segir minningar um skelfilega atburði í stríðinu í Sýrlandi enn skjóta upp kollinum.

„Eða ef sjúkrabíll brunar hjá, einkum ef ég á ekki góðan dag, þá man ég eftir líkunum og fólkinu sem var að deyja í kringum okkur og við gátum ekkert gert. Ég held að það hafi verið of erfitt fyrir mig að vinna úr þessu sem gerðist þegar ég var lítill krakki og ég hugsaði aldrei út í að þessar minningar gætu skotið upp kollinum þegar ég yrði eldri. Svo þetta er mjög erfitt. Mér finnst ég enn vera að glíma við þetta“, segir hann alvarlegur á svipinn og heldur áfram: „Þetta er alltaf í huga mér, sama hvað ég er að gera, og nær svo stundum yfirhöndinni, óvænt. Stundum þarf ekki annað en einhverja lykt. Þetta er stundum mjög erfitt. Stundum er ég sorgmæddur og svoleiðis en í önnur skipti er ég fastur inni í herberginu mínu og græt. Ég get ekkert gert við því.“

Kannski þyrfti hjálp

Að horfa upp á hörmungar, flýja stríð og yfirgefa heimili og ástvini veldur sálrænum áverkum. Fayrouz segist aðspurð hafa verið mjög glöð þegar hún kom til Íslands. En síðan hafi hún tekið dýfu.

„Og það er eðlilegt, held ég. Að fara niður. Og að þurfa hjálp. En ég fann ekki þessa hjálp. Ég er heppin því vinkona mín er sálfræðingur. Og ég get farið til hennar og talað. Bara talað. Stundum viljum við bara tala. Þegar við komum hingað gleymdum við kannski eða þóttumst hafa gleymt því sem var í Sýrlandi. En eftir að komast í rútínu og lífið á réttan kjöl, byrjar maður að hugsa aftur. Af hverju er ég hér? Af hverju er fjölskyldan mín ekki hér? Af hverju er ég ekki heima hjá mér? Þú byrjar að hugsa og kannski er það eitthvað sem þarf að vinna með hjá flóttamönnum, eftir kannski eitt, tvö ár. Að fylgja þeim eftir. Á hvaða stað eru þau núna? Þarf hjálp? Ég er að tala um sálfræðingahjálp. Er eitthvað sem við þurfum að hjálpa þeim við? Ég gat farið upp, ég var heppin að hafa vinkonu mína. En margir gátu það ekki og mörg eru enn þá niðri.“

Hún segist þekkja fólk sem sé fast, vilji ekki læra tungumálið og sitji bara heima. Finni ekki leið út úr ógöngum. Í byrjun hafi verið boðið upp á mikla hjálp, jafnvel of mikla, en svo hafi því verkefni lokið og ekkert tekið við. Kannski væri ráð að dreifa aðstoðinni meira, veita meiri langtímaleiðsögn og stuðning í einhverjum mæli.

Minningarnar um það sem á gekk, og frá heimahögunum, og það hvernig gengur að spjara sig í nýju samfélagi hangir saman. Jana var átta ára þegar hún kom og hljómar eins og hver annar íslenskur unglingur. En hún segist enn eiga minningar frá Sýrlandi. „Ég man þegar við fórum einhvern tímann í sumarbústað hjá sjónum, bara öll fjölskyldan, stóra fjölskyldan, þá. Ég man eftir því. Mér fannst það geðveikt gaman. Og ég man svo þegar ég heyrði byssuskot í fyrsta skipti. Þá var ég með ömmu. Og við fórum inn á bað og þannig. Ég man það líka, skilurðu. Stuttu eftir það, þá fluttum við til Líbanons.“

En Jana er á því að þetta hafi styrkt hana. „Að þurfa að upplifa, öll breytingin, missa alla fjölskylduna.  Þurfa svo að flytja og læra tungumál og passa inn í menningu sem ég hef aldrei séð áður. Það svona þroskaði hugann á mér ógeðslega mikið.“

Farouq og Jana tala við ættingja í tölvunni heima.

Hún segir að í fyrstu hafi allir í bekknum hennar spurt spurninga og talið að hún væri að koma úr tjaldbúðum við illan leik. Hún hafi þurft að útskýra margt. Henni líði stundum enn þá eins og hún sé flóttamaður, þótt dregið hafi úr þeirri tilfinningu. „Mér leið vel að vera að kynnast nýju fólki og nýrri menningu og glænýtt líf, skilurðu. En á sama tíma þá leið mér pínu illa út af því að ég passaði ekki alveg eins og maður vill alltaf passa inn. En svo með tímanum hætti ég bara hægt og rólega að vera flóttamaður í hausnum á mér. Núna líður mér bara eins og allir aðrir. Ég er bara heima hjá mér. Ef við mundum fara aftur til Sýrlands eða Líbanons þá mundi mér líða eins og ég væri ekki heima hjá mér.“

Hver er framtíðin?

Vilja þau búa áfram á Íslandi, festa hér rætur – sem þýðir að ræturnar sem liggja enn til heimalandsins trosna – eða fara aftur heim þegar það verður hægt? Eða annað? Hverjir eru framtíðardraumarnir?

Fayrouz segist ekki vita það. Hana langar að gera eitthvað í háskóla eða vinna með flóttamönnum. Hún tali arabísku og sé með háskólamenntun. Hún er lærður sálfræðingur og ætla mætti að þörf væri á arabískumælandi sálfræðingi.

Farouq er á því að pabbi hans myndi helst vilja fara aftur til Sýrlands, ef þar væri friður, því honum finnist Sýrland vera heima. Móðir hans togist meira í tvær áttir.

Fayrouz sækir Adbulrahman á leikskólann.

Jana er með mjög ákveðnar hugmyndir. Að loknum tíunda bekk er stefnan tekin á náttúrufræðibraut í MA og þaðan í háskólanám á Íslandi. Og hún vill verða geðlæknir. „Það var alveg tímabil hér þar sem mér leið ógeðslega illa. Að vera öðruvísi og passa aldrei inn. Og það var sérstaklega eftir að ég flutti fyrst í nýtt hús, og kom í Giljaskóla, þá var ég pínu skilin út undan, alla vega í byrjun. Og ég þurfti að fara til sálfræðings og eitthvað. Og mig langar að verða geðlæknir til að geta hjálpað fólki sem líður svona. Út af því að ég skil tilfinninguna sjálf. Og ég þurfti að upplifa svolítið mikið af breytingum og svona. Stóra hluti í lífinu. Mér líður eins og ég mundi skilja fólk.“

Maður stendur alltaf aftur upp

Hvar er heima og hvað þýðir það?  Við sem höfum alið aldur okkar á eyju með náttúruleg landamæri og tungumál sem fáir skilja,  spyrjum okkur sjálfsagt fæst þessarar spurningar. En fyrir flóttamenn er þetta ekki jafn einfalt. Siggi Ómar velti lengi fyrir sér að flytja annað, nær ættmennum sem eru reyndar dreifð um allan heim. En svo fékk hann ríkisborgararétt, sá eini í fjölskyldunni hingað til, og það breytti sjónarhorninu. Nú veit hann hvað er heima.

„Akureyri er heima“, segir hann brosandi og viðurkennir að sú tilfinning hafi komið sér í opna skjöldu. Nú fari hann í heimsókn til Reykjavíkur og geti ekki beðið eftir því  að komast heim til Akureyrar. Jana er sömu skoðunar. Að loknu háskólanámi í höfuðborginni liggi leiðin aftur norður. „Mig langar að búa hér. Hér lærði ég að venjast lífinu og hér upplifði ég besta hlutann af lífinu mínu og nokkra slæma hluti.“

Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt ferðalag fyrir Sýrlendingana sem boðið var skjól á Íslandi rétt fyrir jólin 2015, ekki heldur eftir að þau komu til Íslands. En hvaða lærdóm draga þau og hvað mætti gera betur?

Siggi Ómar segir ekki alla hugsa eins og vilja það sama. Íslendingar hafi verið mjög vinalegir, jafnvel aðeins of vinalegir. Í það minnsta hafi honum þótt óþægilegt að komið væri öðru vísi fram við hann en aðra. „Leyfið fólki að líða eins og það sé komið heim, ekki eins og það sé flóttafólk. Leyfið þeim að vera hluti af Íslandi. Ekki bara að koma úr stríði eða einhverju. Ekki koma öðru vísi fram við þau. það finnst það ekki öllum gott.“

Maður stendur alltaf upp aftur, segir Jana.

Jana er skýr um hver lærdómur hennar sjálfrar er. „Stórar breytingar í lífinu þýða ekki að allt stoppar. Maður heldur alltaf áfram. Maður eignast nýja vini og fær vinnu og allt það. Þetta er ekki bara, af því að þú varst í landi með stríði og þannig, og bara allt í einu þurftir að flytja í burtu þýðir ekki að þú bara getur ekki gert neitt í lífinu og þú þarft að gefast upp. Maður stendur alltaf aftur upp og heldur bara áfram.“