Rukkaði tvöfalt meira en næsti læknir

Einn sjálfstætt starfandi hjartalæknir rukkaði Sjúkratryggingar Íslands um 125% hærri greiðslur árið 2016 en sá hjartalæknir sem fékk næsthæstar greiðslur það ár. Sjúkratryggingar gerðu athugasemdir við reikningagerð læknisins, en ekki hefur fengist uppgefið hvort hann var krafinn um endurgreiðslu.

Rukkaði tvöfalt meira en næsti læknir

Þetta er meðal þess sem má lesa úr gögnum sem Kveikur hefur fengið afhent frá Sjúkratryggingum Íslands. Þar er um að ræða greiðslur SÍ til allra sjálfstætt starfandi hjartalækna, bæklunarlækna og háls-, nef- og eyrnalækna árin 2016-2019.

Í þeim gögnum birtist áhugaverð mynd. Mikill munur er milli lækna og á milli sérgreina.

Sá sem er einfaldlega kallaður Hjartalæknir 1 í gögnunum sker sig greinilega úr. Árið 2016 rukkaði hann nærri 102 milljónir króna fyrir tæplega 5.500 komur sjúklinga. Þetta er samanlagður hluti sjúklinga og Sjúkratrygginga.

Það var 125% hærri upphæð en Hjartalæknir 2 fékk, sem var næsthæstur. Komur sjúklinga til hans voru líka nærri helmingi færri, rúmlega 2.800 og fékk sá greiddar tæpar 45 milljónir króna fyrir.

Hjartalæknir 1 gerði samkvæmt gögnunum tæpan fjórðung allra óm- og dopplerskoðana sem gerðar voru þetta ár og nærri þriðjung allra áreynsluhjartaritana.

Sjúkratryggingar Íslands hafa staðfest við Kveik að „gerðar voru athugasemdir við reikningagerð/innheimtu hjartalæknis 1 vegna starfsársins 2016.“

Af tölum næstu ára má ráða að honum hafi ef til vill verið tjáð að það væri ekki eðlilegt að hann gæti hitt tvöfalt fleiri sjúklinga og gert margfalt fleiri skoðanir en allir aðrir.

Hann virðist að minnsta kosti hafa farið að taka lífinu léttar strax árið eftir, því 2017 komu nærri 2000 færri sjúklingar til hans og ársgreiðslurnar hröpuðu um þriðjung, fóru niður í 69 milljónir króna.

Upphæðin var að vísu enn 36% hærri en hjá næsta manni, en þetta var töluverð breyting, innsendir reikningar 33 milljónum króna lægri. Samtals hefur hann fengið greiddar 307 milljónir króna á þessum fjórum árum, 2016-2019, 77 milljónir á ári að meðaltali.

Ef miðað er við samtölu þessara fjögurra ára, þá er hún frá 30 milljónum og upp í fyrrnefndar 307 hjá þeim 25 hjartalæknum sem skilað hafa inn reikningum til Sjúkratrygginga öll fjögur árin, 2016-2019.

Það skýrist af því að fæstir sérgreinalæknar starfa aðeins á stofu. Helmingur þeirra vinnur líka á Landspítala og margir eru í öðrum verkefnum, að sögn Þórarins Guðnasonar, formanns Læknafélags Reykjavíkur, sem er fagfélag sjálfstætt starfandi sérgreinalækna.

Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu því að gefa upp nöfn þeirra lækna sem að baki tölunum eru, vegna persónuverndarsjónarmiða. Ekki þó gagnvart læknunum, heldur sjúklingum þeirra. Talinn var möguleiki á að hægt væri að tengja sjúkling og lækni og það bryti í bága við persónuverndarlög.

Þar sem þetta eru greiðslur úr opinberum sjóðum, sem almenningur á þar með rétt á að kynna sér, hefur ákvörðuninni verið skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Vegna þess að ekki fást neinar frekari upplýsingar um læknana að baki tölunum er því útilokað að athuga hvaða skýringar liggja að baki. Er Hjartalæknir 1 með fjöldann allan af starfsmönnum? Eða vinnur hann allan sólarhringinn?

Hér er þó mikilvægt að hafa í huga hversu takmarkaðar upplýsingar þessi gögn gefa. Þetta eru verktakagreiðslur, ekki laun. Vegna þess að nöfnin fást ekki uppgefin, er ekki heldur hægt að vita hvaða læknar eru í fullu starfi á stofu og hverjir eru í hlutastarfi. Það er heldur ekki hægt að sjá hvaða laun hver læknir greiðir sér og hversu mikill arður er tekinn út úr rekstrinum.

Einnig er rétt að benda á að tölur fyrir árið 2019 sýna aðeins þær greiðslur sem SÍ er kunnugt um. Samningur við sjálfstætt starfandi sérgreinalækna rann út í árslok 2018. Enn er greitt samkvæmt gjaldskránni, til að raska högum sjúklinga sem minnst, en verðlagning er frjáls. Það þýðir að sjúklingar fá aukareikning í hverri læknisheimsókn sem þeir greiða úr eigin vasa.

Misjafnt er milli lækna hversu hátt aukagjaldið er, en formaður LR segir lækna hafa þurft að leggja þau á til að geta haft stöðvarnar sínar opnar áfram. „Það er bara til að við getum rekið þetta áfram án þess að vera í tapi,“ segir Þórarinn Guðnason.

Fjallað verður um sjálfstætt starfandi sérgreinalækna í Kveik í kvöld kl. 20:05 á RÚV.