Reynir ofskynjunarsveppi gegn geðhvörfum

Örskammtameðferð með ofskynjunarsveppum virðist hafa náð nokkurri útbreiðslu á Íslandi hjá fólki sem glímir við geðsjúkdóma á borð við þunglyndi og geðhvörf. Virka efnið í ofskynjunarsveppum, psilocybin, er skilgreint sem ávana- og fíkniefni og er því ólöglegt.

Reynir ofskynjunarsveppi gegn geðhvörfum

Guðrún Helga Árnadóttir er með geðhvörf. Veikindin hafa ágerst undanfarin ár og henni gengur illa að ná jafnvægi með geðlyfjum. „Lyfin hjálpa mér upp úr erfiðasta tímabilinu en svo einhvern veginn er eins og þau geri ekki beint meira,“ segir hún.

Örskammtar eða míkróskammtar af ofskynjunarsveppum valda ekki ofskynjunum. Flestir sem reyna örskammtameðferð neyta tveggja milligramma á þriggja daga fresti í mánuð. Hver skammtur er innan við einn tíundi af skammtinum sem er tekinn þegar ætlunin er að komast í ofskynjunarástand.

Ofskynjunarefni, önnur en psilocybin, eru til dæmis MDMA, sem er virka efnið í e-töflum, og LSD. Öll eru þessi efni ólögleg og því er óheimilt að nota þau í læknismeðferð.

Notkun þeirra hefur samt aukist svo mikið að stofnaðar hafa verið sérstakar háskóladeildir utan um rannsóknir á ofskynjunarefnum. Vísindamenn við Imperial College-háskólann í Lundúnum hafa til dæmis rannsakað áhrif bæði lítilla og stórra skammta af LSD og psilocybini til að meta hvort og hvernig efnin geti nýst í meðferð við þunglyndi.

David Nutt, prófessor í tauga-geðlyfjafræði við Imperial College-háskólann í Lundúnum.

David Nutt, prófessor í tauga-geðlyfjafræði við Imperial College, segir að aldrei hefði átt að skilgreina ofskynjunarefni sem ólögleg ávana- og fíkniefni. „Þau valda ekki fíkn, eru ekki skaðleg og hafa meðferðareiginleika fram yfir þau lyf sem nú standa til boða,“ segir Nutt.

Kveikur fylgdi Guðrúnu Helgu eftir í gegnum sveppameðferðina. Hún segir að henni lokinni að hún finni jákvæðar breytingar.

Kannski sé mesta breytingin aukin gleði og húmor: „Eitthvað að springa úr hlátri yfir einhverju, ég bara dauðhrekk við sjálf af því að það er eitthvað sem ég hef ekki upplifað í tvö ár.“

Fjallað verður um rannsóknir á ofskynjunarefnum í meðferð við geðsjúkdómum í Kveik í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.