Ofskynjunarefni gætu nýst sem geðlyf í framtíðinni

Vísbendingar eru um gagnsemi ofskynjunarefna á borð við psilocybin, sem er virka efnið í ofskynjunarsveppum, í meðferð við geðsjúkdómum.

Ofskynjunarefni gætu nýst sem geðlyf í framtíðinni

Ofskynjunarefni
gætu nýst sem
geðlyf í framtíðinni

Ofskynjunarefni
gætu nýst sem
geðlyf í framtíðinni

Ofskynjunarefni
gætu nýst sem
geðlyf í framtíðinni

Ofskynjunarefni mynda óneitanlega hugrenningatengsl við hippatímabilið á sjöunda áratug síðustu aldar og andóf hippakynslóðarinnar gegn ríkjandi stéttum og stjórnmálum.

Minna er talað um að þá þegar bentu rannsóknir til að efnin gætu reynst vel í meðferð við geðsjúkdómum. Upp úr 1950 hóf hópur geðlækna að rannsaka hvort ofskynjunarefni gætu gagnast í meðferð við ýmsum geðsjúkdómum.  Fleiri en þúsund vísindagreinar voru birtar um efnið á sjötta og sjöunda áratugnum. Ýmsar hindranir urðu hins vegar í veginum og enn hafa draumar um byltingu í geðlæknisfræðum ekki ræst.

David Nutt er prófessor í tauga-geðlyfjafræði hjá Imperial College-háskólanum í Lundúnum. Hann er í hópi þeirra vísindamanna sem hafa verið leiðandi í rannsóknum á ofskynjunarefnum í meðferð við geðsjúkdómum undanfarna tvo áratugi.

Auk þess að hafa vakið heimsathygli fyrir rannsóknir sínar varð hann umtalaður í heimalandinu fyrir rúmum áratug þegar hann var rekinn úr stöðu ráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar í fíkniefnamálum eftir að hann birti grein í ritrýndu læknisfræðitímariti þar sem hann færði rök fyrir því að LSD og MDMA, sem er virka efnið í e-töflum, væru hættuminni efni en áfengi.

David Nutt, prófessor í tauga-geðlyfjafræði hjá Imperial College-háskólanum í Lundúnum.

„Ég hóf störf sem geðlæknir árið 1972, fyrir 50 árum,“ segir David Nutt. „Í mínum huga leikur enginn vafi á því að ofskynjunarefni verði stærsta bylting í geðlækningum á þeim tíma sem ég á eftir ólifað,“ segir hann.

„Þau munu umbylta geðlækningum ef þau eru notuð rétt,“ segir Nutt.

Ofskynjunarefni eru efni á borð við LSD, MDMA og psilocybin, sem er virka efnið í ofskynjunarsveppum. Þau eru skilgreind sem ávana- og fíkniefni og því ólögleg.

Notkun þessara efna er samt orðin svo útbreidd að sérstakar deildir hafa verið stofnaðar við virta háskóla, gagngert til þess að rannsaka notkun ofskynjunarefna í lækningaskyni. Nutt hóf til að mynda rannsóknir við Imperial College fyrir áratug til að skilja betur áhrif efnanna á heilastarfsemi.

Psilocybin er virka efnið í ofskynjunarsveppum.

„Við hófum rannsóknir á psilocybini af nokkrum ástæðum. Það hefur verið notað í þúsundir ára og við vitum að það er mjög öruggt,“ segir Nutt.

„Það slekkur á ákveðnum svæðum í heilanum sem stjórna eða valda þunglyndishugsunum.“

Nutt segir að sú uppgötvun hafi vakið rannsakendur til umhugsunar um að ef hægt sé að slökkva á þeim svæðum í heilanum sem valdi þunglyndi með þessu efni sé mögulega hægt að nota það sem lyf gegn þunglyndi eins og haldið hafi verið fram á sjötta áratug síðustu aldar. „Og það varð til þess að við hófum rannsóknir okkar,“ segir Nutt.

„Við höfum ekki séð neinar meiriháttar uppgötvanir í meðferð þunglyndis í nærri 50 ár,“ segir hann. „Lyfin sem við notum í dag eru í raun þróuð út frá lyfjum sem voru uppgötvuð fyrir slysni á sjötta áratugnum.“

Talið er að alls glími 17% Íslendinga við geðræn vandamál af einhverju tagi. Það eru rúmlega 60 þúsund manns. Af þeim stríða tæplega 20 þúsund við kvíða og um 15 þúsund við þunglyndi, samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu.

Geðlyfjanotkun á Íslandi hefur meira en tvöfaldast á síðustu 15 árum. Árið 2005 var 627 skömmtum af geðlyfjum ávísað á hverja 100 þúsund íbúa en árið 2020 voru skammtarnir orðnir 1.317.  Talið er að hefðbundin þunglyndislyf gagnist ekki um þriðjungi þeirra sem þjást af þunglyndi.

Sveinn Albert Sigfússon prófaði ofskynjunarsveppi í baráttu sinni við þunglyndi eftir að sonur hans lést í slysi.

Sveinn Albert Sigfússon varð vitni að því þegar 18 ára sonur hans lést við fall úr rússíbana í skemmtigarði á Spáni fyrir sjö árum. Sorgin og áfallið ollu miklu og erfiðu þunglyndi sem honum hefur ekki tekist að vinna bug á, þrátt fyrir að hafa nýtt sér öll þau úrræði sem hefðbundin læknavísindi og lyf bjóða upp á.

„Það er erfitt að segja þetta en það var bara þannig að mann hlakkaði meira til að fá að fara en að fá að lifa,“ segir Sveinn Albert þegar hann er beðinn um að lýsa líðan sinni.

Það var ekki fyrr en síðasta vor að hann fann lausn. Með aðstoð hugbreytandi efna fór hann í ofskynjunarferðalag. „Á fimm tíma ferðalagi þá fór ég frá því að geta ekki gert neitt, yfir í að geta tekist á við lífið og tilveruna,“ segir Sveinn Albert.

Sá sem leiðbeindi honum í gegnum ofskynjunarmeðferðina var Pétur Kristján Guðmundsson, sem hefur mikla reynslu af því að aðstoða fólk við notkun ofskynjunarefna. Pétur er ekki heilbrigðismenntaður og hefur ekki leyfi til að meðhöndla fólk með aðstoð efna sem eru að auki ólögleg. Að sögn Péturs hefur hann þó ekki enn fengið athugasemdir við starfsemina, þótt hún fari fram fyrir opnum tjöldum.

Pétur Kristján Guðmundsson aðstoðar fólk við notkun ofskynjunarefna.

Mögulega muna margir eftir áhrifamiklu Kastljósviðtali við Pétur fyrir ellefu árum, eftir að hann lamaðist í slysi við fall í snjóbrettaferðalagi.

„Þá fór náttúrulega lífið mitt í rúst, þetta var náttúrulega bara persónulegur heimsendir,“ segir Pétur.

Hann segist hafa farið í gegnum allt kerfið, leitað til sálfræðinga og í raun reynt allar tegundir meðferðar, svo sem dáleiðslu. „Og endaði bara svo einhvern veginn á að finna þetta,“ segir hann.

Pétur og Sveinn hafa báðir fundið lausn á sínum vanda með stórum skammti ofskynjunarsveppa sem kemur fólki í hugbreytandi ástand.

Pétur segist hafa byrjað sjálfur að prófa sig áfram eftir að hafa kynnt sér vísindarannsóknir um árangur efnanna. Auk þess væru efnin náttúruleg og hefðu verið í notkun í mörg þúsund ár. Fyrir hann hafi efnin opnað nýja vídd sem hóf einhverja vegferð og kom honum í skilning um að hann væri miklu meira en bara þessi líkami.

„Það var einhver æðri staður, einhver meiri heimur sem var einhvern veginn með mér í liði, það er mjög erfitt að útskýra það, en maður var einhvern veginn orðinn partur af því og þá einhvern veginn varð slysið og hjólastóllinn og það allt saman einhvern veginn minna vandamál,“ lýsir Pétur.

Fólk sem fer í svona meðferð má ekki vera á neinum geðlyfjum og þarf því stundum ráðleggingar um hvernig sé best að minnka inntöku þeirra smátt og smátt. Pétur getur ráðfært sig við heilbrigðisstarfsfólk hérlendis í þessum tilvikum. Kveikur ræddi við einn af þessum heilbrigðisstarfsmönnum, geðlækni sem sagðist styðja meðferðina en var ekki tilbúinn að koma fram undir nafni þar sem á Íslandi er enn er ólöglegt að stunda rannsóknir á og veita meðferð með psilocybini.

„Auðvitað er þetta svolítið viðkvæmt,“ segir Pétur. „Við pössum okkur mjög mikið ef fólk er á þunglyndislyfjum,“ segir hann. „Ef fólk er með ákveðnar greiningar sem ekki hafa verið rannsakaðar í tenglum við ofskynjunarefni, þá tökum við það ekki í meðferð,“ segir hann. Stundum þurfi hann því að segja nei við fólk sem hefur haft samband við hann og vill fá hann til að aðstoða sig við meðferð, því hann taki ekki áhættuna.

Ofskynjunarmeðferðin tekur um 4-6 klukkustundir í öruggu umhverfi undir handleiðslu Péturs. Fólk liggur út af með svefngrímu og hlustar á slökunartónlist á meðan ofskynjunarástandið varir.

Pétur leiddi Svein Albert í gegnum meðferðina síðasta vor. „Ég fór bara í ferðalag, djúpt ferðalag,“ lýsir Sveinn Albert.

„Ég byrjaði á því að sjá rætur og heyrði fossa, fuglasöng, svo kom tré og hús og fullt af fólki,“ segir hann.

Sveinn Albert Sigfússon segist hafa fundið frelsi í meðferð með ofskynjunarsveppum.

„Maður áttar sig ekki alveg á því hvar maður er staddur en ég hitti strákinn minn og fékk að taka utan um hann og segja honum að ég elskaði hann,“ segir Sveinn Albert.

„Ég hitti pabba og sá systur mína, ég hitti hana reyndar ekki, bara sá hana,“ segir hann.

Sveinn segist margoft í gegnum ofskynjunina hafa verið dreginn í svartnætti — myrkur — þar sem hann hafi slegist við einhvers konar púka. Aftur og aftur.

„Loks horfi ég á þar sem kemur hendi og tekur í bakið á mér og í hrygginn og dregur svona svart upp úr mér, með miklum átökum því ég vildi ekki sleppa,“ lýsir hann.

„Þegar það loksins slitnar þá finn ég svo mikið frelsi. Ég fékk loksins pláss í mínum eigin líkama til að vera ég sjálfur, til þess að fá að anda, já til þess að fá að njóta lífsins. Svo bara vaknaði maður allt í einu, fimm tímum seinna. Nýr maður.“

Í meðferðinni hjá Pétri fer fram úrvinnslusamtal daginn eftir ofskynjunarferðalagið og aftur tveimur vikum síðar. Aðferðafræði Péturs er í takt við upplegg rannsókna Imperial College.

David Nutt segir að ofskynjunarferðalagið sjálft sé aðeins hluti af ferlinu. „Í raun er samtalsmeðferðin sem fer fram í undirbúningi fyrir ofskynjunarferðalagið, og sem úrvinnslusamtal í kjölfar þess, jafn mikilvæg og ferðalagið sjálft,“ segir hann.

„Og við teljum að samtalsmeðferðin sé mikilvægur þáttur í því að hjálpa fólki til að fá sem mest út úr ofskynjunarreynslunni,“ segir hann. En einnig til þess að þróa með sér leiðir til hugsunar sem geti stuðlað að langtímabata. Hann segir að meðferð hjá sálfræðingi eða geðlækni sé venjulega tíu til 20 skipti. „Það má hins vegar sjá grundvallarbreytingar eftir aðeins eina meðferð með ofskynjunarefnum,“ segir Nutt.

Sveinn Albert tekur undir þetta. „Það er ekkert ofsögum sagt þegar fólk talar um að þetta sé eins og gleypa sálfræðinginn sinn í einum bita, þetta ferðalag. Þetta er þannig.“

Guðrún Helga Árnadóttir, sem er með geðhvörf, hefur prófað örskammta af ofskynjunarsveppum.

Annars konar ofskynjunarsveppameðferð hefur rutt sér til rúms að undanförnu. Það er notkun örskammta eða míkróskammta yfir lengra tímabil. Flestir sem taka míkróskammta neyta tveggja milligramma á þriggja daga fresti í mánuð. Svo lítið magn veldur ekki ofskynjunaráhrifum og er minna en einn tíundi af skammtinum sem er tekinn þegar farið er í ofskynjunarferðalag.

Ein þeirra sem reynt hefur slíka meðferð er Guðrún Helga Árnadóttir sem hefur verið greind með geðhvörf. Geðhvörf einkennast af sveiflum milli oflætis eða maníu og þunglyndis.

Veikindi Guðrúnar Helgu hafa ágerst undanfarin ár og henni gengur illa að ná jafnvægi með þeim lyfjum sem hún tekur. Hún telur jafnvel að þau geri illt verra.

Guðrún Helga segir að ofboðslega erfitt sé að fara í gegnum maníuna og síðan þunglyndið á eftir. „Þetta tekur svo mikið á og ég er í rauninni enn ekki komin á þann stað sem ég var áður en ég fór í síðustu maníuna af lyfjunum. Lyfin hjálpa mér upp úr erfiðasta tímabilinu en svo einhvern veginn er eins og þau geri ekki beint meira,“ segir Guðrún.

Þegar hún heyrði fólk lýsa betri líðan eftir að hafa tekið míkróskammta af ofskynjunarsveppum kviknaði hjá henni von. Kveikur hitti hana fyrst þegar hún hóf meðferðina og fylgdist með henni næsta mánuðinn.

Hennar helstu væntingar til míkróskammtameðferðarinnar voru að finna þann hluta af sjálfri sér sem henni fannst hún hafa týnt frá því hún veiktist fyrst.

„Ég hef verið að reyna að gera það á alla hefðbundna vegu. Það hefur ekki gengið mjög vel,“ segir hún.

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, segist skilja vel að það kvikni von hjá fólki þegar fréttir berist um að þessi efni, notuð á réttan hátt undir réttum kringumstæðum, geti hjálpað fólki. „Það er stöðug eftirspurn eftir betri líðan, ekki satt?“ segir hann.

David Nutt, prófessor við Imperial College-háskólann í Lundúnum.

David Nutt bendir á að psilocybin, virka efnið í ofskynjunarsveppum, sé enn skilgreint sem ólöglegt fíkniefni vegna þess að það hafi verið sett í sama flokk og LSD. Hann segir að hvorugt þessara efna hefði nokkurn tíma átt að setja í fyrsta flokk í alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um ávana- og fíkniefni, sem mjög hættulegt og skaðlegt fíkniefni.

„Þessi efni eru ekki fíknivaldandi, þau eru ekki skaðleg, og þau hafa meðferðareiginleika umfram hefðbundin lyf,“ segir Nutt.

Víðir Sigrúnarson, geðlæknir á sjúkrahúsinu Vogi, tekur undir þetta. Hann segir að psilocybin sé ekki ávanabindandi og því sé ekki mikil hætta á að það valdi fíkn. Það þýði þó ekki að notkunin sé hættulaus.

„Við fáum hingað fólk sem er að nota ofskynjunarefni ásamt annarri neyslu, en nánast enginn notar þau í einhverri neysluhegðun,“ segir Víðir.

Hann segir að efnin virðist ekki heldur valda mikilli eitrunarhættu. „En svo vitum við náttúrulega að ef fólk sem er að taka ofskynjunarefni og er í hættulegum aðstæðum, þá getur þá að sjálfsögðu lent í hættu,“ segir hann.

Auk þess sem fólk getur stofnað sjálfu sér og öðrum í hættu í ofskynjunarástandi er einnig hætta á að fólk með undirliggjandi, jafnvel ógreinda geðsjúkdóma, geti við neysluna farið í maníu eða geðrof. Sú áhætta varð til þess að Guðrún Helga ákvað að reyna fyrst míkróskammtameðferð, þar sem ólíklegt er að hún geti valdið maníu. Við hittum hana aftur þegar meðferðin var hálfnuð.

Aðspurð segir Guðrún Helga að henni líði betur og að fjölskylda hennar sjái á henni mun.

„Já, pabbi hefur sérstaklega talað um það að honum finnst að ég sé að verða svolítið ég sjálf aftur, allavega eins og ég var áður en ég fór í þetta veikindaferli. Og ég er sammála því,“ segir hún.

Guðrún Helga segir að munurinn felist helst í því að hún gleðjist og hlæi oftar. „Ég finn það kannski mest að ég get sprungið úr hlátri yfir einhverju – en dauðhrekk síðan reyndar við sjálf af því að það er eitthvað sem ég hef ekki upplifað í tvö ár,“ segir hún.

Guðrún Helga Árnadóttir.

Guðrún Helga er ekki ein um að finna fyrir betri líðan eftir að hafa byrjað að taka míkróskammta af ofskynjunarsveppum. Frásagnir fólks og reynslusögur voru svo áberandi í umræðunni að Imperial College ákvað að gera rannsókn á áhrifum míkróskammta. Henni stýrði David Erritzøe geðlæknir. „Við urðum æ forvitnari um það hvort þetta væri rétt, hvort þetta virkaði,“ segir Erritzøe.

Rannsóknin var alþjóðleg og byggðist á spurningakönnun meðal fólks sem var að hefja míkróskammtameðferð upp á eigin spýtur, bæði með ofskynjunarsveppum og LSD. Hluti tók efnin og hluti lyfleysu. Niðurstöðurnar voru í samræmi við reynslusögurnar en ollu samt mörgum notendum vonbrigðum.

„Efnin hjálpuðu gegn þunglyndiseinkennum ef þau voru til staðar í upphafi, þau bættu líðan samkvæmt stöðluðum mælingum og juku núvitund. Þau höfðu heilmikil jákvæð áhrif,“ segir Erritzøe.

„En málið er, að þegar við skoðuðum samanburðarhópinn, sem fékk lyfleysu, þá voru breytingarnar hjá honum einnig jákvæðar,“ segir hann.

„Það sýnir að útlit sé fyrir að míkróskammtameðferð virki og hafi jákvæð áhrif á þá sem taki míkróskammt en það virðist sem það sé vegna lyfleysuáhrifa,“ segir hann.

David Erritzøe geðlæknir stýrði rannsókn á áhrifum míkróskammta.

Erritzøe segir að rannsakendur hafi fengið gífurlega sterk viðbrögð við niðurstöðunum frá fólki sem sagði að míkróskammtameðferðin hefði virkað fyrir það og sagðist ekki trúa þeim. „Fólk var mjög gagnrýnið vegna þess að því fannst þetta virka. Við getum ekki haldið því fram að þetta sé eingöngu vegna lyfleysuáhrifa, við vitum það einfaldlega ekki, en í rannsókn á um 200 manns var það það sem gögnin sýndu fram á.“

Guðrún Helga lauk míkróskammtameðferðinni á fjórum vikum, eins og henni hafði verið ráðlagt. Þegar Kveikur hitti hana eftir að meðferðinni lauk sagðist hún hafa fundið fyrir því að líðan hennar batnaði stöðugt frá því áður en hún hóf meðferð.

Þó svo að hún ætti erfitt með að lýsa því sagði hún að ef hún horfði í baksýnisspegilinn væri liðin vika alltaf betri en vikan þar á undan. En er hún sannfærð um að áhrifin séu ekki einfaldlega lyfleysuáhrif?

„Það getur enginn sagt til um það. Tíminn er líka lækning, svefn er lækning, það eru alls konar þættir. Kannski er þetta bara ímyndun, hver veit?“ segir hún og hlær.

Pétur vildi ekki aðstoða Guðrúnu Helgu við ofskynjunarmeðferð með stórum skammti af sveppum því hún er með geðhvörf og því var það ekki talið öruggt.

Þótt míkróskammtar af ofskynjunarsveppum virðist ekki virka umfram lyfleysu eru skýrar vísbendingar um að meðferð með stórum skammti af ofskynjunarsveppum virki fyrir suma. Rannsóknir Imperial College og fleiri benda til þess.

Þó svo að Guðrún Helga hafi tekið framförum eftir míkróskammtameðferðina fannst henni hún ekki hafa náð fullum bata og hana langaði að reyna ofskynjunarmeðferð með stórum skammti af sveppum. Hún setti sig í samband við Pétur, sem hefur leitt fjölmarga sem hafa glímt við þunglyndi og kvíða í gegnum ofskynjunarmeðferð. Hann beitir nokkurn veginn sömu aðferðum og Imperial College notar í rannsóknum sínum.

Rannsakendur telja ekki öruggt fyrir fólk með geðhvarfagreiningu að taka ofskynjunarsveppi því hætta sé á að það valdi maníu. Af þeim sökum segist Pétur neyðast til þess að neita Guðrúnu Helgu um að aðstoða hana við ofskynjunarmeðferð. Þótt hún sé vonsvikin segist henni líða vel með þá ákvörðun. Mikilvægt sé að gæta fyllsta öryggis.

Hópur fólks innan geðheilbrigðiskerfisins hefur undanfarið knúið á um að stjórnvöld veiti leyfi til rannsókna á hugbreytandi efnum. Að sögn Héðins Unnsteinssonar, formanns Geðhjálpar, er reglugerð sem myndi liðka fyrir því í vinnslu í heilbrigðisráðuneytinu. Gert er ráð fyrir að hún verði kynnt í vor.

Tíu lönd tóku þátt í öðrum fasa rannsóknar bandaríska fyrirtækisins Compass Pathways á psilocybini, þar á meðal Bretland, Bandaríkin, Danmörk og Þýskaland. Hópur Íslendinga hefur síðan verið í samskiptum við fulltrúa Compass Pathways sem lýsti áhuga á því að Ísland bættist í hópinn í þriðja fasa rannsóknarinnar.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, staðfestir að leitað hafi verið til stofnunarinnar um möguleikann á því að gera rannsóknir hér á landi á virkni psilocybins. Lyfjastofnun geti veitt slík leyfi.

„Ef lyfið hefur ekki fengið markaðsleyfi, eða leyfi í einhverjum löndum, en er í klínískum rannsóknum, þá er líka hægt að sækja um undanþágu til notkunar fyrir ákveðinn einstakling í einhverju ákveðnu magni í einhvern ákveðinn tíma,“ segir Rúna.

„Þá byggir það svolítið á því að viðkomandi læknir, sem vill nota lyfið, hafi aðgang að þeim aðilum sem hafa verið að stunda klínískar rannsóknir eða eru þá bakhjarlar lyfjafyrirtækjanna að einhverjum klínískum rannsóknum,“ segir hún.

David Nutt telur að fleiri nái að vinna bug á þunglyndi með hjálp psilocybins en hefðbundinna þunglyndislyfja. „Við teljum líka að fólki batni betur en með hjálp hefðbundinna þunglyndislyfja. Og þessi efni geta virkað þegar önnur þunglyndislyf virka ekki. Og það er kannski mikilvægast af öllu,“ segir hann.

Eins og fyrr sagði er leyfilegt að rannsaka áhrif psilocybins víða um heim og meðferð hefur verið heimiluð á stöku stað. Oregon-ríki í Bandaríkjunum hefur samþykkt notkun þess í meðferðarskyni og gert er ráð fyrir að meðferðarstofur taki til starfa á næsta ári.

David Nutt hefur fengið margar fyrirspurnir frá fólki vill reyna þessa meðferð. Hann segist ráðleggja fólki að gera það alls ekki án aðstoðarmanneskju sem getur gripið inn í ef eitthvað fer úrskeiðis á meðan á meðferð stendur.

„Upplifun fólks getur verið hræðileg, það fer á staði, mjög myrka staði þar sem það hefur orðið fyrir áföllum og getur séð hluti. Fólk hefur oft gleymt hvers vegna það er þunglynt, það hefur til að mynda gleymt því að það var misnotað í bernsku,“ segir Nutt.

Heilinn búi yfir þeim eiginleikum að hann geti lokað á erfiðar minningar. „Þannig að ofskynjunarefni fara með þig aftur til þessara minninga og þú getur endurupplifað þær. Og það getur verið mjög ónotalegt,“ segir hann.

Víðir Sigrúnarson geðlæknir segir að þótt rannsóknir gefi góðar vísbendingar um að psilocybin nýtist í meðferð við geðsjúkdómum sé enn langt þangað til geðlæknar geti mælt með því sem lyfi.

„Vonandi er þetta bara gott lyf,“ segir hann. „En við höfum engar forsendur til þess að segja að það sé það. Við berum ábyrgð á því líka, sem fagfólk og sem læknar, að búa ekki til væntingar um eitthvað sem að er svo kannski ekki raunverulegt.“

Allar líkur séu á því að psilocybin sé ágætt lyf sem virki svipað vel og önnur og hjálpi sumum og öðrum ekki. „Ég segi alltaf við mína sjúklinga allavega að það séu engin töfralyf til. Og ég er enn þá þar,“ segir hann.

Víðir Sigrúnarson geðlæknir kveðst segja sínum sjúklingum að engin töfralyf séu til.

David Nutt segir að enn verði þörf á hefðbundnum þunglyndislyfjum og að ekki allir vilji upplifa ofskynjunarástand. „En fyrir fólk, sem glímir við þunglyndi af völdum alvarlegs atviks í lífi þess, líkt og skilnaðar eða barnsmissis, gætu ofskynjunarefni mögulega endurstillt heilann þannig að það geti upplifað betri líðan í marga áratugi,“ segir hann.

Erritzøe er á sama máli. Hann segir ofskynjunarlyf ekki koma til með að koma í staðinn fyrir allt annað. „En bara að þau verði viðbót í verkfærakistuna, sem geti gagnast, bara það er svo stórkostlegt að fá að verða þátttakandi í,“ segir hann.

Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, vildi ekki veita viðtal um málið en sagði í skriflegu svari að notkun psilocybins við geðröskunum væi enn á tilraunastigi. Notagildi efnisins hefði einungis verið kannað á tiltölulega litlum hópi fólks og áhættan við að nota það í lækningaskyni sé enn ekki fullrannsökuð. Þótt rannsóknir virðist lofa góðu sé samt sem áður full ástæða til að vara almenning við notkun þess og rétt að benda á að lög um ávana- og fíkniefni ná yfir efnið hér á landi.

„Á þessum tíma er því alls ekki ljóst hvort psilocybin muni á endanum fá almennt leyfi til notkunar sem lyf, en verði það raunin þá er enginn vafi á því að geðlæknar á Íslandi munu vera tilbúnir að nota það hjá sínum skjólstæðingum í samræmi við klínískar leiðbeiningar,“ segir Karl Reynir.

Sveinn Albert, sem missti son sinn, segir að þótt hann sjái lífið í öðrum og bjartari litum nú en fyrir ofskynjunarferðalagið komi enn erfiðir kaflar inn á milli. Nýlega hafi orðið vendingar í málaferlum vegna slyssins þar sem sonur hans lést á Spáni. Það mál sé á lokametrunum. „Það slær mann aðeins niður, en þá leitar maður í þessa músík sem var spiluð á ferðalaginu. Þá líður manni vel. Það er eitthvað sem kallar fram þessa vellíðan aftur,“ segir hann.

Rannsóknir á notkun ofskynjunarlyfja í meðferðarskyni gegn geðrænum kvillum á borð við þunglyndi gefa tilefni til bjartsýni. Sérfræðingar sem hér er vitnað til eru sammála um að verði niðurstöður rannsókna áfram á sama veg og til þessa, megi vonast til þess að klínísk meðferðarúrræði verði komin í notkun innan fárra ára.

Enn sem komið er eru þessi efni þó ólögleg. Og þótt sérfræðingar tali um mögulega byltingu þýðir það ekki að þetta séu töfralyf. Þau geta reynst hættuleg og að auki gagnast þau ekki öllum.

Aðalmynd: Sasata/Wikipedia