*

Ratcliffe á mun fleiri jarðir en talið var

Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe hefur stóraukið eignaumsvif sín á Norðausturlandi. Félag sem heldur utan um eignir hans á Íslandi fjárfesti fyrir hátt í þrjá milljarða króna í fyrra.

Ratcliffe á mun fleiri jarðir en talið var

Fjársterkir menn hafa lengi sýnt áhuga á landi við vinsælar laxveiðiár á Norðausturlandi, en síðustu misseri fór sérstaklega að bera á jarðakaupum iðnjöfursins Jims Ratcliffes.

Ratcliffe keypti fyrstu heilu jörðina í apríl 2016, Rjúpnafell í Vopnafirði. Síðan bættust þær hratt við: þrjár jarðir á Grímsstöðum á Fjöllum og hlutir í jörðum í Vopnafirði, Þistilfirði, á Langanesströnd og Jökuldalsheiði.

Jóhannes Sigfússon, formaður Veiðifélags Hafralónsár.

Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði og formaður Veiðifélags Hafralónsár, er gagnrýninn á kaup Ratcliffes: „Að einn aðili skuli geta gjörsamlega ryksugað upp heilt landsvæði, það er, það er það hættulega í þessu.“

En Ratcliffe á mun fleiri jarðir en komið hefur fram, eins og rannsóknir Kveiks hafa sýnt fram á. Ratcliffe á nú meirihluta í rúmlega tvöfalt fleiri jörðum en í byrjun árs í fyrra.

Hér má sjá umfjöllun Kveiks um fjárfestingar Ratcliffes í heild sinni.

Jim Ratcliffe á nú land við átta laxveiðiár á Norðausturlandi.

Ratcliffe á nú land við átta laxveiðiár á Norðausturlandi: Hofsá, Sunnudalsá, Vesturdalsá og Selá í Vopnafirði; Miðfjarðará á Langanesströnd; og Hafralónsá, Kverká og Svalbarðsá í Þistilfirði.

Ratcliffe segist vilja vernda lax, en kaup hans standa í mörgum heimamönnum, sem hafa áhyggjur af framtíðinni. Marga grunar að eitthvað annað en laxinn hangi á spýtunni, svo sem auðlindanýting af einhverju tagi. Þessu hafnar, Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs, sem Ratcliffe á tæplega 90% hlut í.

„Ég skil ekki þessa umræðu. Það er ekkert annað sem hangir á spýtunni en það að sinna þessum verkefnum,“ segir Gísli.

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs.