Ratcliffe stóreykur eignaumsvif sín á Íslandi

Jarðakaup breska auðkýfingsins Jims Ratcliffes hér á landi, sem færst hafa í aukana, beina sjónum að eignarhaldi á landi, hvernig það færist á fárra hendur og að hinni stóru spurningu, skiptir máli hverjir eiga landið? Ef svo er, hvernig á að stjórna því?

Selá í Vopnafirði er ein dýrasta laxveiðiá landsins. Hún er aðdráttarafl fyrir íslenska jafnt sem erlenda laxveiðimenn. Þeirra á meðal er einn ríkasti maður heims, Bretinn Jim Ratcliffe sem hefur, undanfarin ár, keypt fjölda jarða á Norðausturlandi.

Hver er þessi breski auðkýfingur?

Hinn breski Jim Ratcliffe er efnafræðingur á sjötugsaldri sem ólst upp í félagslegu húsnæði en er nú með riddaratign. Hann stýrir einu stærsta fyrirtæki heims í efnaiðnaði, Ineos. Verkefni fyrirtækisins eru mörg hver umdeild, svo sem verkefni sem fela í sér vökvaborun, eða „fracking,“ eins og það kallast á ensku.

Ratcliffe þykir harðsvíraður í kjaradeilum. Hann er gallharður Brexit-sinni en þó bárust fréttir af því að hann ætlaði að flytja lögheimili sitt til Mónakó og þannig komast undan breskri skattbyrði. Hann er einn ríkasti maður Bretlands, auður hans metinn á 2.900 milljarða króna, sem er álíka mikið og öll landsframleiðsla Íslands.

Hann er umsvifamikill fjárfestir og hefur meðal annars fjárfest í íþróttum, keypt franska knattspyrnufélagið Nice og hjólreiðalið í Tour de France. Ineos, fyrirtæki hans, stóð líka að baki því þegar hlauparinn Eliud Kipchoge rauf tveggja klukkustunda múrinn í maraþoni í haust.

Ratcliffe talar líka fyrir náttúruvernd. Hann hefur fjárfest í safarí-ferðum í Tansaníu og laxveiðiám á Íslandi. Á svæðinu frá Vopnafirði norður í Þistilfjörð og inn til Hólsfjalla, búa innan við þrettán hundruð manns, en þar falla margar vinsælar laxveiðiár til sjávar. Ratcliffe á land við átta þeirra. Hér koma aðallega þrjár við sögu: Hofsá, Selá og Hafralónsá.

Fleiri jarðir, meiri áhrif

Þegar fest eru kaup á jörðum við laxveiðiár fá menn veiðirétt. Einnig fylgja áhrif í veiðifélaginu, vettvangi þar sem landeigendur taka ákvarðanir um sameiginlega hagsmuni sína. Ákvarðanir til að mynda um að leigja ána út í langtímaleigu til fyrirtækja sem selja svo veiðileyfi. Fyrirtækja eins og Veiðiklúbbsins Strengs, sem Ratcliffe á nú tæplega 90% hlut í.

Veiðifélagið skilar svo arði af veiðinni til landeigenda. Hver jörð hefur eitt atkvæði í félaginu, þannig að fleiri jörðum fylgja meiri áhrif. Þrátt fyrir að laxveiði sé aðeins stunduð á sumrin, fá sumir bændur talsverðan arð af sölu veiðileyfa.

Dagurinn kostar allt að 300 þúsund krónur

Flestar þær jarðir sem Ratcliffe hefur fest kaup á hér á landi eru í Vopnafirði. Þar hafa íslenskir laxveiðimenn verið stórtækir í jarðakaupum í áratugi. Þá er Ratcliffe langt í frá eini efnaði Bretinn sem hefur veitt í Vopnafirði, þeir hafa sótt þangað í áratugi. Frægast varð líklega þegar sjálfur breski krónsprinsinn veiddi þar á áttunda áratugnum.

Í dýrustu ánum þar í firði, eins og Selá, greiða veiðimenn nú jafnvel 300 þúsund krónur á dag fyrir veiði á besta tíma. Miklum fjármunum hefur verið varið í að gera Selá sem eftirsóknarverðasta. Sú vinna hófst löngu fyrir tíma Ratcliffes. Til dæmis var veiðisvæðið lengt með laxastigum og um þúsund fermetra veiðihús byggt og vígt 2012.  

Situr einn að Vesturdalsá

Landakaup Ratcliffes hófust af alvöru vorið 2016, þegar hann keypti fyrstu heilu jörðina, Rjúpnafell í Vesturárdal í Vopnafirði. Þar heldur hann líka til sjálfur, í veiðihúsi sem lætur lítið yfir sér, á bökkum Vesturdalsár. Aðrir veiða ekki lengur í ánni - hann kaupir upp öll veiðileyfin.

Það hefur svo bæst hratt við jarðirnar; Síreksstaðir, Háteigur og Guðmundarstaðir í Vopnafirði um haustið 2016, og svo þrjár á Grímsstöðum á Fjöllum á aðventunni. Árið eftir bættust sex jarðir við, í Vopnafirði, Þistilfirði og á Jökuldalsheiði. Þá voru jarðirnar sem hann átti meirihluta í orðnar 13.

Ratcliffe hvergi skráður eigandi

Í umræðu og umfjöllun um Ratcliffe hafa ýmsar tölur verið nefndar um hversu margar jarðir hann á. Gjarnan hafa eignir hans og annarra fjárfesta verið taldar saman. Til dæmis jarðir Jóhannesar Kristinssonar, fjárfestis í Lúxemborg, sem átti meðal annars í Iceland Express. Jóhannes var um árabil stórtækur jarðakaupandi og hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu og vegagerð.

Jóhannes Kristinsson, fyrir miðju, ræðir við Jim Ratcliffe og starfsmann hans.

Eignarhald á jörðum Ratcliffes er tiltölulega flókið. Hann er hvergi sjálfur skráður eigandi í fasteignaskrá, heldur félög í hans eigu. Að baki þeim eru svo önnur félög. Rannsóknir Kveiks á öllum þessum eignartengslum sýna að eignaumsvif Ratcliffes á Norðausturlandi hafa aukist verulega.

Í ársbyrjun 2017 átti Ratcliffe meirihluta í 13 jörðum og minnihluta í tíu til viðbótar. En nú dregur til tíðinda. Fyrir um ári bárust fréttir af því að Ratcliffe hefði keypt Grænaþing, félag Jóhannesar Kristinssonar. Í einni andrá fjölgaði þannig jörðunum sem Ratcliffe átti meirihluta í um fjórar. Svo keypti hann Brúarland við Hafralónsá í sumar. Það gerir þá 18 jarðir allt í allt.

Ekki lengur skráður fyrir húsinu sínu öllu

Jörðin Gunnarsstaðir í Þistilfirði stendur á bökkum Hafralónsár. Þar er líka nýbýlið Brúarland. Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum og formaður Veiðifélags Hafralónsár, fékk óvænt símtal í sumar frá starfsmanni Ratcliffes.

Þar var honum tilkynnt að Jim Ratcliffe væri orðinn eigandi að Gunnarsstöðum, jörðinni þar sem ætt Jóhannesar hefur búið í á aðra öld, eða frá 1888. Frænka Jóhannesar, sem býr á Brúarlandi hafði selt Ratcliffe, bæði nýbýlið og hlut í Gunnarsstöðum sem hún átti á móti Jóhannesi og fjölskyldu.

„Þetta er með erfiðari dögum sem ég man eftir í mínu lífi. Að heyra þetta. Þetta svæði er manni svo kært og þessi jörð er mér svo kær,“ segir Jóhannes.

Í ljós kom að Ratcliffe er ekki aðeins skráður fyrir hlut í landinu, heldur líka húsum. Þar á meðal heimili Jóhannesar, sem hann byggði sjálfur. Jóhannes hefur mótmælt við sýslumann.

Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum og formaður Veiðifélags Hafralónsár.

Á tvöfalt fleiri jarðir en í fyrra

Ratcliffe boðaði í september til blaðamannafundar á Vopnafirði – og flogið var með blaðamenn á staðinn. Þar voru kynnt margvísleg áform, til dæmis um vísindarannsóknir í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og Imperial College í Lundúnum.

Það sem ekki kom fram á fréttamannafundinum, eða neins staðar annars staðar af hálfu Ratcliffes, er að hann á miklu fleiri jarðir en þessar 18. Rannsóknir Kveiks sýna að hann keypti ekki bara Grænaþing af Jóhannesi Kristinssyni, heldur fjögur félög til viðbótar og þar með meirihluta í ellefu jörðum.

Það sem hvergi hefur áður komið fram er að Jim Ratcliffe á nú meirihluta í 30 jörðum, sem er rúmlega tvöfalt meira en í ársbyrjun í fyrra. Að auki á hann minnihluta í níu jörðum. Alls 39 jarðir, þar af 24 í Vopnafirði. Þá á hann einnig veiðirétt í tveimur þjóðlendum í Vopnafirði. Hann á sem sagt réttindi á 41 jörð. Hart nær helmingur þeirra er í eyði.

Svæðið á stærð við 17 Þingvallavötn

Þrjátíu og níu jarðir er kannski há tala, en hversu mikið landflæmi er það? Því er erfitt að svara því opinberar mælingar á stærð allra jarða eru ekki til. Með því að styðjast við gögn fyrirtækisins Loftmynda, sem eru líklega hvað næst því að teljast nákvæm, má þó gróflega áætla að jarðir sem Ratcliffe á hlut í nái yfir um 1400 til 1500 ferkílómetra, sem er um 1,4% af flatarmáli Íslands. Það er meira en 17 sinnum stærra en Þingvallavatn.

Þá er erfitt að svara hversu mikið jarðirnar og fjárfestingarnar hér á landi hafa kostað auðkýfinginn því leynd hvílir yfir kaupverðinu. Ársreikningar félaga Ratcliffes gefa þó einhverja vísbendingu.

Til dæmis á félagið Grenisalir, samkvæmt opinberum gögnum, hluti í Grímsstöðum á Fjöllum og engar aðrar fasteignir. Í nýjasta ársreikningi Grenisala eru fasteignirnar metnar á tæplega 660 milljónir króna. Það eru óneitanlega sterkar líkur á að kaupverðið sé á svipuðum slóðum.

Með önnur félög er þetta ögn flóknara, eins og með félagið Sólarsali, sem áttu um síðustu áramót meirihluta í tíu jörðum. Þær jarðir eru samtals metnar á um 1100 milljónir – svo leiða má líkur að því að meðalkaupverð jarðanna hafi verið einhvers staðar í kringum 110 milljónir.

Illskiljanleg flækja félaga að baki kaupunum

Hversu miklu hefur Ratcliffe þá varið til fjárfestinga á Íslandi? Eignirnar hér á landi tengjast í gegnum illskiljanlega flækju félaga en þær má allar rekja til sama breska móðurfélagsins, Halicilla Limited, sem Ratcliffe er skráður fyrir.

Í rúmar fimm vikur reyndi Kveikur að fá viðtal við Ratcliffe. Það var svo í síðustu viku sem það svar fékkst að ekki væri hægt að koma því að áður en sýna ætti þáttinn. Upplýsingafulltrúi efnaiðnaðarfyrirtækisins Ineos vísaði á Gísla Ásgeirsson, sem er framkvæmdastjóri íslenskra félaga í eigu Ratcliffes, þar á meðal Veiðiklúbbsins Strengs.

Gísli segir að verið sé að vinna í því að einfalda eignarhaldið. „Þetta er náttúrulega bara hræðilegt utanumhald,“ segir hann. „Þetta er allt saman samtíningur úr fortíðinni.“

Í árslok 2017 námu eignir móðurfélagsins jafnvirði tæplega 2,5 milljarða króna. Ári síðar voru þær orðnar tæplega 5,2 milljarðar og því vaxið hratt. Fimm milljarðar eru há tala fyrir venjulegt fólk, en til að setja fjárhæðina í samhengi, þá kostar einkaþota, eins og Ratcliffe ferðast gjarnan á, Gulfstream G650, um átta milljarða króna - og hann hefur fleiri einkaþotur til umráða.

Tvöfaldaði atkvæðafjöldann án vitnesju gjaldkerans

Sex af þeim 41 jörðum sem Jim Ratcliffe hefur nú keypt hlut í eru við árnar Hofsá og Sunnudalsá í Vopnafirði. Ratcliffe hefur því með kaupunum tryggt sér þrjú atkvæði í veiðifélaginu - til viðbótar við þau fjögur sem hann hafði fyrir.

Pétur Valdimar Jónsson, bóndi í Teigi í Vopnafirði og landeigandi við Hofsá, hefur verið gjaldkeri Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár í hartnær 30 ár. „Ég hélt að hann hefði keypt bara það sem var kallað Grænaþing, og það var ekki hér við þessar ár,“ sagði Pétur í viðtali við Kveik.

Pétur vissi því ekki að Ratcliffe ætti stóran hlut í stóran hlut í fimm af sex jörðum í Sunnudal í Vopnafirði og tvær þeirra væru alfarið í hans eigu. Ratcliffe hafði hátt í tvöfaldað atkvæðafjölda sinn í veiðifélaginu án þess að gjaldkerinn hefði frétt af því. Pétur segir þróunina slæma: „Þetta er orðið eiginlega eins og bara nýtt landnám að vísu.“

Erfitt að fylgjast með hröðum hreyfingum

Hvað ætli aðrir stjórnarmenn viti? Þjóðkirkjan er stærsti landeigandinn við Hofsá, sem er kennd við kirkjujörðina Hof. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir sóknarprestur situr í stjórn veiðifélagsins. Aðspurð segist hún ekki telja sig hafa góða innsýn í hver á hvaða jörð.

„Það hefur náttúrulega bara verið ofboðslega mikil hreyfing á öllu. Þannig að það er erfitt fyrir fólk, og ekkert bara okkur í veiðifélaginu heldur bara alla, að fylgjast með því og það er pínu óþægilegt,“ segir Þuríður Björg. Hún kveðst hafa vitað að Ratcliffe hefði í fyrra keypt hlut í þrem jörðum við Hofsá og Sunnudalsá en hún vissi ekki að þær væru í raun sex.

Spurður um hvort eðlilegt hefði verið að upplýsa um kaup Ratcliffes á jörðum Jóhannesar Kristinssonar innan veiðifélagsins, svaraði Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri hjá íslenskum félögum í eigu Ratcliffes, að það væri á milli Jóhannesar og Ratcliffes að upplýsa um það. „Ef það eru einhverjir sem eru ósáttir um það að hafa verið út undan þá biðst ég bara afsökunar á því. Það hefði auðvitað átt að upplýsa alla um allt,“ segir hann.

Þuríður sóknarprestur segir skiptar skoðanir á fjárfestingum Ratcliffes á Vopnafirði. Margir séu á móti þeim. „Sem betur fer hafa þessir nýju landeigendur vilja til þess að það sé búið á jörðunum.“

Leigjendum ekki tilkynnt um breytt eignarhald

Sigurþóra Hauksdóttir, sauðfjárbóndi á Einarsstöðum í Vopnafirði, og eiginmaður hennar tóku jörðina á leigu hjá Jóhannesi Kristinssyni fyrir ellefu árum. „Það kostar okkur ekkert að vera hérna. Við borgum bara fyrir rafmagnið, og svoleiðis, og það sem við notum. Svo bara leggjum við okkur fram að halda vel við hérna,“ segir Sigurþóra. Þeim líði eins og þau séu velkomin og jörðin sé þeirra.

Í viðtali við Kveik sagðist hún ekki hafa innsýn í það hvernig eignarhaldi á jörðinni sé háttað, hún viti bara að jörðin sé í eigu Jóhannesar. Það voru því fréttir fyrir Sigurþóru að komast að því að Einarsstaðir væru nú í eigu Jim Ratcliffes.

„Nei, þetta vissi ég ekki. Alls ekki.“ Aðspurð í kjölfarið, um hvort það að eignarhaldið hafi breyst skipti máli, segist Sigurþóra vonast til að svo sé ekki. „En, ef það gerir það þá bara tökum við því.“

„Óvissan er alltaf verst af öllu“

Flestir íbúar á svæðinu frá Þistilfirði austur til Vopnafjarðar sem Kveikur ræddi við virðast hafa skoðun á málinu. Færri vildu koma í viðtal.

Gagnrýnisraddirnar virðast vera sterkari í Þistilfirði en á Vopnafirði. Marinó Jóhannsson, bóndi í Tunguseli í Þistilfirði og fyrrverandi formaður Veiðifélags Hafralónsár, segir mikla óvissu fylgja kaupum og umsvifum Ratcliffes á svæðinu „og óvissan er alltaf verst af öllu.“

Mikið hafi verið leitað á hann um að selja jörð sína. „En mér fór bara ekki að lítast á þegar að hver jörðin á fætur annarri var seld.“ Hann telur að markmiðið hafi verið að ná yfirráðum yfir veiðifélaginu.

Talsmaður Ratcliffes segir hins vegar að það sé ekki beint tilgangurinn að ná meirihluta. Til þessa hafi jarðakaupin verið handahófskenndari en svo.

Metnaðarfull áform í bígerð

Hægt og bítandi aukast áhrif Ratcliffes í veiðifélögum. Það auðveldar honum að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Til að mynda metnaðarfullum áformum um laxastiga. Í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér í sumar fullyrðir hann að það sé hluti af langtímaáætlun að gera slíkan laxastiga í Hofsá.

Innst í Vopnafirði hjá eyðibýlinu Fossi er tignarlegur foss í Hofsá. Með laxastiga væri hægt gera laxinum kleift að synda upp fossinn og þannig stækka búsetusvæðið. Ratcliffe á þó hvorki neinar jarðir sem liggja að fossinum né hefur hann meirihluta atkvæða í veiðifélagi Hofsár.

Áformin eru ekki allra. „Þetta er auðvitað ofboðslega mikið rask og rót á meðan á þessum framkvæmdum stendur, ef að það verður farið í þær og fólk er ekkert endilega sátt við það þarna upp frá, á þessu fallega svæði,“ segir Þuríður sóknarprestur.

Kristín Brynjólfsdóttir, landeigandi í Syðri-Vík í Vopnafirði, er mótfallin áformunum. „Mér finnst bara að náttúran megi kannski bara vera einhvers staðar ósnert,“ segir hún, það þurfi ekki alltaf öllu að bylta. „Ég röflaði nú eitthvað við þá á fundinum þegar var verið að ræða þetta, en þeir voru svo ægilega góðir að þeir voru að vernda allt.“

„Við ætlum ekkert að þvinga þessu ofan í einhverja sem ekki vilja þetta,“ segir Gísli, talsmaður Ratcliffes, og bætir við: „Ef að það væri ráðist í þetta, og ef að það myndi heppnast, það eru mörg „ef“ í þessu, þá myndi þetta vera eitt stærsta uppbyggingarverkefni sennilega sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Því að vatnasvæðið fyrir ofan Foss í Hofsá er gríðarlega stórt.“

Ratcliffe megi láta sjá sig meira

Þótt Ratcliffe sé orðinn áhrifamikill virðist hann ekki hafa verið mjög sýnilegur á vettvangi veiðifélaganna. Hvorki Jóhannes, formaður Veiðifélags Hafralónsár né Guðmundur Wiium Stefánsson, sem er nýhættur sem formaður Veiðifélags Selár, hafa hitt breska auðkýfinginn. Þuríður Björg hefur þó aðeins kynnst Ratcliffe en segir hann þó mega vera sýnilegri.

Gísli segir að Jim Ratcliffe hafi falið honum að framkvæma ýmsa hluti fyrir sig á svæðinu og tala fyrir hann við bændur. „En ég skal sannarlega koma því til hans að, að hann mætti láta sjá sig meira hérna og koma í kaffi hjá bændum.“

Hangir eitthvað annað á spýtunni?

En hvað er það sem breski fjárfestirinn vill fjárfesta í og framkvæma hér á landi? Hann segist aðeins vilja vernda laxinn, og hefur engin önnur verkefni nefnt opinberlega. Atlantshafslaxinn í Evrópu er á válista alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN.

Marga viðmælendur Kveiks grunar hins vegar að það sé annað sem hann sækist eftir. „Maður er mjög farinn að hugsa sinn gang um bara til hvers þetta veiðifélag er. Ég segi bara alveg eins og er,“ segir Jóhannes á Gunnarsstöðum. „Hreint vatn, ósnortin víðerni, fallrétturinn í ánum, þetta er allt saman, sko mikil auðlind til framtíðar séð.“

Samkvæmt íslenskum lögum hefur landeigandi almennt umráða- og nýtingarrétt yfir vatni sem rennur um jörðina, og rétt til grunnvatns, jarðhita og jarðefna. Meiri háttar framkvæmdir eru hins vegar leyfisskyldar.

Til dæmis eignaðist Ratcliffe meira en landið þegar hann festi kaup á jörðinni Fremri-Nýp í Vopnafirði. Jörðinni tilheyrir líka eina þekkta heitavatnslindin í Vopnafirði, sem hefur í áratugi verið nýtt í almenningssundlaug Vopnfirðinga. Nú á því Ratcliffe jarðhitavatnið. Þar sem dómstólar hafa hins vegar dæmt að hefð hafi skapast þarf Ratcliffe að afhenda jarðhitavatnið ókeypis í sundlaugina til frambúðar.  

„Ég skil ekki þessa umræðu. Það er ekkert annað sem hangir á spýtunni en það að sinna þessum verkefnum,“ segir Gísli Ásgeirsson. „Og að það verði þannig eftir tíu ár eða hvenær sem, ef okkur tekst það, að sé einhvers staðar einhver úti í heimi sem hefur áhuga á því að veiða lax eða sjóbirting eða bleikju og hann spyrji einhvern sem vel þekkir til, hvert er best að fara í heiminum, að þá muni svarið alltaf vera norðausturhornið á Íslandi.“

„Það getur vel verið að það sé bjartsýni og heimska, en ég vonast til þess að hann eigi eftir að gera góða hluti hérna í þessu byggðarlagi,“ segir Guðmundur á Fremri-Nýpi. „Hann hefur bæði fjármagn og framkvæmdavilja.“ Þetta séu þeir tveir þættir sem heimamenn bráðvanti. Guðmundur, sem hafði fyrir mörgum árum selt helming í jörð sinni, hefur nú selt Ratcliffe hinn helminginn, og Ratcliffe á því jörðina að fullu.

„Sjálfsagt eru þetta vel meinandi menn, og allt hvað það er, en við vitum ekkert hvar þetta endar,“ segir Jóhannes Sigfússon, formaður Veiðifélags Hafralónsár.

„Þó að þeir hafi allan góðan hug fyrir hendi að þá er ekkert í hendi sem segir okkur að það muni verða þannig áfram,“ segir Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Svalbarðshrepps.

Hvað verður þá um eignir Ratcliffes á Íslandi eftir hans dag? Gísli Ásgeirsson segir að hugmyndin sé að allt verði þetta sjálfbært, tekjur af jörðunum borgi fyrir uppbyggingu. Sá möguleiki hafi til dæmis verið ræddur að setja eignirnar í einhvers konar sjálfseignarstofnun eða sjóð, þótt ekkert hafi verið ákveðið.

Gísli segir að annar sonur Jims Ratcliffes sé við það að setjast í stjórn Veiðiklúbbsins Strengs. „Ég tel mjög líklegt að hann taki við, mjög fljótlega, einhvers konar utanumhaldi utan um þetta,“ segir Gísli.

Frumvarpinu sérstaklega beint að Ratcliffe

Ríkisstjórnin ræddi jarðakaup auðmanna á fundi í Mývatnssveit í ágúst. Í október lagði svo landbúnaðarráðherra fram frumvarp á Alþingi sem, yrði það að lögum, myndi takmarka atkvæðarétt umsvifamikilla landeigenda í veiðifélögum.

Gísli segir að sér sýnist frumvarpinu vera sérstaklega beint gegn Ratcliffe. „Við munum virða allar lagasetningar sem gerðar eru, en við munum hugsanlega áskilja okkur þann rétt að láta á það reyna hvort að sú svipting réttinda með skylduaðild að veiðifélögum standist hreinlega lög,“ segir hann. „Það er ekki sanngjarnt ef að meirihlutinn er kúgaður af minnihluta, eins og gæti komið klárlega upp ef þessi lög verða að veruleika.“

Ekkert eilíft nema fjöllin

„Það verður enginn ríkur af því sem hann selur. Þú ert ríkur af því sem þú átt,“ segir Jóhannes Sigfússon, bóndinn sem komst að því í sumar að Jim Ratcliffe ætti nú í jörðinni Gunnarsstöðum. „Þú veist hvað indíánarnir sögðu. Það er ekkert eilíft nema fjöllin. Land er alltaf, land er til framtíðar.“

„Þetta er jörð forfeðra minna, sem hafa búið hér mann fram af manni. Svo eru börnin mín farin að búa hérna og ég ætlast til að þau afhendi sínum afkomendum þessa jörð með sama hugarfari og ég afhenti þeim hana.“