Fengu hundraða milljóna tilboð í hreppsjarðir

Ónefndur fjárfestir reyndi að kaupa þrjár hreppsjarðir í Þistilfirði fyrir hundruð milljóna króna 2016. Svalbarðshreppur vildi ekki selja, en oddvitinn segir að endurtekið hafi tilboðið verið hækkað, þar til sveitarfélagið hafi komið því á framfæri að það vantaði hreinlega ekki peninga.

Fengu hundraða milljóna tilboð í hreppsjarðir

Svalbarðshreppur á fimm veiðijarðir. Á nokkurra vikna tímabili fyrir rúmlega þremur og hálfu ári bárust hreppnum þrjú erindi þar sem lýst var áhuga á að kaupa jarðir. Eitt var frá íslenskum lögmanni í Lundúnum, fyrir hönd ónefnds ástríðuveiðimanns, eins og það var orðað, og annað frá fasteignasölu, fyrir hönd mjög fjársterkra aðila, eins og það var orðað.

Þriðja bréfið, í þetta skiptið formlegt kauptilboð, barst svo frá lögmanni í Reykjavík fyrir hönd ónefnds aðila sem vildi kaupa þrjár jarðanna fyrir alls 240 milljónir króna. Kauptilboðinu fylgdi útprentun af reikningsyfirliti þar sem kom fram að umbjóðandi lögmannsins hefði lagt tvær milljónir Bandaríkjadala inn á vörslureikning hjá lögmannsstofunni. Hreppurinn hafnaði tilboðinu.

„Þá fáum við til baka í rauninni bara símleiðis að, að það séu hiklaust boðnar 450 milljónir,“ segir Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Svalbarðshrepps.

„Við höfnum því, og þá er okkur sagt að það séu 500 milljónir í boði,“ segir hann. Það hafi í raun ekki verið fyrr en því hafi verið komið til skila að peningar væru eiginlega það eina sem sveitarfélagið vantaði ekki sem „þessi eltingaleikur um peninga“ hafi hætt, segir Sigurður.

Óvíst er hver stóð að baki þessu síðastnefnda tilboði, en athygli vekur að undir það ritar Simon Knight, sami lögmaður og skrifaði nokkrum mánuðum síðar undir skjöl fyrir hönd breska auðkýfingsins Jims Ratcliffes þegar Ratcliffe keypti jarðir á Grímsstöðum á Fjöllum. Talsmaður Ratcliffes kvaðst aðspurður ekki muna hvort tilboðið hefði komið frá honum.

Fjársterkir menn hafa lengi sýnt áhuga á landi við laxveiðiár á Norðausturlandi, en nýlega fór sérstaklega að bera á jarðakaupum Ratcliffes. Kveikur fjallaði um fjárfestingar hans í fjórðungnum.

Hér má sjá umfjöllun Kveiks um fjárfestingar Ratcliffes í heild sinni.

Ratcliffe hefur keypt fjölda jarða við laxveiðiár, til að vernda laxinn, segir hann sjálfur. En marga sem Kveikur hefur rætt við grunar að hann sækist eftir einhverju öðru, til að mynda auðlindum. Því hafnar talsmaður Ratcliffes alfarið.