Myndband sýnir brottkast sumarið 2016

Myndband sem sýnir hvernig talsverðu magni af þorski er skipulega hent um borð í Kleifabergi RE, stangast á við yfirlýsingar forstjóra Brims og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem sögðu brottkast heyra til fortíðinni. Myndbandið var tekið fyrir rúmu ári.

Myndband sýnir brottkast sumarið 2016

Í Fréttaskýringaþættinum Kveik í gær var meðal annars fjallað um myndbönd sem sýndu ítrekað og mikið brottkast um borð í Kleifaberginu á þriggja ára tímabili, frá 2008-2011. Þar var bæði um að ræða brottkast á smáfiski, meðafla á karfaveiðum og mörgum tonnum af makríl. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu eru þau brot enn til rannsóknar.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims. (Mynd Kikkó Magnússon/RÚV)

Endurspeglar ekki stöðuna

Í hádegisfréttum RÚV í dag kvaðst Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, sem gerir meðal annars út Kleifabergið, aldrei hafa gefið skipanir um brottkast á skipum sínum. Brottkast tilheyrði fortíðinni.

„Svona gerum við ekki í dag og þetta sem kom fram í gær í sjónvarpinu sýnir hvað getur gerst er við tökum of stór höl þegar við erum á trollveiðum í dag hefur orðið sér stað mikil hugarfarsbreyting. ég held að það megi ekki dæma allan sjávarútveginn út frá myndbandi frá 2008-2011,“ sagði hann.

Þessi ummæli Guðmundar og samhljóða yfirlýsing Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi ríma þó ekki við frásagnir fjölda sjómanna sem Kveikur hefur átt samtöl við.

Því síður myndbönd sem Kveikur hefur undir höndum; sem tekin eru um borð í Kleifaberginu fyrir rúmu ári, sumarið 2016. Á þeim sést hvernig talsvert magn af hausuðum þorskum er hleypt í gegnum sérstaka lúgu í borði flökunarvélar, áfram á færibandi út úr skipinu og þaðan í sjóinn.

Rýma fyrir nýrri fiski

Að sögn skipverjans sem tók myndbandið var allt að þremur tonnum af hausuðum þorski fleygt í sjóinn í umrætt sinn, að kröfu skipstjórans um borð. Ástæðan var sögð sú sama og skipverjinn sem rætt var við í Kveik í gær lýsti sem ástæðum brottkastsins í eldri myndböndunum; að rýma fyrir nýrri fiski.

Skipverjinn sem vildi ekki að nafn hans kæmi fram sagði að sér og öðrum um borð hafi blöskrað meðferð aflans; brottkast í einhverjum mæli hafi verið þar daglegt brauð.

Brot gegn fiskveiðiregluverkinu varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Stórfelld ásetningsbrot geta hins vegar varðað fangelsi allt að 6 árum. Þá hefur Fiskistofa lagaheimildir til að svipta skip veiðileyfum, en eins og fram kom í Kveik í gær kemur það ekki í veg fyrir að hægt sé að færa kvóta og áhöfn á annað skip og halda áfram veiðum.