Vigtunareftirlit uppsjávarafla vonlaust

Fiskistofustjóri segir nánast vonlaust að hafa eftirlit með vigtun uppsjávarafla. Sjómenn hafa lengi tortryggt vigtunaraðferðir.

Árið 2015 auglýsti sjávarútvegsráðuneytið drög að frumvarpi um vigtun sjávarafla sem fól meðal annars í sér það að koma skikki á löndun uppsjávarafla, það er að segja loðnu, síldar, makríls og kolmunna sem landað er svo hundruðum þúsunda tonna skiptir til manneldis og bræðslu ár hvert.

Í frumvarpinu var sagt nauðsynlegt að setja inn ákvæði um að allur þessi afli skyldi vigtaður í því ástandi sem hann er við löndun, strax og honum er landað. Ástæðan var sú að engar samræmdar reglur voru eða eru til staðar um hvernig eigi að vigta uppsjávaraflann; sem allur er vigtaður af sama aðila og veiðir hann og vinnur, enda náði breytingin aldrei fram að ganga.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands. (Mynd Kveikur/RÚV)

Engin ein aðferð „gúdderuð“

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir að þetta hafi einfaldlega vantað í íslenskum lögum. „Það er engin ein aðferð sem er gúdderuð af stjórnvöldum eða Fiskistofu, heldur mega menn svona nánast ráða því hvaða aðferð er notuð til að vigta aflann,“ útskýrir hann.

Það að ekki sé tiltekin ákveðin leið við vigtun þessa afla hefur þau áhrif að ekki er eins farið að við vigtunina á öllum höfnum. „Á makrílvertíðinni og sérstaklega á loðnuvertíðinni í vetur þá voru menn að kvarta yfir því hvað kemur minna upp úr skipunum eftir því hvar þeir landa,“ segir Valmundur.

Kveikur óskaði skriflega eftir upplýsingum um hvaða reglum Fiskistofa styðst við, við eftirlit með löndun uppsjávarafla, svör hafa ekki borist.

Þórhallur Ottesen, fyrrverandi eftirlitsmaður hjá Fiskistofu. (Mynd Kveikur/RÚV)

Sér á báti á Íslandi

Þórhallur Ottesen, sem starfaði sem eftirlitsmaður og síðar deildarstjóri landeftirlits Fiskistofu í ríflega 20 ár, segir íslenska aðferðin vera einsdæmi í heiminum.

„Þessi vigtun eins og er framkvæmd hérna á Íslandi hún er hvergi þekkt í heiminum,“ segir hann. „Við fórum til Noregs og vorum þar í mánuð og kynntum okkur hvernig Norðmenn hafa þetta. Það er alveg um leið og farið er að dæla fiski upp úr skipinu þar, þá fer vigtin í gang og þetta er allt innsiglað. Menn geta ekkert verið að hræra í því.“

Á Íslandi hafi menn tækifæri til að gera þetta eftir þeirra eigin höfði.

„Hérna er hægt að vera að slökkva á þessu og menn fá að vigta þetta eftir að búið er að frysta og vigta í þremur fjórum porsjónum,“ segir Þórhallur og bætir við að margsinnis hafi verið bent á þetta. „Og meðan engin vilji er til að breyta þessu og stórútgerðin stendur á móti þessu, þá er ekki gert neitt.“

Eftirlitsskýrsla sem sýnir talsverðan mun á löndun með og án eftirlits. (Mynd Kveikur/RÚV)

Mikill munur þegar eftirlitið mætir

Kveikur óskaði skriflega eftir upplýsingum um hvaða reglur Fiskistofa styðst við, við eftirlit með löndun uppsjávarafla, svör hafa ekki borist. Þórhallur segir að reglulega hafi komið upp mál þar sem talið var að vigtun væri óeðlileg. Samt hafi ekki verið nokkur leið að takast á við þau mál.

Dæmi um það birtist í eftirlitsskýrslu sem Kveikur hefur undir höndum.

Samkvæmt aflaskýrslum átti nær sama magn að vera um borð í tveimur mismunandi löndunum, eða í kringum 1700 tonn, þó mun meira kæmi upp úr skipinu þegar eftirlitsmaður var viðstaddur vigtunina.

„Við stóðum yfir löndunum úr svona uppsjávarskipi alveg frá a til ö og það var 300 tonna munur frá því landanir áður þar sem sagt var að hann hefði verið með alveg nákvæmlega sama aflamagn,“ segir Þórhallur.

Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu. (Mynd Kveikur/RÚV)

Flókið að fylgjast með vigtun

„Það eru mjög mismunandi aðferðir við vigtun,“ segir Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu. „Við vitum um dæmi að það er vigtað með eðlilegum hætti þegar aflanum er landað og því ástandi sem hann er þegar aflanum er landað. Það er að segja, það er ekkert búið að eiga við hann.“

Það er þó ekki hin almenna regla. „Hins vegar er það algengast að það er verið að vigta aflann þegar búið er að eiga við hann. Jafnvel afurðavigtun og svo hratið sem var skorið frá.“

Eyþór segir að þetta flæki allt eftirlit með því hvort rétt sé vigtað upp úr skipum. „Eftirlitsþættirnir inni í svona vinnslu eru kannski fjórir, fimm, sex, í staðinn fyrir að vera bara einn þar sem væri vigtað við löndun. Þetta er að okkar viti mjög bagalegt.“

Þannig að það er líka vonlaust fyrir ykkur að sanna það hvort menn séu að svindla á þessari vigt?

„Það er, já, nánast vonlaust. Já,“ segir Eyþór.