„Hef aldrei gefið fyrirskipun um brottkast“

Guðmundur Kristjánsson, útgerðarstjóri Brims, segir að töluvert hafi dregið úr brottkasti eftir hugarfarsbreytingu um umgengni við auðlindina. Þá kveðst hann aldrei hafa gefið fyrirskipun um brottkast.

„Hef aldrei gefið fyrirskipun um brottkast“

Ólöglegt brottkast sjávarafla er talið alvarleg ógn við auðlindir hafs og er vandamál víða um heim. Í fréttaskýringaþættinum Kveik, sem sýndur er á RÚV, birtust í gær sláandi myndskeið af brottkasti um borð í frystitogaranum Kleifabergi, sem útgerðarfélagið Brim gerir út. Myndirnar voru teknar um borð í togaranum á þriggja ára tímabili, frá 2008 til 2011.

Frystitogarinn Kleifarberg. (Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/RÚV)

Áður hafi kappið verið of mikið

„Svona gerum við ekki í dag,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu. „Þetta sem kom fram í gær í sjónvarpinu sýnir hvað getur gerst ef við tökum of stór höl. Í dag hefur átt sér stað mikil hugarfarsbreyting í umgengni um auðlindir og í dag reynum við að forðast að taka svona stór höl. Það má kannski segja það þannig að áður fyrr var kappið oft mikið og tæknigræjurnar ekki nógu góðar þannig að menn tóku of stór höl.“

Þannig hafi stór höl, vegna mannlegra mistaka, leitt til þess að ekki hafi verið hægt að ísa fisk um borð og honum því hent. Nú hafi tækni fleytt fram og nú sé minni hætta á of stórum hölum. Þá vísar Guðmundur því á bug að tegundir hafi verið flokkaðar um borð í Kleifarberginu eða öðrum skipum útgerðarinnar, þ.e. að grisja fisktegundir frá aflanum sem til stendur að landa.

Hann segir að töluvert hafi dregið úr brottkasti á undanförnum árum. „Auðvitað er þetta ekki ásættanlegt, en þetta getur gerst þegar menn gera mistök,“ segir Guðmundur. „Við teljum að þetta sé búið að minnka gríðarlega og allar mælingar sýna fram á það að brottkast hefur minnkað gríðarlega mikið á Íslandsmiðum.“

Segir að sjávarútvegurinn hafi ekkert að fela

Spurður um hvort hann hafi nokkurn tímann gefið fyrirmæli um brottkast, svarar Guðmundur: „Ég hef aldrei gefið fyrirskipun um brottkast, það er engin útgerðarmaður sem gefur fyrirskipun um brottkastið.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, sagðist í sjónvarpsfréttum RÚV í gær líta brottkast alvarlegum augum og vill auka heimildir Fiskistofu til að herða eftirlit. Hún boðaði til innanhúsfundar í ráðuneytinu í morgun í kjölfar umfjöllunar Kveiks, til að ákveða næstu skref. Guðmundur í Brimi fagnar upplýstri og málefnalegri þjóðfélagsumræðu um sjávarútveginn og umgengni við náttúruauðlindina.

„Þá mun þetta hafa jákvæð áhrif á sjávarútveginn á næstu árum og viðhorf landsmanna til sjávarútvegsins. Sjávarútvegurinn hefur ekkert að fela í umgengni um auðlindir sjávar,“ segir Guðmundur.