Brottkast, ís-svindl og uppgjöf Fiskistofu

Frystitogarinn Kleifaberg er að koma inn til löndunar í Reykjavík snemma morguns í október eftir heimstím af Vestfjarðamiðum. Aflinn, 430 tonn úr sjó. Karfi, ufsi og þorskur, sem landað er flökuðum og frystum.

Kleifaberg er elsti togarinn sem enn er gerður út við Ísland, ríflega fertugur. Lengst af frá Ólafsfirði en síðastliðinn áratug frá Reykjavík. Kleifabergið hefur slegið ófá aflamet: til dæmis fyrir mesta aflaverðmæti í einni veiðiferð: 730 milljónir króna. Og fyrir mesta afla að landi á áratug: 90 þúsund tonn.

Öll þessi metveiði á sér hins vegar aðra hlið; tæpast í anda slagorða um ábyrgar og sjálfbærar veiðar, eins og þau sem prentuð eru á umbúðir aflans. Ólöglegt brottkast hefur þannig verið stundað um borð í Kleifaberginu - og það jafnvel kerfisbundið. Brottkast er bannað á Íslandi. Það tíðkast engu að síður og hefur gert lengi, samkvæmt mælingum – þó lengi vel hafi þeim verið harðlega mótmælt.

Kleifarbergið er einn elsti togari landsins. (Mynd Kveikur/RÚV)

Brottkast lengi fylgt

Brottkast er ekki nýtt af nálinni. „Brottkast undanfarin 11 ár gæti numið allt að hálfri milljón tonna. Sé það borið saman við 11 ára könnun á brottkasti hefur það minnkað lítillega. Þegar sú könnnun var birt sagði hagfræðingur LÍÚ að verið væri að sverta sjómenn og útvegsmenn,“ var sagt í fréttum Sjónvarps í apríl árið 2001.

Um líkt leyti komu fleiri sannanir fram. Til dæmis myndbönd af brottkasti íslensks togara í Smugunni. Og litlu síðar af brottkasti tveggja báta á Íslandsmiðum. Þar sem þorski var hent - að því er sagt var; vegna þess að ekki borgaði sig að koma með nema stærsta fiskinn í land. Skipstjóra Bjarma BA var til að mynda gert að greiða milljón í sekt, fyrir að henda 53 þorskum. Hin ákæran fékk óvæntan endi.

Dómari sýknaði hins vegar skipstjóra og eigendur Bárunnar því þegar atvikið átti sér stað var leyfilegt að henda skemmdum afla. Brottkast reyndist þannig ekki ólöglegra en svo að hægt var að gera það löglegt með því einu að segjast hafa hent skemmdum afla, sem nær ógjörningur var að afsanna. Því var lögum breytt og allt brottkast bannað. Áfram héldu þó vísbendingar um það að koma fram.

Tók myndbönd af brottkasti

Hafrannsóknastofnun hefur frá aldamótum gert árlega rannsókn á brottkasti. Í þeirri nýjustu er brottkast þorsks og ýsu sagt hafa numið 3200 tonnum árið 2015, og ekki mælst meira í nærri áratug. Brottkast togaraflotans eins og sér er sagt „nálgast mest reiknaða brottkast“ á þorski frá upphafi. Milljón þorskum hafi verið hent það ár, eða nærri 1400 tonnum.

Myndefnið sem Kveikur hefur undir höndum af brottkasti um borð í Kleifaberginu er tekið á þriggja ára tímabili. Frá 2008-2011. Á því sést hvernig þorski undir ákveðinni stærð og meðafla á karfaveiðum er hent rétt eins og mörgum tonnum af makríl. Núverandi og fyrrverandi skipverjar af Kleifaberginu, gengust við því í samtali við Kveik að hafa tekið þátt í brottkasti þar og um borð í öðrum skipum. Enginn þeirra vildi þó koma fram undir nafni.

Utan einn. Skipverjinn sem tók myndböndin.

Fiskurinn fer aftur í sjóinn

Trausti Gylfason var ríflega tuttugu ár til sjós, þar af helming tímans á Kleifaberginu, þar til honum var sagt upp í vor. Á myndböndum sem hann tók sjást skipverjar á Kleifarbergi meðal annars grisja fisk frá aflanum sem til stendur að landa. Það felur einfaldlega í sér að fisknum sé hent. „Hann fer bara út í vistkerfið aftur. Í sjóinn,“ segir hann.

Á öðrum myndum sést hvernig móttakan í skipinu er full af makríl áður en helmingnum er hent aftur út í sjó. „Þarna fiskuðum við bara allt of mikið og makríllinn hefur bara svo lítið geymsluþol áður en hann er frystur að það var helmingnum hent aftur í sjóinn eins og sést þarna,“ segir hann. „Þetta fór allt í sjóinn aftur.“

Á enn öðrum myndum sést þegar „ljóti karfinn“ er grisjaður í burtu, sem og bolfiskur sem kemur um borð. „Við sáum þarna ýsu, ufsa, þorsk sem fór þarna út. Þetta voru hundruðir kílóa í heildina alla vega eins og þú sérð á þessu stutta myndbandi sem ég tók þarna. Þetta er svolítið magn sem er að fara þarna á mjög stuttum tíma þarna framhjá. Þetta snýst allt um að koma sem mestu í gegn á sem stystum tíma. Og það vill oft koma niður á því að fisknum er bara hent, sem að tefur,“ segir Trausti.

Brottkast í hverjum túr

Trausti segir að það sé misjafnlega miklu hent. Það sé þó ekki ósanngjarnt að draga þá ályktun að brottkastið sé að einhverju leyti kerfisbundið. „Ja, það var alltaf eitthvað brottkast í hverjum einasta túr. Ég er nú búinn að vera á nokkrum skipum og alls staðra hefur verið brottkast. Mismikið,“ segir hann. „Stundum er okkur sagt að henda og stundum ákveða menn það sjálfir því það er eiginlega ætlast til þess af þeim. Og stundum er okkur sagt að hirða allt af því að það er lítið í.“

Trausti telur brottkasitð ekki hafa minnkað. „Í þessum myndböndum sem eru þarna, þetta er allt tekið eftir að mannskapurinn var svo hneykslaður að þeir báðu mig um að taka myndbönd af þessu. En náttúrulega þorir enginn að segja neitt því að þú ert bara látinn fara,“ segir hann.

En, hvers vegna ákvað hann að draga þetta fram núna og birta?

„Mig hefur alltaf langað að gera það en maður hefði bara verið rekinn. Nú er ekki lengur hægt að reka mig fyrir þetta svo mér finnst bara rétt að þetta komi fram og það sé gert eitthvað í þessu Fiskistofa er kominn með þetta í hendurnar en hefur áhyggjur af því að þetta sé of gamalt. Náttúrulega sendir Fiskistofa stundum menn um borð. En þeir senda bara einn mann og hann getur ekki verið allan sólarhringinn að fylgjast með þannig að þegar hann var ekki við var kannski eitthvað látið hverfa. Ónýt flök sem átti að pakka sem ónýtum flökum þeim var bara sturtað þegar hann var í mat eða sofandi,“ svarar hann.

Stöndum mun aftar en Norðmenn

Brottkast er talin alvarleg ógn við auðlindir hafs og er vandamál víða um heim. Áralöng herferð gegn brottkasti varð loks til þess að Evrópusambandið lögfesti bann við því árið 2014.

Nýsjálendingar urðu æfir í fyrra eftir að upplýst var um að yfirvöld og eftirlitsstofnanir hefðu leynt þing og þjóð upplýsingum um stórfellt brottkast sem látið hafði verið óátalið. Hópur háttsettra embættismanna sagði af sér í kjölfarið.

Norskur sjávarútvegur hefur líka tekist á við brottkast en yfirvöld þar hafa - ólíkt Íslendingum, aukið eftirlit á hafi úti síðan bann við brottkasti tók gildi þar árið 1990. Rétt eins og hér fara norskir eftirlitsmenn í veiðiferðir með fiskiskipum.

Slíkt eftirlit nemur samtals um 3000 dögum á sjó í Noregi. Árið 2002 voru Íslendingar á pari við Norðmenn í þessu eftirliti. Síðan hefur jafnt og þétt dregið úr því, niður í 1390 daga 2016. Eftirlitsmönnum hefur á sama tíma fækkað úr 44 í 24 í fyrra.

Helmingi færri sinna því eftirliti með fiskveiðum á Íslandi nú og um síðustu aldamót og viðvera þeirra á sjó er einn þriðji þess tíma sem hann var. Enn meiri munur er þó á þátttöku strandgæslunnar hér og í Noregi.

Gæslan lykilatriði í Noregi

Thord Monsen, forstöðumaður eftirlitsmála Norges fiskedirektoriet, segir að stofnunin starfi náið með landhelgisgæslunni þar í landi.

„Við treystum á að landhelgisgæslan sé til staðar og framfylgi eftirliti. Landhelgisgæslan hefur auðvitað aðrar skildur sem þeir þurfa að uppfylla en hún nýtir sína krafta í þágu veiðieftirlits. Ég held að við sæum ekki þann árangur sem raun ber vitni, sérstaklega ekki gagnvart banni á brottkasti, ef ekki nyti gæslunnar við úti á sjó,“ segir hann.

Hér á landi er samstarf Gæslunnar og Fiskistofu talið í dögum. Samtals 12 dögum í fyrra, þar sem farið var um borð í 84 báta, samanborið við daglega viðveru strandgæslu í Noregi, og 1600 eftirlitsheimsóknir á miðunum. Þetta 12 daga eftirlit virðist þó bera árangur. Þannig varð helmingur skráðra brottkastsmála hér á landi í fyrra afrakstur þess. Eða tvö af fjórum brottkastsmálum.

Hafa reynt að benda á stöðuna

Undirstaða hátt í 300 milljarða króna gjaldeyristekna Íslendinga er takmörkuð auðlind í hafinu. Þess vegna er veiðum stýrt með vísindalegu mati á stærð veiðistofna, sem síðan er deilt niður í hlutfalli við kvóta fyrirtækjanna.

Það að ekki sé veitt umfram, er forsenda þess að veiðar teljist sjálfbærar. Og til að gæta þess ver ríkið rúmum 800 milljónum króna á ári til reksturs Fiskistofu. Sem ber að „annast framkvæmd laga og reglna um stjórn fiskveiða og stuðla þannig að ábyrgri og sjálfbærri nýtingu fiskistofna.“

Kveikur hefur undanfarnar vikur rætt við hátt í þrjátíu núverandi og fyrrum starfsmenn Fiskistofu. Þeir segja að meingallað regluverk, mikill samdráttur í eftirliti og skortur á stuðningi sjórnvalda hafi veikt stofnunina svo að hún þjóni nú alls ekki hlutverki sínu. Meðal viðmælenda Kveiks eru tveir fyrrum stjórnendur Fiskistofu sem stíga fram í þætti kvöldsins, eftir að hafa áður, árangurslaust reynt, að koma yfirvöldum í skilning um stöðu mála.

Benedikt Bjarnason var svæðisstjóri eftirlits Fiskistofu á Vestfjörðum. (Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/RÚV)

Stíga fram í fyrsta sinn

Einn þeirra er Benedikt Bjarnason. Hann var svæðisstjóri eftirlits Fiskistofu á Vestfjörðum til ársins 2013. „Við verðum auðvitað að gefa okkur það að þorri þeirra sem starfa í þessum geira séu að gera það löglega. En, þeir sem ætla sér að misnota kerfið þeir hafa til þess nokkuð frjálsar hendur,“ segir hann.

Annar starfsmaður, Þórhallur Ottesen, segir það hafa alla tíð verið mjög erfitt fyrir stofnunina að vinna að eftirliti vegna reglugerðanna sem stofnunin þarf að framfylgja. Hann starfaði sem eftirlitsmaður og síðar deildarstjóri landeftirlits Fiskistofu í ríflega 20 ár. „Það sem er náttúrulega galið við þetta er það að útgerðirnar fái að endurvigta fiskinn sjálfir. Þetta getur ekki gengið og hvergi nokkurs staðar í heiminum gengur þetta,“ segir hann.

Endurvigtun á 120 stöðum

Ein af grunnstoðum íslenska fiskveiðistjórnunarkerfsins er rétt vigtun afla. Öðruvísi er enda ekki hægt að að sjá hversu mikið er búið að veiða og hversu mikið má veiða til viðbótar. Og í lögum er er nokkuð skýrt.

Allur afli skal veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Skal við vigtunina nota löggilta vog. Vigtun skal framkvæmd af starfsmanni hafnar sem hlotið hefur til þess löggildingu. Eftirlitið ætti því að vera nokkuð einfalt. En þannig er það alls ekki. Ástæðan er í næstu málsgrein laganna, svokölluð endurvigtun.

Leyfi til endurvigtunar eru í dag um 120 um land allt. Þar með er lokaorðið um endanlega vigtun stórs hluta auðlindarinnar í höndum fyrirtækjanna sem veiða og vinna fiskinn. Endurvigtun felur það í raun sér að afli er vigtaður tvisvar. Fyrst á hafnarvog og síðan í viðkomandi fiskvinnslu. Og það er seinni vigtunin sem ræður.

Hún skilar jafnan lægri tölu enda er ástæða þessa tvíverknaðar opinberlega sú að vigta aflann án kælingar. Sumsé þegar búið er að fjarlægja ís sem notaður er til að kæla aflann og er saman við fiskinn í löndun á hafnarvog. Þess vegna er hugtakið ísprósenta mikilvægt.

Þórhallur Ottesen, fyrrverandi eftirlitsmaður og síðar deildarstjóri landeftirlits Fiskistofu í ríflega 20 ár. (Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/RÚV)

Ísprósenta lægri við yfirstöðu

Þórhallur segist ekki í nokkrum vafa um að endurvigtunarleyfin væru misnotuð. „Það fer tæp 50% af aflanum í endurvigtun þannig að það er alveg ljóst að það er 50% af aflanum sem er verið að hringla með ísprósentuna í. Það sem þyrfti að breyta strax það er það að banna endurvigtun á fiski,“ segir hann.

Fiskistofa heimsækir á bilinu 10-20 fiskvinnslur ársfjórðungslega; stendur yfir endurvigtun og skráir ísprósentu og ber upplýsingarnar saman við fyrri landanir þar sem ekkert eftirlit var á staðnum. Sé ísprósentan óvenju lág, í samanburði við fyrri landanir er það talið til marks um eitthvað óeðlilegt – að fiski geti í raun hafa verið landað framhjá með því að skrá hann sem ís.

Kveikur hefur farið í gegnum ársfjórðungsyfirlit Fiskistofu síðustu þriggja ára. Þar sést að í meirihluta eftirlitsheimsókna er ísprósenta talsvert lægri en þegar ekkert eftirlit er á staðnum.

Dæmin eru fjölmörg og oft er munur á hlutfalli íss í hundruðum tonna af lönduðum afla, helmingi og allt að þrisvar sinnum meiri þegar ekkert eftirlit er við vigtunina. Fyrir nokkrum árum þótti hóflegt að setja fast 4% íshlutfall á afla sem fluttur var beint úr landi. Endurvigtaður afli er á hinn bóginn oft skráður með um 20% íshlutfall.

„Þegar eftirlitsmenn koma inn í fiskhús og standa yfir endurvigtun frá a til ö og það kemur í ljós að ísprósentan er ekki nema kannski 5% og þeir skoða síðustu tíu landanir og þær eru frá 12 og upp í 17% að það segir alveg sjálft hvað er um að vera þarna. Þetta er alveg á borðinu og er búið að vera í mörg ár. Þetta er ekki verið að tala um neinar smá upphæðir. Þetta er verið að tala um upphæðir í milljörðum,“ segir Þórhallur.

(Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/RÚV)

Hvati til að svindla

Vanmáttur Fiskistofu gagnvart misnotkun endurvigtunarkerfisins sést eflaust best á því að allt árið í fyrra var ein fiskvinnsla svipt vigtarleyfi vegna brots, þó 50 mál, þar sem grunur lék á slíkum brotum hafi komið fram, og að allt árið hafi birst upplýsingar á heimasíðu Fiskistofu sem bentu til að kerfið væri misnotað til framhjálöndunar.

Sönnunarbyrðin er enda sögð gríðarlega þung og viðurlögin nánast bitlaus. „Og þar af leiðandi ertu bara kominn með hvata. Sá gluggi sem við höfum til að ná að grípa viðkomandi hann er eiginlega á höfninni, hann er við skráninguna. Því að þau mál þar sem fiskurinn hefur komist inn í vinnslu eða út af svæðinu. Þeim málum hefur bara verið vísað frá,“ útskýrir Benedikt.

Þórhallur tekur í svipaðan streng. „Viðurlagakaflinn er svo agalega lélegur að þó að endurvigtunarleyfið sé tekið af húsinu þá skiptir það engu máli geturðu bara hringt út á höfn og fengið hafnarstarfsmann til að koma að vigta í húsinu,“ segir hann.

Fiskistofustjóru viðurkennir vandann

Í upphafi árs 2014 lýsti Fiskistofustjóri því yfir í viðtali að „Útilokað væri að hafa eftirlit með vigtun sjávarafla.“ Endurvigtun væri „alvarlegur veikleiki í regluverkinu.“ sem allt benti til að væri misnotaður til að ""hagræða tölum"". Fyrrum undirmaður hans segir að engu að síður hafi illa gengið að fá yfirstjórn Fiskistofu og stjórnvöld til að koma á breytingum.

„Ég fór fyrir nefnd hérna um árið og við lögðum það fram að það yrði sett föst ísprósenta á allar tegundir báta. Dagróðra- og útilegubáta og lögðum þetta fyrir Fiskistofu og ráðuneytið. En þetta koðnaði allt saman niður því við fengum engan bakstuðning við að koma þessu í gegn,“ segir Þórhallur.

Árið 2015 kvaðst hann hafa talið fullreynt að yfirmenn Fiskistofu áttuðu sig á alvöru málsins. Hann ákvað því að leita til yfirstjórnar stofnunarinnar, hingað í sjávarútvegsráðurneytið, og sendi erindi til skrifstofustjóra málaflokksins. Með fylgdi skýrsla eftirlitsmanna úr fiskvinnslu sem endurvigtaði og vann um 5000 tonna afla á ári.

Í eftirlitsferð hafði ísprósenta þorsks og ýsu verið milli 7 og 10% á meðan ísprósenta þriggja landana þar á undan hafði verið allt að 20%, en þá var ekkert eftirlit með fiskvinnslunni. Í erindinu sagði Þórhallur um að ræða augljóst og margendurtekið svindl sem ekkert væri hægt að gera í og kallaði eftir viðbrögðum ráðuneytisins.

Þau urðu þó talsvert önnur en hann hafði búist við.

„Þá fékk ég tölvupóst frá staðgengli Fiskistofustjóra þar sem var óskað eftir því að ég sendi enga tölvupósta frá mér nema þeir færu í gegnum hana,“ segir hann. „Ég túlkaði það bara að ég ætti bara að sitja á mínum bossa og vera ekkert að reyna að ýta neinu áfram.“

Tölvupósturinn sem Þórhallur fékk frá staðgengli fiskistofustjóra. (Mynd Kveikur/RÚV)

Ætluðu að breyta kerfinu

Stuttu síðar kynnti þó ráðuneytið þó drög að frumvarpi sem fól í sér afnám endurvigtunarkerfisins. Allur afli skyldi framvegis vigtaður á hafnarvog af löggiltum, óháðum vigtarmanni. Þau nýmæli voru líka í frumvarpinu að nú var hægt að leggja hald á afla sem landað var framhjá vigt. Það hafði einfaldlega ekki verið hægt áður.

„Þannig er ekki útilokað að aðili hagnist á broti enda þótt mál upplýsist“ sagði í greinargerð frumvarpsdraganna sem sögð voru lögð fram þar sem „brýn þörf (væri) á því að gera umtalsverðar breytingar á reglum um vigtun bolfiskafla“„þannig (sé) aflamagn skráð minna en það raunverulega er þegar eftirlit er ekki á staðnum.“

Það hafi Fiskistofa ítrekað staðfest.

Drögin voru auglýst á vef ráðuneytisins sumarið 2015 og óskað eftir umsögnum.

Kveikur fékk aðgang að þeim í krafti upplýsingalaga. Þar birtist hörð andstaða landssamtaka og landshlutafélaga útgerðarmanna við breytingarnar; sem höfnuðu því að Fiskistofu skorti heimildir til að tryggja rétta vigtun og lögðu áherslu á að ýta ekki undir tortryggni í garð atvinnugreinarinnar sem mótmælti því að hafa ekki verið með í ráðum við gerð frumvarpsins og krafðist þess að útvegsmenn fengju aðkomu að gerð nýs frumvarps.

Frumvarp um afnám endurvigtunarkerfisins var einhverra hluta vegna aldrei lagt fyrir Alþingi.

„Þetta er bara djók“

„Það vita allir um þetta og hvernig þetta er en það er enginn vilji til þess að breyta þessu. Stórútgerðin vill bara hafa þetta svona og stórútgerðin stendur á móti því að þessu sé breytt. Meðan að svo er þá er ekkert gert, nema að setja einhverja svona samsuðu eins og fór þarna í sumar, breyttist í lögum. Sem er náttúrulega, eins og ég sagði áðan: Þetta er bara djók,“ segir Þórhallur.

Hann vísar þarna til seinni útgáfu frumvarpsins. Útgáfu sem varð að lögum um mitt þetta ár. Þar kvað við nýjan tón.

Ekki þótti lengur ástæða til að leggja af endurvigtunina eða skerpa viðurlög. Eftirlit sem áður var sagt árangurslítið, var á hinn bóginn aukið og viðurlög hert þannig að hægt var að svipta menn vigtunarleyfi í eitt ár, en aðeins „Ef ítrekað (séu) veruleg frávik á íshlutfalli.“ Hvað séu, „veruleg frávik,“ er hins vegar ekki skýrt nánar í lögunum.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins. (Mynd Kveikur/RÚV)

Ekki allir að svindla

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, segist ekki geta séð að þetta hafi skánað mikið þó að reglunum hafi verið breytt. „Og svo sér maður núna, frétt á Fiskistofu um einhver 14 fyrirtæki sem tekin eru út á þriggja mánaða tímabili. Þar eru veruleg frávik á lönduðum afla og svo þegar staðið er yfir mönnum og ísprósentan er skoðuð,“ segir hann.

„Auðvitað eru ekkert allir að svindla, ég er ekkert að segja það, en þetta er viðvarandi virðist vera og við erum alltaf að heyra af þessu, nánast í hverri viku. Segjum bara þó ekki sé nema 5% frávik. Þá erum við að skekkja alla púllíuna. Líka fyrir fiskistofnunum.“

Það vekur upp spurningar um hvort Hafrannsóknarstofnun hafi aldrei gert neinar athugasemdir við þetta eða óskað eftir einhverjum breytingum? Þórhallur segir það ekki gert á meðan allt gengur vel.

„Við margræddum þetta á fundum við þá, hvernig þetta væri, og það er verið að taka miklu meira úr auðlindinni heldur en sagt er. En meðan allt gengur vel og nægur fiskur er þá er þetta allt saman í fínasta lagi. Svo þegar fer að harðna á dalnum þá fara menn að spyrja sig hvernig stendur á þessu. En tölurnar eru bara svo brenglaðar. Það veit raunverulega enginn hvað er verið að taka úr auðlindinni.“

Reyndu umfangsmikla rannsókn

Benedikt Bjarnason hafði í fimm ár umsjón með eftirliti Fiskistofu á Vestfjörðum og stóð á þeim tíma í ströngu við rannsókn umfangsmikilla framhjálöndunarmála; þar sem einstaklingar voru staðnir að verki.

„Mér fannst ég ná árangri en hvernig eftirvinnsla málnna var hafði ég ekkert með að gera en sannarlega stóðum við menn að brotum og sannarlega voru menn sviptir leyfum og dæmdir en sum mál er mér ennþá fyrirmunað að skilja hvers vegna Fiskistofa vísaði frá,“ segir hann.

Árið 2010 hóf Fiskistofa umfangsmiklar rannsóknir víðs vegar um land,í kjölfar þess að sex fyrirtæki voru staðin að framhjálöndunum. „Þannig að sannarlega voru brotin til og bakreikningar hefjast svo í kjölfar þessara framhjálandana,“ segir Benedikt.

Þegar fiski er landað framhjá vigt er hann ekki skráður. Hann er engu að síður verkaður og seldur sem gerir það að verkum að stundum er eins og meira magn fari fullunnið út úr fiskvinnslum heldur en kom þangað inn óunnið.

Fiskistofa taldi vísbendingar um það í þessum málum og að hundruð tonna hefðu farið með þessum hætti í gegnum fiskvinnslurnar, ólöglega. Fyrirtækin vörðust kröftuglega og rengdu alla útreikninga jafnóðum.

Lögmenn þeirra héldu því fram að hráefnisnýting væri óvenju góð. Það skýrði mun á lönduðum og unnum afla. Enn meiri nýting var svo skýrð með notkun íblöndunarefna sem sprautað væri í fiskinn - og þyngd hans aukin allt að 20%. Nokkuð sem varð til þess að Matvælastofnun sektaði sum fyrirtækjanna fyrir vörusvik meðan á rannsókninni stóð.

Lokuðu skyndilega öllum málum

„Við lögðum allan þunga á alla eftirlitsmenn í sumum af þessum málum og skrifuðum skýrslur og tókum myndir og gerðum allt eins og við vorum beðnir um að gera og áttum alltaf von á því að fá þessi mál upp á borðið og fyrir dóm,“ segir Benedikt. Útreikningar og skýringar gengu á milli Fiskistofu og fyrirtækjanna svo mánuðum skipti.

Allt þar til í byrjun árs 2013 að forstjóri Fiskistofu tilkynnti skyndilega að rannsókn allra málanna hefði verið hætt. Einungis eitt þeirra rataði í dómsal. Undirréttur felldi þá niður ákvörðun Fiskistofu um sektir á fyrirtækið, vegna óskýrleika í útreikningum. Málinu var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Benedikt segir að ákvörðunin hafi komið á óvart. „Kom okkur öllum bara í opna skjöldu,“ segir hann. Engar skýringar hafi verið gefnar starfsmönnum á ákvörðuninni. „Og ekki einu sinni heldur tilkynnt það heldur las maður bara um það í blöðunum. Og mér vitanlega var lögreglunni heldur ekki tilkynnt um málalokin.“

Skipverjar báru vitni um framhjálöndun

Eitt þessara mála beindist að útgerðarfélaginu Þórsbergi á Tálknafirði. Grunur lék á að hundruðum tonna hafi verið komið undan vigt og til vinnslu í fiskverkun þess á nokkrum misserum. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem fyrirtækið lá undir grun í slíku máli.

Árið 2005 hafði Þórsberg verið staðið að framhjálöndun og svipt vigtunarleyfi tímabundið. Rannsókn seinna málsins hófst í byrjun árs 2010 þegar skipverjar á báti útgerðarinnar leituðu til stéttarfélags vegna launa sem þeir töldu sig svikna um.

Jónas Þór Jónasson hæstaréttarlögmaður var lögmaður átta pólskra háseta sem störfuðu á Kópi BA og kvörtuðu yfir því að fá ekki rétt greitt þar sem ekki væri allur afli skráður á höfninni.

„Þeir segja mér frá því að þar sé ekki verið að standa rétt að málum. Það sé verið að taka gríðarlegt magn af aflanum framhjá vigt. Ég sá enga ástæðu til að rengja þeirra frásögn og svo ég tali nú ekki um þau gögn sem þeir sýndu mér og fóru svo inn á borð lögreglu og Fiskistofu. Þannig að mitt mat var það að þarna væri eitthvað í gangi eins og það ætti ekki að vera, svo ég noti ekki sterkari orð,“ segir hann.

Meðal þess sem skipverjarnir lögðu fram var bókhald sem haldið var um raunverulegan landaðan afla bátsins; sem var mun meiri en það sem gefið var upp til yfirvalda. Í bókhaldinu voru einnig myndir, myndbönd og upplýsingar um hvar gögn væri að finna. Lögregla tók skýrslur af skipverjunum og gerði, ásamt Fiskistofu, húsleit hjá fyrirtækinu, sem leiddi til umfangsmikillar rannsóknar Fiskistofu.

Jónas Þór Jónasson hæstaéttarlögmaður. (Mynd Kveikur/RÚV)

Engar skýringar fengið

„Ég, skipverjarnir og hérna, svo auðvitað lögreglan, stöndum í þeirri trú að það sé verið að vinna í málinu. Búumst bara við niðurstöðu í málinu eftir einhverjar vikur eða max nokkra mánuði eins og eðlilegt er. En svo liðu árin og það gerist aldrei neitt í þessu. Og aldrei fékk ég nein skilmerkileg svör um gang málsins og stöðu rannsóknarinnar,“ segir Jónas.

Tölvupóstsamskipti bera með sér að skipverjarnir, lögmaður þeirra og lögregla reyndu ítrekað að afla upplýsinga um gang rannsóknarinnar næstu þrjú árin. Skipverjarnir sem voru pólskir höfðu þá yfirgefið landið án þess að laun þeirra hefðu verið leiðrétt. Það var svo ekki fyrr en pólski sendiherrann á Íslandi fór að hlutast til um svör, að staðfesting fékkst frá Fiskistofu - á því að búið væri að fella málið niður.

„Ég sko, hef enn þann dag í dag ekki fengið neinar almennilegar skýringar á því hvaða vinna var þarna í gangi hjá Fiskistofu eða hvort þeir hafi yfirhöfuð rannsakað málið í þaula eins og þeim ber að gera samkvæmt lögum,“ segir hann.

„Ég hef sjálfur bent Fiskistofu á framhjálöndun á skipi, það var reyndar fyrir einhverju ári síðan. Því var ekki sinnt. Ég veit um skipverja sem hafa sjálfir farið til Fiskistofu. Ég veit að sjómannafélögin hafa látið vita líka en mér að vitandi þá hefur lítið sem ekkert komið út úr því. Menn eru bara búnir að gefast upp á þessu batteríi. Sem er náttúrulega bara sorglegt. Af því að það eru svo gríðarlegir hagsmunir í húfi og þetta er eitthvað sem skiptir máli.“

Hafnarvörðurinn tók þátt

Eitt mál skar sig nokkuð úr af þeim sem hófust með framhjálöndun og sætti bakreikningsrannsókn. „Í einu málinu var dæmt og það er eiginlega vegna það að viðkomandi fyrirtæki hélt ekki uppi vörnum þannig lagað. Það er að segja sótti ekki um endalausar frestanir eins og hin fyrirtækin,“ segir Benedikt.

Sumarið 2009 mætti fjölmennt lið lögreglu og Fiskistofu á hafnarsvæðið á Bildudal. Fyrirtækið Perlufiskur sem rak þar vinnslu og útgerð smábáta var staðið að umfangsmikilli framhjálöndun. Forsvarsmenn fyrirtækisins fengu hátt í þrjátíu milljóna sekt fyrir að hafa veitt, unnið og selt á annað hundrað tonn af ólöglegum afla. Grunur lék hins vegar á að brotin hefðu varað mun lengur og snúist um margfalt meiri afla.

Alvarlegastur þótti þó þáttur hafnarvarðarins á Bíldudal. Sem opinber starfsmaður var hann lykilmaður í brotunum, vigtaði og skráði afla ranglega og hélt bókhald um svindlið. Auk þess að reyna að eyða sönnunargögnum þegar upp hann komst. Hafnarvörðurinn var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið, fyrir brot í opinberu starfi.

Refsingin var ekki þyngri þar sem ekki var rannsakað og því ekki sannað að hann hefði haft fjárhagslegan ávinning af brotunum. Afleiðingar og viðhorf við brotum eins og þessum sjást eflaust best í viðbrögðum vinnuveitanda hafnarvarðarins. Sveitarfélagið sem hafði verið svikið um gjöld vegna brota mannsins taldi þannig enga ástæðu til þessa að láta þau hafa áhrif á störf hans. Störf sem hann sinnir raunar enn.

„Það er ákveðin, eða var ákveðin hugsun, sem ég veit ekki hvort að sé ennþá við lýði, sem er sú að þetta sé í lagi af því að menn eru að tryggja atvinnu í viðkomandi þorpum. Þetta var oft viðhorf manna, bara ókei, þið náðuð mér núna, ég þarf bara að vanda mig betur næst. Vegna þess að afleiðingarnar voru ekkert stórfenglegar,“ segir Benedikt.

Hafði slæm áhrif á móralinn

Fiskistofustjóri lét hins vegar ekki niðurfellingu rannsóknanna fimm duga. Í viðtali við Morgunblaðið í janúar 2014, lýsti hann því yfir að í kjölfar niðurfellinganna hefði hreinlega verið tekin ákvörðun í samráði við sjávarúrvegsráðuneytið um að hefja ekki „nýja rannsókn í meira en eitt og hálft ár“. Tímabil sem nú hefur staðið í á fimmta ár. Þessar yfirlýsingar höfðu eðlilega áhrif á starfsmenn Fiskistofu.

„Móralskt séð mjög slæm áhrif þar sem eiginlega öll vinna manns var ómerkt með einu pennastriki. Fólk á svæðinu sem hafði verið að gefa upplýsingar og hafði viljað að allir væru að starfa innan sama rammans, sá það bara að menn gátu komist upp með það að fara ekki eftir rammanum og það hafði engar afleiðingar. Og manni fannst maður bregðast því fólki,“ segir Benedikt.

Þórhallur segir þetta hafa dregið tennur úr eftirlitsmönnum. „Að koma í fiskhús þar sem verið er að endurvigta og þeir eru að gera skýrslu um þetta og þetta. Mánuð eftir mánuð og ár eftir ár og það er aldrei gert neitt. Menn bara fara að keyra fram hjá þessum húsum,“ segir hann.

Starfsstöð Fiskistofu á Vestfjörðum var lögð niður í þeirri mynd sem til hennar var stofnað nokkrum árum fyrr, árið 2013. Benedikt var boðið að flytja störf sín til Hornafjarðar, sem hann þáði ekki og sagði heldur upp störfum. Þórhallur Ottesen lét af störfum 2015. Hann segir stofnunina oft hafa verið illa í stakk búna til að sinna skyldum sínum, en að keyrt hafi um þverbak síðustu starfsár hans.

Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu. (Mynd Kveikur/RÚV)

Stjórinn í meginatriðum sammála

Núverandi starfsmenn Fiskistofu sem við höfum rætt við undanfarnar vikur staðfesta frásagnir þessara tveggja fyrrum starfsmanna. Og það sem meira er: Fiskistofustjóri gerir það sjálfur í meginatriðum í viðtali sem við áttum við hann nú fyrir helgi. Við byrjuðum á að spyrja hann út í gagnrýni á endurvigtunarkerfið.

„Þetta er náttúrulega það sem ég er búinn að segja frá því að ég byrjaði að vinna hérna, að þetta er stór hætta. Við getum aldrei fullyrt að þetta sé undanskot. Af því að það er ekkert sem sýnir fram á það, þetta eru bara tölur og mismunur. Það sem við fengum þó inn með þeirri lagabreytingu sem þú nefndir síðast var það að þegar munur er þannig að hann krefjist sérstakrar skoðunar, þá höfum við heimild til að standa yfir vigtun hjá vigtunarleyfishafa í allt að sex vikur á hans kostnað. Þannig að við erum farin að beita þessu og það auðvitað strax á þriðja degi er komið jafnvægi á,“ segir Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu.

En bendir það ekki til þess að menn hafi verið að svindla, þegar fer að balanserast út þegar þið standið yfir? „Ja, það verður bara hver og einn að draga sínar ályktanir af því, ég get ekki haldið því fram vegna þess að það er ekkert sem sannar það,“ segir Eyþór.

Tímafrekar rannsóknir

Þegar talið berst að rannsókn stórra brotamála og niðurfellingu bakreikningsmálanna fimm þarf enginn lengur að velkjast í vafa um það að stjórnvöldum hefur verið það fullkunnugt í mörg ár að Fiskistofa hafi ekki geta rækt þá skyldu sína að rannsaka stór brotamál og ekki einu sinni reynt það.

„Við í rauninni gáfumst upp á þessu. Af þeirri ástæðu að þetta er mjög flókið og snúið. Sönnunarbyrðin gríðarlega erfið, af því að það er svo margt sem hægt er að draga í efa í svona útreikningum. Þessar rannsóknir bentu til umfangsmikilla brota og af því að þú nefnir fjárhæðir þá eru náttúrulega gríðarlegir peningar þarna í húfi,“ segir fiskistofustjóri.

„Ætli við höfum ekki bara verið búnir að gefast upp þá. Við vorum með fleiri mál í farvatninu sem við sáum að færu á sama veg. Ef við værum að tala um að taka svona rannsóknir upp aftur, þá myndi þurfa að kafa býsna vel ofan í regluverkið svo að það haldi. Þannig að það sé þá hafið yfir vafa þegar niðurstaða liggur fyrir,“ segir Eyþór og bætir við að það þurfi að horfa til þess að stofnunin hafi mannafla og þekkingu til að takast á við svona rannsóknir. „Eitt af því sem að sýndi sig var að þetta eru gríðarlega umfangsmiklar rannsóknir. Mjög mannaflafrekar. Gríðarlega tímafrekar í vinnslu.“

Ekki hefur verið ráðist í neinar stórar rannsóknir síðan þrátt fyrir að enn séu vísbendingar um að framhjálöndun eigi sér stað. „Ég held að það hafi nú lítið breyst í því í sjálfu sér. Þannig að grunur um brot kemur upp ennþá og framhjálandanir eiga sér ennþá stað, þannig að ég myndi telja fullt tilefni til þess að með einhverjum hætti að ná utan um þetta,“ segir Eyþór.

Hægt er að sjá lengri útgáfu viðtalsins við Eyþór í spilaranum að ofan.