Land­búnaðurinn að missa af lestinni

Hagfræðiprófessor óttast um framtíð íslensks landbúnaðar ef stjórnvöld móta ekki stefnu til framtíðar og breyta landbúnaðarkerfinu. 85% af styrkjum til bænda renna til framleiðslu á mjólk og rauðu kjöti.

Land­búnaðurinn að missa af lestinni

Neysluhættir Íslendinga hafa gerbreyst á undanförnum áratugum, og sífellt fleiri leggja áherslu á að borða grænmeti. En íslenska landbúnaðarkerfið virðist að mörgu leyti sniðið að kröfum neytenda á áttunda áratug síðustu aldar.

„Það byggir á stuðningi við tvær búgreinar, mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Stuðningur við aðrar greinar er mjög lítill," segir Daði Már Kristófersson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands. „Ég held að núverandi kerfi sé þannig að síðasti bóndinn slekkur ljósið."

Daði telur að kerfið gagnist fyrst og fremst þeim bændum sem bregða búi. Það standi í vegi fyrir eðlilegri þróun landbúnaðarins. Það er erfitt fyrir nýtt fólk að hefja búskap, og þeir sem vilja breyta um búskaparhætti ganga á vegg.

Eymundur Magnússon, bóndi í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, segist hafa mætt mikilli andstöðu þegar hann hætti kúabúskap og byrjaði að rækta lífrænt bygg og grænmeti.

„Fólki gengur illa að breyta í þessu samfélagi þar sem foreldrarnir sem eru að hætta að búa og nágrannarnir dæma þetta sem vitleysu. Og það er slæmt hvernig kynslóðirnar draga kjarkinn úr næstu kynslóð í staðinn fyrir að örva hana til nýsköpunar," segir Eymundur.

Landbúnaðarstefnu vantar

Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að kerfið eigi að styðja við bændur, en það þurfi að breyta því og færa til nútímalegra horfs. Hún hefur talað fyrir því að stjórnvöld móti landbúnaðarstefnu.

„Það er talað um að með hnattrænni hlýnunað þá komist matvælaframleiðsla til með að færast meira norður á bóginn, og hvað þýðir það? Ætlum við að vera partur af því?" spyr Guðrún.

Fjallað verður ítarlega um breyttar neysluvenjur og íslenska landbúnaðarkerfið í fréttaskýringarþættinum Kveik kl. 20.05.