*

Næsta stríð verður með bitum og bætum

Í seinni heimsstyrjöldinni var víglínan alveg skýr. En í stríði nútímans eru vopnin önnur, átökin seigfljótandi og óvinurinn illsýnilegur.

Þetta segir Laura Galante, sérfræðingur í tölvuógnum og upplýsingaóreiðu og bætir við að hún óttist að án skýrra merkinga og skilnings hafi hún áhyggjur af því að stefni í átök, sem getið vafið upp á sig án þess að nokkrum sé almennilega ljóst að átök séu hafin.

Hún segir þessi átök geta borið einkenni hefðbundins tölvuhakks eða glæpa. Flestir þekki dæmi um gagnaleka á undanförnum árum og hafi jafnvel lent í því að greiðslukortaupplýsingum hafi verið stolið. Glæpamenn reyni að komast yfir slíkar upplýsingar til að nota í ólögmætum tilgangi.

„En undanfarin fimm ár hafa ríki á borð við Rússland og Kína ítrekað stolið hugverkum, í tilviki Kína, og haft áhrif á pólitíska umræðu, í tilviki Rússa.

Gott dæmi eru forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016 þar sem Rússar notuðu herinn, hakkara, herleyniþjónustuna GRU, til að stela tölvupósti og hafa áhrif á umræðuna í kosningabaráttunni. Svo fólk hugsaði öðruvísi um Donald Trump, Hillary og Bernie. Og það er afbragðsdæmi um hvernig hægt er að grugga vatnið með stafrænum brögðum og hversu hratt það hefur gerst á fáum árum.“

Brögð af þessu tagi kalla fræðimenn „fjölþátta ógn“, því oftar en ekki er beytt fleiri en einni aðferð. Falsfréttum er dreift, kerfi sem stýra mikilvægum innviðum hökkuð og í sumum tilvikum eru málaliðar sendir með hefðbundin vopn, en án augljósrar tengingar við tiltekið ríki.

„Við gátum séð þetta fyrir. Til er afbragðstilvitnun í rússneskan hershöfðingja: Næsta stríð verður ekki háð með byssukúlum, heldur með bitum og bætum. Og í þeim heimi búum við núna.“

Fjallað er um fjölþátta ógnir, falsfréttir og tölvuhakk í Kveik í kvöld kl. 20.05 og spurt hvort Íslendingar þurfi að velta slíku fyrir sér.