Kanna hvort Auðun standist kröfur landlæknis

Sex einstaklingar hafa látist eftir að hafa undirgengist offituaðgerðir hjá íslenskum skurðlækni, Auðuni Sigurðssyni. Fjórir í Bretlandi og tveir á Íslandi.

Auðun heldur úti einkarekinni skurðstofu út frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, undir merkjum Gravitas, þar sem boðið er upp á ýmsar offituaðgerðir.

Auðun segist hafa gert 250 magaermaraðgerðir á Íslandi en mun fleiri í Bretlandi á meðan hann starfaði þar. Engar upplýsingar liggja fyrir um hversu margar aðgerðir hafa verið gerðar í heild. Það er hvergi skráð.

Mynd: Kveikur - RÚV

Úr offituaðgerð sem framkvæmd var á Landspítalanum. (Mynd Landspítali)

Maginn fjarlægður að hluta

Aðallega er um að ræða þrjár tegundir aðgerða: magaband, sem er ekki mjög mikið inngrip, svokölluð magaermi og loks hjáveituaðgerð. Konurnar sex, sem hafa látist, fóru allar í magaermaraðgerð, en þá eru 70-80% magans skorin burt og eftir er bananalaga sekkur sem minnir á ermi. Þetta er nokkuð stór skurðaðgerð.

Umræða um offituaðgerðir fer mikið fram á Facebook og ýmsum spjallsíðum, til að mynda í hópi fyrir sjúklinga Auðuns, sem dóttir hans stýrir. Viðmælendur Kveiks í þeim hópi segja margir að aðeins jákvæð umræða sé leyfð. Neikvæðum athugasemdum eða spurningum sé eytt. Á vef Gravitas eru einnig takmarkaðar upplýsingar. „Reynslusögur“ vísa á grein á Smartlandi og „Nánari upplýsingar“ um magaermi beinir fólki á Google leitarniðurstöður.

Offituaðgerðir eru gerðar á tveimur einkastofum hérlendis, Gravitas og Klíníkinni, sem og á Landspítalanum. Þar eru aðgerðir gerðar á þeim sem eru annað hvort í svo mikilli ofþyngd að það ógnar lífi þeirra eða þá að þeir glíma við alvarlega fylgikvilla offitu, svo sem áunna sykursýki og stoðkerfisvandamál.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala. (Mynd Stefán Drengsson/RÚV)

Getur bætt lífsgæði til muna

Vel undirbúin aðgerð með réttri eftirfylgni getur bætt lífsgæði fólks verulega, að sögn Ólafs Baldurssonar, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítalanum. „Já þetta er hugsað þannig að offþyngd af þessu tagi veldur margvíslegu heilsuleysi og það er talið mikilvægt að hjálpa fólki með það og þetta er ein aðferðin af mörgum,“ segir hann.

„En þá er auðvitað mikilvægt að hafa það í huga að þegar að þyngdin er orðin svona þá fylgja oft ýmsir aðrir sjúkdómar með. Nægir að nefna hjartasjúkdóma og sykursýki sem dæmi og þá gefur auga leið að það er sérstaklega mikilvægt að undirbúningur skurðaðgerðar sé vandaður og staðlaður, og hann er það hér hjá okkur á Landspítalanum,“ segir hann.

„Það er geysilega mikilvægt að huga vel að þessum fylgikvillum og sjúkdómum; bæði fyrir aðgerðina, í aðgerðinni sjálfri og, eins og þú segir, ekki síst eftir aðgerðina.“

Fyrir mann sem er 184 sentímetrar á hæð þarf hann að vera rúm 118 kíló til að komast í aðgerð hjá Landspítalanum. (Mynd Stefán Drengsson/RÚV)

Viðmiðin slakari á einkastofum

Á sjúkrahúsum er miðað við að fólk sé með BMI-stuðul, þyngd deilt með hæð í öðru veldi, í kringum 35-40. Karlmaður sem er 184 sentimetrar á hæð þyrfti því að vera rúm 118 kíló til að komast í slíka aðgerð á Landspítalanum.

Önnur viðmið eru á einkareknum stofum, enda eru bara í gildi viðmið en ekki reglur. Þar geta þeir sem eru óánægðir með útlit sitt, einnig undirgengist skurðaðgerðir sem ætlaðar eru of feitum. Fólk með þyngdarstuðul 30 gæti komist í aðgerð. Þá væri nóg fyrir mig að vera 102 kíló - en þá þarf ég líka að bera allan kostnaðinn sjálfur. Aðgerðir á Landspítala, sem gerðar eru vegna þess að ofþyngdin er talin ógna heilsu fólks, eru hins vegar niðurgreiddar.

Þrjú atvik tengd offituaðgerðum Auðuns eru nú til skoðunar hjá embætti landlæknis; dauðsföllin tvö í janúar og mars auk eins alvarlegs atviks sem tilkynnt var embættinu. Samkvæmt samtali við Auðun tilkynnti hann þriðja tilvikið sjálfur. Auk þessara tilvika skoðar embættið líka hvort starfsemi Gravitas standist þær kröfur sem gerðar eru til læknismeðferða á Íslandi.

Auðun vildi ekki veita Kveik viðtal; sagði of stutt liðið frá því að sjúklingarnir tveir létust og var ekki tilbúinn að ræða við okkur nema með því skilyrði að ekkert yrði tekið upp, hvorki hljóð né mynd, og ekkert eftir honum haft. Hann hafnaði sem sagt viðtali.

Birgir Jakobsson landlæknir. (Mynd Stefán Dregnsson/RÚV)

Skoða hvort starfsemin standist kröfur

Birgir Jakobsson landlæknir segir það taka tíma að fara í gegnum kvartanamál. Það sé ákveðið ferli sem tekur því miður tíma vegna þess að gögn þurfi að fara á milli aðila og að uppfylla þurfi ákvæði stjórnsýslulaga um málsferðerð. „Og það tekur tíma,“ segir hann. „Ég er ekki viss um að það þurfi að taka svo langan tíma áður en við erum komin til botns í því hvort þessi starfsemi sé að uppfylla þær kröfur, þær gæðakröfur og þær öryggiskröfur, sem embættið á að gera.“

Það er sem sagt til rannsóknar? „Það er til rannsóknar, alveg klárlega. Og við erum að ræða þessi mál af fullri alvöru í dag vegna þess að ég hef verulegar áhyggjur af þessu,“ segir hann.

Birgir segir að það sé bara nýlega farið að bera á kvörtunum vegna aðgerðanna. „Við höfum raunverulega fengið mjög lítið af kvörtunum um þessar aðgerðir yfirleitt og kemur mér á óvart að núna virðist koma upp á yfirborðið töluvert af vandamálum sem þessir sjúklingar hafa lent í eftir aðgerðina,“ segir hann.

„Þannig ef við vitum ekkert um það þá er ekkert gert í því en núna erum við að athuga þessi mál og við munum fara í saumana á þeim atvikum sem hafa gerst en líka taka á þeim kvörtunum sem hafa gerst en ég vil hvetja fólk ef það er með eitthvað sem hefur farið úrskeiðis eða eitthvað slíkt, þá verðum við að vita af því til að geta tekið á málunum og fengið einhverja hugmynd um það hversu algengt það er.“

Stuttur undirbúningstími

Eitt af því sem er til skoðunar er hversu stuttur tími er á milli þess að sjúklingar fara í viðtal hjá Gravitas og þar til þeir fara í aðgerð. Dæmi eru um að það séu aðeins tvær vikur á milli. Einnig er verið að skoða hvernig eftirmeðferð er háttað, en hún er mjög mikilvægur liður í því að aðgerðin beri árangur.

„Eins og þú lýsir þessu er það langt frá því að vera eins og sá standard sem ég hef kynnst og veit að er gerður á þeim stöðum sem hafa framkvæmt þessar aðgerðir þar sem ég þekki til. Þannig nei, þetta getur ekki verið gott system,“ segir Birgir.

Aðgerðirnar eru flestar gerðar á skurðstofu á Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. (Mynd Stefán Drengsson/RÚV)

Kanna ábyrgð HSS

Auðun gerir flestar sínar aðgerðir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sem réðst í tækjakaup til að geta leigt Gravitas skurðstofu. Í samningum stofnunarinnar við Gravitas er gert ráð fyrir fimm til sex aðgerðadögum í mánuði og að gerðar séu sex magabandsaðgerðir og tvær ermaaðgerðir að meðaltali þessa daga. Samningurinn hefur verið endurnýjaður þrisvar sinnum frá því að fyrst var skrifað undir 6. maí árið 2015.

Samningurinn gerir ráð fyrir að hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og annað starfsfólk Heilbrigðisstofnunarinnar, fyrir utan lækna, komi að meðferð þeirra sjúklinga Auðuns sem þurfa að leggjast inn og undirgangast svæfingu. Læknisfræðileg ábyrgð hvílir hins vegar á Auðuni sjálfum. Landlæknir skoðar nú hvort stofnuninni sé stætt á að firra sig allri ábyrgð og líta á sig sem hvern annan leigusala.

„Það sem ég er að velta, og við erum að velta, fyrir okkur ef viðkomandi læknir er með samning við heilbrigðisstofnun: Hver er þá ábyrgð heilbrigðisstofnunar líka að þessi starfsemi er rekin innan þeirra vébanda og það er hlutur sem ég myndi vilja skoða. En ábyrgðin augljóslega fyrir hverri aðgerð er í höndum viðkomandi læknis,“ segir landlæknir.

Reyna að finna út fjölda aðgerða

En, höfum við hér heima einhverja hugmynd um hversu margir hafa farið í offituaðgerðir? „Ég er hræddur um ekki. Að við höfum það ekki. Við höfum ekki einu sinni góða mynd af því hvað margar aðgerðir við erum að gera hér á landi og af hvaða sort. Við erum að vinna í því núna að fá hugmynd um þetta og þetta er náttúrulega afleitt ástand,“ segir Birgir og heldur áfram:

„Og ég verð að segja það að ef fólk er að fara í svona aðgerðir erlendis og án þess að hafa hugsað málið vel og vendilega, af því ég veit að ef þetta ferli á að vera gott frá byrjun til enda þá er löng meðferð áður en þú ferð í, og aðlögunartímabil áður en þú ferð í aðgerð. Og síðan er mjög mikilvægt að þú hafir eftirmeðferð sem er líka ekki bara að fylgjast með afleiðingum aðgerðarinnar – sem er nauðsynlegt – en líka til að hjálpa að breyta þínum lífsstíl. Því að aðgerðin ein og sér er ekki nóg til þess að ná árangri. Þú verður líka að leggja eitthvað af mörkum sjálfur.“

Tölvupóstsamskipti Kveiks við norska ferðaskrifstofu. (Mynd Stefán Drengsson/RÚV)

Hægt að fara í aðgerð úti

En það eru ekki bara læknar á Íslandi sem bjóða Íslendingum offituaðgerðir. Norsk ferðaskrifstofa, með íslenskan tengilið, selur ferðir í aðgerðir í Lettlandi. Þar eru mörkin dregin við þyngdarstuðulinn 33. Ef ég væri í kringum 110 kíló kæmist ég sem sagt í aðgerð. Þegar íslenskur starfsmaður ferðaskrifstofunnar var spurður um eftirfylgni var svarið einfalt: „Við bjóðum því miður ekki upp á neina formlega eftirfylgni enn sem komið er.“

Ef eitthvað kemur upp á eftir aðgerð, þá er það opinbera heilbrigðiskerfið á Íslandi sem tekur við og veitir viðeigandi meðferð - bæði vegna aðgerðanna í Lettlandi og einkaaðgerða Gravitas. Svo einfalt er það og gildir um allar aðgerðir „Þegar eitthvað kemur upp á í einkarekinni starfsemi hef ég á tilfinningunni að manni sé nánast vísað bara á bráðamóttöku Landspítalans og svo framvegis,“ segir Birgir landlæknir.

Í Noregi og Svíþjóð bera sérfræðilæknar sem gera aðgerðir í einkarekstri, ábyrgð á eftirmeðferðinni. Ef sjúklingar þeirra þurfa að leggjast inn á sjúkrahús vegna fylgikvilla eða mistaka, ber fyrirtæki læknisins kostnaðinn af því. Þannig er það ekki hérlendis og svo virðist sem ýmislegt sé óljóst í samningum Sjúkratrygginga Íslands við einkarekin fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. Nánar verður fjallað um þetta á vef Kveiks, á næstu dögum.