„Stundum mistekist í kirkjunni að breyta rétt“

Þegar Agnes M. Sigurðardóttir var svarin í biskupsembætti sumarið 2012, var kirkjan í vanda stödd.

Gömul hneykslismál, fyrst og fremst tengd Ólafi Skúlasyni, fyrrverandi biskupi, höfðu skekið kirkjuna enn á ný. Eftirmaður Ólafs, Karl Sigurbjörnsson, hafði hrökklast úr embætti vegna gagnrýni á hvernig hann vann úr því máli.

Séra Agnes átti að boða nýja tíma: kona úr lítill sókn utan af landi, ekki beintengd þeim átökum og hneykslismálum sem valdið höfðu brotthvarfi úr kirkjunni og óánægju með stofnunina.

Frá því að Agnes var sett í embætti biskups. (Mynd RÚV)

En sex árum síðar er krísa kirkjunnar engu minni. Tíu þúsund færri eru í þjóðkirkjunni nú en þegar Agnes tók við embætti og hún sjálf hefur sætt gagnrýni fyrir bæði orð og gjörðir. Agnes er auk þess líklega sá biskup sem Íslendingar þekkja minnst, vita lítið um hana sjálfa og litlu meira um fyrir hvað hún stendur sem biskup – hverju hún vill breyta og fá áorkað í embættinu.

Hörð pólitísk barátta

Í viðtali við Kveik talar hún um pólitíska valdabaráttu innan kirkjunnar, sem sé stundum harðari en á Alþingi.

„Þetta er bara mjög einkennilegt og að sumu leyti held ég að þetta sé arfur frá tíma sem var. Og er að deyja út, í okkar menningu. Að fólk sé með einhver átök um nánast ekki neitt. Og treysti því ekki að náunginn sé að leggja sig fram um að gera vel. Þetta hefur svolítið með traustið að gera líka. Við treystum ekki hvert öðru nógu vel. Og við höldum stundum að það sé eitthvað annað á bak við. Mér finnst þetta bar svolítið meira eins og leikur hjá sumum. Þetta er svona eins og leikrit sem er sett í gang. Ég er nú svo barnaleg. Mér finnst það bara,“ segir Agnes.

Agnes ræðir við Ingólf Bjarna í Bolungarvík. (Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Kirkjunni hefur mistekist

Þegar talið berst að fólksflóttanum úr kirkjunni segir Agnes það ekki séríslenskt vandamál, heldur þekkist brotthvarf úr kirkjum alls staðar á Vesturlöndum. En hún viðurkennir að margir gangi úr kirkjunni því þeim ofbjóði eitthvað, ekki síst tengt erfiðum málum sem kirkjan hafi glímt við.

„Og það er nú þannig þegar erfið mál koma upp, að þá eru að minnsta kosti tvær skoðanir en oft fleiri skoðanir um málið. Og við erum kannski ekki besta markaðsfólk í heimi í kirkjunni til að koma réttum skilaboðum frá okkur. Okkur hefur líka stundum mistekist í kirkjunni, að breyta rétt eða fara rétt með mál og svo framvegis. Og fólki ofbýður það líka,“ segir hún.

Traustið hrynji þegar atburðir verði, það hafi sennilega gerst innan kirkjunnar. Til að byggja það traust upp á ný þurfi samstillt átak allrar kirkjunnar.

Þetta er karlastofnun, segir Agnes um kirkjuna. (Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Finnur fyrir kvenfyrirlitingu

Á ýmsu hefur gengið frá því að Agnes varð biskup 2012 og sjálf talar hún um árásir. Hún segist líka hafa fundið fyrir kvenfyrirlitningu.

„Ég finn fyrir stundum að ég sé kona, það er alveg rétt. Þetta er karlastofnun og maður gengur inn í karlasamfélag og karlamenningu, má segja. Þannig að það hefur örlað á því já, að ég hafi fundið fyrir kvenfyrirlitningu,“ segir hún.

Vandi kirkjunnar birtist líka í því að kallað er eftir aðskilnaði ríkis og kirkju. Meira en helmingur aðspurðra svaraði því til í könnun í fyrra að hann styddi aðskilnað ríkis og kirkju. Það kemur kannski einhverjum á óvart að heyra að þessi skoðun á sér líka marga stuðningsmenn innan kirkjunnar – þar á meðal biskup.

Agnes lýsir stöðunni sem svo, að með breyttum lögum um kirkjuna og samkomulagi í tengslum við þau árið 1997, hafi ríki og kirkja skilið að borði og sæng, en fullur aðskilnaður hafi ekki farið fram, hinn eiginlegi lögskilnaður. Kannski yrði slíkur skilnaður til þess að sambandið milli þjóðar og kirkju yrði betra, að mati Agnesar Sigurðardóttur, biskups Íslands.