Hvað er í dópinu sem flæðir inn í landið?

Þeir sem nota hvers kyns fíkniefni geta ekki treyst því að efnið sem þeir hafa undir höndum sé það sem þeir halda að það sé. „Það tíðkast alveg að ljúga og svíkja þarna, á þessum markaði,“ segja menn sem stofnuðu fyrirtæki sem sérhæfir sig í innflutningi á vímuefnaprófum.

Í Kveik sem var á dagskrá á þriðjudaginn var fjallað um fíkniefnaheiminn á Íslandi, með áherslu á ópíóíða á borð við oxycontin. Garibaldi Ívarsson, viðmælandi í þættinum sem á langa neyslusögu að baki, fullyrti að hér á landi væru til sölu töflur sem sagðar eru vera oxycontin, en eru í raun blandaðar með fentanýli. Fentanýl er afar sterkt verkjalyf, margfalt sterkara en oxycontin, og stórhættulegt.

Hér er hægt að sjá umfjöllunina í heild.

Fyrir nokkrum misserum stofnuðu Kristinn Ingvarsson og Andri Einarsson fyrirtækið varlega.is, sem sérhæfir sig í innflutningi á vímuefnaprófum.

„Sem eru sem sagt ætluð til þess að prófa vímuefni, en ekki til að prófa fólk,“ segir Kristinn.

„Við hugsum þetta sem gæðaeftirlit,“ segir Kristinn um vímuefnaprófin. „Fólk fær þarna möguleikann á að taka gæðaeftirlit í eigin hendur. Af því að á svörtum markaði vímuefna er ekkert gæðaeftirlit eða vottanir eða innihaldslýsingar sem þú getur treyst. Og það tíðkast alveg að ljúga og svíkja þarna, á þessum markaði.“  

Þannig að þetta snýst í grunninn um að fólk geti athugað hvort efnið sem það er með í höndunum sé það sem það heldur að það sé?

„Já. Það er kannski fyrsta skrefið, að vera viss um að þú sért með það sem þú ætlar þér að vera með. Og svo geturðu gengið lengra og skimað fyrir mögulegum óæskilegum íblöndunarefnum,“ segir Kristinn.

Þeir Kristinn og Andri segja að svikin geti átt sér stað hvar sem er í keðjunni, allt frá þeim sem framleiða efnin í byrjun, og til þeirra sem selja notendunum þau.

„Og ekkert á Íslandi endilega,“ segir Andri. „Það getur þess vegna bara verið í  einhverju öðru landi.“

Já áður en efnin eru flutt til landsins?

„Já.“

Í myndskeiðinu hér að ofan sýna þeir félagar hvernig prófin virka.