Hvað er Byrjendalæsi?

Við Miðstöð skólaþróunar á Akureyri var upp úr aldamótum búin til viðamikil lestrarkennsluaðferð sem hefur verið kölluð Byrjendalæsi. Sumarið 2015 birti Menntamálastofnun úttekt á Byrjendalæsinu - en þá hafði um helmingur grunnskóla á landinu innleitt það.

Samkvæmt úttektinni reyndist marktækur munur á árangri þeirra barna sem lærðu að lesa með þeirri aðferð, á samræmdum prófum í 4. bekk. Einkunnir þeirra voru að meðaltali einu stigi lægri en barna sem ekki höfðu lært að lesa með Byrjendalæsi.

Freyja Birgisdóttir, dósent í sálfræði og læsissérfræðingur við Háskóla Íslands. (Mynd Kveikur/RÚV)

Raunprófa þarf aðferðir

Freyja Birgisdóttir, dósent í sálfræði og læsissérfræðingur við HÍ, segir mikilvægt að leik- og grunnskólakennarar hafi aðgang að aðferðum sem hafa verið raunprófaðar. Við þurfum að vera miklu ákveðnari í því að meta það sem við erum að nota.

„Það átti bara að staldra aðeins við, prófa þetta kannski í nokkrum skólum og meta árangurinn. Og laga það sem þurfti að laga og halda svo áfram. Þetta eru fagleg vinnubrögð. Svona finnst mér að við eigum að vinna allt sem við gerum í menntakerfinu,“ segir hún.

Dr. Hermundur Sigmundsson, sem gerði stóra lesrannsókn á norskum börnum, segir að skólinn eigi að nota aðferðafræði sem byggist á fremstu rannsóknum.

„Við verðum að kenna bókstaf - hljóð í byrjun. Það er búið að sanna vísindalega að það er betra að nota þá aðferðafræði Þannig að ég set svolítið spurningamerki við að vera að nota aðrar aðferðir en mest viðurkenndustu fræðimenn í heiminum og þeirra rannsóknir sýna fram á að við ættum að nota,“ segir hann.

Ragnheiður L. Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Miðstöð skólaþróunar og læsissérfræðingur við Háskólann á Akureyri. (Mynd Kveikur/RÚV)

Vert að skoða býsna margt í skólakerfinu

En hvað er byrjendalæsi? Ragnheiður L. Bjarnadóttir er ráðgjafi hjá Miðstöð skólaþróunar og aðstoðar skóla um allt land við innleiðingu og eftirfylgni Byrjendalæsis. Hún telur misskilnings gæta í umræðum um aðferðina. Hún sé víðtækari en hljóðaaðferðin, en ekki andstæða hennar.

„Það er enginn ágreiningur um það hvort hljóðaaðferð skiptir máli eða ekki. Hljóðaaðferð skiptir máli. Það er að segja vinna með stafi og hljóð, hljóðvitund skiptir grundvallarmáli. Og þess vegna er það ríkur þáttur inni í Byrjendalæsinu, en samhliða öllum hinum þáttum tungumálsins,“ segir hún.

Hefði ekki þurft að raunprófa aðferðina áður en helmingur grunnskóla á landinu tók hana upp? Ragnheiður, sem er læsissérfræðingur við Háskólann á Akureyri, segir að það megi taka undir það.

„Í rauninni er bara vert að skoða býsna margt sem er í gangi í skólastarfi, vegna þess að þetta er ekki þannig að þú kaupir einhverja pillu og gefir barninu og þar með breytist allt af því að það er búið að rannsaka þessa litlu pillu,“ segir hún.

„Það sem gerist með Byrjendalæsi er jú öll þessi forvinna og rannsóknarvinna sem á sér stað í ferlinu við að taka þetta saman undir þennan hatt. Þetta byggir ekki á veikum grunni, en það er algerlega rétt hjá þér og auðvitað á að ræða það hvað menn fara af stað með og á hvaða forsendum og hvernig er búið að prófa það, engin spurning.“

Hefði átt að meta áhrifin betur. (Mynd Kveikur/RÚV)

Í úttekt Menntamálastofnunar frá 2015 segir: Innleiðing Byrjendalæsis hófst fyrir 10 árum. Ætla mætti að eftir svo langan tíma lægi fyrir fræðilegt mat á árangri sem skólar gætu tekið afstöðu til. Ekki síst þegar um er að ræða aðferð sem innleidd hefur verið í um helming íslenskra grunnskóla.

Við spyrjum Freyju hvort það ætti þá ekki að vera komið mat á það núna, 2018?

„Jú, það ætti, ef vel ætti að vera. Ég er alls ekki að segja að Byrjendalæsi virki ekki eða að það sé Byrjendalæsi að kenna að börnin séu ekki að taka nógu miklum framförum, alveg svo það sé á hreinu,“ segir hún.

„En jú, mér hefði fundist að það hefði átt að meta áhrifin betur. Það hefur verið gert eitthvað. Aðallega þá með því, held ég, að skoða það hvernig kennurum hefur líkað að nota það, en það hafa verið takmarkaðar athuganir á því hvaða áhrif þetta hefur á framfarir barnanna.“

Þessi umfjöllun er hluti af umfjöllun Kveiks um læsi á Íslandi.