Sömu athugasemdir verið gerðar áður

Skipan dómara á Íslandi hefur um árabil verið umdeild. Framan af var það einfaldlega í höndum sitjandi ráðherra að velja dómara og það gerðu þeir oftar en ekki eftir eigin geðþótta. Sú leið er hins vegar hæpin fyrir margra hluta sakir – og jafnan talin einkenni vanþróaðra lýðræðisríkja.

Sömu athugasemdir verið gerðar áður

Þess vegna hafa vel flest Evrópuríki reynt að takmarka þessi völd stjórnmálamanna að forskrift Evrópuráðsins. Í stað þess að ráðherrarnir – eða pólitíkusarnir – taki ákvarðanir um dómaraskipanir er valdið fengið sérstökum hæfisnefndum. Vísir að slíkri hæfisnefnd varð til árið 1989 á Íslandi.

Áratug síðar var enn skerpt á hlutverki hennar, með því fororði að mikilvægt væri að tryggja frá framkvæmdavaldinu.

Slegið á fingur fyrri ráðherra

Það hefur engu að síður ítrekað gerst að ráðherra hunsaði hæfismat og skipaði einhvern sem ekki var talinn hæfastur í dómaraembætti. Þannig var með skipan Ólafs Barkar Þorvaldssonar árið 2003, skipan Jóns Steinars Gunnlaugssonar árið 2004 og Þorsteins Davíðssonar árið 2007. Tengsl og vensl við fyrrverandi forsætisráðherra urðu ekki til að draga úr tortryggninni.

Í álitum Umboðsmanns alþingis vegna skipana Ólafs Barkar og Þorsteins Davíðssonar var ekki efast um að ráðherra væri óbundinn af áliti hæfisnefndarinnar. Hins vegar var bent á það að ráðherra þyrfti að sýna fram á það hvers vegna hann hefði komist að annarri niðurstöðu en hæfisnefndin.

Hæstiréttur komst að efnislega sömu niðurstöðu þegar hann dæmdi umsækjanda í máli Þorsteins Davíðssonar bætur vegna skipunar hans í embætti. Þessi sömu atriði urðu til þess að skipan dómara í Landsrétt endaði fyrir dómi á síðasta ári.

Vildu girða fyrir geðþóttaákvarðanir

Í millitíðinni hafði lögum enn verið breytt; síðast árið 2010. Markmið breytinganna þá var meðal annars að tryggja það að dómsmálaráðherra gæti ekki skipað að eigin geðþótta einhvern úr hópi umsækjanda sem metinn hafi verið hæfur.

Sigríður telur að breyta þurfi lögunum aftur til að hægt verði að skapa frið um skipan dómara. Hún segist sjálf geta leitt þá vinnu og telur dóma Hæstaréttar yfir störfum sínum ekki gera hana vanhæfa til þess en segist myndu fagna því ef Alþingi gerði það.

„Ráðherra dómsmála þarf auðvitað líka að tryggja að það standi ekki styr hér trekk í trekk um skipanir. Og ef að þingið ætlar ekki að taka eitthvað frumkvæði í þessu máli þá mun ég auðvitað leggja það til við þingið. En ég mun ræða þetta við þingið núna í framhaldinu,“ segir hún.