Hálf sorgbitin að tala við þær

Yfir sex hundruð íþróttakonur sóttu um að taka þátt í íslenskri rannsókn á afleiðingum höfuðhögga og heilahristings. Fjöldinn kom vísindamönnunum á óvart, sem og fjöldinn sem lýsti alvarlegum einkennum. Stór hluti reyndist hafa orðið fyrir heiladingulsröskun, sem hefur áhrif á hormónaframleiðslu líkamans. Hafrún Kristjánsdóttir, doktor í sálfræði og sviðsstjóri íþróttafræðisviðs HR, segir augljós tengsl milli heilahristings og geðheilbrigðisvandamála.

„Við erum að sjá það í rannsóknum okkar til dæmis, að þær konur sem hafa fengið eða eru með heilahristingssögu, skulum við segja, hafa fengið einn eða fleiri heilahristinga, eru í margfalt meiri hættu á að fá þunglyndi og kvíða. Þær eru fjórum sinnum líklegri til að skora yfir því sem við köllum klínísk viðmið á þunglyndi. Og næstum því þrisvar sinnum líklegri til að skora yfir klínískum viðmiðum á kvíða. Og þetta er bara, hvort þú hafir fengið heilahristing eða ekki, bara fyrir jafnvel mörgum árum. Þannig að við sjáum að það eru alveg augljós tengsl við geðheilbrigðisvandamál síðar á lífsleiðinni“ segir Hafrún.

Helga Sigurjónsdóttir, innkirtlalæknir og prófessor við Háskóla Íslands, er meðal þeirra sem hafa rannsakað hormónaröskun íþróttakvenna. Fyrstu niðurstöður koma henni á óvart en hún segir að þær kalli jafnframt á frekari rannsóknir.

„Einkennin sem þær hafa eru alveg lygilega sterk. Maður verður eiginlega hálf sorgbitinn þegar maður talar við þær. Mikil þreyta, einbeitingarleysi, minnisleysi, það geta verið blæðingartruflanir. Þær hafa kannski dottið út úr vinnu, dottið út úr skóla. Þær hafa ekki getað stundað íþróttirnar sínar. Þetta eru hörkunaglar, þessar stelpur. Þetta eru íþróttakonur og það þarf mikið til að láta þær hætta, sérstaklega í íþróttinni sinni.“

Í Kveik í kvöld verður fjallað rannsóknina, rætt við vísindamennina sem að henni standa og fleiri íþróttakonur sem glíma við erfiðar afleiðingar höfuðhöggs.