Hættulegustu eldfjöllin að undirbúa gos

Hvað myndir þú gera ef eldgos hæfist í dag? Rjúka af stað til að sjá herlegheitin? Þannig bregðast í það minnsta margir Íslendingar við enda eru eldgos tilkomumikil, magnþrungin og á köflum stórkostleg. En eldgos eru stórhættulegar hamfarir og geta ógnað lífi í byggðum þessa lands.

Segja má að nú sé sú óvanalega staða að fimm öflugustu og virkustu eldfjöll landsins eru tilbúin eða að búa sig undir að gjósa. Sérstaklega náið er fylgst með þeim enda skiptir miklu máli hvernig brugðist verður við yfirvofandi eldgosi. Hvaða fjöll eru þetta og hvers er að vænta af þeim? Og hvernig eigum við að búa okkur undir það sem fylgir?

„Ég hélt að það væri dautt“

Í Öræfum og byggðunum þar í kring verður fólk vart við jarðskjálfta í Öræfajökli. Fjallið er að búa sig undir eldgos, nokkuð sem fáir hugsuðu um fyrir nokkrum árum enda gýs ekki nema á 500 til þúsund ára fresti þarna.

„Ég hélt að það væri dautt, ég spáði ekkert í það meira,” segir Rósa Guðrún Daníelsdóttir, bóndi á Hnappavöllum. „Ég hef ekkert voða miklar áhyggjur af þessu, þetta er bara, vonandi verður bara ekkert gos.“

Sigurgeir Thoroddsen jöklaleiðsögumaður hefur heldur ekki áhyggjur. „Ja maður vissi svo sem að það gæti ekki verið alveg útdautt en hérna maður var ekkert búinn að vera að velta því fyrir sér í rauninni, það var bara þarna.“

Sigurgeir Thoroddsen jöklaleiðsögumaður. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsso/Kveikur)

„Ég trúi því að það verði eitthvað mikið sem muni gerast áður en að það fer að gjósa þannig að maður fær einhverjar viðvaranir. Maður fylgist náttúrulega með og svona passar að vita hvað er í gangi,“ segir Sigurgeir.

Í árslok 2016 fór þessi hrikalega eldstöð, í hæsta fjalli landsins, að láta vita af sér með jarðskjálftum og hefur síðan sýnt merki þess að  hún sé að búa sig undir eldgos. Þá þurfti að hafa hraðar hendur, enda engin viðbragðsáætlun til. Útbúin var neyðaráætlun og hún kynnt íbúum.

„Við höfum auðvitað einhverjar svona hugmyndir um skipulagið, hvernig við ætlum að vinna og annað slíkt,“ segir Víðir Reynisson, sem sinnir almannavörnum á Suðurlandi. „En þessi útfærsla, hvað fólkið á að gera, það vinnst í samvinnu við það.“

Stærsta eldfjallið að undirbúa sig

Öræfajökull er stærsta eldfjall landsins. Eldstöðin liggur utan við hin hefðbundnu gosbelti. Þetta er virk eldstöð í ætt við Snæfellsjökul nema bara miklu stærri. Öræfajökull hefur aðeins tvisvar gosið frá landnámi, 1362 og 1727.

Gosið 1362 er líklegast það mannskæðasta sem orðið hefur á Íslandi frá landnámi en talið er að 20 til 40 bæir hafi sópast burt í gríðarlegu gjóskuhlaupi sem steyptist niður hlíðar fjallsins á ógnarhraða. Hlaupið og gjóskuflóðin eyddu byggð í Litla-Héraði og sveitin var eftir það nefnd Öræfi. Gosið 1727 var miklu minna, álíka stórt og gosið í Eyjafjallajökli 2010.

Öræfajökull er stærsta eldfjall landsins. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

Páll Einarsson jarðfræðingur segir að haustið 2016 hafi lifnað yfir Öræfajökli. „Við sáum aukningu í skjálftavirkni og síðan hefur hún verið nokkuð stöðug,“ segir hann. „Hann virðist hafa byrjað að tútna þarna um áramótin 2016-17 og hefur verið að gera það alveg síðan og er sem sagt á fullri ferð núna.“

Það að hann tútni út þýðir að hann sé að búa sig undir gos. „Ég held að það fari ekkert á milli mála,“ segir Páll.

Gera ráð fyrir hinu versta

Víðir segir að áætlanirnar miðist við verstu sviðsmyndina. „Við höfum mikið horft til gossins 1362 og auðvitað er mikið horft á það í hættumatinu og þá bæði þær hlaupaleiðir vatns sem getur komið,“ segir hann.

Víðir Reynisson sinnir almannavörnum á Suðurlandi. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

„Það eru þessi ógnvænlega gjóskuhlaup þar sem eldskýin fara niður fjallið á ógnarhraða og svo þetta óhemju öskufall sem fylgdi því gosi. Það sem færði heila sveit hérna á kaf í ösku, ef svo má segja.“

Rósa Guðrún segist ekki vilja hugsa til þess að þetta endurtaki sig. „Ég er voða hrædd að það mundi auðvitað hafa mikil áhrif á allt atvinnulífið, allt bara lífið hér í sveitinni. Ég veit ekki hvort það yrði eitthvað hægt að búa hér, ég veit það ekki næstu árin,“ segir hún.

Páll bendir á að þróunin geti tekið mörg ár. „Þegar Eyjafjallajökull sýndi sömu merki – þetta var um 1992 – og það tók síðan 18 ár fyrir eldfjallið að ná upp þrýstingi til þess að halda uppi gosi,“ segir hann.

„Þannig að 18 ár voru það í Eyjafjallajökli og það gæti allt eins verið eitthvað svipað í Öræfajökli.“

Fjögur önnur fjöll í vöktun

Öræfajökull er ekki eina eldstöðin á Íslandi sem er að búa sig undir eldgos. Fjórar aðrar eru vaktaðar sérstaklega enda eru þær virkustu eldstöðvar landsins.

Á Íslandi eru fjölbreyttari eldfjöll en annars staðar í heiminum og eldvirknin er mikil. Það gýs að meðaltali þriðja hvert ár, stundum líða aðeins mánuðir milli eldgosa en svo kemur fyrir að það líði mörg ár á milli gosa.

Þetta eru eldfjöll landsins. Þau rauðu hafa gosið frá landnámi en stóru deplarnir eru virkustu eldstöðvar landsins. (Mynd RÚV/Kveikur)

Það eru meira en þrjátíu virkar eldstöðvar á Íslandi en eldstöð telst virk ef hún hefur gosið einhvern tímann á síðustu 10.000 árum. Sumar eldstöðvanna hafa ekki gosið í háa herrans tíð, teljast nánast sofandi, eins og Snæfellsjökull og Hengill.

Átján eldstöðvar hafa gosið frá landnámi. Sumar þeirra gjósa bara á nokkur hundruð ára fresti eins og Heimaey, Eyjafjallajökull og Reykjanes.

Svo eru þær sem að jafnaði gjósa á nokkurra áratuga fresti. Þær teljast mjög virkar og sérstaklega er fylgst með þeim. Þetta eru Bárðarbunga, Grímsvötn, Hekla og Katla.

Á sama tíma og Öræfajökull sýnir merki þess að kvika sé á hreyfingu undir jöklinum sýna tvær systureldstöðvar hans í Vatnajökli - Bárðarbunga og Grímsvötn - að þær eru líka að gera sig klárar.  

Gæti sett allt raforkukerfið úr skorðum

Bárðarbunga er stærsta eldstöð landsins. Askja eldfjallsins er 65 ferkílómetrar og eldstöðvarkerfið er 190 kílómetra langt og um 25 kílómetra breitt. Vitað er um að minnsta kosti 26 eldgos í eldstöðvarkerfi Bárðarbungu frá landnámi.

Síðast gaus Bárðarbunga 2014 þegar sprunga opnaðist fyrir utan jökulinn, í Holuhrauni og úr varð hraungos. Eldgos í öskjunni sjálfri, það er í jöklinum, yrði hins vegar sprengigos og mikil hætta er á að slíku gosi fylgi stór jökulhlaup, jafnvel hamfaraflóð.

Páll Einarsson jarðfræðingur. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

„Bárðarbunga vissulega á til alveg stórhættulega hegðun,“ segir Páll. „Bárðarbunga gæti með einum atburði nánast sett allt raforkukerfi á landinu út úr fúnksjón.“

„Hún náttúrulega gaus þessu gosi, Holuhraunsgosinu, 2014 til 2015 sem að er stærsta gos á Íslandi og Evrópu líka síðan í Lakagígagosinu. En fljótlega eftir að hún jafnaði sig eftir það gos þá byrjuðu skjálftar að vaxa aftur í eldstöðinni og hún sýnir öll merki um það að hafa verið að þenjast út síðan.“

Sýnir öll merki gosundirbúnings

Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins, þar hefur líklega gosið hátt í hundrað sinnum frá landnámi, þar af þrettán sinnum frá árinu 1902. Eldstöðvarkerfið er meira en 100 kílómetra langt og nær suður fyrir Lakagíga. Gosum í Grímsvötnum fylgja jökulhlaup. Stærstu Grímsvatnahlaupin geta orðið fremur stór eins og gerðist til dæmis 1996.

Eldgos í Grímsvötnum eru oftast nær lítil en svo getur eldstöðin valdið meiri háttar hamförum eins og Skaftáreldum. Þeir eru með mestu hamförum sem orðið hafa á Íslandi og höfðu áhrif á veðurfar um allt norðurhvel jarðar á 18. öld.

Grímsvötn gusu síðast fyrir sjö árum síðan. (Mynd RÚV)

Grímsvötn gusu síðast 2011 en í því gosi varð mikið öskufall í byggð, sem telst fremur óvanalegt.

„Það eldfjall er líka að tútna út,“ segir Páll. „Þar er vaxandi skjálftavirkni og við sjáum landris á mælitækjunum sem eru á barmi öskjunnar í Grímsvötnum. Grímsvötn sýna öll merki um það að vera búa sig undir næsta gos.“

Dottin úr taktinum

Katla er sennilega hættulegasta eldfjall landsins. Ástæður þess eru aðallega tvær; eldvirkni fjallsins er mikil og hún liggur svo nálægt byggð.

Kötlugos framkalla mjög stór jökulhlaup, þau stærstu sem verða á jörðinni, og aðeins líða um það bil ein til þrjár klukkustundir frá því að gos hefst og þar til hlaupið hefur náð út í sjó. Gos í Kötlu eru jafnan sprengigos þótt það þekkist að gosið hafi utan jökuls eins og gerðist í Eldgjárgosinu 934.

Katla hefur síðustu aldirnar gosið mjög reglulega, á um það bil fimmtíu ára fresti. Nú eru hins vegar hundrað ár frá því hún gaus síðast.

„Við þurfum að hafa það í huga með Kötlu að hún er núna dottin út úr sinni rútínu hún er hætt að haga sér eins og hún gerði og þegar eldfjall gerir það þá veit maður ekki hverjum fjandanum hún tekur upp á næst,“ segir Páll.

30 kílómetra gosmökkur

Hekla er þekktasta eldstöð Íslands, eða var það í það minnsta áður en Eyjafjallajökull hlaut heimsfrægð. Hún er sú eina af þessum fimm sem er ekki undir jökli en þrátt fyrir það getur hún verið mjög skæð.

Mikil aska getur gosið upp í stærstu gosum og lagst yfir byggð víða. (Mynd RÚV)

Síðustu áratugi hafa Heklugos verið mun minni en fyrr á öldum þegar lætin voru slík að Hekla var talin inngangur að helvíti. Sem dæmi um þá krafta sem Hekla býr yfir þá er þekkt að hún getur þeytt grjóti langar leiðir.

Aska úr Heklugosum getur dreifst um allt land enda getur gosmökkurinn náð allt að 30 kílómetra hæð. Hekla hefur gosið tuttugu og í það minnsta þrisvar frá landnámi, síðast árið 2000.

Páll segir að hún sé líka, samkvæmt öllum mælingum, að undirbúa næsta gos.

„Um það bil 2006, 2007 þá var þrýstingurinn undir fjallinu orðinn svipaður eins og hann var á undan gosunum á undan. Þannig að þá má eiginlega draga þá ályktun að þrýstingurinn hafi verið orðinn nægur til að koma upp gosi en af einhverjum ástæðum þá hikar hún við að byrja gos.“

Gæti skotið niður flugvél

Flestar eldstöðvar sýna skýr merki um að eldgos sé að hefjast klukkustundum eða jafnvel nokkrum dögum áður er gos hefst.

„En Hekla, hún er styttri. Það er nánast alltaf styttra heldur en klukkutími og stundum ekki meira en tuttugu, tuttugu og fimm mínútur,“ segir Páll.

Aðspurður segir hann það bjóða hættunni heim að vera að ferðast um á Heklu. „Ef það er gönguhópur í hlíðum fjallsins þegar menn sjá þessi merki þá er of seint að láta þá vita því þeir eru þegar lentir í vandræðum.“

Að ógleymdu fluginu.

„Það vill svo til að Hekla er beint undir flugleið einni af aðalflugleiðunum yfir Atlantshafið og það fljúga sem sé flugvélar beint yfir toppinn á Heklu allt of oft,“ segir hann.

„Líkurnar á því að Hekla skjóti niður farþegaflugvél hreinlega í byrjun næsta goss, þær eru sem sé umtalsverðar.“

Heklugos getur hafist með skömmum fyrirvara. (Mynd RÚV)

Gott að vera vel búinn

En hvaða máli skiptir þetta okkur sem ekki búum nálægt eldstöð sem er að búa sig undir gos? Jú, við þurfum öll að vita hvernig bregðast skuli við hamförum, því við vitum aldrei hvaða eldstöð bærir næst á sér og þær eru hér allt í kringum okkur.

Þótt vísindamenn fylgist náið með eldstöðvunum og spáð fyrir um eldgos er ekki öruggt að þeir geti spáð fyrir um þau öll. Það gæti alveg gosið í einhverri eldstöðinni með litlum eða engum fyrirvara. Hver þessara fimm eldstöðva gæti gosið hvenær sem er.

„Og þar fyrir utan eru við með að minnsta kosti tuttugu og fimm aðrar sem að gætu þess vegna gosið með stuttum fyrirvara án þess að við vitum það núna,“ segir Páll.

Víðir segir að allir á Íslandi þurfi að íhuga hvernig þeir bregðist við ef gos fer af stað.

„Ef að allir á Íslandi horfa á „bíddu hvað get ég gert? Hvernig get ég undirbúið mig undir það að það fari rafmagnið af stóru svæði? Það verði öskufall hjá mér eða annað slíkt“. Þá gerir það viðbragðaðilunum auðveldara fyrir að einbeita sér að stöðum þar sem að kannski er raunveruleg lífshætta. Við þurfum að fá fólk til þess að taka þátt í þessu með okkur,“ segir hann.

Þurfum að vera sjálfbjarga

Guðrún Jóhannesdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, segir að her og einn ætti að vera með neyðarkassa með helstu nauðsynjum komi til eldgos sem hafi víðtæk áhrif.

Á vef Almannavarna er að finna lista yfir þá hluti sem ættu að vera í slíkum neyðarkassa svo sem sjúkrakassi, vasaljós, útvarp með rafhlöðu, kerti, eldspýtur, reiðufé, þurrmatur, niðursuðuvara og fleira, allt eftir þörfum hvers og eins.

Víðir bendir sérstaklega á verkefni Rauða krossins „Þrír dagar“.

„Þar er settur upp listi og fólk er hvatt til þess að geta verið sjálfstætt í þrjá daga án utanaðkomandi aðstoðar. Svoleiðis hlutir geta bara skipt mjög miklu máli þegar við erum að horfa á heildaráhrif náttúruhamfara á samfélagið.“

Íbúar upplýstir um stöðuna

Í liðinni viku var haldinn íbúafundur í Öræfum þar sem heimafólk fékk nýjustu upplýsingar um stöðuna á Öræfajökli og hvað skuli taka til bragðs ef gos hefst. Fjölmenni var á fundinum.

Þarf að vera hægt að rýma svæðið

Víðir segir að áætlanir geri ráð fyrir neyðarrýmingu á svæðinu. „En í þessum nútímavísindaheimi að þá reikna allir með því að við munum fá einhvern fyrirvara áður en gosið brýst til yfirborðs og með öllum þeim hættum sem því fylgja,“ segir hann.

„Þannig að okkar markmið er það að að þegar gos hefst í Öræfajökli sé hér enginn í á svæðinu frá Núpsstað og að Jökulsá á Breiðamerkursandi.“

Rósa Guðrún Daníelsdóttir, bóndi á Hnappavöllum. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

Rósa Guðrún segist meðvituð um stöðuna. „Auðvitað er manni ekki sama. Maður spáir í þetta. Ég meina ég er með fjögur börn á heimilinu og tvö lítil og tvo unglinga og kindur og hunda og ketti og kanínur og alls konar dót sem þarf að koma í burtu þetta er náttúrulega heljarinnar mál,“ segir hún.

„En ég treysti því samt að viðbragðstíminn verði það langur að maður geti forðað sér.“

Eldfjöllin geta verið stórhættuleg

Hvort sem fólk býr í Öræfum eða annars staðar á landinu þá er gott að vera meðvitaður um að eldgos getur hafist fyrirvaralaust, að eldgos getur stöðvað flug, raskað vegasamgöngum og jafnvel skaðað raforkukerfi landsins. Þá getur orðið öskufall um allt land og andrúmsloftið gæti mengast tímabundið.

„Eftir því sem atburðurinn er stærri þeim mun sjaldgæfari er hann. Þannig að á móti einu svona stóru hamfaragosi þá kannski koma hundrað lítil gos sem eru kannski meira fyrir augað og hafa svona ákveðið skemmtanagildi,“ segir Páll.

„En við megum aldrei gleyma því á íslandi að eldfjöllin geta líka verið alveg stórhættuleg.“