Getur bundið allan útblástur og meira til

Hellisheiðarvirkjun var gangsett síðla árs 2006. Skömmu síðar var byrjað að þróa verkefni sem gengur undir nafninu CarbFix. Hellisheiðarvirkjun, rétt eins og aðrar jarðvarmavirkjanir, blæs töluverðum koltvísýringi út í loftið með gufunni sem dælt er úr iðrum jarðar.

Þegar búið er að nota heita vatnið og gufuna til að framleiða orku, er vatninu dælt niður í berggrunninn aftur - og í því felst tækifærið. Bæði koltvísýringur og brennisteinsvetni sem annars færi út í andrúmsloftið, eru leyst upp í vatninu sem dælt er niður. Þar binst það berginu, breytist í grjót. Annars vegar silfurberg, hins vegar glópagull.  

Þetta hefur þegar sparað Orkuveitunni um 13 milljarða króna, því ella hefði þurft að farga brennisteinsvetninu með mun dýrari hætti. Edda Sif Pind Aradóttir, verkefnisstjóri CarbFix, segir aðferðina svo öfluga að það verði hægt að fanga allan útblástur á landinu og binda með henni, sé viljinn fyrir hendi.

„Aðferðin getur leikið mjög stórt hlutverk hér á landi. Ísland er svo til eingöngu gert úr basalti og basaltið hér er ungt, við erum eldfjallaeyja þannig að það er sérstaklega hvarfgjarnt, basaltið hér. Faktískt séð gæti basaltið á Íslandi dugað til að fanga allan okkar útblástur og binda og meira til,“ segir hún.

„Við erum að beita aðferð hér við virkjun, þar sem við erum með töluvert magn af koldíoxíði sem blæs frá einni virkjun. Þegar kemur að annarri mengun, dreifðari mengun frá bílaflotanum og þess háttar, þá er líka verið að þróa aðferðir sem hreinsa eða ryksuga andrúmsloftið af koldíoxíði alls staðar í kringum okkur þannig að aðferðirnar eru til og við erum búin að þróa niðurdælingarbúnað og aðferðir sem henta við ólíkar aðstæður, þannig að tæknilega séð er það hægt, fræðilega séð er það hægt - viljinn er líklega allt sem þarf.“

Fjallað verður um loftslagsmál í Kveik í kvöld klukkan 20.00.