Ellefu ár til að draga verulega úr losun

Það er reglulega bent á að Ísland verði að fara að hysja upp um sig í loftslagsmálum, því nái ríkið ekki alþjóðlegum markmiðum um minni losun, þurfi að kaupa kolefniskvóta - og það gæti reynst dýrt spaug.

Þegar stjórnmálamenn tala um nokkur hundruð milljarða, eru þeir ekkert að grínast. Þetta er ekki bara einhver hræðsluáróður. Klappir - grænar lausnir hafa reiknað út að ef ekkert verður gert, ekki gripið til neinna mótvægisaðgerða, þá megum við búast við kostnaði upp á rúma 267 milljarða króna árið 2030. Ef hins vegar verður farið í öflugar mótvægisaðgerðir - hafnir, verksmiðjur og samgöngur rafvæddar, skógrækt margfölduð og votlendi endurheimt, þá sýna útreikningarnir að reikningurinn geti farið niður í 172 milljarða. Það kemur ekki allt úr ríkissjóði - en sannarlega úr íslensku hagkerfi.

Áhættustýring fyrir jörðina

Fagnaðarlæti brutust út þegar Parísarsáttmálinn var samþykktur í desember 2015. Hann tók gildi 4. nóvember árið eftir, þegar nógu mörg ríki höfðu fullgilt hann. Þau eru núna 178. Parísarsáttmálinn tekur yfir áratuginn 2021-2030 og tekur við af Kýótósamkomulaginu.  

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

„Ef maður hugsar um Parísarsamkomulagið sjálft, þá mætti lýsa því sem svona hnattrænni áhættustýringu. Þar sem þjóðir jarðarinnar komu  sér saman um það að þær ætluðu að vera áfram á þessari jörð,“ segir Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, um samkomulagið.

Hvað þarf Ísland þá að gera? Aðildin að samkomulaginu þýðir í einfölduðu máli að hér þarf að ná 40 prósenta samdrætti í nettólosun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 – miðað við losunina eins og hún var árið 1990. Hún er miklu meiri núna en hún var þá, svo á næsta áratug þarf bókstaflega að umturna samfélaginu, bara til að það sé minnsti möguleiki á því að þessu markmiði verði náð.

Þessu er reyndar skipt í tvennt – annars vegar kröfur til fyrirtækja, aðallega flugfélaga og stóriðju og hins vegar stjórnvalda - en hvað sem því líður, þá þurfum við sem sagt að komast um það bil þangað, á rétt rúmum ellefu árum.

(Mynd RÚV)

Hefðum getað verið betur stödd

Sjö ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í september. Það er reyndar ekki í fyrsta sinn – ein slík var til dæmis samþykkt árið 2010 og snerist að mestu um sömu aðgerðir og sú sem nú var kynnt, átta árum síðar. Henni fylgdu að vísu engir fjármunir, svo fátt gerðist. Staðan væri líklega töluvert betri núna, hefði verið gripið til aðgerða fyrr.  

Munurinn á áætlununum frá 2010 og 2018 er þó sá að nú er gert ráð fyrir að verja tæpum sjö milljörðum króna í loftslagsmál á næstu fimm árum. Í hvað eiga þeir peningar að fara?

Lausnirnar eru af tvennum toga má segja – annars vegar að draga úr losun með því til dæmis að skipta um orkugjafa og endurheimta votlendi og hins vegar með því að binda meira af því sem er blásið út.

Í þessari fyrstu umfjöllun um loftslagsmál af þremur, fjöllum við um tvær mögulegar bindingaraðferðir, sem veita góða innsýn í það risavaxna verkefni sem fram undan er. Þetta er nefnilega ekki eitt af þeim málum sem við getum treyst á að reddist bara korter í 2030. Við hefjum för á Hellisheiðinni.

Breyta mengun í stein

Hellisheiðarvirkjun var gangsett síðla árs 2006. Skömmu síðar var byrjað að þróa verkefni sem gengur undir nafninu CarbFix. Hellisheiðarvirkjun, rétt eins og aðrar jarðvarmavirkjanir, blæs töluverðum koltvísýringi út í loftið með gufunni sem dælt er úr iðrum jarðar.

Þegar búið er að nota heita vatnið og gufuna til að framleiða orku, er vatninu dælt niður í berggrunninn aftur - og í því felst tækifærið. Bæði koltvísýringur og brennisteinsvetni sem annars færi út í andrúmsloftið, eru leyst upp í vatninu sem dælt er niður. Þar binst það berginu, breytist í grjót.

„Núna, þetta mörgum árum síðar, erum við komin á þann stað að við erum farin að beita þessari nýju aðferð á iðnaðarskala og höfum sýnt fram á það að markmiðið náðist. Okkur tekst að binda það sem við dælum niður í berg á innan við tveimur árum,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, verkefnisstjóri CarbFix.

„Hér fara sem sagt þessi uppleystu gös niður á eins og hálfs kílómetra dýpi, um það bil. Fara út í basaltberglögin þar sem efnahvörf eiga sér stað og gasið verður að grjóti.“

Edda Sif Pind Aradóttir, verkefnisstjóri CarbFix. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

Silfurberg og glópagull

Íslenska basaltið er óvenju mjúkt og tekur því vel við - með því að dæla gasinu niður uppleystu í vatni, gengur þetta líka miklu hraðar en víða erlendis þar sem gasi er dælt niður einu og sér.

„Gösunum er blandað í vatnið í lofthreinsistöðinni. Þannig að við flytjum í rauninni bara sódavatn á þessa holu. Hér í gegn streyma 30 sekúndulítrar af svolítið heitu sódavatni. Með smá jarðhitabragði af því að það er brennisteinsvetni líka í,“ útskýrir Edda Sif.

Á innan við tveimur árum eru þetta orðnar fallegar steindir, holufyllingar í berginu. „Hérna höfum við silfurberg, þannig að þetta er það sem verður um koldíoxíðið. Brennisteinsvetnið hins vegar, sem við dælum niður, það breytist í glópagull.“

2.500 krónur á tonnið

Ríkið ætlar að verja töluverðu fé til loftslagsmála næstu ár, bæði í gegnum samkeppnissjóði og bein framlög - og vill auðvitað fá sem mest fyrir féð. Ef við horfum bara á koltvísýringinn, hvað kostar að binda hvert tonn með CarbFix-aðferðinni?

Úr kjarnaborun við niðurdælingu. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

„Miðað við þann stað sem við vorum á árið 2016 og ég var að lýsa núna áðan, þegar við hreinsum 34% af koldíoxíði og um 80% af brennisteinsvetni, þá höfum við metið það svo að kostnaðurinn per tonn við að dæla þessum gösum niður, er um 2.500 krónur,“ segir Edda Sif.

„Þessi aðferð gæti haft mikið að segja og gróft metið hefur verið áætlað að það mætti, hugsanlega, ef allir leggjast á eitt, draga úr loftslagsáhrifum um 40% eða svo, með því að beita þessari aðferð.“

Tæknin og fræðin til staðar

Þótt þetta séu góðar fréttir, því loftslagsbreytingarnar eru sannarlega hnattrænt vandamál sem verður að leysa sem slíkt – þá er það samt þannig að hvert ríki er að hugsa um sinn hluta, sínar skyldur.

„Aðferðin getur leikið mjög stórt hlutverk hér á landi. Ísland er svo til eingöngu gert úr basalti og basaltið hér er ungt, við erum eldfjallaeyja þannig að það er sérstaklega hvarfgjarnt, basaltið hér. Faktískt séð gæti basaltið á Íslandi dugað til að fanga allan okkar útblástur og binda og meira til,“ segir hún.

„Við erum að beita aðferð hér við virkjun, þar sem við erum með töluvert magn af koldíoxíði sem blæs frá einni virkjun. Þegar kemur að annarri mengun, dreifðari mengun frá bílaflotanum og þess háttar, þá er líka verið að þróa aðferðir sem hreinsa eða ryksuga andrúmsloftið af koldíoxíði alls staðar í kringum okkur þannig að aðferðirnar eru til og við erum búin að þróa niðurdælingarbúnað og aðferðir sem henta við ólíkar aðstæður, þannig að tæknilega séð er það hægt, fræðilega séð er það hægt - viljinn er líklega allt sem þarf.“

Vilji – og peningar. Skömmu eftir að við ræddum við Eddu Sif, fengu forsvarsmenn verkefnisins staðfest að CarbFix hefði fengið tveggja milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að þróa það frekar.

Skógræktin til bjargar

Þetta er einn möguleikinn og sá virðist lofa góðu. Önnur leið sem bent er á og er nokkuð fyrirferðarmikil í loftslagsáætluninni - er stóraukin skógrækt hérlendis. Í alvöru? Á vindbarinni eyju við heimskautsbaug? Á skógrækt að fara að bjarga okkur? Já, segir skógræktarfólk sem hefur mælt kolefnisbindingu trjágróðurs á Íslandi frá árinu 2005 og veit því nokkuð vel hvað er hægt að gera.

Arnór Snorrason, skógfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

„Þetta er gert á svipaðan hátt og mannfólkið gerir skoðanakannanir. Við kannski spyrjum ekki trén, en við tökum visst úrtak úr trjánum. Við mælum hve stór þau eru og síðan komum við kannski eftir fimm ár eða tíu ár og mælum sömu tré aftur og þá vitum við hvað þau hafa bætt við sig. Þetta tré, sem þú stendur upp við, helmingurinn af því er kolefni,“ útskýrir Arnór Snorrason, skógfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Myndarlegt tré getur vel verið tonn að þyngd og þá 500 kíló af kolefnum.

Skógræktin hefur lagt til að nýskógrækt verði fjórfölduð frá því sem nú er, fari úr þremur milljónum plantna á ári í tólf milljónir árið 2023. Arnór og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri auðlindasviðs Skógræktarinnar, hafa séð um útreikninga á bindingargetu íslenskra skóga undanfarin ár. En af hverju leggja þau til fjórföldun en ekki þreföldun eða fimmföldun?

„Það er nú bara af því að við teljum okkur geta framkvæmt það. Við teljum þetta vera raunhæft,“ segir Sigríður Júlía. „Og við teljum að á fimm árum getum við trappað okkur upp í þetta með tilliti til framboðs á landi, mannafla og annað. Það er ástæðan. Annars hefðum við getað farið í einhverjar skýjaborgir og talað um áttföldun, en það hefði kannski verið frekar óábyrgt af okkur að gera það.“

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri auðlindasviðs Skógræktarinnar. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

Svona gætu skógarnir vaxið

Það er mikill áhugi hjá landeigendum að taka þátt í verkefninu – þar eru bændur auðvitað stærsti hópurinn. Það er þegar búið að semja við eigendur 620 lögbýla og í fyrra sóttu 40 í viðbót um þátttöku. Land er því ekki takmarkandi þáttur.

Ferföldun hljómar auðvitað sem mjög mikil aukning, en svo kemur í ljós að það er ekki einu sinni nóg til þess að uppfylla þau markmið sem Alþingi setti með lögum árið 2006, þar sem segir að það eigi að rækta skóg á að minnsta kosti 5 prósentum af flatarmáli láglendis neðan við 400 metra yfir sjávarmáli.

Rannsóknir benda til þess að skógur eða kjarr geti vaxið á 30-40 prósent af flatarmáli landsins. Í skógstefnu íslenska ríkisins frá 2013 kemur fram að langtímamarkmiðið sé að árið 2110 hafi skógarþekjan tífaldast - úr núverandi 1,2 prósent í að minnsta kosti 12 prósent af flatarmáli Íslands.

Mest eiga þetta að vera birkiskógar. Gert er ráð fyrir því að þeir vaxi á sama hraða og þeir hafa gert frá 1989. Þá verða þeir orðnir svona um næstu aldamót.

(Kort Björn Traustason)

Hér má svo sjá möguleg skógræktarsvæði – bestu svæðin dökkgræn og góð svæði ljósgræn. Samtals eru þetta rúmlega 1.500.000 hektarar eða 15 prósent landsins.

(Kort Björn Traustason)

Þetta er augljóslega mál sem ekki er hægt að hugsa í kjörtímabilum – samningarnir við skógarbændurna eru til dæmis gerðir til fjörutíu ára.

Hundrað þúsund plöntur

Bergþóra Jónsdóttir, bóndi á Hrútsstöðum í Dalasýslu, hefur verið skógarbóndi í tuttugu ár.

„Það var bara ákveðið svona við eldhúsborðið að reka hrúta hérna niður fyrir veg og planta hérna skógi. Það var 1998, þetta var þriggja ára verkefni. Síðan voru Vesturlandsskógar stofnaðir í framhaldinu af þessu og við gerðum strax samning þar,“ segir hún. „Ég plantaði hundraðþúsundustu plöntunni í sumar.“

Skógurinn sem Bergþóra ræktar er landbótaskógur fyrst og fremst, margir bændur hafa þó plantað í frjórri jarðveg og þar vex skógurinn auðvitað hraðar og betur, verður nytjaskógur. Þetta var ósköp bert þegar hún byrjaði.

Tekur mörg ár að sjá árangur

„Bindingin er ekki farin á fulla ferð fyrr en þegar skógurinn er orðinn svona 10-15 ára gamall. Þess vegna erum við að leggja þessa áherslu á að fara út í þetta verkefni núna, af því að þegar ríkisstjórnin ætlar að verða kolefnishlutlaus eða Íslendingar, vonum við, að þá sé skógurinn farinn að vaxa,“ segir Arnór.

Þessi hundrað þúsund tré breyta ásýnd og ástandi landsins mjög til hins betra í þessu tilfelli. En ferföldun skógræktar, tugmilljónir trjáa - það hljómar dálítið eins og ásýnd landsins alls gæti gerbreyst gangi þessar áætlanir eftir. En á þessu korti má sjá hvað þetta þýðir í raun. Appelsínugulu svæðin eru afrakstur fjórföldunarinnar, yrði hún að veruleika.  

Kostnaðurinn á hektara er um það bil 380 þúsund krónur. Hver á að bera þann kostnað? „Við erum að leggja til að ríkið geri það. Leggi þetta undir til að byggja upp auðlind á Íslandi,“ svarar Sigríður.

Í útreikningum þeirra Arnórs og Sigríðar er gert ráð fyrir að ársverk í skógrækt muni skipta hundruðum, verði nýskógrækt margfölduð á næstu fimm árum. Þetta geti skipt  sköpum í dreifðari byggðum, skógræktin geti orðið alvöru atvinnugrein hérlendis.

Tekjurnar aukast af skógrækt

„Þetta getur mjög stutt við aðra atvinnu í sveitum landsins. Það er nú það sem þeir sjá, þeir bændur sem eru að fara í skógrækt á Íslandi. Þeir sjá það sem möguleika, þetta geti aukið bæði verðgildi jarðarinnar og þeir geti haft tekjur af framleiðslunni, viðnum sem kemur úr skóginum,“ segir Arnór.

Bergþóra Jónsdóttir skógarbóndi. (Mynd Ingvar Haukur Guðmundsson/Kveikur)

Bergþóra skógarbóndi horfir skógræktina sem atvinnugrein. „Og hún er búgrein,“ segir hún. „Hún getur alveg verið arðbær atvinnugrein en þetta er þolinmæðisvinna og þetta er þolinmótt fjármagn sem er í skógrækt. Fyrir sauðfjárræktina að þá gengur þetta mjög vel saman. Þú þarft náttúrulega að girða, því þú beitir ekki ungskóg. En til dæmis eins og svona reitur, með lerki, þetta er alveg tilvalið að nota sem beitarskóg til dæmis á vorin sem skjól.“

Samkvæmt útreikningum aukast tekjur af skógrækt hratt þegar líður á öldina, verði svona miklu plantað - miðað við ferföldun eru gjöldin 444 milljónir á ári frá 2020 til 2039, samtals hátt í níu milljarðar króna. Síðan fara tekjurnar að vaxa. Gert er ráð fyrir því að landeigendur njóti teknanna af viðnum, þótt ríkið greiði stofnkostnaðinn.

Gæti bundið bílamengun

Það eru heldur ekki lítið magn sem þessi stóraukan skógrækt á að binda af koltvísýringi. „Við erum að tala um að árið 2040 sé skógrækt að binda allt að 800-900 þúsund tonn af CO2. Þannig að það er ansi stór hluti til dæmis af þeirri losun sem er frá hefðbundinni starfsemi á Íslandi núna í dag,“ segir Arnór.

Það er um það bil losun alls bílaflotans núna. Það er erfitt að meta nákvæmlega kostnað við bindingu á hverju tonni af koltvísýringi með skógrækt. Stærstur hluti kostnaðarins fellur til í byrjun, við gróðursetningu, en bindingin verður árum og áratugum síðar. Upphæðin gæti verið einhvers staðar á bilinu frá 500 til 2500 krónur á tonn, allt eftir því hvernig efnahagslífið veltist.

Það sem við fórum yfir hér er auðvitað bara hluti af þeim aðferðum og hugyndum sem verið er að þróa - margt annað kemur til. Því það er ekki nóg bara að binda meira, það verður líka að draga úr losun. Hver einasti stjórnmálaflokkur talaði til dæmis um orkuskipti í samgöngum fyrir síðustu alþingiskosningar.

En hvernig gengur hún í alvörunni, rafbílavæðingin? Við förum yfir það í næsta þætti Kveiks.