„Hægt að valda gríðarlega miklum skaða“

Hverjar eru líkurnar á að óvinveitt ríki ráðist á Ísland? Það hljómar næstum hjákátlega að spyrja, en hjá opinberum stofnunum, frá ráðuneytum til Almannavarna, Landhelgisgæslu og jafnvel heilbrigðisstofnana er unnið að því að setja saman viðbragðsáætlanir. Heimurinn er breyttur og ógnin líka.

Kaldastríðsrætur Almannavarna

Þegar Almannavarnir voru settar á laggirnar í kjölfar lagasetningar 1962 var það vegna Kúbudeilunnar og af ótta við kjarnorkuvá. Nú eru varnir lands og þjóðar aftur komnar á dagskrá hjá Víði Reynissyni og félögum, en árásirnar eru öðruvísi.
„Þessar fjölþáttaógnir er eitthvað sem fræðimenn töluðu um fyrir ekki mörgum árum og menn voru að velta fyrir sér,“ segir Víðir í viðtali við Kveik í stjórnstöð Almannavarna. „En þetta er orðið alveg raunverulegt á okkar borði í dag.“

Ástæða þess að stjórnsýslan er með þetta á dagskránni er breytt heimsmynd. Hún breyttist snarlega að morgni 24. febrúar, þegar rússneski herinn réðst inn í Úkraínu. Stríð af gamla skólanum var hafið í Evrópu. Átök austurs og vesturs, sem flestir töldu tilheyra sögunni, voru endurvakin í hendingskasti. Og þegar dusta átti rykið af gömlu áhættumati hér á landi kom í ljós að það var miðað við önnur vopn en beitt er í dag.

Flestir þekkja Víði sem hluta þríeykisins á meðan Covid-19-faraldurinn stóð sem hæst. En öryggi og varnir þjóðarinnar eru líka á hans borði. 

Fjölþáttaógnin sem Víðir vísar til er ástæðan, eða átök á „gráa svæðinu“ eins og stundum er talað um. Átök og árásir þar sem alls er óljóst að árás hafi verið gerð, eða hver stóð fyrir henni. Skilgreining íslenskra stjórnvalda er þurrari en gefur vissa mynd af verkefninu:

Hugtakið fjölþáttaógnir vísar til samhæfðra og samstilltra aðgerða óvinveittra ríkja eða aðila tengdra ríkjum sem beita fjölbreyttum aðferðum, á skipulagðan hátt, til að nýta sér kerfislæga veikleika lýðræðisríkja og/eða stofnana þeirra. Til þeirra teljast t.d. netárásir, efnahagsþvinganir og fjárfestingar í lykilinnviðum- og tæknifyrirtækjum, falsfréttir og íhlutun í lýðræðislega ferla og stofnanir. Tilgangurinn er að hafa áhrif á ákvarðanatöku yfirvalda með aðgerðum sem grafa undan eða skaða viðkomandi ríki og/eða stofnanir þess.

Dæmi um svona ógnir eru látlausar árásir á innviði Eystrasaltsríkjanna og Úkraínu undanfarin ár. Tölvukerfi hins opinbera hafa verið slegin út, bankakerfi sýkt með tölvuvírusum, orkuverum kippt úr sambandi úr fjarska. Sprengingarnar í Nord-stream gasleiðslunum undan ströndum Danmerkur nýlega eru taldar verk Rússa en sannanir eru ekki afgerandi, enginn sá til þeirra og „glæpurinn“ framinn utan landamæra og því óljóst með sakarábyrgð.

Gasleiðslurna Nord-Stream I og Nord-Stream II rofnuðu óvænt fyrir nokkrum vikum og talið víst að um skemmdarverk hafi verið að ræða.

Árás á vef Fréttablaðsins fyrir skömmu, eftir að blaðið birti ljósmynd sem var sendiherra Rússa mjög á móti skapi, gæti hafa verið af þessu tagi. Eða verk geðvonds unglings með góða tölvukunnáttu. Það er ekki alltaf auðvelt að greina á milli, áhrifin geta verið þau sömu.

Hvað er einhver tekur úr sambandi?

Áhyggjurnar beinast einkum að öryggi innviða landsins. Hvort hægt sé að greina árás á orkukerfi eða fjarskipti, til dæmis. Og bregðast við þannig að ekki hljótist mikill skaði af.

„Það sem við erum líka að horfa kannski meira á núna en við höfum gert áður er einmitt að það sé ekki endilega truflun á einhverju stóra aðalatriðinu, heldur sé fundinn einhver veikleiki í þessari keðju. Sá veikleiki verður fyrir einhverjum áhrifum, af netárás eða skemmdarverkum og einhverju slíku, eða óbeinum áhrifum af því að það berast ekki birgðir við bilanir eða eitthvað slíkt. Og það valdi síðan keðjuverkun sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar og þetta er það sem við verðum að reyna að greina,“ segir Víðir.

Almannavarnir birta opinberlega mælingu á áfallaþoli og framvindu bæði stofnana og sveitarfélaga við að meta eigin stöðu.

Þessi greining er kölluð áfallaþol. Greining á getu samfélagsins til að þola áföll og forgangsraða. Hvað gæti verið ráðist á, hverjar yrðu afleiðingarnar og hversu vel myndum við þola það? Hvað er mikilvægast?

„Hvað er það sem við getum ekki verið án í sólarhrings eða kannski þrjá, fjóra daga? Það er auðvitað raforkan okkar og það eru fjarskiptin, samgöngurnar og fæðuöryggi. Þetta eru svona lykilþættirnir. Svo kemur inn í þetta viðbragðsþjónustan eins og heilbrigðiskerfið okkar. Hvernig getum við látið heilbrigðiskerfið okkar starfa ef það hefur ekki rafmagnið, hefur ekki fjarskipti? Við erum með samgöngutruflanir, þannig að við getum ekki flutt fólk til og frá. Þannig að keðjuverkunin fer að verða mjög hröð ef þessir lykilþættir virka ekki“, bætir Víðir við.

Sex yfirflokkar lykilinnviða hafa verið skilgreindir. Undir þeim eru svo fyrirtæki og stofnanir. 

Þegar hann er spurður hvernig Ísland sé undirbúið, til dæmis borið saman við Noregi, er svarið heiðarlegt: „Við vitum það ekki alveg. Það er nú það sem við stöndum frammi fyrir því að við höfum ekki lokið nema litlum hluta af greiningunum.“

Til að koma því áleiðis þurfi meiri mannskap.

Farsímasendir á norðurlandi

Öryggismálum þjóðarinnar útvistað um áratugaskeið

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt að sjálfstætt mat Íslendinga á ógnum og áhættu liggi ekki fyrir. Hann er raunar á því að allt frá því að Íslendingar fengu fullveldi og þar með yfirráð yfir utanríkismálum 1918, hafi stórum hluta þeirra verið útvistað. Fyrst til Dana, og svo öryggis- og varnarmálum til NATO og Bandaríkjanna eftir seinni heimsstyrjöld.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, á skrifstofu sinni.

Það hafi kannski verið þægilegast, kostað minnstu fyrirhöfnina og minnsta fjármagnið. Hann telur sofandahátt einkenna nálgun Íslendinga sem hafi, ólíkt nágrannaþjóðum, ekki endurmetið stöðuna.

„Þá fór fram nýtt mat á öryggis- og varnarhagsmunum allra nágrannalanda okkar. Menn fóru í ítarlega vinnu við að skoða ofan í kjölinn hvernig þyrfti að breyta varnar og öryggisáherslum þessara ríkja. Þessi vinna fór ekki fram hér,“ segir Baldur í viðtali við Kveik á skrifstofu sinni.

Margir viðmælendur Kveiks gagnrýndu að það væri engin stofnun til innan stjórnkerfisins sem bæri ábyrgð á vörnum landsins í víðasta skilningi. Ábyrgð og verkefni dreifist á fjölmargar stofnanir. Sé til dæmis litið til netöryggis koma þau mál inn á borð fjögurra ráðuneyta, hið minnsta, og enn fleiri stofnana.

Hefðbundin ógn til staðar, en lítil

Hefðbundna ógnin er enn til staðar, þótt ólíklegt verði að teljast að Ísland sé á skotmarkalista annarra þjóðríkja. Talsmenn bæði NATO, Bandaríkjanna og íslenskra stjórnvalda segja umferð kjarnorkukafbáta Rússa undan ströndum landsins vera meiri nú en frá lokum kalda stríðsins.

Þess vegna kom fastafloti NATO á Norður-Atlantshafi til hafnar í Reykjavík um mitt sumar, að undirbúa kafbátaleitaræfinguna Dynamic Mongoose. Kveikur fékk að skoða aðstæður um borð í hollensku herskipi sem fór fyrir flotanum og ræða við stjórnendur æfingarinnar sem lögðu áherslu á mikilvægi svona æfinga og fælingarmáttinn sem þær hefðu. En sést til þessara kafbáta, sem eru sagðir svo hljóðlátir að hlerunarbaujur nemi þá vart? Kveikur spurði Steve Mack, aðmírál og yfirmann kafbátaflota NATO, sem svaraði spurninginni ekki beint, heldur sagði einungis að NATO væri undir það búið að kljást við þá báta.

Fastafloti NATO á Norður-Atlantshafi, SNMG1, kom til Íslands í sumar vegna kafbátaleitaræfingar

Viðmælendur Kveiks um borð í kafbátaleitarskipunum sögðust sjálfir aldrei hafa séð rússneskan kafbát á ferð enda væri fastaflotinn fyrst kallaður til þegar að kafbátaleitarvélar, eins og þær sem staðsettar eru í Keflavík, yrðu einhvers varar. Fastaflotinn væri mest við æfingar. Jafnframt væri mikilvægt að tryggja sýnileikann, því það hefði fælingarmátt.

Og Rússar eru líka viðbúnir, miðað við myndskeið sem rússnesk sjónvarpsstöð sendi út fyrir nokkrum vikum og sýnir gamla, norska P3 kafbátaleitarvél varpa hlerunarbaujum skammt frá rússneskum kafbáti undan Noregsströndum. Áhöfnin er sýnd bregðast við með því að draga fram flugskeytavörpu.

Fáeinum klukkustundum eftir að innrásin í Úkraínu hófst sendi Vladímír Pútín kjarnorkukafbátaflota landsins út á Norður-Atlantshaf, búinn kjarnorkuvopnum, allt að sextán flugskeytum hver. Náið var fylgst með ferðum rússnesku kafbátanna í febrúar og mars, í um fjórar vikur, en síðan héldu þeir flestir aftur til heimahafnar. Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, lýsti stöðunni frá sínum bæjardyrum í viðtali við Björn Malmquist í sumar og sagði engar reglur stríðs virtar í Úkraínu. Og teldu Rússar rétt að virða reglur að vettugi þar ætti það sama við annars staðar. Það ætti líka við kafbáta á ferð undan ströndum Íslands og Bretlandseyja.

En sérfræðingar segja getu kafbátaflotans ofmetna. 1989 hafir verið 368 kafbátar í flota Sovétríkjanna. Nú séu þeir alls 51, flestir í Norðurflotanum. Það dugi einfaldlega ekki til að hafa einhvern fjölda í hafi lengi og á stærra svæði. Afar ólíklegt sé að Rússar geti haft fleiri en sex til níu kafbáta úr Norðurflotanum í umferð hverju sinni. Komi til hefðbundinna átaka sé líklegast að bátunum verði raðað nær heimahöfn, til að verjast.

Ísland miðstöð kafbátaeftirlits, en langt frá vígaslóð

Þetta skýrir kannski hvers vegna kafbátaeftirlitið hefur stóraukist, ekki síst frá Íslandi, sem hefur á undanförnum árum orðið að vaxandi miðstöð hátæknikafbátaeftirlits á Norður-Atlantshafi.

Norðurfloti Rússa er enda risavaxinn. Þrír fjórðu hlutar sjóhers Rússa tilheyra Norðurflotanum og nýlega tilkynntu Rússar að til stæði að koma á Norðurheimskautsflota, sem yrði hrein viðbót.

P8-kafbátaleitarvélar í Keflavík. Mikil uppbygging hefur verið á herstöðinni á undanförnum árum til að auðvelda vaxandi umferð þessara véla, sem búnar eru hátæknibúnaði.

Jim Townsend var aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna um átta ára skeið í byrjun aldarinnar og segir hrakfarir Rússa í Úkraínu breyta stöðunni á Norðurslóðum. Í viðtali við Kveik sagði hann Rússa hafa fengið á baukinn í Úkraínu og það hefði laskað orðspor þeirra. Því væri þeim í mun að sýna Vesturveldunum að þeir væru öflugir andstæðingar sem hefðu enn töglin og hagldirnar á sínu umráðasvæði og teldu norðurheimskautið sitt áhrifasvæði.
Trump breytti stöðunni, innganga Svíþjóðar og Finnlands í NATO líka
Fleiri breytur hafa áhrif á öryggis- og varnarlandslagið umhverfis Ísland. Ítrekaðar yfirlýsingar Donalds Trumps um NATO vöktu marga á meginlandinu til umhugsunar um hvort ávallt yrði hægt að treysta á Bandaríkin um varnir álfunnar.

Jim Townsend var lengi aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Mynd: CNAS

Yfirvofandi innganga Svía og Finna í NATO breytir stöðunni líka. Þótt Vladímír Pútín hafi sagt engu skipta telja vestrænir sérfræðingar þvert á móti að Rússum standi stuggur af samhæfðu herliði með vaxandi herbúnaði í næsta nágrenni sínu. Líklegt sé að áhættumat þeirra breytist, óöryggi þeirra verði enn meira en nú þegar er og við það aukist líkur á afdrifaríkum mistökum.

„Þótt Rússar segi að þeir hafi svo sem alltaf litið á þessar þjóðir sem hluta bandalagsins tel ég að formleg innganga þeirra í NATO hafi mikil áhrif í Moskvu, einkum hjá þeim sem meta áhættu og ógn. Þeir geta ekki lengur talið vafa undirorpið hvernig Svíar og Finnar myndu bregðast við létu Rússar af því verða að herja á Eystrasaltslöndin,“ segir Jim Townsend.

Innganga Svíþjóðar og Finnlands í NATO breytir ýmsu, einkum við Eystrasaltið

Hann telur líklegt að þetta hækki spennustigið við Eystrasaltið en ekki við Íslandsstrendur. Í raun sé verið að bæta tveimur múrsteinum í vegginn sem aðskilji Rússland og Eystrasaltið, norðurheimskautið og Ísland.

Hernaðarlega hefur staða Íslands þó breyst og í raun orðið kúvending frá 2006, þegar Bandaríkjamenn lokuðu herstöð sinni á Miðnesheiði. Þetta kom glöggt fram í máli æðsta yfirmanns sjóhers Bandaríkjanna í heimsókn hingað til lands í sumar.

Michael Gilday, aðmíráll og æðsti yfirmaður sjóhers Bandaríkjanna.

Í viðtali við Kveik lagði hann áherslu á mikilvægi Íslands og stöðu landsins með hliðsjón af þróuninni við norðurheimskautið sem og aukinni umferð þaðan í suðurátt. Líkum mætti leiða að því að það mikilvægi myndi aukast enn frekar á komandi árum eftir því sem heimskautsísinn bráðnaði. Því væri mikilvægt að treysta tvíhliða samband Bandaríkjanna og Íslands.

Getum við metið þetta sjálf?

Hver er þá staða Íslands? Hverjar eru ógnirnar og hvaða aðgerða er þörf? Baldur Þórhallsson segir okkur ófær um að meta það sjálfstætt. „Núna kemur í ljós, bara á síðustu dögum og vikum, að ráðamenn stíga fram og segja að netöryggismálum hér á landi sé ekki eins vel sinnt og í nágrannalöndunum. Hér sé allt í kaldakoli þegar kemur að stefnumótun í fæðuöryggismálum. Og það kemur í rauninni vegna þess að við höfum ekki unnið heimavinnuna okkar. Við höfum ekki búið til þá sérfræðinga sem við þurfum á að halda til að meta þetta sjálf. Og kannski vegna þess að í þessum tveimur málaflokkum, sem ég var að nefna, fæðuöryggismálum og netöryggismálum, við höfum ekki útvistað þessum málaflokkum. Þeir koma ekki að utan. Og þegar stefnan er ekki framkvæmd að utan þá bara virðist vera eins og við gerum ekki neitt,“ segir Baldur.

Og er hægt að kalla á hjálp út af svona málum eða til dæmis einhvers konar árás, segjum á Landsvirkjun? Það er óljóst. Og ef svo ólíklega færi að til hefðbundinna átaka kæmi á landinu, og Ísland vísaði til fimmtu greinar NATO-sáttmálans, um að árás á einn jafngildi árás á alla, þyrftu Íslendingar samt að vera með sitt á hreinu. Víðir Reynisson segir oft talað um fimmtu greinina en færri séu meðvitaðir um þá þriðju. „Um að vera viðbúin og vera áfallaþolin. En ef hingað þyrfti að koma her út af út af virkjun fimmtu greinarinnar, eitthvað slíkt, þá ber okkur gríðarleg skylda til að verja ýmislegt sem þeir eru með og þeir starfa með. Og það hef ég ákveðnar efasemdir um að við höfum getu til.“

Víðir segir Íslendinga kunna nokkuð vel að reikna út áhættu vegna náttúruhamfara en stríðið í Úkraínu hafi breytt forsendum allra útreikninga. Varla sé hægt að leggja einhverjar líkur til grundvallar áhættumati þegar stóra breytan sé hvað Vladímír Pútín kunni að detta í hug. Nú sé miðað við afleiðingar hvers sem kunni að gerast og hversu auðvelt væri að bregðast við því.

En væri hægt að slökkva hreinlega á Íslandi? „Nei,“ segir Víðir, „en það er hægt að valda gríðarlega miklum skaða með ekkert rosalega mörgum aðgerðum.“ Hann útskýrir að flækjustigið væri nokkuð og til þess þyrfti færni. „Það væri eitthvert ríki sem stæði þar á bak við sem hefði töluverða getu. Það þarf að þarf að gera margt á mörgum stöðum til þess að gera það.“