Fjöldi sjó­kvía­eldis­svæða í siglinga­leið skipa

Fjöldi núverandi eða fyrirhugaðra sjókvíaeldissvæði á Íslandi er að hluta eða öllu leyti í siglingaleið skipa. Yfirvöld lýsa áhyggjum af staðsetningu eldissvæða víða á Austfjörðum og Vestfjörðum.

Hafið í kringum Ísland hefur reynst fjársjóðskista. Villtur fiskur er hífður upp úr djúpinu í tonnavís og skilar milljarða króna tekjum. En síðustu ár hafa annars konar sjávarnytjar færst í vöxt, hálfgerður landbúnaður í sjó, þar sem fiskur er alinn í opnum sjókvíum í stórum stíl. Sjókvíaeldinu fylgir atvinna en líka umhverfisáhrif. Andstaða við uppbygginguna hefur almennt ekki verið mjög hávær meðal heimamanna í fiskeldisplássum. En á Seyðisfirði, þar sem norska fyrirtækið Ice Fish Farm* hyggur á uppbyggingu, er mótmælt af krafti.

„Fiskeldi í þessum skala, sem er verið að tala um hérna, í opnum sjókvíum, er bara óboðleg aðferð til matvælaframleiðslu í dag,“ segir Sigfinnur Mikaelsson, einn af talsmönnum náttúruverndarsamtaka sem nefnast VÁ og voru stofnuð sérstaklega til að berjast gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði.

„Við sjáum bara mengunina sem kemur frá þessu,“ segir hann. Hann nefnir líka erfðablöndun við villta laxastofna og velferð dýra. „Það er bara allt sem mælir gegn fiskeldi í opnum sjókvíum orðið í dag.“

Fyrirtækið Ice Fish Farm hefur leyfi til að reka fiskeldisstöðvar í Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Berufirði. Seyðisfjörður gæti orðið sá fimmti.

Ice Fish Farm hefur leyfi til að reka eldisstöðvar í fjórum fjörðum á Austurlandi: Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Berufirði. Brátt gæti Seyðisfjörður bæst við. Fyrirtækið hefur sótt um leyfi til að ala allt að 10.000 tonn af laxi í firðinum, á þremur eldissvæðum: í Sörlastaðavík, Selsstaðavík og Skálanesbót.

Í umhverfismati taldi Skipulagsstofnun að sjókvíaeldið í Seyðisfirði kæmi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru eldi á Austfjörðum á erfðablöndun við villta laxa, botndýralíf, eðlisþætti sjávar, ásýnd og hættu á að laxalús berist í villta laxfiska.

En fleira en bein áhrif á náttúruna hefur verið fært fram sem rök gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði, þar á meðal hætta á ofanflóðum. Skipulagsstofnun taldi ákveðna óvissu vera um áhrif náttúruvár í Seyðisfirði á eldisbúnað, enda gætu atburðir eins og ofanflóð leitt til skemmda á búnaði með þeim afleiðingum að fiskur slyppi.

Ice Fish Farm vill hafa sjókvíar á þremur stöðum í Seyðisfirði: Sörlastaðavík, Selsstaðavík og Skálanesbót. FARICE-1-sæstrengurinn kemur líka í land í Seyðisfirði.

FARICE-1-sæstrengurinn, sem er ein af samskiptaæðum Íslands við heiminn, kemur líka í land á Seyðisfirði.  Skipulagsstofnun segir að brýnt sé að gæta þess að botnfestingar sjókvía verði ekki innan helgunarsvæðis strengsins sem er hátt í kílómetra breitt — það er ekki lítið í þröngum firði.

En annað vekur líka athygli þegar áform um eldi í Seyðisfirði eru skoðuð — það atriði á reyndar ekki bara við á Seyðisfirði heldur víða á Austfjörðum og Vestfjörðum og snertir öryggi sjófarenda.

Skipulagsstofnun benti á að landfræðilegar aðstæður og skipaumferð settu staðsetningu sjókvía í Seyðisfirði þröngar skorður og sagði að mikilvægt væri að tryggja að fiskeldi hefði ekki áhrif á siglingaleiðir eða öryggi sjófarenda.

Mörg stór skip koma til Seyðisfjarðar. Ekki bara ferjan Norræna heldur líka skemmtiferðaskip.

„Það er töluverð umferð af fiskiskipum og olíuskipum, mjölskipum og öðru slíku. Ef einhver þessara stóru skipa rekur af leið og rekst í sjókví þá getum við hugsað okkur ansi hreint slæma stöðu,“ segir Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan hefur áhyggjur af siglingaöryggi í fjörðum vegna uppbyggingar á sjókvíaeldi, ekki bara í Seyðisfirði.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.

„Eins og þetta er í dag að þá erum við bara með eina skilgreinda siglingaleið og það er við Reykjanes,“ segir Georg. Fram til þessa hafi sjórinn allur verið siglingaleið. „Meðan það flýtur að þá er það siglingaleið,“ segir hann. „Þannig að þessar takmarkanir sem eru að verða núna í fjörðum landsins fyrir austan og vestan, það er nýtt fyrir íslenska sjómenn og sjófarendur.“

Eitt dæmi er í Ísafjarðardjúpi. Fengist hefur leyfi fyrir sjókvíaeldi eða sótt hefur verið um leyfi fyrir því á alls 17 stöðum.

Núverandi og fyrirhuguð sjókvíaeldissvæði í Ísafjarðardjúpi eru á 17 stöðum.

„Við höfum kannski fyrst og fremst áhyggjur af forgangsröðinni,“ segir Georg, hvort komi fyrst, nytjar eða öryggi sjófarenda og almannaöryggi.

„Fáfarnar hafnir þurfa að vera greiðfærar í það minnsta varðskipum Landhelgisgæslunnar og öðrum ef til náttúruvár kemur,“ segir hann.

Vitar vísa sjófarendum leið með fram ströndinni. Hugmyndin er í grunninn einföld.

Ef skipstjóri tekur stefnu í átt að vita og sér hvítt ljós fram undan þýðir það að skipið er á öruggri leið, engin sker eða aðrar hindranir eru á leiðinni.

Ef ljósið verður rautt er skipið komið af leið.

Skipstjórinn þarf þá að beygja þangað til skipið kemst aftur inn í hvíta ljósgeirann.

Og ef skipstjórinn sér grænt ljóst er það merki um að beygja í hina áttina til að komast aftur inn í hvíta ljósgeirann.

En Samgöngustofa og Vegagerðin hafa bent á fjölda núverandi og fyrirhugaðra eldissvæða sem ná inn í hvítan ljósgeira vita.

„Við vitum að það eru leyfi fyrir fiskeldi í siglingaleið sem er hvítur ljósgeisli,“ segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu. Hvort eldiskvíar séu í hvítum ljósgeisla í dag þekki hann ekki sjálfur. Í það minnsta sé í skipulagi sá möguleiki fyrir hendi.

„Það getur verið stóralvarlegt mál,“ segir Georg Lárusson. „Sjómenn og sæfarendur almennt, hvort sem þeir eru héðan frá Íslandi eða annars staðar frá, treysta sjókortum.“

Og þótt sæfarar 21. aldar hafi háþróuð siglingatæki hefur hvítur ljósgeiri frá vita enn mikilvæga þýðingu, og ekki aðeins sem varaleið ef tækin bila.

„Ljósmerkið er ekki bara ljósmerki,“ segir Georg, heldur heldur sé þetta ákveðinn geisli sem sé settur út í sjókort. „Hvort sem menn sjá vitann eða ekki að þá sigla þeir eftir þessum merkjum,“ segir hann, og noti þá tækni á borð við GPS til að halda sér inni í geislanum.

Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Ice Fish Farm, bendir á að þótt eldissvæði sé skilgreint af tiltekinni stærð þýði það alls ekki að svæðið sé fullt af kvíum. Í raun nái yfirborðsbúnaðurinn yfir mjög lítinn hluta af svæðinu.

„En það er samt afar óvarlegt að veita leyfi fyrir svæði sem gengur inn á siglingaleið nema þá að gera breytingar á siglingaleiðinni, ef það er mögulegt,“ segir Georg Lárusson.

„Mér finnst afar hæpið að treysta bara á einhvern ákveðinn eiganda eða rekstraraðila að svæði, upp á það að hann hafi ekki sjókvíar á hættulegum stöðum,“ segir Georg.

„Þetta eru bara hlutir sem þurfa að vera á hreinu. Þetta þarf að vera skýrt og klárt og afmarkað og menn þurfa bara að fara eftir því.“

Sjókvíar eru festar inn í nokkurs konar ramma sem er afmarkaður af baujum. Taugar ganga frá kvíunum í festingar sem eru undir yfirborðinu fyrir neðan baujurnar, eins og sjá má í kynningarmyndbandi frá fyrirtækinu Scale Aquaculture hér að neðan. Síðan ganga aðrar taugar út frá festingunum alla leið yfir í akkeri sem koma í veg fyrir að rammann og kvíarnar reki í burtu. Niðurstaðan er hálfgerður vefur festinga undir yfirborðinu.

Jens Garðar segir að ef horft sé á niðurstöðu áhættumats siglinga fyrir Seyðisfjörð hafi hann ekki áhyggjur af siglingaöryggi. Hægt sé að fara í mjög eðlilegar mótvægisaðgerðir til að allt sé eins og það á að vera.

„Við teljum okkur að við getum hannað rammana í rauninni inn í þetta svæði,“ segir hann. „Bæði Selsstaðavíkina og Sörlastaðavíkina.“

Siglingaleið undir Óshlíð milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Af vefsíðu MarineTraffic.

Hverfum aftur vestur í Ísafjarðardjúp. Þegar siglt er um Djúpið milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar er gjarnan siglt með ströndinni undir Óshlíð, eins og gögn á vefsíðunni MarineTraffic gefa til kynna: því rauðara sem svæðið er, þeim mun meiri umferð.

„Þetta er nú oft á tíðum erfið siglingaleið og hefur reynst mönnum hættuleg í gegnum árin,“ segir Georg. Smærri bátar reyni að sigla hlémegin inn og út firði, njóta skjóls af landinu, og vera þá nær landinu frekar en hitt, segir hann.

En nú hefur fyrirtækið Arnarlax sótt um að setja upp sjókvíaeldi í miðri þessari leið. Samkvæmt opinberum gögnum myndi eldissvæðið lenda alfarið innan hvíta ljósgeirans frá Arnarnesvita sem vísar sjófarendum örugga leið í átt til Ísafjarðar.

Áformað eldissvæði Arnarlax myndi lenda alfarið innan hvíts ljósgeira frá Arnarnesvita.

„Mér sýnist, eins og þú bentir mér á, að það sé búið að setja út svæði til fiskeldis á afar krítískum stað undir Óshlíðinni,“ segir Georg við Kveik. „Sem mun þá þvinga báta sem að fara þarna á milli til þess að fara verulega langt út fyrir, og út á mitt Djúp. Og það hefur reynst mönnum skeinuhætt oft á tíðum.“

Í tillögu að nýju strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði er gert ráð fyrir eldissvæðinu í hvíta ljósgeiranum og siglingaleið merkt utar í Djúpinu. Það er reyndar hugsanlegt að sum skip og bátar gætu siglt milli sjókvía og strandar og þannig komist hjá því að fara út fyrir eldissvæðið.

Ný siglingaleið samkvæmt tillögu að strandsvæðisskipulagi sýnd með bláum lit.

Kveikur spurði Jón Gunnar, forstjóra Samgöngustofu, hvort þau svæði sem nú þegar væru innan hvíts ljósgeira væru hreinlega lögleg.

Jón Gunnar segir að í raun sé það svo að samkvæmt vitalögum sé óheimilt að fara inn í hvítan ljósgeira með mannvirki. Í hans huga væri þetta ekki löglegt nema viðkomandi búnaður væri ekki á yfirborðinu eða á því dýpi að hann gæti valdið skaða. „Ég get eiginlega ekki svarað með einstök tilvik,“ segir hann.  En í hans huga séu lögin skýr með það að þetta eigi að vera óhindruð leið fyrir siglingar.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu.

Spurður hvort þurfi þá ekki að bregðast einhvern veginn við því segir Jón Gunnar að „að sjálfsögðu“ þurfi að gera það. „Það er eðlilegt bara að skoða það.“

Kveikur spurði hann hvort stjórnsýslan hefði verið nógu vakandi fyrir þessum vanda. Jón Gunnar segir að í sjálfu sér hafi stjórnsýslan bent á annars vegar siglingaleiðirnar og hins vegar eldissvæðin. „Þetta eru auðvitað margir sem að þessu koma,“ segir hann. Líklega hefði mátt bæta samstarf og samráð, segir hann, „en ég tel að við séum á þeirri vegferð núna.“

Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Ice Fish Farm.

Jens Garðar hjá Ice Fish Farm telur að nú sé vert fyrir fyrirtækið að setjast niður með Landhelgisgæslunni, Samgöngustofu og Vegagerðinni „og fara yfir þessi mál og finna þessu sko einhvern réttan farveg og réttan flöt.“

En hver er lausnin við þeim frumvanda að eldissvæði og siglingaleiðir eru á sama stað? Jón Gunnar telur að lausnin sé að leita eftir mótvægisaðgerðum eða leiðum til að leysa úr hnút ef hann sé til staðar. Það geti veirð að eldissvæði sem sé á döfinni gæti þurft að færast eða að skýra þurfi betur hvar kvíar séu innan eldissvæðis. „Það getur líka verið að siglingaleið færist,“ segir hann.

„Þannig að það eru ýmsar leiðir til í stöðunni,“ segir Jón Gunnar, „og ég held að það verði sitt lítið af hverju.“

Náttúruverndarsinnar á Seyðisfirði hafa áhyggjur af mögulegri mengun frá sjókvíaeldi.

Á Seyðisfirði lýsa náttúruverndarsinnar líka áhyggjum af úrgangi frá sjókvíaeldi. Skipulagsstofnun taldi að áhrif vegna uppsöfnunar lífræns úrgangs á sjávarbotni í Seyðisfirði yrðu talsvert neikvæð á takmörkuðu svæði undir og nærri eldisstað en áhrifin myndu minnka með aukinni fjarlægð frá eldinu.

„Það getur enginn sagt að fóðrið og skíturinn fari inn öðru megin og út hinum megin,“ segir náttúruverndarsinninn Sigfinnur Mikaelsson. Þetta komi til með að dreifast um fjörðinn og drepa lífríkið sem fyrir er með tímanum.

Þegar Kveikur benti á að niðurstaðan í umhverfismatinu endurspeglaði þetta ekki, sagði Sigfinnur að hann væri ekki búinn að sjá að búið væri „að fara í þessar rannsóknir að neinu gagni.“

Sigfinnur Mikaelsson er einn af talsmönnum náttúruverndarsamtaka sem nefnast VÁ.

Jens Garðar segir að gríðarlega mikil vöktun sé á starfsemi Ice Fish Farm í fjörðunum. „Þannig að ég hef engar áhyggjur af því að mengun verði of mikil í fjörðunum.“

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi, er jákvæð fyrir áformum fyrirtækisins. „Það er nú kannski erfitt að horfa fram hjá neikvæðum umhverfisáhrifum,“ segir hún. „En stundum þarf maður að vega og meta hvaða aðrir þættir skipta kannski meira máli. Og það bara gerum við í þessu tilfelli.“

Sigfinnur rak sjálfur sjókvíaeldi í Seyðisfirði á árum áður en nú berst hann gegn því. Hann segist sjálfur hafa lent í ýmsum neikvæðum fylgifiskum eldisins á sínum tíma.

„Mengunarhlutinn í þessu, óþverrinn í kringum þetta, myndirnar sem hafa verið sýndar hérna í sjónvarpinu eins og af særðum fiski, dauðum fiski. Þetta er allt sem maður var búinn að ganga í gegnum,“ segir Sigfinnur. Dýravelferð sé ömurlega léleg í kringum sjókvíaeldi.

Jens Garðar segir að Ice Fish Farm hafi mikla vöktun og eftirlit með velferð fiska í kvíum fyrirtækisins. „Það er náttúrulega í fyrsta forgangi hjá okkur, eins og öllum öðrum bændum, að það er velferð dýranna okkar,“ segir hann.

Í fyrra voru sýndar í fréttum RÚV myndir af særðum fiskum sem voru sagðar vera teknar í sjókvíaeldisstöðvum á Vestfjörðum.

Mynd af særðum fiski sem er sögð hafa verið tekin í eldisstöð á Vestfjörðum. Mynd: Veiga Grétarsdóttir.

Spurður hvort Ice Fish Farm hafi lent í slíku segir Jens Garðar: „Auðvitað höfum við alveg séð vetrarsár á fiskum. Og það er eitthvað sem gerist.“

„Þessir einstaklingar eru bara teknir strax,“ segir hann. „Þeir eru teknir strax úr umferð.“

Skaðvaldar geta líka herjað á lax í sjókvíum. Sjúkdómurinn blóðþorri greindist til að mynda nýlega í kvíum Ice Fish Farm.

„Blóðþorri kom upp í fyrsta skipti hjá okkur og það sem við höfum gert, við höfum svolítið tekið upp færeyska módelið,“ segir Jens Garðar. „Við höfum sett upp algjöra eldveggi á milli stöðva. Starfsfólk, tæki og búnaður, skip, fara ekki á milli stöðva.“ Fyrirtækið vonist líka til þess að geta farið að bólusetja við blóðþorra nú eftir áramót.

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir flutti til Seyðisfjarðar í fyrra.

Það er ekki nema um eitt ár síðan Ásrún Mjöll Stefánsdóttir fluttist til Seyðisfjarðar en hún bauð sig fram í sveitarstjórn í vor og náði sæti. Hún er gagnrýnin á áform Ice Fish Farm um laxeldi í firðinum.

Spurð hvort fiskeldi eigi síður heima á Seyðisfirði en annars staðar á Austfjörðum og á Vestfjörðum segir hún að það fari „örugglega algjörlega eftir því hvern þú spyrð.“

Á Seyðisfirði hafi átt sér stað „ýmis þróun og uppbygging sem kannski á ekki samleið með fiskeldi,“ segir Ásrún Mjöll og nefnir LungA-skólann. „Þar sem kemur fólk úr ýmsum áttum, til dæmis með hérna nýja námsbraut, sjálfbærninámsbraut. Þetta á ekki mikla samleið með því.“

Einnig sé mikil ferðaþjónusta á Seyðisfirði „sem þetta á kannski heldur ekki samleið með,“ segir hún.

Ferjan Norræna kemur reglulega til Seyðisfjarðar.

Athygli vekur að Skipulagsstofnun taldi að áhrif fiskeldis á samfélag væru óvissu háð, en gætu orðið talsvert eða verulega neikvæð ef ekki næst sátt um framkvæmdina í nærsamfélaginu. Þetta byggði Skipulagsstofnun meðal annars á fjölda athugasemda í umhverfismatsferlinu og undirskriftalista íbúa gegn áformunum.

Jens Garðar segir að þessi andstaða komi fyrirtækinu kannski að hluta til á óvart. „Svona miðað við hvernig þetta hefur gengið fyrir sig annars staðar á Austfjörðum þar sem við erum með starfsemi.“

„En það ber að hafa í huga að þegar að í rauninni þessi andstaða verður til og undirskriftalistinn fer af stað sem er margumræddur, að þá stóð til, og þá var í umsókninni frá Fiskeldi Austfjarða, þá var sem sagt kvíastæði undir Háubökkum sem eru alveg innst inni í firðinum,“ segir hann og vísar til dótturfélags Ice Fish Farm. Það eldissvæði hefði verið miklu nær kaupstaðnum.

„Við það var mikil andstaða, og sem sagt félagið hvarf þá í rauninni, bara hvarf frá þeim áætlunum,“ segir Jens Garðar.

Sigfinnur telur aftur á móti ekki að viðhorf Seyðfirðinga almennt hafi breyst mikið.

„Nei, það held ég ekki,“ segir hann. „Það hefur öllum verið frjálst að láta afskrá sig af þessum lista. Ég held að það hafi tvær manneskjur gert það, tvær eða þrjár.“

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi.

Jónína forseti sveitarstjórnar segist styðja alla atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. „Við erum með góða reynslu af fiskeldi á Djúpavogi og þar er að rísa stórt sláturhús og þar eru mörg störf.“

Aftur á móti sé erfitt þegar hluti íbúa sé svona mótfallinn eins og verið hefur á Seyðisfirði.

Jóhann Pétur Hansson, fyrrverandi hafnarvörður á Seyðisfirði, segist ekki fyrir fram vilja vera á móti sjókvíaeldinu.

„Ég náttúrulega er búinn að búa hér alla mína ævi og okkur veitir ekkert af atvinnutækifærum,“ segir Jóhann Pétur Hansson, fyrrverandi hafnarvörður á Seyðisfirði.

„Ég svo sem alla vega vil ekki fyrir fram vera á móti því,“ segir hann, „án þess að hérna vita meira, fá meiri upplýsingar um þetta.“

Skipulagsstofnun taldi að fiskeldið gæti haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna af landslagi svæðisins og náttúrulegu yfirbragði þess. Áhrif á ferðaþjónustu gætu orðið talsvert neikvæð, sagði Skipulagsstofnun.

Jóhann Pétur telur að ferðafólk vilji „sjá eitthvað vera að gerast á stöðunum, hvort sem það er þetta eða eitthvað annað.“

„Það er óspillt náttúra um allt Ísland,“ segir hann. Hann telji að fólk hafi komið til Seyðisfjarðar „til að skoða þennan gamla bæ sem við erum með hérna, sem er hluti af þeirri uppbyggingu sem átti sér stað í gegnum atvinnutækifæri.“

Umhverfismati fyrir sjókvíaeldi í Seyðisfirði er lokið og nú er beðið eftir því að Matvælastofnun og Umhverfisstofnun afgreiði umsókn um rekstrar- og starfsleyfi.

*Ice Fish Farm er nafn norska móðurfélags sjókvíaeldisstöðvanna á Austurlandi. Fyrirtækið er ekki hið sama og íslenska fyrirtækið Ice Fish ehf. sem hefur fengið vörumerkið Ice Fish Farm skráð á Íslandi.