Fædd á Íslandi en vísað úr landi

Um jólin fæddist Berke á Landspítalanum. Foreldrar hennar, 19 og 20 ára, önduðu léttar eftir meðgöngu sem litaðist af spennunni sem þau hafa lifað við um langt skeið. Léttirinn var samt tímabundinn, því til stendur að vísa fjölskyldunni úr landi.

Fædd á Íslandi en vísað úr landi

Foreldrarnir, þau Ali og Razia, eru flóttamenn frá Afganistan. Þau voru á barnsaldri þegar þau flýðu undan Talibönum sem Ali segir að hafi hótað að skera hann á háls gengi hann ekki í þeirra raðir.

Leiðin lá til Írans, þar sem afganskt flóttafólk nýtur engra réttinda. Eftir rúmt ár ákváðu þau að reyna að komast til Evrópu, í gegnum Tyrkland, sjóleiðina til grísku eyjarinnar Lesbos. Þar tóku við mánuðir í Moria-búðunum, þar sem ástandið er ekki gott. Þeim var loks veitt hæli í Grikklandi.

Ali heldur á Berke á fæðingardeild Landspítalans

Ali lýsir ástandinu á meginlandinu eins og fleiri flóttamenn sem þar sitja fastir. Nánast vonlaust er fyrir flóttafólk að fá húsnæði. Atvinnuleysi er mikið og þorri flóttamanna er atvinnulaus. Grísk stjórnvöld hafa hert aðgengi að heilbrigðisþjónustu til muna.

Þegar Razia varð ólétt ákváðu þau að reyna að finna leið til betra lífs, barninu til heilla. Þau hafa verið á Íslandi um nokkurra mánaða skeið og óskuðu hér eftir hæli.

Útlendingastofnun hafnaði ósk þeirra hratt og vísaði til þess að þau hefðu hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi. Þau kærðu til kærunefndar útlendingamála en fyrir jól barst niðurstaða hennar, á sama veg. Það breytti engu þar um að það væri barn á leiðinni.

Við fæðingareftirlit á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Þessi málsmeðferð er ekki einstök en hún er umdeild. Rauði krossinn og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, telja hana ekki samræmast Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland hefur leitt í lög. Umboðsmaður barna hefur jafnframt gert athugasemdir við málsmeðferðina og krafist skýringa á því hvernig staða flóttabarna er metin.

Útlendingastofnun telur verklagið hins vegar að fullu samræmast lögum og Barnasáttmálanum.

Fjallað verður um Ali, Raziu og Berke, sem og endursendingar íslenskra stjórnvalda til Grikklands, í Kveik í kvöld kl. 20.05.