Wikborg Rein gætir hagsmuna Samherja

Markmið lögmannsstofunnar Wikborg Rein, er að Samherji komi út úr rannsókn á meintum mútum og peningaþvætti sem sterkara og sjálfbærara fyrirtæki. Þetta segir fulltrúi lögmannsstofunnar við fréttastofu. Samherji hefur ráðið Wikborg Rein til að framkvæma innri rannsókn á starfsemi félagsins.

Wikborg Rein gætir hagsmuna Samherja

Norska lögmannsstofan Wikborg Rein, sem stjórn Samherja, réði til að framkvæma athugun á starfsemi fyrirtækisins í Namibíu og víðar eftir uppljóstrun Samherjaskjalanna, hefur á undanförnum vikum komið fram fyrir hönd útgerðarinnar í deilum vegna sölu á risatogaranum Heinaste. Kaupandi skipsins vill hætta við þau, meðal annars vegna ásakana um mútugreiðslur Samherja.

Þetta sýna gögn sem lögð voru fyrir namibíska dómstóla nýverið vegna deilna meðeigenda Samherja að namibíska útgerðarfélaginu Arcticnam. Þeir sömu og áttu meirihluta í Arcticnam hafa átt minnihluta í eignarhaldsfélagi utan um skipið. Í síðustu viku var það haldlagt af yfirvöldum.

Samherji hefur, síðan umfjöllun um Samherjaskjölin var birt í Kveik, Stundinni og Al Jazeera, fullyrt að Wikborg Rein hafi verið ráðin til að rannsaka ásakanir um mútur og peningaþvætti, og ekkert verði dregið undan. Þorsteinn Már Baldvinsson, einn aðaleigandi Samherja, vék tímabundið á meðan sem forstjóri.

Wikborg Rein var ráðin til starfa af stjórn Samherja vegna uppljóstrana í Samherjaskjölunum. (Mynd/RÚV)

Heinaste er eitt þeirra Samherja-skipa sem veiddi við strendur Namibíu, og Kveikur fjallaði um í nóvember. Þar kom fram að skipið veiddi meðal annars kvóta sem fenginn var með því að greiða aðilum tengdum fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins verulegar fjárhæðir.

Samherji hefur síðustu mánuði reynt að fá samþykki hluthafa til að selja skipið til Rússa. Það hefur verið umdeilt og hafa namibískir kvótahafar, meðeigendur að Arcticnam, ítrekað stefnt Samherjafélögum fyrir dóm í Namibíu, vegna sölunnar.

Í bréfaskriftum sem fréttastofa hefur aðgang að er yfirlýsing fulltrúa rússneska félagsins um að það vilji rifta kaupunum, meðal annars vegna rannsóknar á meintum mútugreiðslum Samherja. Í bréfinu segir stjórnandinn að því hafi einnig ranglega verið haldið fram fyrir dómstólum að þegar væri búið að gera kaupsamning vegna skipsins.

Úr bréfinu sem Wikborg Rein sendi fyrir hönd Samherja vegna sölunnar á Heinaste. (Mynd/RÚV)

Í gögnunum er einnig að finna bréf frá Wikborg Rein, fyrir hönd Samherja, til lögmanna rússneska félagsins. Þar kemur fram að Wikborg Rein gæti hagsmuna Samherja. Í bréfinu er einnig vikið að meintum mútugreiðslum Samherja, sem lögmannsstofan segir aðeins ásakanir og að ekkert hafi verið sannað í þeim efnum.

Í skriflegu svari segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, að rannsókn Wikborg Rein sé ekki opinber rannsókn, heldur innri rannsókn. Lögmannsstofan hafi einnig veitt lögfræðilega ráðgjöf vegna hennar. Björgólfur vildi ekki svara ítrekuðum spurningum um hvort Wikborg Rein hefði verið ráðin til að gæta hagsmuna Samherja og vísaði á yfirlýsingu sem lögmannsstofan sendi fréttastofu.

Björgólfur Jóhannsson tók við forstjórastarfinu tímabundið á meðan Wikborg Rein kannar starfshætti Samherja. (Mynd/RÚV)

Yfirlýsingin var svar við skriflegum spurningum sem sendar voru Wikborg Rein fyrr í dag. Í henni kemur fram að lögmannsstofan vinni að athugun á starfsemi Samherja og að það sé gert í umboði stjórnar fyrirtækisins. Það sé ekki í þeirra höndum að komast að niðurstöðu um hvort Samherji hafi brotið lög, það sé viðeigandi yfirvalda að skera úr um.

Wikborg Rein segir að markmið vinnu sinnar sé meðal annars að Samherji standi uppi sem sterkara og sjálfbærara fyrirtæki.