„Ég varð að fara að spila“

Rannsóknir segja rúmlega 2000 Íslendinga glíma við alvarlega spilafíkn - allt að þrefalt fleiri glími við fíknina í einhverri mynd.

Daníel Ólason sálfræðiprófessor við Háskóla Íslands hefur rannsakað spilamarkaðinn íslenska frá 2002 – og rekist þar á sömu tengsl og erlendir kollegar hans.

Í Kveik í kvöld er fjallað um aðgengi Íslendinga að spilakössum, sem jafnan eru hjartað í rekstri spilavíta um allan heim, þrátt fyrir að fjárhættuspil séu bönnuð.

„Ég fékk hjartaáfall 2010. Ég gat ekki labbað út af spítalanum eftir skurðina sem ég var með. Um kvöldið þá fór ég á Catalinu í Kópavoginum og þú þarft að labba niður stiga, brattann, erfiðan stiga. Ég varð að fara að spila. Og það er ekkert sem stoppar þig,“ segir Örn Karlsson, sem er spilafíkill í bata.

Alma Hafsteinsdóttir, sem er líka í bata, gagnrýnir fyrirkomulagið eins og það er í dag. „Ef að samfélaginu finnst þetta bara allt í lagi þá er það bara þannig. Við erum ekkert í einhverri herferð að loka öllum spilakössum á Íslandi. Bara alls ekki. Við viljum aftur á móti að allir taki ábyrgð ekki eingöngu bara spilafíkillinn,“ segir hún.

Ítarlega verður fjallað um málið í Kveik í kvöld þar sem meðal annars verður rætt við fulltrúa Íslandsspila og Happdrætti Háskóla Íslands, sem reka þá spilakassa sem er að finna hér á landi.