Hagnast á spilafíklum í gegnum spilakassa

Það fer ekki mikið fyrir því í auglýsingum Happdrættis Háskólans en stærstur hluti tekna þess kemur úr spilakössum Gullnámunnar. 500 spilakassar skila allt upp í 700 milljónum króna í sjóði Háskólans.

Rauði krossinn fær að sama skapi rúmlega hálfs milljarðs króna tekjur ár hvert úr spilakössum Íslandsspila, sem Rauði Krossinn á meirihluta í. Slysavarnarfélagið Landsbjörg fær 230 milljónir frá Íslandsspilum á ári og SÁÁ rúmar 80 milljónir króna. Samanlagðar árlegar tekjur Íslandsspila og Happdrættisins af rekstri 900 spilakassa eru um 9 milljarðar króna.

Þegar vinningar og rekstrarkostnaður hafa verið dregnir frá standa eftir rúmlega 2 milljarðar. Hreinn hagnaður fyrirtækjanna tveggja er um það bil 1400 milljónir. samtals.

Hagnaðurinn af rekstri spilakassa er talsverður. (Mynd Stefán Drengsson og Sævar Jóhannesson/RÚV)

Afgangurinn, 600 milljónir, koma í hlut spilastaða sem umboðslaun. Það þýðir að meðaltekjur spilastaðar af einum svona spilakassa séu nálægt 700 þúsund krónur á ári. Háspenna rekur til dæmis tvo spilakassasali í miðbæ Reykjavíkur. Sá rekstur skilaði 150 milljón króna tekjum árið 2016 og eigendunum tugum milljóna í arð síðustu ár. Svo er um rekstur fleiri spilastaða.

Á hinum endanum eru svo neytendur – ekki síst stórneytendur.

Þúsundir glíma við spilafíkn

Rannsóknir segja rúmlega 2000 Íslendinga glíma við alvarlega spilafíkn - allt að þrefalt fleiri glími við fíknina í einhverri mynd. Daníel Ólason sálfræðiprófessor við Háskóla Íslands hefur rannsakað spilamarkaðinn íslenska frá 2002 – og rekist þar á sömu tengsl og erlendir kollegar hans.

Fræðimenn telja ástæður þessa þrjár: Hraði - hvert veðmál tekur nokkrar sekúndur. Endurgjöf - en spilakassar eru þannig forritaðir að þeir gefa oft vinninga, jafnvel þó að vinningurinn sé oftar en ekki minni en það sem lagt var undir. Og í þriðja lagi - ímynduð stjórn.

Árið 1949 voru tveir menn dæmir til hárra fjársekta í Hæstarétti fyrir spilakassarekstur í kjallara við Hafnarstræti 17. Hæstiréttur taldi þá engum vafa undirorpið að spilakassar væru ólöglegt fjárhættuspil.

Spilafíklar leita gjarnan í spilakassa. (Mynd Stefán Drengsson og Sævar Jóhannesson/RÚV)

Á Íslandi finnast ekki spilavíti að erlendri fyrirmynd - þau eru bönnuð. Hér er samt tiltölulega dreift og opið aðgengi að spilakössum eins og Gullnámunni, sem safna saman í allt að 20 milljóna króna vinningspott. Slíkir spilakassar eru jafnan taldir sjálft hjartað í spilavítum um allan heim.

„Sú tegund fjárhættuspila sem gefur spilavítinu mestar tekjur eru spilakassar. Mér vitanlega er hvergi að finna spilakassa, sem eru samtengdir með þeim hætti - spilamennska í þeim, safnar í stóra potta, getum kallað það gullpott. Þú finnur ekki slíka kassa utan spilavíta mér vitanlega, nema á Íslandi. Það er sérstakt að við séum með þær aðstæður – með kassa af þessari gerð í frekar almennri dreifingu. Ef einhver heldur því fram þá er það rangt að segja sem svo að við gerum hlutina betur en nágrannaþjóðir okkar,“ segir Daníel.

Hægt er að taka út af kortum í spilasölum. (Mynd Stefán Drengsson)

Taka út peninga í spilasölunum

Kveikur hefur undanfarið heyrt af og séð fjölda dæma og sannreynt að það er lítið mál að fá slíka þjónustu á spilastöðum. Eitt þeirra fékk Kveikur leyfi til að birta: Á bankayfirliti einstaklings frá miðju ári 2016, sem spannar tvo sólarhringa má finna 26 debetkortafærslur á tveimur spilastöðum hér við Hamraborg í Kópavogi.

Yfir ríflega sólarhring tók viðkomandi þannig út í skiptum fyrir reiðufé, nærri eina milljón króna á spilastöðunum Video Markaðnum og Café Catalínu. Þar af 200 þúsund krónur í fjórum færslum á rúmri klukkustund á Catalinu. Þessi rúma milljón fór að sögn rakleitt í spilakassa sömu spilastaða. Fæstir bankar leyfa hærri úttekt á reiðufé en 500 þúsund krónur á einum degi. Aðrar reglur virðast gilda um spilastaði.