„Ég átti ekki í nein hús að venda“

„Það gengur eiginlega kraftaverki næst að ég skyldi ekki lenda í fangelsi. Öll þessi drykkja gerði það að verkum að ég vildi binda endi á líf mitt. Mig langaði ekki að lifa,“ segir Andrzej Ratajczak um fortíð sína. Hann á að baki marga áratugi í óreglu og glæpum og segist sjálfur að endingu hafa verið kominn á það sem hann kallar botn mannlegrar tilvistar. Og þá var líka nóg komið.

„Þeir fóru með mig til Gniezno í afeitrun. Þeir vildu mig ekki þar. Þeir sögðu: Láttu renna af þér hjá Barka. Ég áttaði mig á því að ég átti ekki í nein hús að venda. Nema hjá Barka,“ segir Andrzej sem er nú einn af mörgum svokölluðum leiðtogum pólsku samtakanna Barka. Reykjavíkurborg hefur haft samstarf við þau undanfarna mánuði um að gefa austurevrópskum ríkisborgurum hér á landi kost á meðferð í heimalandi sínu. Vegna tungumálaörðugleika hafa þeir átt fáa meðferðarkosti á Íslandi.

Síðasta þriðjudag fjallaði Kveikur um starfsemi samtakanna í Reykjavík en í kvöld skoðum við nánar starfsemina í Póllandi og hittum fyrir heimilismenn á heimilum Barka. Umfjöllunina má sjá í heild í spilaranum hér að ofan.