*

„Ég held að það sé dálítið snobb í þessu“

Þegar börn ljúka grunnskólanámi á Íslandi eru þau iðulega spurð að því í hvaða skóla þau ætli að fara. Takið eftir því að það er ekki spurt hvað þau langi að læra, bara í hvaða skóla þau ætli. Og virðingarstiginn virðist nokkuð skýr miðað við aðsóknartölur.

Gömlu bóknámsskólarnir eru vinsælastir og starfsnámsskólarnir eru töluvert neðar á þeim lista. Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans segir viðhorfið þó vera að breytast, það sé töluvert svalara að fara í Tækniskólann nú en fyrir nokkrum árum. Það komi þó enn fyrir að nemendur þurfi að verja þá ákvörðun sína að fara í starfsnám, einkum ef þeir eru sterkir í bóklegu greinunum.

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, tekur undir þetta. Nemendur hans segi foreldra oft beita miklum þrýstingi, þeir vilji að börnin ljúki stúdentsprófi fyrst, svo megi íhuga annars konar nám.

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

„Þetta er bara það sem nemendur segja við okkur að foreldrarnir segi. Þetta er viðhorf samfélagsins. Og viðhorf samfélagsins breytist ekki 1,2 og 3,“ segir Ársæll.

„Við þurfum að breyta svo mörgu hjá fólki til að átta sig á því að til að fara í iðnnám í dag, eða tækninám almennt, þá þarftu að hafa góða náðargáfu til að læra. Þetta er tækninám og margar iðngreinar mjög flóknar og krefjast margra úrlausnarefna. Það er alltof mikið um það að við, sem samfélag, beinum nemendum sem eru góðir að læra á bókina beint inn í bóknámið, svo eiga aðrir að fara í starfsnámið.“

Svona hefur viðhorfið verið lengi og þrátt fyrir stöðugar umræður, skýrsluskrif og vandamálaskilgreiningar, hefur enn ekki tekist að gera verk-og starfsnámi jafn hátt undir höfði og bóknámi.

Andrea Sól Svavarsdóttir er sautján ára og hóf nám í dúklögn og veggfóðrun við Tækniskólann í janúar. „Ég var í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ og ákvað að fara í Menntaskólann við Sund. Ég var þar í eina önn, á félagsfræðibraut og var ekki alveg að fíla það.“

Hún á ekki langt að sækja þekkinguna á faginu. „Ég hef verið að vinna með pabba og afa í gegnum tíðina og hjálpa þeim. Þeir hafa verið að vinna við þetta alla daga bara síðan ég man eftir mér.“

Andrea er ein þriggja kvenna sem eru að læra dúklögn núna. Guðmundur Óskarsson hefur kennt fagið í rúm fjörutíu ár og er mjög ánægður með fjölbreyttari nemendahóp.

Andrea Sól Svavarsdóttir nemur dúklögn og veggfóðrun við Tækniskólann. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Þetta eru fyrstu dömurnar sem eru að læra veggfóðrun og dúkalögn. Sigga Beinteins var hjá pabba sínum að vinna, en fór aldrei í gegnum þetta alveg... og ekki í skólann. En þetta eru fyrstu dömurnar sem við fáum í fagið!“

Andrea segir flesta bekkjarfélagana hafa farið í „venjulegan“ framhaldsskóla að ljúka stúdentsprófi. Hún er ekki viss um hvers vegna það sé.

„Ég hef ekki hugmynd. Ég held að það sé bara lítið eftirsótt nútildags og fólk horfi bara á það að það þurfi að klára stúdentspróf og þurfi að klára menntaskóla og vera í menntaskóla yfirhöfuð.“

Sjálf fékk hún góð viðbrögð við sinni ákvörðun, en fæstir skildu reyndar hvað hún var að fara að læra. „Fólki fannst þetta allavega mjög skrítið að ég hafi ákveðið að fara í þetta.“

Í úttekt Ríkisendurskoðunar frá því vorið 2017 um Starfsmenntun á framhaldsskólastigi segir:

„Yfirvöld menntamála og hagsmunaaðilar hafa eytt miklum tíma og fjármunum til að greina vandann… ómarkviss stefnumótun og ófullnægjandi aðgerðir stjórnvalda [hljóta] að eiga umtalsverðan þátt í því að starfsnám stendur höllum fæti.“

Samt er ekki lítið búið að tala um þetta, stjórnmálamenn hafa ekki farið í kosningabaráttu áratugum saman án þess að minnast á nauðsyn þess að efla iðn-og verknám. Samt hefur ósköp lítið gerst. Hvers vegna er það svo?

Matreiðsla er meðal þess sem nemar í iðnnámi læra. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

„Eigum við ekki að segja sem svo að það séu svo margir hagsmunaaðilar komnir inn í pokann að það getur eiginlega enginn hreyft sig inni í honum lengur,“ segir Ársæll.

„Þetta er orðið svo bólgið kerfi með svo mörgum nefndum og hagsmunaaðilum sem þurfa að koma sínu að og hafa skoðun á hlutunum að það hreyfist ekkert lengur.“

Hvað er átt við með þessu? Starfsmenntakerfið eins og það er núna er svona uppbyggt:

Nemandi skráir sig í starfsnám. Í sumum greinum, eins og matreiðslu, framreiðslu og kjötiðn, þarf hann að vera kominn með samning áður en hann getur hafið nám. Í öðrum fögum fer hann fyrst í skólann og svo á samning hjá meistara úti á vinnustað.

Til að öðlast starfsréttindi þurfa flestir nemar svo annars vegar að standast lokapróf eða burtfararpróf í skólanum og hins vegar að taka sveinspróf, sem atvinnulífið stendur fyrir.

Í kringum allt þetta lætur nærri að séu 300 manns, í starfsgreinaráðum, í nemaleyfisnefndum, í sveinsprófsnefndum, hjá fræðslusetrinu Iðunni og svo framvegis.

Jón B. Stefánsson ætlar að sjá breytingar gerast. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Ég er búinn að lifa við þetta kerfi óbreytt alla mína ævi. Mér finnst ég hafa skyldu til þess að skila þessu öðruvísi,“ segir Jón B. Stefánsson, fyrrverandi skólameistari Tækniskólans og núverandi fulltrúi menntamálaráðuneytisins í starfshóp sem á að setja fram tillögur að breyttu og bættu kerfi.

Samtök sveitarfélaga, menntamálaráðuneytið, framhaldsskólarnir og Samtök iðnaðarins starfa þar saman.

Hérlendis hefur hlutfall þeirra nýnema sem innritast á starfsnámsbrautir verið svipað síðasta áratuginn: 14-18%, að undanskildu 2014 þegar það fór yfir 20%. Sambærilegt hlutfall í ríkjum Evrópusambandsins er um 50%.

Svona hefur hlutfall bóknáms- og iðnnámsnemenda verið undanfarin ár. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson/Ragnar Visage)

Umsóknum fjölgaði samt töluvert í haust, þannig að það eru vísbendingar um að þetta sé að breytast. En það er ekki nóg að fleiri sæki um, skólarnir þurfa að geta tekið við nemendunum og það segir Ársæll í Borgarholtsskóla að sé ekki hægt.

„Við getum það alls ekki. Bara hreint út sagt. Ég er til dæmis með 117 manns í grunndeild bíliðna en ég get bara tekið 72 áfram. Hinir verða bara að hætta.“

Eftir að Covid-19 faraldurinn hófst, var lögð mikil áhersla á að opna dyr skólanna fyrir eins mörgum og mögulegt er. Til þess var veitt auknu fjármagni í vor. Fyrir vikið voru 400-450 nemendur í viðbót teknir inn í Tækniskólann, að sögn Hildar skólameistara. Heilmikið stóð þó út af.

„Þetta gerist ekki á einni nóttu. Ég gat ekki bætt við 800 nemendum bara svona.“

Ársæll er ósáttur við hægagang kerfisins.

„Það er ákall úr fjöldanum öllum af starfsnámsskólum og búið að vera lengi, að við þurfum að stækka. Þegar ekki er aðsókn, þá hlustar enginn. Svo kemur mikil aðsókn og þá er ekki búið að gera neitt.“

Tækniskólinn er stærsti iðnnámsskóli landsins. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Kerfið sem verkmenntunin byggir á, er í rauninni aldagamalt, frá þeim tíma þegar neminn bjó jafnvel hjá meistaranum, sem kenndi honum verklagið á daginn og svo var setið yfir bókum á kvöldin.

Þegar nemandi hefur nám í Tækniskólanum, þá er engin trygging fyrir því að hann geti lokið náminu og fengið starfsréttindi. Ástæðan er sú að hver og einn verknemi þarf sjálfur að finna sér meistara sem er tilbúinn til að taka hann á samning og greiða umsamin nemalaun á samningstímanum.

Þetta segir Hildur óviðunandi stöðu á 21. öldinni.

„Ef við stillum þessu bara við hliðina á stúdentsprófinu, þú segir ekki við stúdentsnema: „Heyrðu velkomin, svona áttu að taka áfangana, nema síðasta árið, þá þarftu að redda þér sjálf kennara í dönsku, íslensku, stærðfræði og náttúrufræði.”

Og sannfæra þá um að greiða þér laun á meðan.

Samningstíminn og allt skipulagið miðast heldur ekki við það sem neminn er búinn að læra. Reglurnar segja bara að allir sem ætla að verða bakarar, kokkar eða kjötiðnaðarmenn, þurfi að hafa verið 126 vikur á samningi. Í pípulögnum og málaraiðn eru þetta 96 vikur, í húsasmíði og múrverki 72,  48 í rafvirkjun, 36 í snyrtifræði, 24 í klæðskurði -  og þetta er alveg óháð því hvað neminn kann fyrir og hversu hratt hann lærir. Það eina sem telur, eru greiðslur í lífeyrissjóð.

Þetta fyrirkomulag leiðir til þess að nemar sem lenda á vondum vinnustað - sem getur alveg gerst - láta sig jafnvel hafa það, bara til að geta klárað samningstímann. Eða gera jafnvel leynisamning við meistarann um að þiggja engin laun og vinna stundum störf sem hafa ekkert með fagið að gera.

Axel Högnason gullsmiður. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Axel Högnason, gullsmiður, var sjálfur á samningi á ágætu verkstæði, en heyrði margt af samnemendum sínum sem ekki voru jafn heppnir.

„Ég hef alveg heyrt af því að fólk taki engin laun, borgi sjálft í lífeyrissjóð. Ég er búinn að heyra það alveg hægri vinstri að fólk hefur verið að lenda í þessu.“

Fræðslusetrið Iðan er í eigu níu félaga í atvinnulífinu og sér um alla námssamninga og eftirlit með þeim. Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar segir vissulega til dæmi um þetta. Þau séu sem betur fer örfá í þeim mikla fjölda samninga sem gerður er á hverju ári.

Gallinn er hins vegar sá að nemar í þessari stöðu leita ekki til Iðunnar vegna samningsbrota, heldur er þetta gert með þeirra samþykki. Það er því ólíklegt að það komist upp.

„Það er náttúrulega ýmiss konar eftirlit með aðbúnaði nema á vinnustöðum. Við erum með ákveðið eftirlit með okkar nemum, stéttarfélögin fara í vinnustaðaheimsóknir og fylgjast með þessu líka, þetta er líka inni á borði Vinnueftirlitsins. En auðvitað er það þannig að við getum aldrei verið með eftirlit maður á mann,“ segir Hildur Elín.

Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Svo er misjafnt milli greina hvernig gengur að komast á samning. Í matvælagreinunum er það til dæmis bara matreiðslan sem hefur verið í jafnvægi.

Guðríður E. Arnardóttir, skólameistari MK, segir samningana flöskuháls, það sé tilfinnanlegur skortur á því að nemendur sem hafi áhuga og vilja, komist á námssamning.

Gullsmiðurinn Axel Högnason kannast við þetta.

„Þegar ég var að leita að samning þá spjallaði ég við gullsmið sem sagðist vera opinn fyrir því að taka nema. En hann vildi helst fá stelpur og helst myndarlegar stelpur, því þær eru svo öflugar í afgreiðslunni, selja svo vel.“

Hann segir nema jafnvel hafa borið gjafir á meistara, í þeirri von að komast á samning.

(Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

„Sumir mættu með ávaxtakörfu eða villibráð í viðtöl. Það var rosa sniðugt ef þú kynnir að setja upp vefverslanir eða gætir ljósmyndað skartið og ættir búnað til þess. Ég veit um einn gullsmið, þegar hann var á samningi, þá var hann látinn flísaleggja – hann var ansi naskur í því.“

Það sem er merkilegt, er að skólarnir hafa enga yfirsýn yfir það sem neminn lærir á vinnustaðnum. Hann bara hverfur úr skólanum og kemur svo aftur, vonandi með þá færni sem þarf til að standast sveinspróf.

Það skólafólk sem Kveikur hefur rætt við, er allt sammála um að skólarnir eigi að taka samningsmálin yfir. Þeir eigi einfaldlega að halda utan um sína nemendur frá a til ö, hvort sem þeir eru í starfsnámi eða bóknámi. Fyrirkomulagið eins og það sé, gangi ekki upp lengur.

„Ég vil sjá að námið færist alfarið inn í skólana á ábyrgð skólanna og að vinnustaðanám verði á ábyrgð skóla í samvinnu við atvinnulíf,“ segir Ársæll Guðmundsson í Borgarholtsskóla.

Guðríður í MK bendir einnig á að nemendur séu ólögráða til 18 ára aldurs og ef þau fari beint í iðnnám eftir grunnskóla, þá séu þau hluta af sínu námi inni á vinnustöðunum, ólögráða. Það skipti einnig máli í þessu tilliti.

Guðríður E. Arnardóttir, skólameistari MK. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Hugmyndin er sú að hæfnikröfur og starfalýsingar séu búnar til af atvinnulífinu í samstarfi við skólana og settar inn í svokallaða ferilbók nemandans – og hún verður rafræn. Þar er einfaldlega listi yfir annars vegar það sem hann á að læra í skólanum og hins vegar það sem hann þarf að læra á vinnustað – eða vinnustöðum.

Hingað til hefur það hvergi verið skilgreint hvað neminn á að læra í vinnustaðanáminu.

„Það er alveg augljóst að í skóla geturðu ekkert lært allt. Ég get tekið sem dæmi byggingariðnaðinn, mótin, sem eru risastór og þung og það þarf stóra krana til að hífa þetta og stilla þetta af. Þú lærir það ekkert úti á skólalóð,“ segir Jón B. Stefánsson. En í umhverfi sem gerist æ sérhæfðara, sé eðlilegt að nemendur fari á fleiri en einn stað í verklegt nám, sem skólarnir skipuleggi.

„Við þurfum að breyta þessu samningskerfi þannig að nemandinn sé raunverulega að læra það sem hann þarf að læra, það sem hann vantar.“

Þá þarf neminn ekki að vera í vinnustaðanámi í fyrirfram ákveðinn tíma, heldur bara þar til hann er búinn að læra það sem krafist er. Kannski í 20 vikur í stað 72.

Þessu er Hildur Ingvarsdóttir sammála.

„Ég er kannski að læra vélvirkjun og nú fer ég til Héðins í tvo mánuði og þá er bara verið að kenna mér alveg ákveðna þætti. Svo kem ég aftur inn í skólann, svo fer ég kannski til Landsvirkjunar, í virkjun, að kynnast einhverjum ákveðnum hlutum í einhvern ákveðinn tíma.“

(Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Axel Högnason var á samningi hjá gömlu gullsmíðaverkstæði og lærði því mikið um víravirki og gamlar aðferðir, en þurfti annars að sækja sér þekkingu út fyrir verkstæðið.

„Þarna einmitt kom svo vel í ljós munurinn á því hvar þú lendir. Þegar kom að einhverju svona eins og steinaísetningu, einhverju nýrra dæmi, þá þurfti ég oft bara að snúa mér til YouTube eða kaupa mér gullsmíðakennslubækur eða finna mér einhvern sem var til í að segja mér hvernig hann gerir þetta, á netinu,“ segir Axel.

„Hugmyndin að rótera nemum á milli verkstæða myndi skila miklu hæfari eða fjölbreyttari gullsmið í lokin.“

Þá fengi vinnustaðurinn líka greitt fyrir að taka nemann og kenna honum ákveðna hluti. Þegar færninni er náð, er merkt við það í ferilbókinni og hann snýr sér að næsta verkefni. Nemendur geta því verið mislengi með námið, allt eftir því hvað þeir kunna fyrir og hvað þeir eru fljótir að læra.

„Þetta rof, að nemandinn þurfi sjálfur að finna sér námspláss, það er bara, á þessum tíma, það er ekki hægt. Við getum ekki gert þetta svona,“ segir Jón. „Við þurfum að breyta þessu og það er það sem við höfum verið að vinna að.“

Andrea Sól Svavarsdóttir er sautján ára og hóf nám í dúklögn og veggfóðrun. (Mynd Kveikur/Arnar Þór Þórisson)

En svo snýst þetta ekki bara um kerfi. Heldur viðhorf. Það verður ekki fram hjá því horft að viðhorf til verknáms hefur lengi litast af stéttskiptingu, jafnvel einhvers konar snobbi.

Andrea Sól skynjar það í sínu námi.

„Já, ég held að það sé dálítið snobb í þessu, muninum að vera í verknámi og yfir í að taka stúdentspróf.“

Hún er þó hæstánægð með sitt val.

„Eins og ég horfi á þetta finnst mér þetta bara fleiri möguleikar en á mörgum öðrum sviðum. Þetta er skemmtileg vinna og þú ert að byggja hús fyrir fólk - og hitann og rafmagnið og gólfin og veggina. Þetta skiptir allt saman máli í samfélaginu.“

Hildur Ingvarsdóttir segir marga nemendur Tækniskólans þegar hafa lokið stúdentsprófi, jafnvel háskólagráðu.

„Auðvitað er allt nám gott, en kannski langaði þá á endanum bara í smíði eða rafvirkjun en það var eitthvað úti sem sagði þeim að þetta væri rétta leiðin. Þetta er mjög kostnaðarsamt.“

Tölfræðin endurspeglar þetta. Því þótt hlutfall nýnema í starfsnámi sé aðeins um 15%, þá er heildarhlutfallið rúmlega 30%. Meðalaldurinn er líka töluvert hærri en í bóknámsskólum. Þetta bendir til þess að margir skipti um skoðun eftir að hafa prófað aðrar námsleiðir og fari þá í starfsnám.

Að sama skapi er kynjahlutfallið líka mjög ójafnt: aðeins þriðjungur nema í starfsnámi er kvenkyns og greinarnar eru mjög kynjaskiptar.

Guðrún Ragna Karlsdóttir fór fyrst bóknámsleiðina. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Guðrún Ragna Karlsdóttir er í grunnnámi bíliðna í Borgarholtsskóla og ef til vill gott dæmi um það sem nefnt er hér að ofan.

„Ég er búin að vera í menntaskóla og háskóla og allt þetta og það var ekki fyrir mig. Svo ég vildi prófa eitthvað annað, öðruvísi, vinna eitthvað með höndunum. Þetta er fyrsta önnin mín hér og ég er að pæla í að fara í bílamálunina.“

Kostnaður ríkisins er að meðaltali um ein og hálf milljón á hvern framhaldsskólanema á ári. Það segir sig sjálft að það er dýrt að beina nemendum annað en hugur þeirra stendur til.

„Ungt fólk hefur mjög hratt náð að opna augu sín fyrir öllum möguleikum og það sækir sér möguleikana. Við þurfum að koma til móts við þetta unga fólk sem veit meira hvað það vill,“ segir Ársæll, skólameistari Borgarholtsskóla.

Það er nefnilega hægt að skynja þau skilaboð ótrúlega víða, að starfsnám sé aðeins ómerkilegra. Hildur Ingvarsdóttir nefnir sem dæmi Nýsköpunarsjóð námsmanna.

„Ég er kannski með 23 ára nema í rafeindavirkjun, sem er búinn með stúdentspróf og jafnvel eitthvað í háskóla. Hann er kannski að forrita eitthvert vélmenni eða búa til dróna eða gera eitthvað svakalega tæknilega flott, en hann getur ekki sótt með fyrirtæki í þennan sjóð, því við erum ekki viðurkenndur háskóli.“

Annað dæmi sem má nefna eru grunnskólakennarar sem mega einu sinni á starfsævinni taka ársleyfi til að efla sig í starfi. Og þrátt fyrir að mikil áhersla sé lögð á að innleiða meiri kennslu í tækni og nýsköpun í grunnskólana, þá mega kennararnir ekki nýta þennan tíma til að taka einingar í starfsnámsskóla.

„Ég er til dæmis með einn grunnskólakennara hérna núna, sem er að taka áfanga í rafvirkjun, hann fær það samt ekki samþykkt, hann verður að vera í háskóla. Hann langar kannski bara að koma og verja þessu ári í að læra forritun eða stafræna hönnun eða rafeindavirkjun. Þannig að hann fái einhverju aukna þekkingu sem hann getur farið með beint til krakkanna sinna. Færnina sjálfa og sjálfstraustið sem því fylgir. En það er ekki í boði.“

(Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Síðast en ekki síst eru það foreldrarnir. Rannsóknir sýna að þeir hafa mikil áhrif á val barna sinna – og eitt af því sem foreldrar hamra gjarnan á er þetta: að þau verði fyrst að klára stúdentspróf, svo þau hafi val um að fara í háskóla.

„Það hefur verið einblínt of mikið á bóknámið og margir nemendur litið svo á að þeir verði að klára stúdentspróf áður en þeir geti farið að læra það sem hugur þeirra stendur til, ef að það er iðnnám. Þannig að mér fyndist það til dæmis ágætis byrjun að sá sem hefur lokið iðnnámi geti skráð sig í háskóla, bara út frá þeim reglum sem háskólinn setur,“ segir Guðríður í MK.

Í inntökuskilyrðum háskóla er almennt gerð krafa um stúdentspróf og fyrir ákveðnar deildir er sérstaklega tekið fram að það skuli vera af bóknámsbraut. Þetta mun breytast.

„Tökum í burtu allar þessar hindranir. Það þýðir það ekki að ég geti farið, eftir að hafa lært klæðskurð að ég geti bara hoppað inn í verkfræði og gengið rosa vel þar. Það segir sig sjálft að ég þarf að vera búin að taka slatta af stærðfræði,“ segir Hildur Ingvarsdóttir.

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Nú er einmitt verið að ryðja þessari hindrun úr vegi. Frumvarp menntamálaráðherra þessa efnis er komið í samráðsgátt stjórnvalda og verður lagt fyrir alþingi á næstu mánuðum.

Dúkaraneminn Andrea Sól er ánægð með þessa þróun.

„Ég held að það muni breyta miklu. Af því að það er fullt af fólki sem hefur klárað sveinspróf í mismunandi iðngreinum, en kemst svo ekki inn í háskóla ef þau langar að læra eitthvað annað. Af því að þau eru ekki með þetta sérstaka stúdentspróf, þótt þau séu kannski að fara að læra eitthvað framhald af þeirra grein. Ég held að þetta muni breyta miklu.“

Þetta eru nokkuð róttækar breytingar sem fram undan eru, ef allt gengur eftir: Skólarnir taka samningana yfir og senda nemendurna á mismunandi staði til að læra það sem þarf. Námstíminn styttist og verður mismunandi milli nemenda, eftir því hvað þeir kunna og eru fljótir að læra. Og með lokapróf frá starfsnámsskóla upp á vasann, geta þeir skráð sig í háskóla.

Hvað tekur langan tíma að innleiða þessar breytingar?

„Eitt ár,“ segir Jón. Tilraunaverkefni fer af stað um áramótin og svo þarf að breyta reglum og skipulagi.

„Skipulag starfsnáms er mjög viðamikið og flókið. Ef það er vilji til þess, þá er hægt að gera þetta mjög hratt.“ Hann segir alltaf tregðu til breytinga og sérstaklega þegar átt er við gamalt kerfi sem hafi staðið sig að mörgu leyti vel. En það þurfi að þróast eins og annað. „Við erum í allt öðru samfélagi en við vorum í fyrir 50 árum síðan. Við verðum bara að aðlaga okkur að því og að þessu leyti líka.“

Hildur tekur undir þetta. „Hér erum við með þessa þjóð og við viljum vera nýsköpunarsamfélag, við viljum vera vel menntað samfélag, við viljum vera best. Hvaða kerfi er best til að vera best? Þannig þurfum við bara að vinna.“