Breyta kílómetrastöðu bíla fyrir sölu

Sprengingin sem varð í fjölda ferðamanna eftir hrun hefur haft mikil og jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi. Eitt af því sem hefur gerst er að bílaleigum hefur fjölgað mikið og með þeim auðvitað bílaleigubílum. Á síðustu árum hafa bílaleigurnar verið drifkrafturinn í endurnýjun bílaflotans – og því eru gamlir bílaleigubílar stór hluti þeirra bíla sem hér eru seldir notaðir.

Þessir bílar eru eins og við er að búast, í misjöfnu ástandi. Þeir hafa verið keyrðir mikið, af mörgum mismunandi bílstjórum, og við misjafnar aðstæður. Það er þó ekki það eina. Gögn sem Kveikur hefur undir höndum sýna að átt hefur verið við kílómetrastöðu notaðra bíla sem eru seldir á Íslandi. Þetta eru bílar sem bílaleigan Procar hefur selt undanfarin ár.

Blöskraði háttsemi vinnuveitandans

Einstaklingur sem tengdist rekstri bílaleigunnar aflaði þessara gagna, og afhenti Kveik. Hann samþykkti að veita okkur viðtal um hvernig hann komst á snoðir um háttsemi stjórnenda bílaleigunnar með því skilyrði að hann nyti nafnleyndar.

Uppljóstrarinn vill ekki koma fram undir nafni. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Það kemur að því eitt sumarið, þá þarna, þá þurfa þeir að kaupa nýja bíla, sem sagt nýja Jimny bíla, en þeir ákveða að gera það ekki heldur gera frekar upp gömlu Jimny bílana sem þeir eiga. En þá náttúrulega sko, þá geta þeir ekki leigt þá út, því í rauninni eru þeir keyrðir svo mikið. Sumir eru keyrðir vel yfir 200 þúsund kílómetra,“ segir uppljóstrarinn.

„Þá lækkuðu þeir kílómetrastöðuna á þeim öllum, alveg niður í 80 þúsund kílómetra, svo að þeir væru leiguhæfir. Og, svo þegar maður fór að spyrja háttsettari menn út í, þarna í fyrirtækinu, út í þetta, þá sögðu þeir að þetta væri bara til að leigja út til viðskiptavinanna svo þeir myndu ekki kvarta. Þeir væru aldrei að fara að selja bílana svona. Manni fannst þetta alltaf svona svolítið skrýtið.“

Uppljóstrarinn segist hafa spurt yfirmann sem tók þátt í þessu, út í málið. „Hann segir við mig, að þeir væru alls ekki að fara að selja bílana svona, því það væri náttúrulega bara alveg glæpsamlegt að gera það,“ segir hann.

„Þegar ég uppgötva þetta með Jimny bílana, þá fór maður að skoða aðra bíla, eldri bíla, og taka eftir því að þeir voru líka að gera þetta við fleiri bíla, þeir voru líka að gera þetta við Pathfindera, þeir voru líka að gera þetta við Grand Vitörur,“ segir hann. „Bílarnir voru allt í einu komnir með færri kílómetra heldur en þeir voru árið áður.“

Getur verið dýrt spaug

Gögnin sem Kveikur hefur undir höndum eru meðal annars samningar um útleigu á bílunum þar sem kílómetrastaðan er skráð, meðal annars í þeim tilgangi að hægt sé að rukka viðskiptavini fyrir notkunina. Gögnin sýna að tugir þúsunda kílómetra hafi verið teknir af akstursmælum í tugum bíla.

Jóhann Fannar Guðjónsson, lögfræðingur FÍB. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

En hvaða máli skiptir að vita hvað bíllinn sem maður kaupir og ekur er keyrður mikið? Jóhann Fannar Guðjónsson, lögfræðingur FÍB, sem einnig er lærður bifvélavirki, segir þessar upplýsingar meðal þess mikilvægasta sem fólk lítur til þegar kaupa á notaðan bíl. „Hvaða tegund þetta er og hvernig hann er búinn, hvaða árgerð þetta er, og þú sérð hvernig hann lítur út og svo skiptir það þig miklu máli hvað hann er mikið ekinn,“ segir hann.

„Ef að þú ert í rauninni í villu um það hvað þú ert búinn að aka bílnum mikið, þá geturðu lent í því að vera í góðri trú að keyra, telur að þú þurfir kannski að huga að því að skipta um tímareim eftir 20, 30 þúsund kílómetra en ert í rauninni að leika þér að eldinum.“

Og það getur verið dýrt. „Það er í öllu falli tjón sem hleypur á hundruðum þúsunda yfirleitt,“ segir hann.

Bjarki Jónsson, sem starfað hefur sem bifvélavirki um árabil, tekur í sama streng. „Þetta skiptir náttúrulega væntanlega gríðarlega miklu máli upp á endursölu og þetta skiptir máli upp á þjónustu,“ segir hann.

„Ákveðnir hlutar, eins og tímareimar og annað, hafa ákveðinn kílómetrafjölda, ákveðinn líftíma. Þannig að ef að menn fara fram yfir það, þá er auðvitað hætta á að það fari tímareim eða einhver svona hlutur. Það þarf að skipta um olíu og sjálfskiptingu og allt þetta á ákveðnum kílómetrafjölda. Þannig að, ef það er ekki farið eftir því þá er náttúrulega hætta á skemmdum.“

Rannsakaði málið sjálfur

Viðmælendur Kveiks voru flestir hissa þegar þeir heyrðu að enn í dag væri verið að eiga við kílómetrastöðu notaðra bíla. Þetta þekktist áður fyrr en á síðustu árum hefur eftirlit og skráning kílómetrastöðu bíla verið bætt. Það er til dæmis gert í ábyrgðar- og aðalskoðun.

Bílaleigur eru hins vegar í sérstakri stöðu. Þær sjá yfirleitt sjálfar um viðhald bílanna og það þarf ekki að fara með nýja bíla í skoðun fyrstu fjögur árin. Það eru því líkur á að enginn eftirlitsaðili hafi tækifæri til að fylgjast með hvort spólað sé til baka á kílómetramælinum á meðan bíllinn er í eigu bílaleigu. En starfsmennirnir geta skoðað hvað hefur verið gert.

Það kom uppljóstraranum á óvart hvað hann hafði greitt aðgengi að upplýsingum í tölvukerfi Procar. „Á mínum aðgangi þá gat ég bara opnað sem sagt flipa í kerfinu og þá gat ég séð alla bíla sem höfðu tilheyrt leigunni. Þá fer ég náttúrulega að skoða gamla bíla, og þá sé ég bara svart á hvítu að kílómetrastöðunni hafi verið breytt fyrir sölu,“ segir hann.

„Þá fer ég náttúrulega að kynna mér málið betur og ég nota bara eitt bílnúmer og hef uppi á þeim bíl og finn það út að hann var seldur á lægri kílómetrastöðu heldur en hann var leigður út á síðast. Þá fer ég náttúrulega betur inn í kerfið. Ég skoða alla bíla sem ég finn á þessu ári og þegar ég er kominn á yfir 100 bíla, þá hætti mér að lítast á þetta. Þá er ég farinn að átta mig á því að þetta er bara þaulskipulagt. Og þetta er bara farið að flokkast undir skipulagða glæpastarfsemi.“

Bjarki Jónsson bifvélavirki. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Erfiðara en enn hægt

Hversu auðvelt getur þetta samt verið? Getur hver sem er átt við kílómetrastöðuna á bílnum sínum? Framleiðendur hafa stigið skref til að gera erfiðara og flóknara að svindla á eftirlitinu. Það er hins vegar, eins og með alla aðra tækni, alltaf einhver sem finnur leið fram hjá vörnunum.

Eitt af því sem framleiðendur gera er að láta skrá kílómetrastöðu bíla í gagnagrunn í hvert sinn sem þeir koma í ábyrgðarskoðun hjá umboðsaðila. Bjarki segist hafa fengið bíla inn á verkstæði hjá sér þar sem tölur í gagnagrunni stemmdu ekki við mælaborð bílsins. „Já já við höfum séð dæmi þess að bílar séu minna keyrðir hér heldur en þeir voru kannski einhvers staðar erlendis fyrir einhverjum árum síðar,“ segir hann.

„Án þess að geta sagt nákvæmlega hvernig þetta er hjá hverjum, þá er þetta held ég allt frá því að vera mjög einfalt. Og menn eru bara með litla tölvu sem þú getur keypt bara á internetinu og tengir við bílinn og svo held ég þetta sé nú bara svolítið eins og að millifæra í heimabankanum. Hvaða tölu þú vilt fá, sko. Svo eru aðrir bílar sem eru mun erfiðari,“ segir Bjarki.

„En þetta er ennþá hægt, það er held ég enginn vafi á því.“

Kveikur ákvað að láta á þetta reyna. Það tók innan við 10 mínútur að finna tæki á netinu og nokkrum dögum síðar var það komið til landsins. Og þá var bara að prófa. Á Youtube voru leiðbeiningar sem gerðu kleift að nota tækið til að eiga við kílómetrastöðuna í bíl sem við höfðum til umráða.

Jóhann Fannar segir það alvarlegt að eiga við kílómetrastöðu bíla. „Í þessu felst í rauninni galli, það er enginn vafi á því. Og í sjálfu sér gengur þetta miklu lengra því að þetta felur í sér svik,“ segir hann. „Líftími bílsins afmarkast voðalega mikið af því hvað hann er gamall og hvað er búið að aka honum mikið.“

Tæki sem nota má til þess að breyta kílómetrastöðu bíla. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Óttast að vera refsað fyrir að segja frá

Uppljóstrarinn starfaði hjá Procar um nokkurt skeið, en segir að honum hafi blöskrað háttsemi stjórnenda fyrirtækisins og því hætt. En af hverju hefur hann ekki birt þessi gögn fyrr og af hverju kemur hann ekki fram undir nafni? Gögnin eru fengin úr tölvukerfi bílaleigunnar og hann segist ekki treysta því að verða ekki refsað fyrir að segja frá.

„Eftir að ég hætti þarna, þá fylgdi ég þessu eftir. Ég fór vel yfir þetta, ég skoðaði, ég fylgdist með þeim selja bíla, og hvernig þeir gerðu það. Ég kynnti mér þetta allt í þaula. Ég þarna, ég fór í lögfræðing og ég náttúrulega, ég kemst á endanum að þeirri niðurstöðu að ég verð að ljóstra upp um þetta,“ segir hann.

„En nú bý ég á Íslandi og á Íslandi er rosalega lélegt regluverk í kringum uppljóstrara og það er aðallega þess vegna sem ég verð að fara með þetta til aðila eins og ykkar, að ég geti verið nafnlaus á bak við þetta. Af því að ég er ekkert verndaður lagalega þrátt fyrir að ég sé að ljóstra upp um skipulagða glæpastarfsemi.“

Kveikur hefur upplýsingar um tæplega 100 bíla sem Procar hefur átt við kílómetrastöðuna í og hafa verið seldir. Einn af þeim er bíllinn sem Guðni Þór Guðnason keypti á síðasta ári. Við sýndum honum gögn sem varða bílinn hans, og sýna að hann hafi nokkrum vikum áður en hann keypti hann verið keyrður umtalsvert meira en gefið var upp.

„Þegar ég sá hann var hann keyrður 45 þúsund kílómetra, samkvæmt samningum og mælum,“ segir Guðni Þór. „Já Já, þetta er náttúrulega sjokkerandi. Maður býst ekkert við þessu. Maður býst bara við að hann sé keyrður það sem hann er auglýstur á og seldur á, samkvæmt kaupsamningi og öllu. Þetta er bara algjört svindl.“

Hafnaði viðtali

Kveikur óskaði ítrekað eftir viðtali við Gunnar Björn Gunnarsson, forstjóra Procar, vegna málsins. Hann sagðist ekki kannast við að átt hefði verið við kílómetrastöðu bílanna og hafnaði viðtali. Jafnvel þótt gögnin sýni að hans eigin aðgangur að kerfi bílaleigunnar, hafi verið notaður til að skrá lækkaða kílómetrastöðu fjölda bíla.