Fengu 600 milljónir króna í uppsagnastyrk eftir milljarða arðgreiðslur

Bláa lónið er í sérflokki þegar kemur að arðgreiðslum árin 2017-2019 hjá þeim 50 fyrirtækjum sem mestan styrk hafa fengið úr ríkissjóði til að greiða laun starfsfólks á uppsagnarfresti. Þetta sýnir samantekt Kveiks.

Fengu 600 milljónir króna í uppsagnastyrk eftir milljarða arðgreiðslur

Eftir að heimsfaraldurinn skall á samþykkti Alþingi að bjóða fyrirtækjum sem voru í vandræðum vegna faraldursins styrk til að greiða hluta launa starfsfólks á uppsagnarfresti. Holskefla uppsagna fylgdi.

Til að fá styrkinn þurftu tekjur fyrirtækisins að hafa minnkað um að minnsta kosti 75 prósent. Um ellefu milljarðar króna fóru í uppsagnastyrkina vegna launakostnaðar fyrirtækja á tímabilinu maí til október í fyrra.

Kveikur skoðaði sérstaklega þau 50 fyrirtæki sem mest fengu. Samantektin, sem er byggð á um 150 ársreikningum, sýnir að ellefu af fyrirtækjunum 50 greiddu meira en 250 milljónir króna í arð á tímabilinu, Bláa lónið langmest.

Bláa lónið fékk rúmlega 590 milljónir króna í uppsagnastyrk, en hluthafar fyrirtækisins fengu samtals jafnvirði rúmlega 7,8 milljarða króna í arð frá félaginu á þremur árum fyrir faraldurinn, sem er rúmlega þrettánfalt meira en uppsagnastyrkurinn.

Nær öll fyrirtækjanna 50 eru ferðaþjónustufyrirtæki. Samkvæmt lögum þurfa fyrirtæki sem fá uppsagnastyrk að uppfylla tiltekin skilyrði áður en þau geta á ný byrjað að greiða sér arð. En fortíðararður skiptir þar ekki máli.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir ekki sjálfsagt að fyrirtæki sem hafi greitt milljarða króna í arð hafi aðgang að almannafé. „Hins vegar er þetta náttúrulega snúið, af því að við vildum verja störf,“ segir hún.

„Við vildum verja fyrirtæki að einhverju leyti, þannig að þau gætu risið fljótt og örugglega upp,“ segir Drífa.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, vildi ekki koma í viðtal, en vísaði á Samtök atvinnulífsins.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að Bláa lónið hafi verið einn stærsti skattgreiðandinn á Íslandi svo árum skipti, og skattspor þess árin 2017-2019 hafi verið rúmlega 13 milljarðar króna.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Við viljum að fyrirtæki landsins greiði arð. Það er hraustleikamerki,“ segir Halldór Benjamín.

Hann segir að hagsmunamatið þegar kemur að uppsagnastyrkjum sé að fórnarkostnaður samfélagsins við að missa heila atvinnugrein í gjaldþrot sé einfaldlega meiri en kostnaðurinn við að styðja við hana tímabundið.

Kveikur fjallar um arðgreiðslur og ríkisstyrki í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.