Segist eiga hlut í Icelandair

Michelle Roosevelt Edwards, sem keypti stóran hluta af eignum þrotabús WOW, segist raunverulegur eigandi hlutabréfa í Icelandair sem aðrir séu skráðir fyrir. Hún hyggist bæta við hlut sinn og sameina félagið WOW.

Segist eiga hlut í Icelandair

Í september 2019 hélt bandaríska kaupsýslukonan Michelle Ballarin, sem einnig gengur undir nafninu Michelle Roosevelt Edwards, fréttamannafund þar sem hún greindi frá því að hún hefði keypt WOW air og hygðist endurreisa félagið. Lítið hefur farið fyrir endurreisninni en í haust, ári eftir kaupin á eignum WOW, vildi hún kaupa hlut í Icelandair þegar bréf í félaginu voru boðin út. Sjö milljarða króna boði hennar var ekki svarað, að sögn talsmanns hennar, en forstjóri Icelandair sagði í viðtali við RÚV að í einu tilviki hefði áskrifanda ekki tekist að staðfesta fjármögnun og því hefði þeirri þeirri áskrift verið hafnað.

Þessu hafnar Roosevelt Edwards alfarið í viðtali við Kveik. Samstarfsmenn hennar hafi viljað stefna Icelandair en sjálf vilji hún ekki fara inn í félagið með látum og lögsóknum. Hún telji að stjórnendur Icelandair hafi óttast að hún gæti krafist breytinga á stjórnendahópnum.

„En ég er þess fullviss að stjórnarhættir Icelandair séu með þeim hætti að það gefast fleiri tækifæri á næstunni til að kaupa hluti í félaginu á hagstæðum kjörum.“

Hún segir að staða Icelandair hafi í haust verið verri en staða WOW þegar það félag fór á hausinn. Icelandair hefði átt að stórgræða á því að meginkeppinauturinn hvarf yfir nótt en það hafi ekki gerst. Félagið hafi þvert á móti þurft að leita á náðir ríkisins í tvígang. Og að óbreyttu geti félagið ekki gengið upp nema stórfelldar breytingar verði gerðar á stjórn þess, sem hún eigi erfitt með að sjá fyrir sér.

En á hún hluti í Icelandair í dag?

„Við erum tengd aðilum sem eiga hlut, ætli það sé ekki besta svarið“.

Þegar gengið er á hana um nánari skýringar segir hún að aðrir haldi á hlutunum fyrir sína hönd en að hún sé raunverulegur eigandi. Samkvæmt hluthafalista Icelandair er hún þó ekki meðal 20 stærstu hluthafanna.

En hún hefur engu að síður ákveðnar hugmyndir um hvernig snúa þurfi rekstri Icelandair við til að bjarga félaginu. Það sé hins vegar ekki henni í hag að útlista þær aðgerðir að sinni, heldur verði stjórnendur Icelandair að finna út úr því sjálfir.

„Ég ætla að skapa nægilega samkeppni til þess að þeir verði að finna sér leið.“

Hún segir að til sé áætlun um hvernig sameina eigi félögin tvö í íslenskan væng alþjóðlega WOW-flugfélaganetsins, WOW-Icelandair, en ótímabært sé að ræða það opinberlega að sinni.

Rætt er við Michele Roosevelt Edwards í Kveik í kvöld, þar sem hún ræðir hversu dregist hefur að koma WOW í loftið á ný, hugmyndir sínar um byltingu í flugheiminum og fleira.