*

Andvirði af­mælis­gjafanna fór í að loka skurðum

Það er búið að ræsa fram megnið af öllu votlendi á láglendi á Íslandi og frá þessu uppþurrkaða landi kemur megnið af þeim gróðurhúsalofttegundum sem Ísland losar.

Sigurbjörn Hjaltason, bóndi á Kiðafelli í Kjós, varð sextugur í sumar og ákvað að nýta afmælisgjafirnar til óvenjulegra verka - að leigja ýtu til að fylla í gamla skurði og endurheimta votlendi á nokkurra hektara svæði.

„Ástæðan fyrir því að ég fer í þetta er að landið er mjög illa farið hérna. Það er mjög illa farið. Mannfólkið er búið að fara um það með veglagningu, vegagerð, námum og miklum skurðgreftri,“ segir Sigurbjörn.

„Af því tilefni að ég varð sextugur, þá ákvað ég í staðinn fyrir það að vera fá fullt af gjöfum, víngjöfum og fánastengur og eitthvað slíkt, þá ákvað ég að koma þeim skilaboðum á framfæri að ég vildi að andvirði slíkra gjafa myndi renna í ákveðinn sjóð sem færi í að bæta landið hérna. Endurheimta votlendi en líka bara landgæði, koma landinu í upprunalegt horf.“

Gríðarlangt skurðakerfi

Íslenska skurðakerfið er talið vera um það bil 34 þúsund kílómetra langt, þótt það sé ekki alveg vitað. Tveimur kílómetrum var lokað í Kjósinni. Framræsing var styrkt af ríkinu um árabil, en því var hætt um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Fjárhagslegir hvatar til að loka skurðum á ónýttu landi eru enn ekki til staðar. Sigurbjörn hyggst verja þremur milljónum króna í verkefnið.

„Þetta stendur í bændum, náttúrulega, þetta er svona verkefni sem menn ýta til hliðar. Þeir hafa ekki verulegar tekjur af því að gera þetta. Ég var búinn að áætla að ég hefði fjármagn kannski í tvo daga fyrir ýtuna, kannski bara hleypur einhver á snærið og hjálpar mér að klára. Þetta er þriggja milljóna króna framkvæmd sem ég er að fara í hérna á þessari jörð,“ segir Sigurbjörn.

Nýtist áfram sem beitiland

Skurðirnir sem hann er að fylla upp í er frá um það bil 1950. Hvernig sér hann landið fyrir sér þegar hefur blotnað upp í því aftur?

„Sko, ég sé það þannig fyrir mér að landið verði ekki rennandi blautt eða vatnið fljótandi alls staðar upp. Þetta er meira bara að hækka grunnvatnsstöðuna og með því að hækka grunnvatnsstöðuna, þá eykur maður slitþol landsins. Af því að ég nota landið í beit, ég er að framleiða nautakjöt,“ segir hann.

Þetta fer alveg saman?

„Já. Svo sé ég það bara þannig fyrir mér að landið verði svona...það stingi ekki í augun þegar maður keyrir hérna framhjá. Það verði valllendi og mýrlendi og einhverjir melar halda sér og það verður fuglalíf - og kýr á beit.“

Þriðji hluti umfjöllunar Kveiks um loftslagsmál er á dagskrá í kvöld kl. 20:00. Þar er meðal annars rætt um endurheimt votlendis og möguleika Íslands til að uppfylla skilmála Parísarsamkomulagsins.