Gerðu ráð fyrir að Bragginn væri heilli en hann var
Við rætur Öskjuhlíðarinnar stendur einhver frægasti braggi Íslands. Framkvæmdir við hann fóru um 160 prósent fram úr áætlunum; kostuðu 415 milljónir, en áætlunin hljóðaði upp á 160.
Svo virðist sem röð mistaka, óskilvirkt eftirlit með framkvæmdinni, og eðli verkefnisins skýri framúrkeyrsluna. Fyrsta áætlunin – sú sem hefur verið í kastljósinu – var gerð áður en búið var að ákveða hvað ætti að vera í bragganum og þar með áður en ákveðið var hvernig húsið ætti að vera.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að það sé undantekning að farið sé fram úr áætlun.
„Samkvæmt tölum sem ég hef aflað þá ganga þessi verkefni yfirhöfuð vel, þau standast fjárhagsáætlanir 80-90 prósent, en það eru verkefni sem hafa verið að fara fram úr og þau eru eðli málsins samkvæmt mest í umræðunni en eru sem betur fer líka undantekningar,“ segir borgarstjóri.
„Við sjáum þetta í verkefnum þar sem er verið að endurgera, sérstaklega af miklum metnaði, að þá er erfitt að gera nákvæmar áætlanir í upphafi sem standast,“ segir hann. „Í minjaverkefnum að þá er líka verið að reyna að halda í mest sem er gamalt. Í frumkostnaðaráætluninni í Braggamálinu, þar eru reyndar þrjú hús en ekki bara bragginn, að þá var gert ráð fyrir að það væri hægt að nota miklu meira en á endanum tókst að nota.“
Í Kveik í kvöld er fjallað um framúrkeyrsla framkvæmda, en í gögnum sem rannsóknasetur í ákvörðunar- og áhættufræðum við Háskólann í Reykjavík hefur safnað, kemur fram að framúrkeyrsla opinberra framkvæmda á síðustu þremur áratugum hefur að jafnaði verið á bilinu 60 til 70 prósent.