Breytingar á reikningsári RÚV

Á árinu 2015 var reikningsári félagsins breytt. Af þeim sökum tók síðasti ársreikningur til tímabilsins 1. september 2014 til 31. desember 2015. Árið 2016 er því fyrsta heila rekstrarárið sem gert er upp eingöngu sem hefðbundið almanaksár. Samanburðartímabilið nær því yfir sextán mánaða tímabil. Í skýringum með ársreikningnum koma fram óendurskoðaðar afkomutölur á almanaksárinu 2015 sem sendar eru í samanburði við afkomutölur ársins 2016.

Rekstraryfirlit 2016: Áfram jákvæð afkoma af regulegri starfsemi og hagnaður vegna sölu á byggingarrétti

 

Á árinu 2015 varð viðsnúningur á rekstri RÚV og var rekstrarafkoman jákvæð. Á árinu 2016 er afkoman af reglulegri starfsemi einnig jákvæð um 95 m.kr. fyrir skatta. Útvarpsgjald var lækkað enn á ný frá 1.janúar 2016 en brugðist var því með hagræðingu á árinu. Samið var um sölu á byggingarrétti á lóð við Efstaleiti í október 2015 og þegar hefur um helmingur kaupverðsins verið greiddur. Greiðslunni ráðstafaði Ríkisútvarpið til niðurgreiðslu skulda. Vegna fyrirvara í kaupsamningi og varúðarsjónarmiða er söluhagnaður ekki færður í ársreikningi félagsins fyrr en nú en hann nemur 1.535 m.kr. Útreikningur söluhagnaðarins byggist á núverandi deiliskipulagi og áætlun kaupanda um nýtingu byggingarréttarins en lokauppgjör vegna sölunnar fer fram þegar endanlegt byggingamagn liggur fyrir.

 

Hagnaður fyrir skatta var 1.630 m.kr. en 1.429 m.kr. eftir skatta. Félagið mun ekki greiða skatta af hagnaðinum vegna uppsafnaðs taps frá fyrri tíð. Eiginfjárhlutfall félagsins batnar umtalsvert en það hækkaði úr 6,2% í lok ársins 2015 í 23,8%.

 

Breytingar síðustu þriggja ára hafa skilað sér í umtalsveðri hagræðingu og jafnvægi er komið á í rekstri félagsins. Markmiðið var að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur er og var stór hluti Útvarpshússins leigður út. Stöðugildi voru að meðaltali 258 á tímabilinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 259 árið 2015, 297 árið 2013 og 324 árið 2008.

Hagnaður/tap, regluleg starfsemi: 2010 - 2016

(*) Til viðbótar við 95.0 m.kr rekstrarhagnað árið 2016 er bókfærður einskiptis sögnuhagnaður vegna sölu byggingarréttar sem nemur 1.535 m.kr

Þróun eiginfjárhlutfalls: 2012 - 2016

Framtíðarhorfur og efnahagur

 

Þrátt fyrir jákvæðan viðsnúning í rekstri að undanförnu, þarf að gæta aðhalds til að tryggja áframhaldandi hallalausan rekstur þar sem opinberar tekjur félagsins hafa ekki hækkað í samræmi við kjarasamningshækkanir og verðlag. Auk þess voru möguleikar félagsins á öflun auglýsingatekna takmarkaðir umtalsvert með lagasetningu. Þá ríkir enn óvissa um framtíðarhorfur vegna mikillar skuldsetningar og skuldir eru þungur baggi á starfseminni. Hagnaður af sölu byggingarréttar á lóðinni við Efstaleiti er færður í ársreikningi 2016 og leiðir til mestu skuldalækkunar í sögu félagsins.

 

Nýr þjónustusamningur til ársins 2020 tryggir stöðugleika í fjárveitingum og gerir félaginu kleift að gera eðlilegar langtímaáætlanir. Trygg og fyrirsjáanleg opinber fjármögnun er grunnforsenda þess að almannafjölmiðill geti rækt lýðræðis-, menningar- og samfélagshlutverk sitt af kostgæfni.

 

Hér má sækja ársreikning Ríkisútvarpsins ohf. 1.9.2014–31.12 2015 í heild sinni í Acrobat pdf-skjali.

Auglýsingar og kostun á RÚV

 

Tekjur RÚV á rekstarárinu 2016 af sölu auglýsinga og kostana nam 1.967.652.737 kr.

 

Eftirtaldir dagskrárliðir voru kostaðir á árinu:

Akureyrarvaka, Alla leið, Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, EM í frjálsum íþróttum, EM í sundi, Eurovision, Fangar, Gettu betur*, Hestaíþróttir, HM í frjálsum íþróttum, HM í handbolta, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, Hraðfréttir*, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í badminton, Íslandsmótið í golfi og golfmótaröðin, Íslandsmótið í handbolta, Íþróttaafrek Íslendinga, Íþróttamaður ársins, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Ligeglad, Menningarnótt, Ófærð, Ólympíuleikarnir og Ólympíumót fatlaðra, Popp- og rokksaga Íslands*, Reykjavíkurleikarnir, Reykjavíkurmaraþon, Sjónvarpið í 50 ár, Skíðamót Íslands, Skólahreysti, Söngvakeppnin, Söngvakeppnin í 30 ár*, Útsvar*, Vikan með Gísla Marteini*.

*Kostun á stjörnumerktum dagskrárliðum hefur verið aflögð í samræmi við nýjar auglýsingareglur RÚV.

 

Eftirtaldir dagskrárliðir voru rofnir með auglýsingahléum á árinu:

Akureyrarvaka, Alla leið, Eurovision, Gettu betur, Íþróttamaður ársins, Menningarnótt, Ólympíuleikarnir og Ólympíumót fatlaðra, Reykjavíkurleikarnir, Sjónvarpið í 50 ár, Skíðamót Íslands, Skólahreysti, Söngvakeppnin, Útsvar