ofaerd_ruv_thverbordi

Sjónvarp

Innlend dagskrá í öndvegi

Viðburðaríkt sjónvarpsár

Sjónvarpsárið var sérlega viðburðaríkt, ekki einasta vegna þess að það var stórafmælisár, heldur einnig fyrir sögulega sigra á borð við metáhorf á umfangsmestu leiknu þáttaröð sem ráðist hefur verið í að gera á Íslandi, Ófærð; risastórt skref sem stigið var þegar úrslit Söngvakeppninnar fóru í fyrsta sinn fram í Laugardalshöll; dagskrárgerð á vegum KrakkaRÚV vakti óskipta athygli og styrkti enn þjónustu við yngstu áhorfendurna og þáttaraðir RÚV sópuðu að sér Eddu-verðlaunum sem aldrei fyrr.

28_50 ára afmæli

Sjónvarp í 50 ár

Í tilefni af 50 ára afmæli sjónvarpsútsendinga á Íslandi bauð RÚV landsmönnum til afmælisveislu sem stóð allt árið 2016. Í boði voru vandaðir þættir, sérstaklega tileinkaðir afmælinu, en einnig voru endurnýjuð kynni við marga  innlenda og erlenda þætti sem ekki hafa sést á skjánum í fjölda ára. RÚV fór um landið sumarið 2016 og rifjaði upp þá mynd sem dreging hefur verið upp af landi og þjóð í sjónvarpinu og í haust voru sýndir í beinni útsendingu skemmti- og menningarþættirnir Sjónvarp í 50 ár. Fjöldi dagskrárgerðarmanna rifjaði upp, ásamt góðum gestum, ógleymanleg atvik úr sögu sjónvarps á Íslandi, bæði á RÚV og í öðrum miðlum enda hefur sjónvarpið oft og tíðum sameinað heilu fjölskyldurnar, jafnvel þjóðina alla, fyrir framan skjáinn. Hver þáttur var tileinkaður afmörkuðu viðfangsefni, eins og skemmtiefni, fréttum, íþróttum, barnaefni, menningu o.s.frv. Auk þess voru vikulega á dagskrá stuttir þættir, Augnablik, með perlum úr Gullkistu RÚV.

Söngvakeppnin_2

Söngvakeppnin í 30 ár

RÚV fagnaði því með pomp og prakt að 30 ár voru liðin frá því að Ríkisútvarpið sendi í fyrsta sinn fulltrúa til þátttöku í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Af því tilefni var á dagskrá RÚV sérstök útgáfa af þáttaröðinni Árið er þar sem farið var yfir ára sögu keppninnar í sex skemmtilegum þáttum. Þættirnir vöktu mikla athygli og hrepptu m.a. Edduna. Úrslit í Söngvakeppninni 2016 fóru í fyrsta sinn fram í Laugardalshöllinni og komust færri áhorfendur að en vildu. Tvær erlendar Eurovision-stjörnur stigu á svið, belgíska söngkonan Sandra Kim, sem vann keppnina 1986 þegar Ísland tók þátt í henni í fyrsta sinn, og sænska söngkonan Loreen sem sigraði í keppninni 2012.
Eftir æsispennandi keppni stóð Greta Salóme uppi sem sigurvegari í Söngvakeppninni 2016 með lagið Raddirnar (Hear Them Calling) og hún keppti fyrir Íslands hönd í Eurovision sem fram fór í Stokkhólmi í maí.

Leikið íslenskt efni

Leikið íslenskt sjónvarpsefni var á dagskrá RÚV alla sunnudaga líkt og stærstan hluta ársins 2105. Óhætt er að segja að Ófærð, sakamálasería Baltasars Kormáks, hafi brotið blað í íslenskri sjónvarpssögu. Þessi tíu þátta röð var frumsýnd í lok árs 2016 og  sló öll áhorfendamet svo um munaði með meðaláhorf nálægt 60%. Hún er nú sú þáttaröð sem mest áhorf hefur haft síðan rafrænar mælingar hófust árið 2008. Þáttaröðinni var jafnframt tekið mjög vel þegar hún var sýnd síðar á árinu í öðrum Evrópulöndum og skipaði sér meðal annars sess í hópi vinsælustu þáttaraða ársins á öðru tungumáli en ensku í Frakklandi, Englandi og Noregi. Í nóvember vann Ófærð síðan til hinna virtu Prix Europa verðlauna í flokknum besta sjónvarpsþáttaröð í Evrópu.

Ný gamanþáttaröð, Ligeglad, byggð á hugmynd Önnu Svövu Knútsdóttur í leikstjórn Arnórs Pálma Arnarssonar, vakti athygli áhorfenda þegar hún var frumsýnd í lok mars. Efnistök þóttu frumleg og fersk og persónusköpunin skrautleg. Einnig voru fjölmargar nýjar íslenskar kvikmyndir frumsýndar á árinu, þar á meðal verðlaunamyndirnar Hrútar og Fúsi; gamanmyndirnar Afinn og Fyrir framan annað fólk; dansstuttmyndin Gone og Búi, ný stuttmynd fyrir börn. Íslenskt bíósumar var á sínum stað á sunnudögum í sumar og voru þá endursýndar sígildar íslenskar kvikmyndir í eldri jafnt sem endurbættum útgáfum. Áramótaskaupið 2016 vakti óvenju mikla eftirtekt enda um margt frábrugðið fyrri Skaupum. Þar sameinaði grínhópurinn Fóstbræður krafta sína á ný eftir tveggja áratuga aðskilnað. Þá voru á dagskrá RÚV upptökur frá tveimur leikhúsuppsetningum á árinu, sýningu Borgarleikhússins á Vegbúum með KK og hinni vinsælu fjölskyldusýningu Í hjarta Hróa Hattar í uppsetningu Þjóðleikhússins og Vesturports.

Í tilefni af 50 ára afmælinu var á dagskrá fjöldi sígildra sjónvarpsmynda sem ekki hafa sést á skjánum um árabil. Þar voru meðal annarra myndirnar Blóðrautt sólarlag, Dagur vonar og Draugasaga auk þess sem þættirnir um Nonna og Manna voru endursýndir.

Ófærð

Menning á RÚV

Beinar útsendingar og upptökur frá hvers kyns menningartengdum viðburðum léku stórt hlutverk í dagskrá RÚV á árinu. Klassíkin okkar, nýtt samstarfsverkefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands,  sló í gegn. Þar gafst þjóðinni kostur á að velja eftirlætistónverk sín í netkosningu og Sinfóníuhljómsveitinn flutti svo verkin ásamt fremstu einleikurum og kórum landsins á sérlega veglegum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu sem sýndir voru í beinni útsendingu.  Einnig var sýnt frá viðburðum á Listahátíð en þar bar hæst hátíðarsýning San Francisco ballettsins þar sem farið var yfir hátinda á ferli Helga Tómassonar, dansara og danshöfundar. Þáttaröðin Stóra sviðið, sem afhjúpaði töfraheim leikhússins, var frumsýnd í byrjun árs sem og seinni hluti heimildarþáttaraðarinnar Popp- og rokksaga Íslands, sem slegið hafði í gegn árið áður.

Fróðleikur í fyrirrúmi

Úrval innlendra þáttaraða var sem fyrr fjölbreytt og vandað. Einna helst vöktu athygli þættir sem tóku á skemmtilegan og aðgengilegan máta á viðfangsefnum sem í senn eru aðkallandi og fræðandi, efnistökum sem samræmdust vel nokkrum af meginhlutverkum RÚV. Þar má m.a. nefna þættina Rætur, Orðbragð, Steinsteypuöldina, Reimleika og þriðju þáttaröðina af Ferðastiklum.

Skam

ERLENT

 

Fyrir ungt fólk

Norska ungmennaserían Skömm (Skam) hóf göngu sína á RÚV á haustdögum og naut hún mikilla vinsælda frá upphafi. Þættirnir voru settir í heild sinni í efnisveitu á vef RÚV og í appi og hafði birting þeirra þar forgang fram yfir sýningar í sjónvarpi og mun þetta vera í fyrsta sinn sem svo er gert hjá RÚV.

Leikið efni 

Leikið erlent efni hefur löngum átt stóran hlut í dagskrá RÚV og sem fyrr var áhersla lögð á sem fjölbreyttast úrval af leiknu evrópsku efni. Leikið norrænt efni skipaði veglegan sess sem og efni frá Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Sérstaka athygli vöktu norska þáttaröðin Hernám (Okkupert), sænska spennuþáttaröðin Miðnætursól (Midnattsol), sænsku þættirnir Fröken Frímann fer í stríð (Fröken Frimans Krig) og danska þáttaröðin Svikamylla (Bedrag). Margverðlaunaðar breskar seríur á borð við Hamingjudal (Happy Valley II), Stríð og frið (War and Peace) og Næturvörðinn (The Night Manager) voru einnig á dagskrá RÚV og síðast en ekki síst rann upp kveðjustund þegar lokaþáttaröðin af Downton Abbey var sýnd.

Heimildarmyndir og fræðsluþættir 

Fjölbreytileikinn var í fyrirrúmi í erlendum heimildarmyndum og fræðsluþáttum. Rýnt var í sögu sjöunda og áttunda áratugarins (The Sixties, The Seventies) og forsetakosningum í Bandaríkjunum voru gerð góð skil. David Attenborough var heiðraður í tilefni af 90 ára afmæli  sínu í maí sem og minning frægra tónlistarmanna sem féllu frá á árinu. Þar ber hæst fráfall Davids Bowie. Fræðsluþættir á borð við Heimur mannsins (Human Universe), Sögu guðstrúar (Story of God) með Morgan Freeman og Í saumana á Shakespeare (Shakespeare Uncovered) voru einnig á dagskrá.

The night manager
ras 1_menning_bok_2_Thverbordar_kynningavefur2015

Rás 1

Forvitnilegt ár

Dagskrárramminn styrktur

Árið 2016 var ekki tími mikilla breytinga á Rás 1 heldur var unnið að því að styrkja og bæta þann dagskrárramma sem mótaður var árin tvö á undan.  Grunndrættir í dagskránni héldu sér þar sem megináhersla er lögð á sterka samfélags- og fréttaumfjöllun, menningarumfjöllun, mannlífsþætti og tónlist. Morgunvaktin byrjaði dagskrána og svo tóku við þættir með tónlist og mannlífsviðtölum. Hádegið er svo rammað inn af Mannlega þættinum og Samfélaginu. Tónlist tekur þá við og endurfluttir þættir af ýmsu tagi úr helgardagskrá. Síðdegið var svo helgað menningunni. Eftir fréttir og Spegilinn voru sendir út barnaþættir og kl. 19 tók við tónlistarútsendingar frá viðburðum í Evrópskum tónlistarsölum eða Sinfóníuhljómsveit Íslands. Kvölddagskrá Rásar 1 var að mestu endurflutningur á efni frá því fyrr um daginn en Kvöldsagan er þó fastur punktur í henni.

Í ljósi sögunnar

Í byrjun árs var settur á dagskrá þátturinn Í ljósi sögunnar í umsjá Veru Illugadóttur. Í þættinum eru fréttir líðandi stundar skoðaðar í sögulegu ljósi. Hefur þátturinn vakið mikla eftirtekt og var allt síðasta ár vinsælasti hlaðvarpsþáttur á Íslandi. Um haustið voru gerðar tvenns konar breytingar á dagskránni. Tónlistarþátturinn Hátalarinn, sem verið hafði á dagskrá kl. 16 á virkum dögum, var felldur burt og umsjónarmaður hans, Pétur Grétarsson, byrjaði með nýjan tónlistarþátt kl. 8 að morgni, Morgunverður meistaranna. Víðsjá færðist til kl. 16 og í stað hennar kl. 17 kom nýr menningarþáttur, Lestin, sem ætlað var að fjalla um þann hluta menningarlífsins sem Víðsjá hefur lítið eða ekkert sinnt, svo sem sjónvarpsmenningu og netmenningu.

Heimildaþáttaraðir

Helgardagskráin var að mestu óbreytt. Heimildarþáttaraðir á laugardagsmorgnum kl. 10.15 prýddu dagskrána mikið. Árið byrjaði með Flóði, tíu þátta röð um snjóflóðið á Flateyri tuttugu árum fyrr. Umsjón höfðu Björn Thors og Hrafnhildur Hagalín en þau sáu einnig um samnefnda leiksýningu í Borgarleikhúsinu. Þáttaröðin var unnin í samstarfi við leikhúsið. Hún keppti í flokki stafrænna útvarpsverka á Prix Europa um haustið og varð í fimmta sæti sem er góður árangur. Í ágúst og september vakti þáttaröð Mikaels Torfasonar, Sendur í sveit, einnig talsverða athygli. Þar heimsótti Mikael sex sveitabæi sem hann hafði dvalið á sem barn og unglingur. Í þessum þáttum var mikið lagt upp úr efnisöflun, rannsóknarvinnu, hljóðmynd og samsetningu og hefur það skilað sér í miklum áhuga á efninu. Síðdegis á laugardögum voru áfram fluttar þematískar þáttaraðir um ýmis viðfangsefni úr heimi tónlistarinnar, bæði söguleg og samtímaleg. Tíu þátta röð Árna Heimis Ingólfssonar um Mozart vakti til dæmis verðskuldaða athygli.

Flóð

Útvarpsleikhúsið

Útvarpsleikhúsið er vettvangur sköpunar. Áhersla er lögð á frumsköpun íslenskra listamanna, framleidd eru útvarpsleikrit og annað efni þar sem skapandi efnistök eru í hávegum höfð. Á árinu 2016 frumflutti Útvarpsleikhúsið ellefu verk, átta framhaldsverk (framhaldsleikrit, fléttuþáttaseríur og önnur hljóðverk) og þrjú stök leikrit. Framhaldsleikrit fyrir alla fjölskylduna voru flutt bæði um páska og jól, verkið Ljósberarnir eftir Sölku Guðmundsdóttur um páskana og um jólin leikgerðin Gallsteinar afa Gissa eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Vigdísi Jakobsdóttur sem byggð er á skáldsögu þeirrar fyrrnefndu. Framhaldsleikritið Lifun eftir Jón Atla Jónasson var flutt á haustdögum.  Þar var fjallað var um rannsóknina á svokölluðum Guðmundar- og Geirfinnsmálum og þar var blandað saman leiknum atriðum og heimildum úr safni RÚV. Einnig mætti nefna seríuna Það er allt í lagi að leggja sig á daginn þar sem Hljómsveitin Eva hugaði að kulnun í í lífi og starfi.

21_Klassíkin

Tónlist á Rás 1

Tónlist og tónlistartengdir þættir hafa ætíð verið stór hluti af dagskrá Rásar 1. Klassísk tónlist og nútímatónlist er í brennidepli en einnig djass, dægurlög fyrri tíðar, heimstónlist og það sem skarar fram úr í nýrri tónlist af öllum gerðum, hérlendis sem erlendis. Kjarninn í tónlistardagskrá Rásar 1 er útsendingar frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og upptökur á ýmsum tónlistarviðburðum sem fluttar eru annars vegar í þáttunum Úr tónlistarlífinu á sunnudögum og í hátíðardagskrá. Einnig leitast Rás 1 við að upplýsa og fræða hlustendur um sögu tónlistar og strauma og stefnur í samtímanum. Þar gegna þættir á borð við Víðsjá og Lestina mikilvægu hlutverki, auk fyrrnefndra þáttaraða. Áhersla er sömuleiðis lögð á að bjóða upp á fjölbreytta tónlist í dagskránni með kynningum. Til þess að auka það efni var á árinu keyptur aðgangur að spilunarkerfi fyrir tónlist sem nefnist MusicMaster og hefur verið nýtt á Rás 2 í fjölda ára. Með því er meðal annars hægt að búa til sérhæfða tónlistarþætti í útvarpi með litlum tilkostnaði. Tilkoma kerfisins minnkar með tíð og tíma endurflutning á Rás 1.

Lestin
ras2_mic_mixer_Thverbordar_kynningavefur2015

Rás 2

Íslenskt tónlistarútvarp

Rabbabari

Íslenskt tónlistarútvarp

Rás 2 er fyrst og fremst íslenskt tónlistarútvarp. Hlustendum er kynnt ný tónlist og sérstaklega ný íslensk tónlist. Matthías Már Magnússon tók við tónlistarstjórn á Rás 2 árið 2016. Rúmlega helmingur tónlistarinnar á Rás 2 er íslensk og þar á grasrótin í íslensku tónlistarlífi sér athvarf. Þátturinn Rabbabari fór í loftið haustið 2016. Honum er ætlað að sinna hinni sívaxandi rapp og hipp hopp bylgju í íslenskri tónlist. Þau Atli Már Steinarsson og Salka Sól Eyfeld taka fyrir það nýjasta í þessari senu með sérstakri áherslu á íslenskt efni en leita líka út fyrir landsteinana. Ólafur Páll Gunnarsson stýrir svo öðrum nýjum tónlistarþætti, Fuzz, á föstudagskvöldum milli 19.20 og 22. Þetta er rokkþáttur af gamla skólanum þar sem heyra má hinar ýmsu tegundir rokksins allt frá sjötta áratugnum til dagsins í dag. Löður er svo þriðji nýi tónlistarþátturinn, það er reyndar gamall kunningi hlustenda, var á dagskrá Rásar 2 fyrir nokkrum árum. Það er Hulda Gersdóttir sem stýrir honum, þar leikur hún laugardagslögin og hitar upp fyrir kvöldið, tekur við óskalögum en fjallar líka um kvikmyndir fyrir sófakartöflurnar.

Rás 2 í beinni útsendingu

Rás 2 er mikilvægur hluti af menningarlífi landsmanna, tónlist, fréttum, dægurmálum og ekki síst viðburðum – Rás 2 leggur áheyrslu á að vera á staðnum, fyrir hlustendur. Dagskrárgerðarmenn Rásar 2 eru í beinni útsendingu frá Reykjavík á Menningarnótt, á Ísafirði á Aldrei fór ég suður, á landsleiknum á Laugardalsvelli, á Bræðslunni á Borgarfirði. Þetta er ekki einungis gott útvarp heldur ómetanleg heimild um Íslendinga og íslenska tónlist samtímans. Rás 2 leggur aukna áherslu á viðburðaútvarp og hefur Ólafur Páll Gunnarsson nú yfirumsjón með viðburðum á Rás 2. Á árinu 2016 bættist Secret Solstice hátíðin í hóp þeirra tónlistarhátíða sem Rás 2 sinnir.

Skálmöld
Morgunútvarpið

Fréttir og dægurmál á Rás 2

Í frétta- og dægurmálaþáttum upplýsum við landsmenn um málefni líðandi stundar hvort sem um er að ræða stórar fréttir eða litlar, þungavigt eða léttmeti. Haustið 2016 varð nokkur áherslubreyting í dagskrá virkra daga með aukinni áherslu á morgunútvarp en einfaldari dagskrá yfir daginn, á hefðbundnum vinnutíma. Morgunútvarpið er nú frá 6.50-10 á daginn. Við stjórnvölinn þar eru Aðalsteinn Kjartansson, Guðrún Sóley Gestsdóttir og Sigmar Guðmundsson. Poppland er á milli 10 og 12.20 og nú nær alfarið í höndum Matthíasar Más Magnússonar. Dagvaktin er nýr þáttur milli 12.40 og 16 alla virka daga. Í þættinum er einn umsjónarmaður og skipta þau Þórður Helgi Þórðarson og Salka Sól Eyfeld því hlutverki með sér. Talandi um það er nýr spjallþáttur í umsjón Andra Freys Viðarssonar. Andri hefur gott nef fyrir áhugaverðu fólki sem hefur eitthvað forvitnilegt og skemmtilegt að segja. Í þessum þáttum ræðir hann á sinn einstaka hátt við alls kyns fólk um stórar stundir í lífi þess, tímamót eða atburði sem með einhverjum hætti mótuðu líf viðmælendanna og eiga erindi við þjóðina.

ruvis laptop kk sarpur Thverbordar_kynningavefur2015

RÚV.is

Vefþjónusta í örum vexti

gr_20150204_000051

Þrennt einkenndi árið 2016 öðru fremur á vef- og nýmiðlasviði: Mikill vöxtur í notkun, ört vaxandi hlutur snjalltækja í þeirri notkun og aukið vægi samfélagsmiðla. Ríflega þriðjungur heimsókna á vefinn er nú úr snjalltækjum. Þeim fjölgaði þó meira en hlutfallið gefur til kynna, úr ríflega 8 milljónum 2015 í 14,3 milljónir 2016. Heimsóknum á vefinn fjölgaði um ríflega 10 milljónir frá 2015 og voru alls 43.556.078. Meðalheimsóknin lengdist úr fjórum mínútum að meðaltali í sex mínútur úr borðtölvum og úr tveimur mínútum í þrjár úr snjallsímum.

Hlutfall þeirra vefnotenda sem heimsækja vefinn og fara beint þaðan út, lækkaði umtalsvert, um 14,54%.

Hlutur samfélagsmiðla jókst einnig og lætur nærri að fjórir af hverjum tíu komi á RÚV.is af samfélagsmiðli með Facebook fremst í flokki.

Kostningavefur

Kosningavefur – forseta- og alþingiskosningar

Á árinu voru bæði forseta- og alþingiskosningar. Þungi kosningaumfjöllunar hefur færst yfir á vefinn og var mikið annríki hjá forriturum og hönnuðum í aðdraganda kosninganna. Kosningavefir fyrir báðar kosningarnar voru eins konar gagnabankar fyrir kjósendur með greinargóðum upplýsingum frá frambjóðendum og forystumönnum framboða. Á vefjunum mátti nálgast alla kosningaumfjöllun RÚV.

Vinsælt kosningapróf

Á kosningavefnum var auk þess hægt að taka svokallað kosningapróf. Forsetaframbjóðendur jafnt sem mörg hundruð frambjóðendur til Alþingis lýstu viðhorfi sínu til 30 fullyrðinga. Almenningur gat gert slíkt hið sama og séð hvaða frambjóðandi eða listi komst næst því að lýsa svipuðum skoðunum. Um 70 þúsund manns tóku prófið fyrir forsetakosningarnar og litlu færri fyrir alþingiskosningarnar.

Stórviðburðir í auknum mæli á vef

Viðburðir eins og kosningar og stórir frétta- og íþróttaviðburðir fara í auknum mæli um vefinn. Almenningur leitar upplýsinga á RÚV.is og horfir þar á beinar útsendingar. Birting Panama-skjalanna, fréttamannafundur forseta Íslands, landsleikur Íslands og Austurríkis á EM í knattspyrnu og fréttaskýring um brúnegg voru meðal stórra viðburða á vefnum í ár. Þá er að jafnaði mikil umferð um vef Söngvakeppninnar, þar sem nálgast má allar upplýsingar um keppendur, hlusta á lögin, lesa fréttir tengdar Söngvakeppninni og Eurovision og loks hlusta á Eurovision-útvarpið, streymisstöð sem rekin er fram yfir lokakeppni Eurovision í maí ár hvert.

Panama_4

Aukinn kraftur í beinar vefútsendingar

Beinum sjónvarpsútsendingum á vef, með skömmum fyrirvara, frá stórtíðindum í stjórnmálum snarfjölgaði. Þá hófust beinar vefútsendingar úr Stúdíói 12 frá lifandi flutningi íslenskra og erlendra hljómsveita og tónlistarmanna og Föstudagsboltinn, vikulegur spjallþáttur um handbolta, var í beinni útsendingu á vef RÚV og Facebook-síðu RÚV-Íþrótta á hverjum föstudegi.

Betri þjónusta við áhorfendur – lotugláp á RÚV.is

Um jólin var hægt að horfa á sérvaldar þáttaraðir í heild á RÚV.is undir yfirskriftinni Jólaseríur RÚV. Tvær fyrstu þáttaraðir norsku þáttanna SKAM voru settar á vefinn og aðsóknin að þeim gaf skýrt til kynna að áhugi væri bæði á þáttunum og lotuglápi því að ríflega 36 þúsund manns sóttu í jólaseríurnar á meðan þær voru í boði.

Fleiri möguleikar í veffærslum

Í byrjun árs voru svokallaðir fréttahlutar (paragraphs) innleiddir í vefumsjónarkerfið. Með þeim geta frétta- og dagskrárgerðarmenn með einföldum hætti bætt inn í færslur sínar myndum, myndskeiðum, dagskrárliðum, klippum og fleiru, og raðað inn á milli málsgreina. Áður var einungis hægt að birta slíkt efni efst í hverri færslu. Myndrænum og áhugaverðum fréttaskýringum hefur fjölgað til muna, og vefritstjórn getur nú í auknum mæli tengt saman efni þvert á miðla.

Nýtt vefskráningarkerfi

Nýtt vefskráningarkerfi var innleitt svo að dagskrárgerðarmenn eiga nú hægara um vik að fylla út dagskrárupplýsingar. Útkoman er betri og ítarlegri skráning þátta í Sarpi og þar af leiðandi betri þjónusta við notendur vefsins. Innleiðing nýs vefskráningarkerfis hefur einnig í för með sér skilvirkara hlaðvarp með samnýtingu á upptökum úr Sarpi.

sarpurinn

Upptökur í Sarpi, gagnamagn og samtímanotendur

Snjalltækjaforrit

Útvarp fyrir Apple TV gerir fólki kleift að hlusta á útvarp í sjónvarpstækjum sínum og njóta á sama tíma myndefnis frá RÚV. Til dæmis eru sýndar róandi náttúrulífsmyndir með klassísku stöðinni Rondó, íslensk tónlist með Rás 2 og hreyfimynd með KrakkaRÚV. Á sama stað er hægt að hlusta á eldra efni. Markmiðið er að efnið verði öllum aðgengilegt, þ.m.t. sjónskertu og blindu fólki, þar sem unnt er að byggja inn aðgengislausnir í snjallforritið.

Í sjónvarpi fyrir Apple TV er hægt að horfa á báðar sjónvarpsrásir RÚV í beinni útsendingu og flakka aftur um tvo tíma í dagskránni. Þá er hægt að horfa á eldra efni og þætti úr fyrri dagskrá. Lögð er áhersla á sjónræna framsetningu efnisframboðsins. Beint streymi er í háskerpu.

frettir vadlaheidagong Thverbordar_kynningavefur2015

Fréttastofa RÚV

Stendur vaktina í þágu þjóðar

Panama

Panamaskjölin

Fréttaárið 2016 var afar viðburðarríkt og segja má að hver stórviðburðurinn hafi rekið annan.  Um miðjan mars ákvað fréttastofan að ganga til samstarfs við Reykjavik Media um úrvinnslu svokallaðra Panamaskjala sem ICIJ, alþjóðasamtök rannsóknarblaðanna, höfðu fengið í hendurnar. Sérstakur klukkutíma langur Kastljósþáttur um Panamaskjölin sem sýndur var 3. apríl 2016 markar tímamót í rannsóknarblaðamennsku í íslensku sjónvarpi. Næstu daga var fréttastofan með beinar útsendingar og aukafréttatíma í sjónvarpi og á vefnum vegna þeirra atburða sem fylgdu í kjölfar umfjöllunar um Panamaskjölin. Þessar tíðu, löngu og fyrirvaralausu útsendingar marka einnig tímamót í íslenskri sjónvarpsfréttamennsku. Atburðarásin var óútreiknanleg og aukafréttatími sem átti að vera 20 til 30 mínútur að lengd varð á endanum hátt í sex klukkustundir.

Brúnegg_3

Verðlaunuð rannsóknarblaðamennska

Fréttastofan, með Kastljós í fararbroddi, lagði áherslu á að efla rannsóknarblaðamennsku. Stærsta verkefni ársins var vinnsla Panamaskjalanna en kafað var ofan í ýmiss önnur mál. Þar á meðal Brúneggjamálið svokallaða. Málið varð til þess að stórauka meðvitund þjóðarinnar um rétt neytenda og aðbúnað húsdýra, og Brúnegg hafa orðið hálfgert samheiti yfir máttleysi eftirlitsstofnana og neytendahneyksli. Fyrir þessa umfjöllun hlaut Tryggvi Aðalbjörnsson fréttamaður verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins.

Tvennar kosningar

Þjóðin kaus sér nýjan forseta í júní og aldrei hafa fleiri verið í framboði til embættis forseta Íslands en árið 2016. Sérstök kosningaritstjórn skipulagði umfangsmikla umfjöllun um frambjóðendur, málefni og niðurstöður kosninga í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum. Í aðdraganda kosninganna tókst að koma sjónarmiðum allra níu frambjóðenda á framfæri og gæta jafnræðis í umfjöllun um þá. Í sjónvarpi voru umræðuþættir með öllum frambjóðendum, viðtöl við hvern frambjóðanda ásamt vandaðri svipmynd af honum, umfjöllun um forsetaembættið sjálft og að sjálfsögðu kosningavaka. Í útvarpi voru fluttir þættir um forsetaembættið og viðtal við hvern frambjóðanda. Auk þess var haldinn umræðufundur í útvarpi með öllum frambjóðendum. Á sérstökum kosningavef RÚV voru upplýsingar um alla frambjóðendur, umfjöllun KrakkaRúv fyrir kosningarnar og kosningapróf sem fjöldi fólks nýtti til að máta sig við frambjóðendur. Kosningaumfjöllun RÚV fór líka fram á samfélagsmiðlum, meðal annars á Facebook og Snapchat, þar sem frambjóðendur skiptust á að hafa umsjón með Snapchat reikningi RÚV.

Þá var kosningu til Alþingis flýtt og gengu landsmenn aftur að kjörborðinu í október 2016. Tólf voru í framboði. Kosningaritstjórnin vann áfram með sömu ritstjórnarstefnu og í forsetakosningunum, lögð var áhersla á jafnræði framboða og þjónustu við kjósendur/áhorfendur. Ákveðið var að skipta frambjóðendum í smærri hópa í umræðuþáttum og freista þess þannig að dýpka umræðuna. Jafnframt var fjallað með markvissum og skipulegum hætti um helstu málaflokka með tveimur þematengdum málefnaþáttum í sjónvarpi í hverri viku. Auk málefnaþátta og leiðtogaumræðuþátta mættu formenn allra flokka í lengra sjónvarpsviðtal, Forystusætið, þar sem kafað var dýpra í kosningamálin. Talsmenn allra framboða í hverju kjördæmi mættust á kosningafundum í útvarpi, þar sem farið var yfir þau mál sem helstu brunnu á kjósendum í kjördæmunum. Á kosningavef gátu kjósendur mátað sig við frambjóðendur í sínu kjördæmi. Þar var líka umfjöllun KrakkaRúv fyrir kosningarnar. Umfjöllunin fór líka fram á Facebook og Snapchat, þar sem leiðtogar flokkanna skiptust á að stjórna Snapchat reikningi RÚV.

Forsetakosningar_5
Trump_5

RÚV á erlendum vettvangi

Fréttastofan og IDD tóku höndum saman sendu fréttateymi til Bandaríkjanna til að fjalla um spennandi kapphlaup Donalds Trumps og Hillary Clinton að forsetaembættinu. Í heimildaþætti RÚV var tekið hús á bandarískum kjósendum, leitað álits sérfræðinga og kosningafundir heimsóttir. Beinar innkomur fréttateymis RÚV af vettvangi í fréttatíma og þættir í útvarpi og sjónvarpi dagana fyrir og eftir kosningar voru lykilatriði í að tryggja öfluga umfjöllun af einum stærsta fréttaviðburði ársins á erlendum vettvangi.

Snemma árs var sýnd heimildamyndin Á flótta sem fréttateymi RÚV vann í Evrópu og Líbanon. Sú vinna var einnig afrakstur farsællar samvinnu fréttastofu og IDD.

Á flótta
fimleikakonur_Thverbordar_kynningavefur2015

RÚV íþróttir

Gera íþróttalífi í landinu góð skil

Ólympíuleikar og Ólympíumót fatlaðra:

Eitt stærsta verkefni íþróttadeildar RÚV eru Ólympíuleikar.

Það er skýr og yfirlýst stefna RÚV að gæta jafnræðis um íþróttir kvenna og karla, rétt eins og í allri annarri dagskrárgerð og umfjöllun. Á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst var umfjöllun þannig að sýndar voru 29 beinar útsendingar eingöngu með konum, 25 með körlum og 34 útsendingar voru með báðum kynjum samtímis. Á Ólympíumóti fatlaðra í september var umfjöllun þannig að 2 beinar útsendingar voru eingöngu með konum, 5 með körlum og 18 útsendingar með báðum kynum.  Samtals frá þessum tveimur mótum var skiptingin þannig að 31 útsending voru eingöngu með konum, 30 með körlum og 52 útsendingar með báðum kynjum samtímis.

Ríó
EM

Landsliðin okkar:

Sem fyrr sýndi RÚV frá landsliðum í kvenna og karlaflokki á stóra sviðinu. Karlalandslið í handbolta stóð í ströngu á EM í handbolta í janúar. Kvennalandslið í fótbolta tryggði sér farseðilinn á EM kvenna 2017 og karlalandsliðið í körfubolta er á leiðinni á sitt annað stórmót eftir glæsilega sigra hér heima.  Síðast en ekki síst sýndi RÚV ásamt Símanum leiki Íslands á EM í fótbolta í Frakklandi þar sem íslenska landsliðið vann hug og hjörtu heimsbyggðarinnar bæði innan vallar sem utan. Sigur Íslands á Englandi stóð upp úr þar sem meðaláhorf á leikinn í beinni útsendingu á RÚV og sjónvarpi Símans var samanlagt tæp 60%.

EM í sundi:

RÚV sýndi beint frá EM í sundi í Lundúnum. Sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir náði þeim frábæra árangri að vinna þrenn verðlaun á Evrópumótinu, tvö silfur og eitt brons. Þetta er besti árangur íslenskrar sundkonu frá upphafi. RÚV var á staðnum og sýndi beint frá öllu sundi Hrafnhildar auk þess að taka viðtöl við hana strax eftir keppni. RÚV reynir eftir bestu getu að fylgja eftir íslensku íþróttafólki á stórmótum erlendis og EM í sundi var gott dæmi um mikilvægi þess.

*** Local Caption *** 52934538

Íþróttaafrek Íslendinga:

Íþróttadeild RÚV framleiddi heimildarþáttaröð þar sem rifjuð voru upp mörg af eftirminnilegustu íþróttaafrekum Íslendinga. Rætt er við okkar fremsta íþróttafólk sem og íþróttafréttamenn um ógleymanlega viðburði í íslenskri íþróttasögu.

krakkaruv_utvarp_Thverbordar_kynningavefur2015

KrakkaRÚV

Úrvalsþjónusta við börn

Stóraukin þjónusta RÚV við börn

Stóraukin áhersla og metnaður er nú lagður í framleiðslu barnaefnis. Gæði og framboð innlends barnaefnis endurspeglast ekki síst í KrakkaRÚV sem er yfirheiti yfir alla þjónustu RÚV við börn. Kjarninn í starfseminni er www.krakkarúv.is þar sem nálgast má allt innlent barnaefni RÚV, gamalt og nýtt, fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps og talsettar teiknimyndir. Jafnframt má hlusta á íslenska tónlist og úrval vandaðra útvarpsþátta.

Stundin_4

Stundin og Ævar

Á árinu fór í loftið Stundin okkar með nýjum áherslum í umsjón Sigynjar Blöndal. Aldrei hafa fleiri krakkar tekið þátt í Stundinni og innsend myndbönd hafa aldrei verið fleiri. Ævar vísindamaður var á sínum stað og fræddi börn landsins um heim vísindanna.

Krakkafréttir og Krakkakosningar

Krakkafréttir héldu áfram að fræða börn landsins um málefni líðandi stundar. Þá stóð KrakkaRÚV í samstarfi við umboðsmann barna fyrir umfangsmikilli umfjöllun fyrir krakka í tengslum við bæði forseta og Alþingiskosningar á Krakkakosningar.is. Markmiðið var að gefa börnum í grunnskóla kost á því að taka þátt í kosningum og kjósa eftir sinni eigin sannfæringu. Um leið fengu þau fræðslu um kosningar og þau framboð og frambjóðendur sem í boði voru.

Krakkakosningar_2

Kóðinn 1.0

Ævar framleiddi jafnframt tuttugu örþætti um sögu tölvunnar en þættirnir voru hluti af Kóðanum 1.0, sem er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins, menntamálastofnunar, samtaka iðnaðarins og RÚV. Á vefsvæði Kóðans á KrakkaRÚV.is geta börn svo lært að forrita á skemmtilegan hátt.

7_Samfés

Krakkaviðburðir

KrakkaRÚV leggur mikla áherslu á að fylgjast með Krakkaviðburðum. Skrekkur og Söngkeppni Samfés voru í beinni útsendingu á RÚV en öðrum viðburðum voru einnig gerð góð skil í gegnum vef KrakkaRÚV með hjálp tíu ungmenna sem tóku þátt í fréttamannanámskeiðinu Ungir fréttamenn á vegum KrakkaRÚV og Barnamenningarhátíðar. Það var svo nóg um að vera í desember en þá hvatti KrakkaRÚV landsmenn til að gera góðverk í gegnum Góðverkadagatalið Góð jól í umsjón Björgvins Franz Gíslasonar.