Frá upphafi árs...
 • 06 jan 2016

  Menningarviðurkenningar RÚV afhentar

  Menningarviðurkenningar RÚV voru veittar með nýju sniði á þrettándanum við hátíðlega athöfn í Efstaleiti. Veittar voru viðurkenningar úr Rithöfundasjóði, Tónskáldasjóði, Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen. Auk þess var tilkynnt um Orð ársins og Krókinn á Rás 2. Auður Jónsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs. Fimm hlutu styrki úr Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen við Ríkisútvarpið, þau Heiðar Sumarliðason, Kristín Eiríksdóttir, Salka Guðmundsdóttir, Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Halldór Halldórsson. Hljómsveitin Agent Fresco hlaut Krókinn 2015 og Fössari var valið Orð ársins 2015. http://ruv.is/i-umraedunni/menningarvidurkenningar-ruv-afhentar 

 • 20 jan 2016

  RÚV.is og KrakkaRÚV.is voru tilnefndir til íslensku vefverðlaunanna

  RÚV.is og KrakkaRÚV.is voru tilnefndir til íslensku vefverðlaunanna sem bestu vefmiðlarnir. Tilnefningarnar eru ánægjuefni enda marka báðir vefir kaflaskil í sögu RÚV. http://ruv.is/i-umraedunni/ruvis-og-krakkaruvis-tilnefndir-til-vefverdlauna

 • 02 feb 2016

  Eddan 2016: Fjórir af fimm sjónvarpsmönnum ársins á RÚV

  RÚV fékk alls 22 tilnefningar (sem framleiðandi eða meðframleiðandi) til Eddu-verðlaunanna 2016. Að auki fengu dagskrárgerðarmenn RÚV 4 af 5 tilnefningum í flokknum sjónvarpsmaður ársins –þau Gísli Marteinn Baldursson, Helgi Seljan, Katrín Ásmundsdóttir og Ævar Þór Benediktsson. RÚV var framleiðandi eða meðframleiðandi allra sjónvarpsþátta sem verðlaunaðir voru. Ævar vísindamaður var bæði barna- og unglingaþáttur ársins og lífsstílsþáttur ársins; frétta- eða viðtalsþáttur ársins var Kastljós; leikið sjónvarpsefni ársins var Ófærð; Öldin hennar var valinn menningarþátturinn og Árið er: Söngvakeppnin í 30 ár skemmtiþátturinn. Þá voru tveir starfsmenn RÚV heiðraðir sérstaklega fyrir verk sín, Helgi Seljan var sjónvarpsmaður ársins og heiðursverðlaun 2016 hlaut Ragna Fossberg. http://www.ruv.is/i-umraedunni/eddan-2016-fjorir-af-fimm-sjonvarpsmonnum-arsins-a-ruv http://eddan.is/?page_id=1730

 • 10 feb 2016

  Næturvarpið á RÚV

  Í byrjun febrúar var landsmönnum öllum boðið til myndlistarsýningar í sjónvarpinu sínu. Þar  var sýnt úrval myndbandsverka og leikið að því nána sambandi sem ríkir milli sjónvarpsútsendingarinnar og áhorfandans. http://www.ruv.is/frett/naeturvarpid-a-ruv

 • 20 feb 2016

  Söngvakeppnin í 30 ár

  Söngvakeppni RÚV fagnaði stórafmæli á árinu  og því var fagnað með pomp og prakt að 30 ár voru liðin frá því Ríkisútvarpið sendi í fyrsta sinn fulltrúa til þátttöku í Eurovision-keppninni.  RÚV sýndi að því tilefni sérstaka útgáfu af „Árið er“ þar sem farið var yfir 30 ára sögu keppninnar í sex skemmtilegum (samantektar)þáttum. Þættirnir vöktu mikla athygli og unnu m.a. til Eddu-verðlauna. Úrslitakeppnin var haldin í Laugardalshöll í fyrsta skipti og komust færri áhorfendur að en vildu. Tvær erlendar Eurovision-stjörnur stigu á svið, belgíska söngkonan Sandra Kim, sem vann keppnina 1986 þegar Ísland tók þátt í fyrsta sinn, og sænska söngkonan,Loreen. Eftir æsispennandi keppni stóð Greta Salóme uppi sem sigurvegari með lag sitt „Raddirnar“ (Hear Them Calling) og keppti fyrir Íslands hönd í Eurovision sem fram fór í Stokkhólmi í maí. Áhorf á úrslitakeppnina var  frábært, meðaláhorf á útsendinguna 54% og uppsafnað áhorf 68% , sem er mun meira en á úrslitin í fyrra. Hlutdeild RÚV á útsendingartíma Söngvakeppninnar var 96%, sem þýðir að 96% þeirra, sem voru að horfa á dagskrá sjónvarpsstöðvanna á meðan keppnin var í loftinu, horfðu á hana. http://www.ruv.is/frett/opnunaratridi-songvakeppninnar-2016-myndband http://www.ruv.is/frett/hear-them-calling-sigurvegari-songvakeppninnar http://www.ruv.is/frett/frabaert-ahorf-a-ofaerd-og-songvakeppnina

 • 21 feb 2016

  Ófærð vinsælasta leikna þáttaröðin síðan mælingar hófust

  Óhætt er að segja að sakamálasería Baltasars Kormáks, Ófærð, hafi brotið blað í íslenskri sjónvarpssögu. Þessi tíu þátta röð var hóf göngu sína í lok árs 2015 og  sló öll áhorfendamet, svo um munaði. Með meðaláhorf í kringum 60% er hún nú sú þáttaröð sem mesta áhorf hefur hlotið síðan rafrænar mælingar hófust árið 2008. Þáttaröðinni var jafnframt tekið mjög vel þegar hún var sýnd síðar á árinu í Evrópu, skipaði sér meðal annars í hóp vinsælustu þáttaraða ársins á öðru tungumáli en ensku í Frakklandi, Englandi og Noregi. http://www.ruv.is/frett/59-ahorf-a-ofaerd-og-54-a-songvakeppnina

 • 05 mar 2016

  KrakkaRÚV á Söngkeppni Samfés

  KrakkaRÚV var á Söngkeppni Samfés (samtaka félagsmiðstöðva) í Laugardalshöll sem sýnd var í beinni útsendingu á RÚV. Á Söngkeppninni gefst unglingum kostur á að koma fram og syngja fyrir framan jafnaldra sína af landinu öllu. Þúsundir unglinga hafa komið fram í gegnum tíðina, þar af margar af framtíðarstjörnum landsins. http://krakkaruv.is/thattur/songkeppni-samfes-2016

 • 21 mar 2016

  Páskadagskrá RÚV

  Hátíðardagskrá RÚV um páskana var fjölbreytt og vönduð og hlaut góðar viðtökur. Um 80% þjóðarinnar horfðu á RÚV um páskana og 47% hlustuðu á útvarpsdagskrá á Rás 1 eða Rás 2 frá fimmtudegi til mánudags. Í sjónvarpinu voru sýndar perlur í íslenskri kvikmyndagerð, s.s. kvikmynd ársins, Hrútar, og heimildamynd ársins, Hvað er svona merkilegt við það? og ný íslensk þáttaröð, Ligeglad. Á Rás 1 voru fluttar útvarpsdagbækur Auðar Jónsdóttur rithöfundar, útvarpað var beint frá Brúðkaupi Fígarós í Metrópólitan óperunni og fjölskylduleikritið Ljósberarnir eftir Sölku Guðmundsdóttur var frumflutt. Rás 2 var í beinni útsendinu á Aldrei fór ég suður. http://www.ruv.is/frett/paskar-a-ruv

 • 22 mar 2016

  Siðareglur RÚV taka gildi

  Nýj­ar siðaregl­ur RÚV tóku gildi í mars og samhliða var siðanefnd sett á laggirnar. Reglurnar voru unn­ar af starfs­fólki RÚV með aðstoð sér­fræðinga, m.a. frá Siðfræðistofn­un Há­skóla Íslands, og eru settar í þeim tilgangi að stuðla að faglegum vinnubrögðum, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og auka traust til RÚV. Nákvæmari reglur gilda um tiltekna þætti í starfseminni, s.s. vinnslu fréttaefnis o.fl. Með reglum um málsmeðferð athugasemda og kvartana, sbr. 13. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er einnig skapaður farvegur trausts og óhlutdrægni fyrir rökstuddar ásakanir um misbrest og stuðlað að því að leyst verði úr ágreiningi á málefnalegan hátt. Siðareglurnar eru mikið framfaraskref fyrir vinnustaðinn og sameiginlegt verkefni allra að vinnubrögð samræmist þeim. http://www.ruv.is/sites/default/files/sidareglurruv1.pdf

 • 22 mar 2016

  Borgarafundur um heilbrigðismál

  RÚV efndi til borgarafundar um heilbrigðismál - — málefnalegs umræðuvettvangs þar sem leitað var svara við spurningum almennings um heilbrigðiskerfið og framtíð þess. Eitt helsta hlutverk almannaútvarps er að fjalla um og efna til umræðu um mál sem varða almenning. Og fá mál varða almenning jafn mikið og heilbrigðiskerfið - hagsmunir sem eru þverpólitískir auk þess sem þetta er umfangsmesti rekstur ríkisins. RÚV bauð hópi sérfræðinga úr heilbrigðisgeiranum í pallborð þar sem reynt var að kortleggja stöðu kerfisins, ræða áskoranir og lausnir og koma spurningum almennings á framfæri. Að þeirri umræðu lokinni tóku við fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sitja á Alþingi. http://www.ruv.is/frett/borgarafundur-um-heilbrigdismal http://www.ruv.is/tag/borgarafundur-um-heilbrigdismal

 • 30 mar 2016

  Ligeglad, ný leikin íslensk þáttaröð slær í gegn

  Ný gamanþáttaröð byggð á hugmynd Önnu Svövu Knútsdóttur í leikstjórn Arnórs Pálma Arnarssonar, Ligeglad, vakti athygli áhorfenda þegar hún var frumsýnd í lok mars, fyrir frumleg og fersk efnistök og skrautlega persónusköpun. Síðar á árinu samdi RÚV við aðstandendur Ligeglad um að gera aðra þáttaröð á svipuðum nótum og sú fyrsta. Handritsvinna er hafin og stefnt er að því að taka upp á næsta ári. http://ruv.is/i-umraedunni/onnur-thattarod-af-ligeglad-i-vinnslu

 • 03 apr 2016

  Umfjöllun um Panamaskjölin markar tímamót í rannsóknarblaðamennsku

  Um miðjan mars ákvað fréttastofan að ganga til samstarfs við Reykjavik Media um úrvinnslu svokallaðra Panamaskjala sem ICIJ, alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, höfðu fengið í hendurnar. Sérstakur klukkutíma langur Kastljósþáttur um Panamaskjölin, sem sýndur var 3. apríl 2016, markar tímamót í rannsóknarblaðamennsku í íslensku sjónvarpi. Næstu daga var fréttastofan með beinar útsendingar og aukafréttatíma í sjónvarpi og á vefnum vegna þeirra atburða sem fylgdu í kjölfar umfjöllunarinnar. Þessar tíðu, löngu og fyrirvaralausu útsendingar marka einnig tímamót í íslenskri sjónvarpsfréttamennsku. Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna ICIJ og meira en 100 samstarfsaðilar víðsvegar um heim hlutu gullverðlaun Barlett & Steele fyrir rannsóknarblaðamennsku í tengslum við birtingu Panamaskjalanna og Jóhannes Kr. Kristjánsson hjá Reykjavík Media hlaut Blaðamannaverðlaun ársins 2016. http://www.ruv.is/frett/panamaskjolin-kastljos-i-heild-sinni http://www.ruv.is/frett/170-islensk-nofn-skrad-undir-islandi http://www.ruv.is/frett/icij-verdlaunad-fyrir-panama-skjolin http://www.ruv.is/frett/gagnagrunnur-panama-skjalanna-opnadur-i-dag

 • 04 apr 2016

  Nýr þjónustusamningur undirritaður

  Undirritun þjónustusamnings til fjögurra ára við mennta- og menningarmálaráðherra var afar mikilvægt skref fyrir RÚV. Með honum var tryggð örugg fjármögnun út samningstímann, eins og lög kveða á um og tíðkast í löndunum í kringum okkur. Forsenda samningsins er að innheimt útvarpsgjald lækki ekki að raunvirði frá árinu 2016. Helstu áherslur í nýjum samningi skerpa á almannaþjónustuhluverki RÚV. Þar er meðal annars kveðið á um stóraukna áherslu RÚV á leikið íslenskt efni, innlenda dagskrárgerð og á menningarhlutverk RÚV.  Þjónusta RÚV á landsbyggðinni er varin og aukið verður enn við þjónustu við börn og ungmenni. http://www.ruv.is/i-umraedunni/nyr-thjonustusamningur-ruv http://www.ruv.is/i-umraedunni/nyr-thjonustusamningur-mikilvaegt-og-jakvaett-skref

 • 24 apr 2016

  Ungir fréttamenn á RÚV

  KrakkaRÚV og Reykjavíkurborg og buðu tíu ungmennum úr 8. – 10. bekk að gerast fréttamenn á Barnamenningarhátíð í Reykjavík 19. – 24. apríl. KrakkaRÚV  hélt námskeið þar sem margir reynsluboltar innanhúss miðluðu reynslu sinni og farið var yfir fréttaskrif, framsögn, viðtalstækni, internetið og tækni. Hópurinn fékk svo tækifæri til að fjalla um hátíðina í máli og myndum og birtust fréttirnar á KrakkaRÚV, RÚV.is og í Krakkafréttum. http://www.ruv.is/tag/ungir-frettamenn-2016

 • 30 apr 2016

  RÚVAK flytur í betra húsnæði

  Svæðisstöðin á Akureyri flutti í nýtt húsnæði að Hólabraut 3 vorið 2016. Það er af svipaðri stærð og eldra húsnæði og kostnaður er sambærilegur. Nýja húsnæðið er hins vegar sýnilegra og í mun betri tengingu við lífið í bænum.

 • 11 maí 2016

  Námskeið í útvarpsþáttagerð á vegum RÚV og HÍ

  Síðastliðið vor stóð RÚV ásamt Háskóla Íslands að tveggja vikna námskeiði í útvarpsþáttagerð sem var opið nemendum úr öllum deildum. Í ár voru það 65 háskólanemar sem sátu kynningar og fyrirlestra starfsfólks RÚV. Að námskeiði loknu skilaði nemandi fullbúnum útvarpsþætti sem fluttur var undir dagskrárliðnum Fólk og fræði á Rás 1 að hausti.  Þættir nemanna fjölluðu um allt milli himins og jarðar, frá stjórnmálum til stjarnanna.

 • 02 jún 2016

  Landsleikir Íslands í beinni á RÚV

  Leikir íslenska landsliðsins á EM voru sýndir jafnhliða á RÚV og í Sjónvarpi Símans. Þetta var gert á grundvelli samnings milli RÚV og Símans  eftir að RÚV bauðst til að sýna landsleiki Íslands og stuðla þannig að því að allir landsmenn geti fylgst með leikjunum. Áður leit allt út fyrir að fimm prósent landsmanna myndu ekki geta fylgst með karlalandsliðinu í knattspyrnu keppa á EM2016 í Frakklandi í sjónvarpi sínu. http://www.ruv.is/frett/landsleikirnir-syndir-a-ruv-og-hja-simanum

 • 21 jún 2016

  Hægvarp frá hringferð með Sigur Rós

  RÚV efndi til nýs hægvarps þegar sendur var út akstur um hringveginn í beinni útsendingu í 24 tíma. Á leiðinni var leikið tilbrigði af nýju lagi Sigur Rósar. Viðburðurinn var sýndur á RÚV 2 en einnig í útsendingu á Youtube og víðar. Fylgst var með viðburðinum víða um heim og  yfir hálf milljón manna fylgdist með útsendingunni. http://www.ruv.is/routeone

 • 25 jún 2016

  Forsetakosningar 2016

  Þjóðin kaus sér nýjan forseta í júní og aldrei hafa fleiri verið í framboði til embættis forseta Íslands en árið 2016. Kosningunum var gerð ítarleg skil á RÚV. Kosningaumfjöllun fór fram á sérstökum kosningavef, í útvarpi, sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Fjallað var um forsetaembættið, eðli þess, stöðu í stjórnskipun og þróun á síðustu áratugum. Þar að auki var fjallað um og rætt við alla frambjóðendur og að sjálfsögðu haldin kosningavaka í beinni. Á kosningavef gátu kjósendur mátað sig við frambjóðendur í sínu kjördæmi. Þar var líka umfjöllun KrakkaRúv fyrir kosningarnar. http://ruv.is/i-umraedunni/umfjollun-ruv-fyrir-forsetakosningarnar-2016 http://www.ruv.is/frett/gudni-kjorinn-forseti-islands http://www.krakkaruv.is/profill/keppendur/forsetakosningar-2016

 • 25 jún 2016

  Forsetakosningum gerð ítarleg skil á RÚV

  Þjóðin kaus sér nýjan forseta í júní og aldrei hafa fleiri verið í framboði til embættis forseta Íslands en árið 2016.Kosningunum var gerð ítarleg skil á RÚV. Kosningaumfjöllun fór fram á sérstökum kosningavef, í útvarpi, sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Fjallað var um forsetaembættið, eðli þess, stöðu í stjórnskipun og þróun á síðustu áratugum. Þar að auki var fjallað um og rætt við alla frambjóðendur og að sjálfsögðu haldin kosningavaka í beinni. Á kosningavef gátu kjósendur mátað sig við frambjóðendur í sínu kjördæmi. Þar var líka umfjöllun KrakkaRúv fyrir kosningarnar. http://ruv.is/i-umraedunni/umfjollun-ruv-fyrir-forsetakosningarnar-2016 http://www.ruv.is/frett/gudni-kjorinn-forseti-islands http://www.krakkaruv.is/profill/keppendur/forsetakosningar-2016

 • 27 júl 2016

  Þrjár konur ráðnar í stjórnendastöður hjá RÚV

  Gengið var frá ráðningum í þrjár mikilvægar stöður hjá RÚV. Sunna Valgerðardóttir var ráðin í stöðu svæðisstjóra RÚVAK, Þóra Margrét Pálsdóttir í stöðu mannauðsstjóra og Helga Lára Þorsteinsdóttir í stöðu safnastjóra. http://www.ruv.is/i-umraedunni/thrjar-konur-radnar-i-stjornendastodur-hja-ruv

 • 01 sep 2016

  Haustkynning í öllum miðlum RÚV

  Á haustmánuðum var vetrardagskrá RÚV í öllum miðlum kynnt af krafti í sjónvarpi,  útvarpi og á vef. Opnaður var  kynningarvefur með yfirliti yfir helstu dagskrárliði og upplýsingum dreift á samfélagsmiðlum. Vetrardagskráin er fjölbreytt og spennandi. Menningarefni er í öndvegi, áhersla lögð á innlent gæðaefni, þjónusta við börn stórbætt og starfsemin á landsbyggðinni efld. http://www.ruv.is/i-umraedunni/fjolbreytt-og-skemmtileg-vetrardagskra-ruv-2016-2017 http://www.ruv.is/kynning/

 • 01 sep 2016

  Viðhorf almennings til RÚV ohf. aldrei jákvæðara

  Ný viðhorfskönnun Gallup sýnir að þjóðin hefur ekki verið jákvæðari  gagnvart RÚV og þjónustu þess frá því RÚV ohf. var stofnað árið 2007. Tæp 73% aðspurðra eru mjög eða frekar jákvæðir gagnvart Ríkisútvarpinu. Könnunin staðfestir mikla og aukna ánægju með flesta þætti starfsemi RÚV. Flestir telja Ríkisútvarpið mikilvægasta fjölmiðil þjóðarinnar eða 68% svarenda.  Þá leita fleiri að fréttum og fréttatengdu efni í miðlum RÚV en annarsstaðar og sama gildir um menningarefni. http://www.ruv.is/i-umraedunni/vidhorf-almennings-til-ruv-aldrei-jakvaedara

 • 02 sep 2016

  Menningarvetrinum fagnað á RÚV: Klassíkin okkar

  Föstudaginn 2. september bauð Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV  í sannkallaða tónlistarveislu á hátíðartónleikunum Klassíkin okkar. Þar voru flutt níu verk sem valin voru í sérstakri netkosningu um sumarið og fram komu margir af færustu listamönnum þjóðarinnar. Tónleikarnir voru sýndir í beinni útsendingu á RÚV, auk þess sem litið var á bakvið tjöldin og bryddað upp á skemmtilegum fróðleik. Á undan tónleikunum flökkuðu umsjónarmenn Menningarinnar á milli leikhúsa landsins og stikluðu á stóru yfir það helsta á fjölunum í vetur. http://www.ruv.is/i-umraedunni/klassikin-okkar-samstarfsverkefni-sinfo-og-ruv http://www.ruv.is/i-umraedunni/tonlistarveisla-i-bodi-sinfoniuhljomsveitar-islands-og-ruv  

 • 16 sep 2016

  Samfélagið hlýtur fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

  Samfélagið á Rás 1 hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2016 fyrir að gefa íslenskri náttúru rödd á öldum ljósvakans með því að gera umhverfismál að þungamiðju í ritstjórnarstefnu sinni. http://www.ruv.is/i-umraedunni/samfelagid-hlytur-fjolmidlaverdlaun-umhverfis-og-audlindaraduneytisins  

 • 23 sep 2016

  Áþreifanlegur árangur í jafnréttismálum

  „Jafnrétti er ákvörðun,“ sagði Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri á málþingi FKA um sýnileika kvenna í fjölmiðlum þann 20. september síðastliðinn. Þar sagði hann frá þeim áþreifanlega árangri sem náðst hefur í jafnréttismálum hjá RÚV á undanförnum tveimur árum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/athreifanlegur-arangur-i-jafnrettismalum

 • 30 sep 2016

  Gestastofa RÚV opnuð á afmælisdaginn

  Gestastofa RÚV var opnuð við hátíðlega athöfn á 50 ára afmæli sjónvarps á Íslandi. Gestastofa RÚV er fyrir fólk sem sækir RÚV heim og vill  kynna sér sögu þess og starfsemi. Uppistaðan í sýningunni er lifandi efni, myndir og munir úr fórum RÚV og þar er sagan rakin frá stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930 til dagsins í dag. Hönnuður Gestastofunnar er Björn G. Björnsson sem ráðinn var fyrsti leikmyndahönnuður RÚV árið 1966. Opnun sýningarinnar er til marks um aukna áherslu RÚV á að opna samtalið við þjóðina og boðið verður, sem fyrr,  í skoðunarferðir um Útvarpshúsið og sýninguna. http://www.ruv.is/i-umraedunni/gestastofa-ruv-opnud-a-afmaeli-sjonvarps

 • 30 sep 2016

  Starfsmenn RÚV heiðraðir á 50 ára afmæli sjónvarps

  Fjórtán starfsmenn RÚV voru heiðraðir á 50 ára afmælisdegi sjónvarps. Þetta heiðursfólk hefur starfað við sjónvarpið okkar nær óslitið síðan útsendingar hófust og þeim færður þakklætisvottur fyrir ómetanlegt framlag þeirra á þessum merku tímamótum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/starfsmenn-ruv-heidradir-a-50-ara-afmaeli-sjonvarps

 • 30 sep 2016

  Tímamótasamningur við DR um sölu á íslensku sjónvarpsefni

  RÚV undirritað rammasamning við DR-Sales í september. Samningurinn felur í sér að DR Sales  sér um að markaðssetja, selja og fjármagna dagskrárefni í eigu og meðframleiðslu RÚV um allan heim. Sem kunnugt er hefur DR verið í fararbroddi í framleiðslu á leiknu sjónvarpsefni á undanförnum árum og er efni danska ríkissjónvarpsins sýnt um allan heim. Með því að efni RÚV fer inn í alþjóðlegt sölu- og dreifikerfi DR Sales opnast möguleikar á því að íslenskt sjónvarpsefni ferðist víðar, skili meiri tekjum og þannig skapist tækifæri til að framboð á íslensku efni hjá RÚV aukist enn frekar.á. RÚV  býður innlendum, sjálfstæðum framleiðendum og öðrum sjónvarpsstöðvum hérlendis að selja efni, sem líklegt er til árangurs á erlendri grund, í gegnum samninginn. http://www.ruv.is/i-umraedunni/timamotasamningur-vid-dr-um-solu-a-islensku-sjonvarpsefni-um-allan-heim

 • 30 sep 2016

  50 ára afmæli sjónvarps

  Föstudaginn 30. september voru 50 ár liðin frá því sjónvarpsútsendingar hófust á Íslandi. Af þessu tilefni bauð RÚV landsmönnum til afmælisveislu sem stóð yfir allt árið 2016. Fluttir voru vandaðir þættir sérstaklega tileinkaðir afmælinu. Einnig voru endurnýjuð kynni við marga  innlenda og erlenda þætti sem ekki hafa sést á skjánum  í fjöldmörg ár. RÚV ferðaðist um landið sumarið 2016 og rifjaði upp þá mynd sem sjónvarpið okkar hefur dregið upp af landi og þjóð og um haustið voru sýndir í beinni útsendingu skemmti- og menningarþættirnir Sjónvarp í 50 ár. Fjöldi dagskrárgerðarmanna ásamt góðum gestum rifjuðu upp ógleymanleg atvik úr sögu sjónvarps á Íslandi, bæði á RÚV og í öðrum miðlum. Hver þáttur var tileinkaður afmörkuðu viðfangsefni, eins og skemmtiefni, fréttum, íþróttum, barnaefni, menningu o.þ.h. Auk þess voru vikulega sýndir stuttir þættir, Augnablik, með perlum úr Gullkistu RÚV. Afmælisbragur var á dagskrá sjónvarps allan september og náði hápunkti sjálfa afmælishelgina þegar sérstakur Afmælisþáttur var í sýndur, afmælisútgáfa af Útsvari, frumsýning á nýrri íslenskri kvikmynd (Fyrir framan annað fólk), útsending frá leiksýningu (Í hjarta Hróa hattar) og frumsýning á nýrri sjónvarpsmynd sem þjóðin tók sjálf, Dagur í lífi þjóðar. Sent var út 24 tíma á sólarhring og margir góðkunningjar skutu upp kollinum. Að auki kynntu þulir dagskrána eins og gert var forðum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/50-ara-afmaeli-sjonvarps-a-islandi

 • 01 okt 2016

  Nýtt sjónvarpsapp og nýtt útvarpsapp fyrir apple TV í loftið

  Útvarp fyrir Apple TV gerir fólki kleift að hlusta á útvarp í sjónvarpstækjum sínum og njóta á sama tíma myndefnis frá RÚV. Markmiðið er að efnið verði öllum aðgengilegt, þ.m.t. sjónskertu og blindu fólki. Í sjónvarpi fyrir Apple TV er hægt að horfa á báðir sjónvarpsrásir RÚV í beinni útsendingu og flakka aftur um tvo tíma í dagskránni. Þá er hægt að horfa á eldra efni og þætti úr fyrri dagskrá. Lögð er áhersla á sjónræna framsetningu efnisframboðsins. Beint streymi er í háskerpu.

 • 01 okt 2016

  Þúsundir gesta á Opnu húsi RÚV

  Í tilefni af 50 ára afmælis sjónvarps á Íslandi bauð RÚV þjóðinni í heimsókn í Efstaleiti og á Akureyri.  Í Efstaleiti gafst fólki kostur á að skoða bæði útvarps- og sjónvarpstökuver og Gestastofu RÚV og að vera við upptöku á þættinum Stúdíó A í myndveri sjónvarps. Starfsemi fréttastofu, Rásar 1 og 2, safnadeildar og nýmiðladeildar var kynnt. Öllum var boðið í kaffi og vöfflur og Krakkafréttir, Stundin okkar, Ævar vísindamaður og fleiri sjónvarpsstjörnur skemmtu afmælisgestum. Þórður húsvörður passaði upp á að allt færi vel fram. Starfsfólk RÚV á Akureyri bauð í vöfflukaffi og kynnti starfsemina í nýju húsnæði við Hólabraut. Mikill gestagangur var bæði í Efstaleiti og á Hólabraut á Akureyri og rífandi góð stemming í afmælisboðinu. http://www.ruv.is/i-umraedunni/thusundir-gesta-i-opnu-husi-ruv

 • 14 okt 2016

  Útvarpsstjórar Norðurlandanna funda í Efstaleiti

  Útvarpsstjórar stöðvanna á Norðurlöndum funda reglulega og nú í október heimsóttu þeir RÚV og héldu reglubundinn fund hér á landi. RÚV metur hið norræna samstarf mikils enda hefur það skilað íslenskum áhorfendum úrvalsefni á síðastliðnum áratugum. Samstarfið hefur sjaldan verið öflugra og nú vinna stöðvarnar saman að því að þróa þjónustuna að nýrri tækni þar sem áhorf og hlustun er í æ ríkari mæli að færast yfir í ólínulega dreifingu. http://www.ruv.is/i-umraedunni/utvarpsstjorar-nordurlandanna-funda

 • 16 okt 2016

  RÚV og DR sales kynna RÚV efni í Cannes

  MIPCOM er stærsta kaupstefna í heiminum fyrir sjónvarpsefni þar sem framleiðendur og kaupendur koma saman og eiga viðskipti. Þar kynntu RÚV og DR sales 10 þætti og þáttaraðir frá RÚV og samframleiðendum. Útbúinn var kynningarbæklingur og yfir 140 fundir haldnir þar sem kynnt var sérstaklega efni RÚV. Viðbrögð við efni RÚV frá mögulegum kaupendum voru jákvæð og lofa góðu.  

 • 18 okt 2016

  Jarðstöðin tekin niður

  Þann 18. október sl. voru tímamót í sögu Sjónvarpsins þegar stóra gervihnattaloftnetið, 13m jarðstöðin við Útvarpshúsið, var tekin niður. Jarðstöðin hefur þjónað RÚV og EBU vel og dyggilega í 25 ár og í margra augum verið helsta kennileiti Útvarpshússins. Tveir minni diskar taka við hlutverki stóra disksins en breytt tækni gerir það mögulegt að ná betra merki með minni diskum.

 • 18 okt 2016

  Kóðinn: Forritunarleikar fyrir krakka

  Forritunarleikarnir Kóðinn 1.0, fyrir krakka í 6. og 7. bekk, voru settir þann 18. október og börnum afhendar fríar forritanlegar micro:bit smátölvur. Leikarnir fóru fram 14. október – 15. maí og þar takast krakkar á við vikulegar áskoranir sem tengjast tölvum, forritum, snjallsímum, internetinu og fleira og fleira. Einnig verða skemmtilegar áskoranir fyrir forritun sem tengjast Micro:bit smátölvunni en hana geta allir krakkar í 6. og 7. bekk fengið og forritað til að gera ótrúlegustu hluti. Kóðinn er samstarfsverkefni á milli KrakkaRÚV, Samtaka iðnaðarins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. http://krakkaruv.is/heimar/kodinn http://www.ruv.is/frett/kodinn-forritunarleikar-fyrir-krakka

 • 21 okt 2016

  Ófærð valin besta sjónvarpsþáttaröð í Evrópu

  Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð vann evrópsku sjónvarpsverðlaunin fyrir bestu sjónvarpsþáttaröð í Evrópu árið 2016. Verðlaunin voru afhent á Prix Europa hátíðinni í Berlín 21. október. Forsvarsmenn RÚV voru viðstaddir hátíðina og veittu verðlaununum viðtöku. Þáttaröðin hefur hlotið almenna hylli víða um heim,  og gagnrýnendur hafa lofað hana.Ætla má að vel á annan tug milljóna hafi horft á þættina og enn á eftir að sýna þá víða. RVK Studios og RUV hafa hafið vinnu við nýja seríu af Ófærð sem áætlað er að frumsýna á RÚV haustið 2018. Tvö útvarpsverkefni af Rás 1 hlutu einnig tilnefningu til Prix Europa verðlaunanna, útvarpsleikritið Sek eftir Hrafnhildi Hagalín og þáttaröðin um snjóflóðin á Flateyri, Flóð. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ofaerd-besta-sjonvarpsthattarod-i-evropu-arid-2016 http://www.ruv.is/i-umraedunni/vinna-vid-adra-seriu-ofaerdar-hafin  

 • 24 okt 2016

  RÚV hlýtur viðurkenningu Jafnréttisráðs

  RÚV fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs 2016. Hana hljóta aðilar sem skarað hafa fram úr í umfjöllun um mál sem tengjast jafnrétti kynjanna. Ríkisútvarpið hlaut fjölmiðlaviðurkenningu fyrir metnaðarfullt jafnréttisátak til að jafna stöðu kynja í umfjöllun og meðal starfsfólks. Því til viðbótar hlaaut RÚV Gullmerki Jafnlaunavottunnar snemma árs 2017. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-hlytur-vidurkenningu-jafnrettisrads  

 • 25 okt 2016

  Skömm (Skam) markar tímamót í sögu sjónvarps

  Norska unglingaserían Skömm (Skam) hóf göngu sína á RÚV á haustdögum og frá upphafi vakti hún gríðarlegan áhuga. Markaði dagskrársetning þáttaraðarinnar tímamót í sögu sjónvarpsins því að þetta mun vera í fyrsta sinn sem ólínuleg dagskrársetning fyrir vef, í Sarpi og á appi er sett í forgang, umfram hefðubundna línulega dagskrársetningu í sjónvarpi. http://www.ruv.is/frett/norskar-unglingsstelpur-hrista-upp-i-hefdum  

 • 29 okt 2016

  Alþingiskosningar á RÚV

  Kosið var til Alþingis þann 29. október. Ítarlega var fjallað um alþingiskosningarnar í öllum miðlum RÚV. Kosningavefur RÚV vegna alþingiskosninganna 2016 var eins konar gagnabanki fyrir kjósendur með greinargóðum upplýsingum frá frambjóðendum og forystumönnum framboða.  Á vefnum mátti nálgast alla kosningaumfjöllun RÚV. Tíu málefnaþættir voru sýndir í sjónvarpi með fulltrúum stjórnmálaflokka. Formaður hvers flokks var tekinn tali í viðtalsþættinum Forystusætinu. Kjördæmafundir voru í útvarpi með oddvitum allra framboða. Kynningarefni framboða var sýnt gjaldfrjálst. Málefnaumræða var í útvarpi í ýmsum þáttum Rásar 1 og 2. Þriggja þátta röð á Rás 1 fjallaði um stjórnmál á 21. öldinni. KrakkaRÚV hélt úti kosningaumfjöllun fyrir yngri kynslóðina. Samfélagsmiðlar RÚV voru nýttir, m.a. Facebook og viðamikil kosningavaka var haldin að kvöldi kjördags. http://www.ruv.is/althingiskosningar  http://ruv.is/i-umraedunni/malefni-og-fyrirkomulag-i-kosningathattum-ruv http://www.krakkaruv.is/krakkakosningar  

 • 08 nóv 2016

  RÚV á vettvangi í sögulegum forsetakosningum Bandaríkjanna

  RÚV sendi fréttateymi til Bandaríkjanna til að fjalla um spennandi kapphlaup Donalds Trumps og Hillary Clinton að forsetaembættinu. Í heimildaþætti RÚV var tekið hús á bandarískum kjósendum, leitað álits sérfræðinga og farið á kosningafundi. Beinar innkomur fréttateymis RÚV af vettvangi í fréttatíma og þættir í útvarpi og  í sjónvarpi dagana fyrir og eftir kosningar voru lykilatriði í að tryggja öfluga umfjöllun um  einn stærsta fréttaatburð ársins á erlendum vettvangi. http://www.ruv.is/frett/donald-trump-nyr-forseti-bandarikjanna

 • 14 nóv 2016

  KrakkaRÚV sýnir beint frá Skrekk

  KrakkaRÚV leggur mikla áherslu á að fylgjast með Krakkaviðburðum. Skrekkur er árleg hæfileikakeppni fyrir grunnskólanemendur í Reykjavík. Keppnin fór fram í Borgarleikhúsinu og var í fyrsta sinn sýnt beint frá úrslitakvöldinu á RÚV. Allir grunnskólar með unglingadeild geta sent eitt atriði í keppnina og Hagaskóli vann keppnina árið 2016. Á vef KrakkaRÚV var hægt að fylgjast með undirbúningi þátttakenda. http://www.ruv.is/frett/hagaskoli-vann-skrekk-myndskeid  

 • 15 nóv 2016

  Jarðvegsframkvæmdir hefjast á útvarpsreitnum

  Uppbygging á útvarpsreitnum við Efstaleiti hófst í nóvember. Jarðvegs- og gatnaframkvæmdir verða á árunum 2016 og 2017 en bygging íbúða og frágangur lóða verður 2018 – 2019. Áætluð verklok eru í maí 2019. Framkvæmdin er umfangsmikil og veldur einhverju raski á umferð um svæðið meðan á þeim stendur. Nýjar húsagötur verða lagðar um svæðið og sem fyrr verður Útvarpshúsið kennileiti svæðisins.  

 • 28 nóv 2016

  Brúneggjamálið vekur mikla athygli og óhug

  Fréttastofan, með Kastljós í fararbroddi, lagði áherslu á að efla rannsóknarblaðamennsku. Þar á meðal er Brúneggjamálið svokallaða. Málið varð til þess að stórauka meðvitund þjóðarinnar um rétt neytenda og aðbúnað húsdýra og Brúnegg hafa orðið hálfgert samheiti yfir máttleysi eftirlitsstofnana og neytendahneyksli. Fyrir þessa umfjöllun hlaut Tryggvi Aðalbjörnsson fréttamaður verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins. http://www.ruv.is/tag/brunegg    

 • 30 nóv 2016

  Einkennisstef Rásar 1

  Hugi Guðmundsson tónskáld samdi  fyrir Rás 1 einkennisstef sem styrkir hljóðmynd Rásarinnar. Hugi er einn af okkar fremstu tónskáldum og  í tónsmíðum sínum nýtir hann jöfnum höndum nýjustu tækni og óm fortíðarinnar; blandar meðal annars saman barokkhljóðfærum og rafhljóðum. Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur stefið. http://www.ruv.is/i-umraedunni/einkennisstef-rasar-1  

 • 12 des 2016

  Góð jól – góðverkadagatal KrakkaRÚV #góðjól

  Í desember hvatti KrakkaRÚV alla landsmenn til að gera góðverk. Á hverjum degi frá 12. desember kynnti Björgvin Franz Gíslason, umsjónarmaður dagatalsins, góðverk dagsins og hvatti fólk, fjölskyldur og fyrirtæki til að gefa af sér svo að sem flestir geti átt góð jól.        

 • 23 des 2016

  Hátíðardagskrá RÚV fjölbreytt og metnaðarfull

  Á síðustu árum hefur verið lögð aukin áhersla á hátíðardagskrá í öllum miðlum RÚV. Er það gert til að bjóða upp á enn vandaðari dagskrá í samræmi við hlutverk Ríkisútvarpsins á þeim tíma sem flestir hafa næði til að njóta. Í sjónvarpi var um jólin  sýnd blanda af vönduðu og skemmtilegu dagskrárefni ætluðu allri fjölskyldunni.  Þar á meðal var metnaðarfullt menningarefni, frumsýnt leikið íslenskt efni, upptökur frá merkisviðburðum og framúrskarandi erlendar kvikmyndir. Rás 1 hélt í hefðirnar um jólin og á Rás 2 var góð blanda af tónlist, spjalli, skemmtun og huggulegheitum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/hatidardagskra-ruv-verdur-fjolbreytt-og-vidamikil    

 • 23 des 2016

  Betri þjónusta við áhorfendur – lotugláp á RÚV.is

  Um jólin var ný þjónusta kynnt.  Þá var í fyrsta sinn hægt að horfa á sérvaldar þáttaraðir í heild á RÚV.is undir yfirskriftinni Jólaseríur RÚV. Tvær fyrstu þáttaraðir norsku þáttanna SKAM voru settar á vefinn og aðsóknin að þeim gaf skýrt til kynna að áhugi væri bæði á þáttunum og lotuglápi því að ríflega 36 þúsund manns sóttu í jólaseríurnar á meðan þær voru í boði.      

 • 31 des 2016

  Maður ársins á Rás 2: Björgunarsveitirnar

  Björgunarsveitir slysavarnarfélagsins Landsbjargar urðu hlutskarpastar í valinu á manni ársins á Rás 2. Björgunarsveitirnar stóðu í ströngu um jólin þegar þær komu vegfarendum til bjargar í vonskuveðri sem gekk yfir landið um hátíðirnar. Tíu voru tilnefndir sem maður ársins hjá Rás 2.  Þetta voru Birgitta Jónsdóttir, Þórunn Ólafsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Guðni Th. Jóhannesson, Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck, Jóhanna Kristjónsdóttir, Sema Erla Serdar, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Katrín Jakobsdóttir og björgunarsveitirnar. http://www.ruv.is/frett/bjorgunarsveitirnar-madur-arsins-a-ras-2      

Sækja meira