16:05
Síðdegisútvarpið
Aukning í skráningum nýrra bíla, rýnt í samgönguáætlun og uppskrift að jólum
Síðdegisútvarpið

Þau Guðrún Dís Emilsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Þórður Helgi Þórðarson halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Í þættinum í gær ræddum við við Margréti Víkingsdóttur sem var í öngum sínum vegna kröfu frá Matvælastofnun, MAST, um að aflífa ætti hundinn hennar ef hún sýndi ekki fram á betri meðferðir hundinum til handa en hann þjáist af gigt. Hún segir hundinn vel haldinn og í meðferðum. Saga hennar hreyfði við mörgun og rigndi viðbrögðum yfir þáttastjórnendur í gær. En hvert er verklag MAST í svona málum? Þóra Jóhanna Jónasdóttir, yfirdýralæknir, var á línunni.

Í gær var ný samgönguáætlun 2026-2040 kynnt. Það var Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra sem kynnti áætlunina, en einnig aðgerðaáætlun til fimm ára. Meðal þess sem kynnt var voru áform um jarðgöng og þar voru Fljótagöng (5,2km) sett efst í forgangslistann vegna sérstaklega hættulegrar náttúruvár en Fljótagöng munu tengja Siglufjörð og Fljótin og leysa Strákagöng af hólmi.

Þar á eftir koma Fjarðagöng og Súðarvíkurgöng. En hvað þýðir þetta á mannamáli og hver verða fyrstu skrefin þegar ákvörðun um jarðgöng hefur verið tekin ? Guðmundur Valur Guðmundsson er framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar og hann kom í Síðdegisútvarpið i dag.

Guðmundur Ingi Þóroddsson - Afstaða félaga Fanga

Við fengum fréttir af því að í gær hafi verið haldinn fundur um Exit-úrræði, sem er formlegt samstarf opinberra aðila og félagasamtaka um stuðning við einstaklinga sem vilja hverfa frá ofbeldisfullum eða afbrotatengdum lífsstíl, var haldinn á Hólmsheiði í dag. En hvað þýðir þetta Guðmundur Ingi Þóroddsson er formaður Afstöðu félags fanga og hann kom til okkar og sagði frá.

Mikil aukning hefur orðið í sölu og skráningum nýrra bíla í nóvember sl. Nemur aukningin, borin saman við sama mánuð í fyrra, um 150 prósentum. En séu kaup bílaleiganna skoðuð nemur aukning á kaupum á bensín- og dísilbílum 535%. Þetta munu vera viðbrögð bílaleignanna við fyrirsjáanlegri hækkun vörugjalda sem leggjast munu með miklum þunga á bensín- og dísilbíla. Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdarstjóri Bílgreinasambandsins, fór yfir stöðuna á bílamarkaði með okkur.

Nemendur í Borgarholtsskóla hafa stofnað undirskriftarlista til stuðnings skólameistara sínum Ársæli Guðmundssyni eftir að mennta- og barnamálaráðherra ákvað að framlengja ekki skipun Ársæls. Hallur Hrafn Garðarsson Proppé, formaður nemendafélags skólans var á línunni.

Séra Bragi Friðriksson kom víða við á langri ævi. Á bókakápu ævisögu hans sem er nýkomin út segir að Bragi hafi lagt grunn að æskulýðsstarfi Reykjavíkur og Þjóðkirkjunnar, stofnað ungmennafélagið Stjörnuna, æskulýðs og skátafélög en Bragi er oft kallaður faðir Garðabæjar. Ævisöguna ritar Hrannar Bragi Eyjólfsson sem er barnabarn Braga og hann kom til okkar í dag.

Og svo líta þau inn til okkar Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Sigurður Þorri Gunnarsson en í kvöld verður sýndur fyrsti þáttur af þremur sem nefnist Uppskrift að jólum.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 1 klst. 52 mín.
,