06:50
Morgunútvarpið
12. jan. - Vegakerfið, Systkinasmiðja, HM, verkföll, ópera og mokstur
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir, Rúnar Róbertsson og Hulda G. Geirsdóttir.

Áætlaður kostnaður við að koma vegakerfinu í viðunandi ástand nemur hátt í 200 milljörðum króna. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Stefaníu Kolbrúnar Ásbjörnsdóttur, hagfræðings á efnahags- og samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins, á skattadegi Deloitte í gær. Við ræddum við Stefaníu um hvernig hægt sé að fjármagna þann kostnað, útgjöld ríkissjóðs til vegasamgangna og þróun í skattlagningu á ökutækjum og notkun þjóðvega.

Við kynntum okkur námskeið sem heitir Systkinasmiðja hjá Ráðgafar- og greiningarmiðstöðinni, en vandi barna sem eiga systkini með fötlun eða þroskafrávik er oft mikill og falinn þar sem áskoranir hins fatlaða fá gjarna mestu athyglina. Herdís Hersteinsdóttir þroskaþjálfi er ein þeirra sem að námskeiðinu koma og hún sagði okkur nánar frá.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta spilar sinn fyrsta leik á HM í kvöld. Einar Örn Jónsson er staddur á mótsstað í Svíþjóð og við heyrðum í honum hljóðið, sem og landsliðsfyrirliðanum Aroni Pálmarssyni.

Samninganefnd Eflingar skipuleggur nú atkvæðagreiðslu um verkfall sem gæti náð til tæplega 21.000 félagsmanna. Ef það er samþykkt verður að tilkynna ríkissáttasemjara og Samtökum atvinnulífsins það með viku fyrirvara og verkfall gæti því hafist í byrjun febrúar. Við ræddum við Láru V. Júlíusdóttur, lögfræðing og sérfræðing í vinnumarkaðsrétti, um lagalegu hliðina af verkföllum, verkbönnum og réttindi þeirra sem gætu nú verið á leið í verkfall.

Margt áhugafólk um óperur dreymir um að heimsækja hið fræga Metropolitan óperhús í New York borg. En það er kannski ekki alltaf svo auðvelt að láta þann draum rætast, en nú er hins vegar hægt að sjá sýningar Metropolitan á hvíta tjaldinu hér heima, nánar tiltekið í beinni í bíó. Við fengum góða menningargesti þegar þær komu til okkar Kolbrún Halldórsdóttir, sem hefur komið að skipulagningu ópersýninga í Sambíóunum og Dísella Lárusdóttir óperusöngkona sem þekkir innviði Metropolitan af eigin raun og hefur hefur sungið fyrir íslenska bíógesti að utan

Í lok þáttar heyrðum við í Eiði Fannari Erlendssyni, yfirmanni vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg, um snjómokstur í borginni, sem mörgum þykir taka of langan tíma.

Tónlist:

Nýdönsk - Á plánetunni Jörð.

Bríet - Sólblóm.

Brimkló - Þjóðvegurinn.

Prins Póló og hirðin - Ég er klár - Haustpeysulagið.

Rolling Stones - Start me up.

Systur - Goodbye.

Cornershop - Brimful of Asha.

Moses Hightower - Maðkur í mysunni.

Mannakorn - Einhvers staðar einhvern tíma aftur.

Var aðgengilegt til 12. janúar 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,