16:05
Síðdegisútvarpið
15.apríl
Síðdegisútvarpið

Þau Valur Grettisson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Við í Síðdegisútvarpinu höfum verið dugleg við að fjalla um íslensk hlaðvörp að undanförnu. Nú er komið að hlaðvarpinu Alveg Dagsatt. Það er í umsjón Dags Gunnarssonar fyrrverandi starfsmanns Rásar 1. Í hlaðvarpinu ræðir Dagur eingöngu við konur, fær frá þeir skemmtilegar sögur og segir þeim svo sjálfur sínar sögur. Hver gestur fær að velja tvær sögur frá Degi. Í þessum þáttum er einnig drukkinn bjór og borðaður lakkrís á meðan sögurnar eru sagðar. Dagur segir okkur nánar frá Alveg Dagsatt.

Það er orðið daglegt brauð að hinu og þessu sé frestað eða aflýst útaf faraldrinum. Í síðustu viku var til dæmis hinum þekktu Andrésar Andar skíðaleikum á Akureyri frestað fram í maí, en í dag bárust hins vegar fréttir um að hætt væri við þau áform og leikarnir fara því fram í næstu viku, á sumardaginn fyrsta. Gígja Hólmgeirsdóttir fær Fjalar Úlfarsson formann Andrésarnefndarinnar til sín í hljóðstofu á Akureyri og heyrir allt um þetta.

Það hefur verið mikið að gera hjá Neytendasamtökunum undanfarna daga eftir að fyrirtækið BPO innheimta hóf að senda innheimtukröfur á fólk vegna smálána. Í tilkynningu frá fyrirtækinu BPO kemur fram að þeir hafi keypt 24 þúsund smálánakröfur sem áður voru í eigu E-commerce. Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna hann kemur til okkar á eftir og útskýrir fyrir okkur hvað þarna er á ferðinni.

Marrið í stiganum eftir Evu Björgu Ægisdóttur er tilnefnt sem frumraun ársins til hinna virtu CWA Daggers verðlauna í Bretlandi en það eru hin virtu samtök breskra glæpasagnahöfunda sem standa að verðlaununum. Þetta hlýtur að teljast til tíðinda enda kemur mikið út af glæpasögum í heiminum á hverju ári, og fáar komast í gegnum nálaraugað í Bretlandi. Við heyrum í Evu Björgu.

Afleiðingar Covid 19 eru margskonar og sumar ófyrirséðar. Sæðisbanki Svíþjóðar er að tæmast samkvæmt yfirmanni frjósemismeðferðar hjá háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. En hvernig er staðan hér á Íslandi. Er bankinn hér einnig að tæmast eða er nóg til? Signý Hersisdóttir fósturfræðingur frá Livio veit meira um stöðuna.

Var aðgengilegt til 15. apríl 2022.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,