18:00
Spegillinn
Rafmagn upp að gosi, verðlækkun, Bayeux-refilinn
Spegillinn

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Spegillinn 15.4 2021

Umsjónarmaður: Bergljót Baldursdóttir

Stjórnvöld í Noregi ætla að bíða með að taka ákvörðun um notkun á bóluefni Astrazeneca. Norska lýðheilsustofnunin vill að bóluefnið verði tekið úr umferð.

Embætti ríkissaksóknara hefur ákveðið að hækka ekki sektir fyrir brot á sóttkví. Ríkissaksóknari telur að sú heimild sóttvarnalæknis að skikka fólk sem rýfur sóttkví til að ljúka henni í sóttvarnarhúsi hafi mun meiri fælingarmátt en hækkun sekta.

Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Heilsuvernd um yfirtöku á rekstri Öldrunarheimila Akureyrar. Bæjarstjórinn fagnar samningnum en reksturinn kostaði Akureyrarbæ 400 miljónir króna á síðasta ári. Rætt við Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri

Fjármálaeftirlitið hefur óskað eftir gögnum frá fyrirtækinu sem sendi innheimtukröfur á fólk vegna smálána. Neytendastofa hefur málið einnig til skoðunar. Fyrirtækið ætlar að breyta kröfunum þannig að þær endurspegli einungis höfuðstól lánanna.

Skoða þarf hvort vistun kvenna og karla saman í opnum fangelsum taki nægjanlegt mið af öryggi og þörfum kvenna. Þetta kemur fram í skýrslu setts umboðsmanns Alþingis.

Lengra efni:

Stefnt að því að leggja rafmagn upp að gosinu í Geldingadölum og í dag var byrjað að bera möl í stíginn að gosstöðvunum. Þá verða ráðnir landverðir eða starfsmenn til að taka við af björgunarsveitarmönnum. Arnar Páll Hauksson ræddi við Fannar Jónasson, bæjarstjora í Grindavík og Ólaf Jónsson, sviðssstjóra hjá Umhverfisstofnun

Aukin eftirspurn eftir vörum og þjónustu og hagstætt vaxtaumhverfi ætti að auka svigrúm fyrirtækja til að lækka verð segir, Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ. Róbert Farestveit, sviðstjóri og hagfræðingur ASÍ telur að vaxtahækkanir séu ekki heppilegar til að halda aftur af verðbólgu. Bergljót Baldursdóttir ræddi við Auði og Róbert um verðhækkanir og verðbólgu.

Í janúar 2018 heimsótti Emmanuel Macron Frakklandsforseti Theresu May þáverandi forsætisráðherra til að ræða erfitt mál, flóttamannamálin. En Macron kom einnig færandi hendi: boð um að árið 2022 myndu Frakkar lána Bretum Bayeux-refilinn, eina mestu þjóðargersemi Frakka. Nú er tvísýnt hvort úr því verði og aðstæður reyndar aðrar en þegar boðið kom. Sigrún Davíðsdóttir sagði frá

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 30 mín.
,