12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Að minnsta kosti tíu slösuðust þegar aurskriður féllu á bæinn Ask í Noregi í nótt. Ekki er vitað um afdrif á þriðja tugs bæjarbúa sem búa í húsum sem grófust undir skriðuna. Hafdís Gunnarsdóttir býr í Ask og þurfti að rýma heimili sitt. Hún segir að ekki hafi gefist tími til að taka neitt með.

Íslensk stjórnvöld hafa komist að samkomulagi við lyfjafyrirtækið Moderna um kaup á bóluefni. Áætlað er að afhending hefjist á fyrstu mánuðum komandi árs.

Lokið verður við að bólusetja úr fyrsta skammti á landbygðinni í dag. Á sjúkrahúsinu á Akureyri verða rúmlega 120 starfsmenn bólusettir í þessari fyrstu lotu. Þá fengu íbúar á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík bóluefni í morgun.

Dreifing á bóluefni Astra Zeneca og Oxford-háskóla hófst í Bretlandi í dag eftir að bresk stjórnvöld gáfu leyfi fyrir bóluefninu. Fyrirtækið hefur ekki sótt um markaðsleyfi hjá lyfjastofnun Evrópu þar sem meðalvirkni efnisins er 70%.

Allt stefnir í að svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu verði yfir heilsuverndarmörkum frá gamlárskvöldi og langt fram á nýársdag. Gangi spár eftir verður mengunin jafn mikil eða meiri en um áramótin fyrir tveimur árum en þá mældist hún hvergi meiri í heiminum. Svona mikil svifryksmengun getur haft mikil áhrif á heilsu fólks.

Sara Björk Gunnarsdóttir var í gærkvöldi útnefnd Íþróttamaður ársins 2020. Hún fékk fullt hús stiga í valinu og er fyrst kvenna til að hljóta nafnbótina tvívegis.

Verðlaunahóf gærkvöldsins var sögulegt fyrir þær sakir að í fyrsta sinn hlutu konur öll stóru verðlaunin. Elísabet Gunnarsdóttir var valin þjálfari ársins og kvennalandsliðið í fótbolta var lið ársins.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 22 mín.
,