
Í Litlu flugunni er leikin gamaldags tónlist frá öldinni sem leið: dægurlög, harmóníkutónlist, djass og danslög, með flytjendum á borð við Tónakvartettinn frá Húsavík, danshljómsveit Victors Sylvester, Caterinu Valente og Hauk Morthens.
Gömlu góðu hljómplöturnar eru í heiðri hafðar, bæði litlar og stórar, að ógleymdum segulböndum úr safni útvarpsins en í segulbandasafninu leynast margar ófáanlegar hljóðritanir með íslenskum tónlistarmönnum.
Umsjón: Lana Kolbrún Eddudóttir.
Litla flugan hefst á því að leikin er upptaka sem gerð var á Keflavíkurflugvelli þar sem Elly Vilhjálms syngur með Orion kvintettinum. Þá eru leiknar upptökur frá sænska ríkisútvarpinu með stórsveit sænska útvarpsins frá 1957. Sænski söngvarinn Gunnar Siljabloo Nilson syngur með stórsveitinni. Bandaríska söngkona Ernestine Anderson syngur með sænsku djasstríói og einnig heyrist í Moniku Zetterlund. Ragnar Bjarnason syngur með KK sextettinum, auk þess sem leikin er gömul upptaka af lakkplötu þar sem Unnur Brynjólfsdóttir syngur með KK sextettinum. Tríó Bengt Hallberg leikur eitt lag og að lokum heyrist upptaka með Elly Vilhjálms og Orion kvintettinum.