Í dag fer fram ráðstefnan Framtíðin er heima – mikilvæg skref fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu. Á meðal fyrirlesara eru Helga Dagný Sigurjónsdóttir hjá Icepharma Velferð og fjallar hún um mismunandi lausnir til að aðstoða fólk heima og hvernig er hægt að gera fólki kleift að búa lengur heima með velferðartækni. En hvar standa Íslendingar í fjarheilbrigðislausnum miðað við til dæmis hin Norðurlöndin? Gætum við gert meira heima? Helga Dagný kíkti í Morgunútvarpið.
Það styttist í sveitarstjórnakosningarnar og það má gera ráð fyrir því að samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu verði eitt af stóru málunum á suðvesturhorni landsins í aðdraganda kosninga. Geir Finnson fyrrum varaborgarfulltrúi ritað áhugaverða grein sem birtist á Vísi í gær þar sem hann biðlaði til frambjóðenda þvert á flokka að sýna kjósendum þá virðingu að taka mið af greiningarvinnu séfræðinga í sínum málflutningi í stað þess að ala á reiði og ótta. Geir kom til okkar og ræddi málin.
Í Morgunútvarpinu í gær viðraði Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, yfirlæknir heilsugæslu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, áhyggjur af því að ný tungumálastefna Landspítalans sé ekki nægilega vel útfærð. Á Landspítalanum er stefnan hins vegar sögð bæði vel hugsuð og vel útfærð. Hún á ekki að útiloka ráðningar á erlndum læknum og setur þær skyldur á starfsemina að útvega starfsfólki góða íslenskukennslu. Ólafur Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, er maðurinn á bakvið stefnuna og hann kom til okkar.
Í síðustu viku bárust þær fréttir að Hafþór Júlíus Björnsson ætli að taka þátt í hinum svokölluðu steraleikum, sem fara fram í Las Vegas í Bandaríkjunum í vor. Á Steraleikunum eru engin lyfjapróf en þar keppa íþróttamenn sem nota árangursbætandi efni fyrir opnum tjöldum í ýmsum íþróttagreinum. Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands, segir ýmislegt bogið við mótið og hann mætti í spjall.
Reykjavíkurborg auglýsti á dögunum eftir sérfræðingi í viðverustjórnun og á hann að vera hluti af teymi sem vinnur að lægra veikindahlutfalli í borginni. Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur tekið fleiri veikindadaga siðustu þrjú ár en árin á undan. Auglýsingin vakti athygli meðal annars Snorra Mássonar varaformanns Miðflokksins sem gerði grín að því að þegar allir væru hættir að mæta í vinnunna þá væri það eina í stöðunni að ráða inn nýjan starfsmann og það sérfræðing. En hvað gerir sérfræðingur í viðverustjórnun ? Mental ráðgjöf hefur boðið stjórnendum upp á sækja námskeið í viðverustjórnun og Hilja Guðmundsdóttir sem þar starfar kom til okkar á eftir og fræddi okkur um það.
Nú fyrir helgi ræddum við við Stefán Brodda Guðjónsson sveitarstjóra Borgarbyggðar. Ástæðan var langtímabúseta flóttafólks á Bifröst en í upphafi Úkraínustríðsins var gerður samningur milli ríkisins, sveitarfélagsins og Háskólans á Bifröst um að koma á fót móttökustöð fyrir flóttamenn sem vara átti í þrjá mánuði. Skammtímaúrræðið er orðið að langtímaúrræði og viðraði Stefán Broddi áhyggjur sínar af fólkinu sem þarna býr og þá sérstaklega áhyggjur sínar af öllum þeim fjölda barna sem þar dvelur. Börnin hafi lítið við að vera og ná ekki að tengjast jafnöldrum sínum og aðlagast íslensku samfélagi. En hver er staða þessara barna og hver eru réttindi þeirra. Salvör Nordal umboðsmaður barna kom til okkar.