„Stend fyllilega við þessar ákvarðanir mínar“

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra telur sig enn hafa fært nægjanleg rök fyrir ákvörðun sinni að fara ekki eftir niðurstöðu hæfnisnefndar við skipan dómara við Landsrétt. Og það jafnvel betri en hæfnisnefndin gerði sjálf eftir þriggja mánaða rannsókn og samanburð á umsækjendum.

„Í rauninni rökstyð ég nú kannski mína niðurstöðu örlítið ítarlegar heldur en hæfisnefndin rökstuddi umsögn sína. Af umsögninni sjálfri er ekki hægt að ráða neinn samanburð á einstaklingum,“ segir Sigríður. Hæstiréttur hefur hins vegar dæmt hana brotlega við lög vegna þess að skort hafi á rannsókn áður en hún ákvað að fara gegn tillögum hæfnisnefndarinnar.

Landsréttur. (Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Sótti umsækjendur neðarlega á listann

Við ákvörðun Sigríður duttu fjórir umsækjendur út og fjórir komu inn í staðinn. Sú staðreynd að þeir sem fóru út voru sóttir upp í 7. sæti á lista hæfisnefndarinnar, og látnir víkja fyrir umsækjendum allt niður í 30. sæti, vakti spurningar. Sá umsækjandi er eiginmaður fyrrum starfskonu ráðherrans og auk þess voru tveir umsækjendur sem nefndin valdi en ráðherra hafnaði, höfðu tengsl við vinstri væng stjórnmálanna.

„Ég vissi reyndar ekkert um það ekki nema Ástráður [Haraldsson], hans skoðanir eru kunnar. Ég þekki ekki stjórnmálaskoðanir fæstra þarna. Marga bara þekkti ég alls ekki og hefði ekki þekkt úti á götu af þeim sem ég skipaði. Og þú nefnir þarna maka fyrrverandi samstarfsmanns míns. Ég get ekki sagt að ég þekki viðkomandi persónulega. Þannig að ég held að þetta sé allt saman mjög langsótt,“ segir Sigríður.

Röðun hæfnisnefndarinnar. (Mynd Sævar Jóhannesson/RÚV)

Samanburðurinn átti ekki að verða opinber

Skýring ráðherrans á þá leið að hún hafi látið dómarareynslu ráða, eru ekki síður umdeildar. Umsækjandi í 30. sæti dómnefndar hlaut þannig náð fyrir augum ráðherra, jafnvel þó umsækjandi í 27.sæti hæfisnefndar, hafi skorað jafn hátt fyrir dómarareynslu. Eins var umsækjandi í 7. sæti settur út þó aftar á lista sé umsækjandi með minni dómarareynslu sem var áfram inni í mati ráðherrans.

Hæstiréttur telur enda talsvert vanta upp á að ráðherra hafi útskýrt hvernig hún komst að þessari niðurstöðu. Í gögnum hæfnisnefndarinnar má finna ítarlegan samanburð á reynslu og hæfni allra umsækjendanna. Samanburðrinn er framkvæmdur á þar til gerðu skorblaði sem svo er notað til að raða umsækjendum í röð með hlutlægum hætti. Kjarninn birti listann á síðasta ári.

„Þessi listi í rauninni, átti ekkert að verða opinber, eitthvað vinnugagn. Það hvarflaði alveg að mér að horfa á þennan lista og prófa bara að breyta einhverju vægi á þessum matsatriðum. Þá fannst mér ég í rauninni vera að gera það sem að mér fannst kannski ekki rétt að nefndin gerði. Það er að leggja svona hlutlægt mat á þetta. Af því að ég ætlaði nú ekki að fara að gefa þessu fólki öllu nýja einkunn. En ég hefði geta breytt væginu,“ segir Sigríður

En er það ekki nákvæmlega það sem hún hefðir átt að gera til þess að sinna þessari rannsóknarskyldu samkvæmt því sem Hæstiréttur segir? „Jú, nú hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að ég hafi þurft að rannsaka þetta eitthvað frekar. Og það var auðvitað eins og ég hef nefnt, það var auðvitað mér áfall í rauninni.“

Bréf ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins með leiðbeiningum til Sigríðar. (Mynd Kveikur/RÚV)

Kom ekki öllum á óvart eins og Sigríði

Niðurstaða Hæstaréttar kom þó öðrum minna á óvart. Strax og ráðherra tilkynnti að hún hygðist fara gegn áliti nefndarinnar rifjuðu margir upp eldri málin. Það gerði Lögmannafélagið auk fleiri aðila sem veittu umsögn til Alþingis vegna málsins. Og samkvæmt umfjöllun Stundarinnar í liðinni viku, gerðu lögfræðingar í Stjórnarráðinu það líka áður en ráðherra tilkynnti ákvörðun sína. Ráðleggingarnar komu víðar að.

Kveikur hefur undir höndum samskonar ráðleggingar Ragnhildar Arnljótsdóttur ráðuneytisstjóra til ráðherrans.

Degi áður en ráðherra lagði breyttan lista fyrir þingið ítrekaði Ragnhildur möguleikana í stöðunni. Sá fyrsti sé að ráðherrann greini þinginu frá óánægju sinni með forsendur í mati hæfisnefndarinnar og leggi fram frumvarp sem fresti málinu til 1. október og vísi því aftur til hæfisnefndar með óskum um að dómarreynsla fái aukið vægi í mati nefndarinnar.

Annar möguleiki sé að ráðherra senda þinginu tillögur að breyttri uppröðun þar sem dómarareynslu sé gefið aukið vægi. Til þess þurfi hins vegar góðan rökstuðning og áhersla lögð á að Leggja þurfi sama mat á alla umsækjendur. Ljóst er að ráðuneytisstjórinn taldi ráðherrann ekki hafa gert það, og því býðst hún til þess að starfsfólk ráðuneytisins fari á fullt í þá vinnu strax þá um kvöldið.

Þriðji möguleikinn var að ráðherra leggi fram óbreyttan, sem ráðuneytisstjórinn telur ekki ákjósanlega leið.

Sigríður segist hafa axlað ábyrgð með því að fara með málið í gegnum kosningar. (Mynd RÚV)

„Ég tek auðvitað ábyrgðina“

En hvaða sérfræðingar ráðlögðu ráðherranum að gera þetta með þeim hætti sem hún gerði? „Það var enginn sérfræðingur sem ráðlagði mér að gera eitt eða neitt. Ég tek auðvitað ábyrgðina. Algjörlega ábyrgðina,“ svarar hún.

„Ég ætla ekki að draga einhvern hérna sem að þú ætlar síðan að reyna að færa ábyrgðina yfir. Menn féllust á það ýmsir sérfræðingar sem ég ræddi við að þegar málið færi til Alþingis til dæmis þá væri það Alþingi auðvitað sem tæki ákvörðun í málinu. Það hefði lokaorðið,“ segir hún og bætir við:

„Hver var ábyrgð Alþingis? Af hverju átti ég að leggja málið fyrir Alþingi? Til hvers Alþingi þarf að svara því. Og ég óttast að Alþingi hafi ekki svör við því í dag. Klárlega fannst mér ekki höndla það síðasta sumar. Og eins og ég segi, það getur vel verið að menn vilji bara hafa þetta þannig að nefndin, svona hæfisnefnd, menn telji hana faglegri alltaf og þar séu aldrei nein undarleg sjónarmið í gangi. Þau séu alltaf bara hjá ráðherranum.“

Er þá betra að þetta sé í höndunum á einni manneskju? „Ja, hún ber þó ábyrgð.“

Sigríður segist bera ábyrgð með því að fara í gegnum kosningar, þar sem hún var endurkjörin á þing. Hún segir að þó að Hæstaréttardómurinn hafi ekki legið fyrir hafi héraðsdómur legið fyrir með sömu niðurstöðu gagnvart sér og niðurstaðan var í Hæstarétti, þó dómarnir séu mismunandi.

Byggir ákvarðanir á eigin hyggjuviti

En hvað kallast það þegar menn brjóta lög, vitandi vits, hafandi verið aðvaraðir um það? „Ekkert vitandi vits. Þetta er mitt mat líka. Ég er líka sérfræðingur á þessu sviði. Ég fæ hér alls kyns tilmæli frá sérfræðingum hér í ráðuneytinu,“ segir hún.

„Ég tek sem dæmi um uppreist æru. Ég fékk þar tilmæli frá sérfræðingum um að ég ætti að veita barnaníðingi uppreist æru. Og því var haldið statt og stöðugt fram við mig og forvera mína, sem að fylgdu þessum tilmælum eftir langdregin viðtöl við sérfræðinga hér, og svo kemur þetta til mín og ég fer ekki að þessum tilmælum.“

Sigríður segist standa við ákvarðanir sínar. „Ég ætla að leyfa mér það og ég tek mínar ákvarðanir byggðar á mínu hyggjuviti. Ég er lögfræðingur eins og ég nefni. Og ég stend fyllilega við þessar ákvarðanir mínar og ég geri það ennþá,“ segir hún.

„Dómarar þurfa líka að vera sjálfstæðir í sínum störfum gagnvart öðrum dómurum,“ segir dómsmálaráðherra. (Mynd Kveikur/RÚV)

Geta verið í þakkarskuld

Hver svo sem eftirmálin verða af skipun í Landsrétt er ljóst að deilur um það hvernig eigi að skipa dómara eru enn einu sinni komnar upp á Íslandi. Og eins og oft áður snúast þær um það hver eigi að ráða: Pólítikin eða hæfisnefndin. Yfirlýst markmið um að verið sé að tryggja sjálfstæði dómstóla með hæfisnefndinni eins og sagði í lögunum á sínum tíma er misskilningur að mati ráðherrans.

„Þess vegna held ég að fyrirkomulagið í dag sé ágætt ef það virkar. Það er að segja að það sé hæfisnefnd, ráðherra komi líka og síðan fari það til löggjafans sem staðfestir. Og menn hafa nefnt líka möguleikann á því, að af hverju koma ekki dómaraefnin og bara ræða við þingið? Jafnvel við sérstaka dómarnefnd. Áður en tekin er ákvörðun um hverjir skuli skipaðir,“ veltir hún upp.

„Ef að þetta varðar sjálfstæði dómstólana og þetta á að vera svo mikil hæfnisnefnd. Hvernig stendur þá á því að það er svona mikið lagt upp úr því að hún sé skipuð hagsmunaaðilum. Dómarar þurfa líka að vera sjálfstæðir í sínum störfum gagnvart öðrum dómurum. Og þá er mjög mikilvægt að það sitji ekki í svona hæfisnefnd sem er að velja dómara, aðrir dómarar. Það er enginn að fara að segja dómurum hvernig þeir eiga að dæma utan réttarins. En dómarar geta verið í þakkarskuld við annan þegar þeir eru að dæma, sitja í rétti.“

Eða ráðherra?

„Eða ráðherra? Ja ég meina jú, jú. En jú, það getur verið þannig líka,“ segir Sigríður.