*

Slökkviliðið hótar að loka húsnæði Hagaskóla í Ármúla

Slökkviliðið í Reykjavík hefur gert alvarlegar athugasemdir við eldvarnir í skólahúsnæði í Ármúla, þar sem stór hluti af kennslu Hagaskóla fer fram, eftir að mygla fannst í aðalhúsnæði skólans í Vesturbæ Reykjavíkur.

Slökkviliðið hótar að loka húsnæði Hagaskóla í Ármúla

Reykjavíkurborg leigir húsnæðið, Ármúla 30, af fasteignafélaginu Seli. Þangað er hátt í 400 nemendum í 8. og 9. bekk ekið úr Vesturbænum á hverjum degi.

Eldvarnaeftirlit slökkviliðsins fékk ábendingu um húsnæðið í þessum mánuði. Farið var í eldvarnaskoðun og kom í ljós að kröfur sem eru gerðar um eldvarnir í skólahúsnæði voru ekki uppfylltar. Slökkviliðið taldi að verulegir annmarkar væru á eldvörnum.

Í gær hélt slökkviliðið fund með eiganda hússins og fulltrúum Reykjavíkurborgar þar sem tilkynnt var um niðurstöðu slökkviliðsins.  Í bréfi til eiganda hússins, sem er dagsett í gær, segir að þetta sé alvarlegt brot á lögum um brunavarnir og byggingarreglugerð. Verði málinu ekki lokið á viðunandi hátt eða samið um úrlausn þess við slökkviliðsstjóra fyrir 12. október verði húseigninni lokað.

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri, segir í samtali við Kveik að þeir ágallar sem hafi fundist á húsnæðinu séu það alvarlegir að hætta geti skapast. Húsið sé ekki hannað fyrir skólastarf og kröfur um brunahólfun og flóttaleiðir hafi ekki verið uppfylltar. Þess vegna sé þessi stutti frestur gefinn.

Í skoðunarskýrslu slökkviliðsins kemur fram að breytingar hafi verið gerðar á húsnæðinu án leyfis, og ef frá séu taldir steyptir veggir, stigahús og steyptar súlur sé sárafátt á 2. og 3. hæð hússins sem minni á samþykkta uppdrætti.

Fram kemur að áður en Reykjavíkurborg byrjaði að bæta við veggjum á 2. og 3. hæð hússins hafi rýming af hæðunum verið flókin og erfið. Einungis ein fullgild flóttaleið hafi verið af stórum hluta hæðanna, en önnur flóttaleið hafi legið af 3. hæð niður á 2. hæð og þaðan út á þak, sem hafi verið án alls stuðnings, fallvarna eða neyðarlýsingar. Þegar út á þak sé komið þurfi að komast að fellistiga sem sé við þakkant og þaðan niður á bílaplan.

Nú, þegar búið sé að bæta enn frekar við veggjum á 2. og 3. hæð hússins séu upphaflegar flóttaleiðir breyttar og mörg svæði sem hafi einungis eina flóttaleið.

Í skýrslunni kemur líka fram að mikið vanti upp á að leiðamerkingar uppfylli reglugerðir og staðla. Sú neyðarlýsing sem hafi sést í húsinu hafi öll virst vera „á bilun,“ eins og það er orðað.

Ennfremur kemur fram að þær brunahólfanir sem séu eða ættu að vera í húsinu hafi víða verið gerðar óvirkar með því að hurðaskrár hafi verið gerðar óvirkar, hurðapumpur teknar úr sambandi og þess háttar. Jafnframt er tekið fram að þar sem skipulag hæðanna sé ekki í samræmi við uppdrætti séu þær brunahólfanir sem þó eru til staðar ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti.

Í skeyti frá skólanum, sem foreldrar nemenda fengu sent í dag, kemur ekki fram að slökkviliðið hafi hótað að loka húsnæðinu. Í skeytinu segir að eftir nýlega endurskoðun á húsnæðinu hafi komið fram nokkrar athugasemdir og sé vinna þegar hafin við úrbætur. Unnið verði að þeim í nánu samstarfi við slökkviliðið. Vinna hafi verið hafin áður en skoðun fór fram og muni sú vinna nýtast vel í næstu skrefum.

Í svari frá Reykjavíkurborg við fyrirspurnum Kveiks var sagt að brugðist yrði við öllum athugasemdum eldvarnaeftirlitsins innan tímamarka.

Húsnæðið uppfyllir ekki kröfur en undanþágur veittar

Fyrir réttu ári greindist mygla í aðalbyggingu og tveimur álmum Hagaskóla í Vesturbæ Reykjavíkur. 603 nemendur í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla voru þá í skólanum. Brugðið var á það ráð að rýma skólann og finna annað húsnæði fyrir kennsluna.

Í haust byrjuðu 8. og 9. bekkur skólagönguna í Ármúla 30, skrifstofuhúsnæði sem áður hýsti meðal annars greiðslumiðlunarfyrirtækið Borgun.

Samkvæmt leigusamningi borgarinnar við eiganda húsnæðisins sá hann um að setja upp gifsveggi til að afmarka kennslustofur og tryggði að grundvallaratriði eins og rafmagnstenglar og vatnskranar væru í lagi.

Alla jafna þyrfti að leita samþykkis byggingarfulltrúa fyrir breytingum af þessu tagi og að leggja fram teikningar með fyrirhuguðum breytingum á húsnæðinu. Það var ekki gert í þessi tilviki. Í skriflegu svari frá Reykjavíkurborg segir að byggingafulltrúi hafi bent á að það hafi engin heimild til að veita undanþágur frá byggingarleyfum og því verði ávallt að senda inn umsókn um byggingarleyfi, þó að um tímabundna lausn á húsnæðisvanda sé að ræða. Sú umsókn er nú í vinnslu, samkvæmt svari borgarinnar.

Umhverfisráðuneytið veitti 6. september síðastliðinn undanþágu frá tveimur greinum reglugerðar um hollustuhætti, meðal annars um að skólalóðin yrði að vera afgirt – en húsnæðið stendur sem fyrr segir við Ármúla og engin skólalóð til staðar – sem og um að handlaugar sé að finna í skólastofum, mötuneyti sé til staðar og fleira. Þetta var gert að fenginni jákvæðri umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Í eftirlitsskýrslu Heilbrigðiseftirlitsins, frá því áður en undanþágan var veitt, kom fram að húsnæðið uppfyllti ekki allar kröfur sem gerðar væru til slíks húsnæðis um aðstöðu og búnað.

Hagaskóli illa farinn eftir áralangt viðhaldsleysi

Hagaskóli er kominn til ára sinna. Skólinn var reistur á árunum 1957-1962. Þegar myglan kom í ljós var hafist handa við að skoða og greina húsnæðið. Samkvæmt kynningu borgarinnar með foreldrum komu í ljós umfangsmiklar skemmdir og viðhaldsþörf. Skoðun á húsnæðinu leiddi í ljós að húsnæði Hagaskóla bæri þess merki að hafa fengið takmarkað viðhald síðustu ár.

Ákveðið var að aðlaga aðalbygginguna að nútímaþörfum en rífa viðbyggingarnar og reisa þar nýtt skólahús. Til stóð að kennsla 8. og 9. bekkja færðist á ný í Hagaskóla um áramót, í lausar kennslustofur sem er verið að koma fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkuborg er nú unnið að því að flýta þeim flutningi. Að vori 2023 er áætlað að öll kennsla skólans fari fram í Hagaskóla og nágrenni.

Ekki náðist í forsvarsmann eiganda hússins við vinnslu fréttarinnar.