Millilentu með þúsundir tilraunaapa á Íslandi

Íslenska flugfélagið Bláfugl hefur flutt þúsundir apa frá Asíu og Afríku til Evrópu og Bandaríkjanna á undanförnum mánuðum. Vísbendingar eru um að aparnir séu villtir og geti verið smitberar. Margar ferðanna voru með millilendingu í Keflavík.

Á hverjum degi fara að meðaltali yfir tuttugu þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll, tugir tonna af alls konar frakt, frá fersku sjávarfangi til sendinga frá netverslunum, töluvert af hergögnum – og suma daga apar.
Það er ekki ólíklegt að einhver hrökkvi við þegar talað er um að apar fari um Keflavík. Á hvaða ferðalagi eru þeir?

Þetta kann að hljóma eins og upplegg að fimmaurabrandara, en er það alls ekki. Snemma sumar 2023 fór flugfélagið Bláfugl til Asíu, áfangastaðar sem alla jafna er ekki hluti leiðarkerfis félagsins, og hefur síðan farið a.m.k. sextán ferðir til Máritíus, Víetnam og Kambódíu að sækja dýr sem eru flutt til Evrópu og Bandaríkjanna.

Kveikur og hópur alþjóðlegra dýraverndarsamtaka rakti fjölda ferða Bláfugls frá Afríku og Asíu til áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum.

Þessir flutningar eru umdeildir, svo mjög að önnur flugfélög hafa flest sagt sig frá svona verkefnum, síðast franska flugfélagið Air France í júní 2023. Og einmitt í sama mánuði urðu spænskir dýraverndarsinnar fyrst varir við vélar Bláfugls á slóðum þar sem þær höfðu ekki vanið komur sínar til þessa, segir Dr. Pablo Fernández, talsmaður spænsku samtakanna Abolición Vivisección í viðtali við Kveik.

Kveikur fékk ábendingu um að bandarísku dýraverndarsamtökin PETA, þau stærstu í heimi, hefðu kært Bláfugl til bandarískra yfirvalda vegna ferðanna. Dr. Lisa Jones-Engel, vísindaráðgjafi hjá PETA, segir það hafa komið á óvart að sjá flugfélag frá Íslandi standa í apaflutningum frá Asíu en félagið hafi undanfarið flutt fleiri apa en nokkur annar um langt skeið.

Dýraverndarsamtökin PETA hafa kært Bláfugl til bandarískra yfirvalda.

Samkvæmt gögnum sem samtökin Abolición Vivisección hafa komist yfir, um sjö af sextán flugferðum Bláfugls, voru fluttir ríflega 5000 apar í þessum sjö ferðum, rétt um 720 í hverri ferð að meðaltali.

Flutningarnir, meðferð apanna og notkun þeirra í vísindarannsóknum er ekki einungis dýraverndarmál. Alla jafna eru apar í vísindarannsóknum aldir í ræktunarstöðvum til að tryggja að meðferð þeirra sé í lagi, uppruninn rekjanlegur og dýrin sjálf laus við sjúkdóma og sýkla. En aparnir í Bláfuglsvélunum uppfylla ekki þessi skilyrði, segja viðmælendur Kveiks í alþjóðlegum  hópi dýraverndarsamtaka sem lengi hafa rakið apaviðskipti.

Þegar covid skall á, og samskipti Bandaríkjanna og Kína versnuðu á sama tíma, skelltu kínversk stjórnvöld í lás og bönnuðu útflutning apa. Kína var fram að því stærsti útflytjandi apa úr eldi. Allt í einu varð apaskortur samhliða stóraukinni eftirspurn vegna margs konar vísindatilrauna.

Dr. Lisa Jones-Engel, hjá PETA, segir að þá hafi aðrir stokkið til. Skyndilega hafi framboð á öpum frá Máritíus, Kambódíu og Víetnam stóraukist. Þar sé þó engin saga um eldi, auk þess sem apaeldi gangi almennt ekki vel því dýrin vilji ekki fjölga sér í búrum. Aparnir frá þessum þremur löndum séu því í raun villtir apar, veiddir í frumskógum og beri með sér margs konar sjúkdóma og sýkla.

Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir, þekkir umræðu um þá hættu sem talin er stafa af villtum dýrum. Hann segir apana vinsæla til rannsókna og að þeir séu taldir mikilvægir fyrir framfarir í læknavísindum þar sem þeir séu náskyldir mannskepnunni.

Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir.

„Þessi dýr geta borið berkla, þessir apar, og það eru einhver dæmi um það núna á undanförnum árum að þeir hafi gert það. Þannig að þessi hætta er raunverulega til staðar. En það eru miklu fleiri sýklar sem þessi dýr geta borið. Sérstaklega ef það er verið að fanga þau villt í skógi, frumskógum. Og þá veit maður ekki hvað það er. Sjúkdómar eins og covid og inflúensa koma dýrum. Og þetta getur allt borist til okkar,“ segir Haraldur í viðtali við Kveik.

Samkvæmt yfirliti frá sóttvarnalækni eru það þó einungis apabóla og berklar sem hér hafa greinst undanfarin ár. Tilfellum hefur fjölgað, voru tæplega tuttugu af hvorum sjúkdómi í fyrra.

Dr. Lisa Jones-Engel, hjá PETA, er sjálf doktor í prímatarannsóknum og vann í þrjátíu og fimm ár við vísindatilraunir á öpum, allt þar til henni ofbauð meðferðin á þeim og meðvitundarleysi vísindaheimsins fyrir fimm árum. Vísindaheimurinn hafi skellt skollaeyrum við ábendingum um slæma meðferð dýranna og ekki horfst í augu við að mörg þeirra hafi komið á áfangastað illa farin og veik af alls konar sjúkdómum sem síðan hafi geisað áfram innan rannsóknarhópanna. Berklar, malaría, kampfýlóbakter, salmonella, yersenia og jafnvel veirur sem líktust ebólu hafi greinst í öpunum. „Nefndu það, það fannst í þessum öpum,“ segir Lisa og er mikið niðri fyrir. Raunar hefur verið varað við því að næsti heimsfaraldur gæti einmitt átt uppruna sinn í þessum dýrum, þar sem þau eru flutt út um allan heim.

„Þetta eru engar getgátur,“ segir Lisa. „Sumir bakteríusjúkdómarnir eru svo hættulegir að hér í Bandaríkjunum flokkast þeir sem lífefnavopn. Og sjúkdómsvaldarnir dreifast með þvagi, saur, munnvatni og dropum sem aparnir anda frá sér.“

Eins og gefur að skilja er það því ekki hættulaust að umgangast dýrin eða handleika þau. Flugmenn véla Bláfugls og hlaðmenn á flugvöllum væru í mestri hættu.

Ferðalagið er líka langt. Tökum ferð apa sem hófst 16. október á Máritíus. Þaðan lá leiðin til Jeddah í Sádi-Arabíu, Brussel, Keflavíkur, Boston og loks Houston í Texas. Fjörutíu og þrír tímar liðu frá flugtaki til lendingar á áfangastað.
Eða önnur ferð, frá Hanoi í Víetnam til Washington, með millilendingum í Delhi, Tiblisi og Keflavík. Ríflega þrjátíu og tveggja tíma ferðalag, með fjögurra tíma bið í Keflavík, 21. október í fyrra.

Pablo hjá Abolición Vivisección segir næsta víst að lög um dýravernd hafi verið brotin, þótt ekki væri nema með fjölda millilendinga. Hann segir uppljóstrara hafa greint frá illri meðferð hjá Bláfugli, til dæmis að dýrunum sé ekki sinnt á leiðinni eða þeim gefið að éta og drekka.

Íslensk lög og reglur kveða meðal annars á um að þess beri að gæta að valda ekki ótta, meiðslum eða þjáningu við flutning dýra. Þau eiga að vera nógu vel á sig komin til að þola ferðalagið. Flytja á dýrin án óeðlilegra tafa og fylgjast reglubundið með líðan þeirra. Þau þurfa að vera varin fyrir veðri – til dæmis vetrarkulda í stoppi á Keflavíkurflugvelli.

Lisa  segir að það séu einnig vísbendingar um að Bláfugl hafi farið á skjön við lög og reglur.

Kveikur óskaði eftir viðtali við fulltrúa Bláfugls, sem eru í Litáen, en þeir vildu hvorki veita viðtal né svara skriflegum spurningum. Í yfirlýsingu félagsins sagði einungis að félagið starfaði eftir settum reglum og léti yfirvöldum í té hverjar þær upplýsingar sem óskað væri eftir  en vegna trúnaðarákvæða gagnvart verkkaupa væri ekki hægt að svara frekari spurningum.

Ísland er áberandi í kynningu Bláfugls á starfseminni.

En hvað segja áhafnir Bláfugls? Hafa borist ábendingar eða kvartanir frá þeim? Ekki svo að Kveik sé kunnugt um. Engir íslenskir flugmenn hafa starfað fyrir félagið um hríð heldur er stuðst við erlendar áhafnaleigur og samningarnir sem flugmenn undirrita þar skýra kannski þögnina.

Þar eru ákvæði um ábyrgð áhafnar og trúnað og rjúfi til dæmis flugmenn trúnað með því að segja frá veikum öpum getur legið við því fimm þúsund evra sekt sem greiða á strax. Og hún hækkar um fimm hundruð evrur á dag meðan á meintum brotum stendur. Það getur því verið dýrt að segja frá.

Nafnlaus uppljóstrari PETA hefur sagt fulltrúum samtakanna frá atviki á flugvellinum í Boston. „Það var starfsmaður sem sinnti vélinni sem sagði okkur frá því að hann og samstarfsfólk hans hefðu komið til að sinna vél og frakt Bláfugls í Boston. Þegar þau komu að vélinni sáu þau að sumir voru í hlífðarfatnaði og báðu um slíkt hið sama en fengu þau svör frá áhöfninni að það væri algjör óþarfi, þau ættu bara að drífa í því sem gera þyrfti því það lægi á að halda ferðinni áfram,“ segir Dr. Lisa Jones-Engel hjá PETA.

Bláfugl vildi ekki svara spurningum Kveiks um þessar ásakanir frekar en öðrum spurningum.

Hvorki Samgöngustofa né sóttvarnalæknir hjá landlæknisembættinu segjast hafa neitt með flutninga af þessu tagi að gera nema Matvælastofnun kalli fulltrúa stofnananna sérstaklega til.

Svör Samgöngustofu

Samgöngustofa framkvæmir reglubundnar hlaðskoðanir sem eru gerðar skv. ESB reglugerðum og eru afmarkaðar við flugöryggisþátt flugstarfsemi. Þær kröfur taka ekki til flutnings á dýrum. Loftför á íslenskri skrá sæta samskonar skoðunum í stoppum erlendis. Þó málaflokkur um velferð dýra í flutningum heyri ekki undir stofnunina myndi Samgöngustofa að sjálfsögðu leiðbeina og aðstoða annað stjórnvald eins og MAST, eins og hægt er, í þeim tilgangi að komast um borð í loftfar til eftirlits hvað það varðar.

Varðandi kröfur sem gilda um millilandaflug, þá hafa staðlar Alþjóðaflugmálastofnunarinnar verið innleiddir skv. Chicago sáttamálanum og grunnreglugerð ESB nr. 1139/2018 og afleiddum reglugerðum. Þessar kröfur taka ekki á flutningi dýra. Þegar um er að ræða svokallað tæknistopp, þ.e. þegar loftfar lendir til að t.a.m. sækja eldsneyti, þá eru ekki kröfur gerðar um að tilkynna farm sem þennan til flugmálayfirvalda hér á landi.

Og Matvælastofnun hefur heldur ekki mikið að gera með svona flutninga. Flugfélögum er ekki skylt að gera íslenskum yfirvöldum neina grein fyrir því sem er um borð í vélum sem stoppa hér, sumar hverjar í á annan sólarhring, ef stoppið telst millilending eða tæknilegs eðlis því þá á ekki að opna vélina, taka neitt út eða bæta neinu við öðru en flugvélaeldsneyti og hugsanlega matarbita fyrir áhöfnina.

„Það er í raun og veru ekki verið að koma með dýrin inn í landið. Þannig að við, strangt til tekið, sinnum ekki eftirliti með dýraflutningum í millilandaflugi,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar. En hún viðurkennir að óþægilegt sé að fá ábendingar um atvik eins og apaflutningana.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.

„Jú, það er klárlega óþægilegt að fá svona ábendingar. Og við fengum ábendingu í janúar og fylgdum henni eftir. Þegar við vorum loksins komin með upplýsingar um flugnúmer, þá var flugvélin farin. En ég lít þannig á að þetta, í ljósi þessara ábendinga sem við erum að fá núna og þessara upplýsinga, að þá fylgjum við málinu eftir og erum þá í samstarfi við Samgöngustofu sem fer með eftirlit með flugferðum. Og fáum upplýsingar næst þegar slíkur farmur fer um íslenska lofthelgi eða lendir á Íslandi. Að við óskum eftir að fara um borð til að skoða hvort velferð dýranna sé ógnað í flutningi. Þá tel ég að það sé mögulegt fyrir okkur að krefjast úrbóta á staðnum, áður en flugvélin heldur áfram.“

Svör Bláfugls til MAST

Stjórnendur Bláfugls neituðu að svara spurningum Kveiks um flutningana. En MAST óskaði skýringa frá félaginu eftir viðtal við Kveik og fékk svör:

Bláfugl hefur framkvæmt 8 flug í gegnum KEF á leið til USA og Kananda á tímabilinu september 2023 til og með febrúar 2024.

Eingöngu var um tæknilendingu að ræða í Keflavík þar sem eldsneyti var tekið og í einhverjum tilfellum skipt um áhöfn. Fraktrými vélarinnar var ekki opnað í Keflavík og engin dýr, búnaður eða úrgangur fór frá borði.

Þar sem dýrin voru að koma úr sóttkví á brottfarastað var áhöfn og starfsfólki bannað að koma nálægt búrum dýrana og fara ekki inní fraktrými flugvélarinnar.

Flutningur fór fram samkvæmt reglum IATA um flutning á slíkum dýrum. Í öllum tilfellum var dýrunum afhlaðið í Tiblisi eða Brussel sem var um miðbik ferðar og þeim gefin matur og vatn. Jafnframt voru búr dýrana í flestum tilfellum útbúin þannig að þau höfðu aðgang að vatni meðan á flugi stóð.

Búnaður og flugvél voru sótthreinsuð eftir afhleðslu á áfangastað.

Dr. Lisa Jones-Engel, prímatasérfræðingurinn hjá bandarísku dýraverndarsamtökunum PETA, segir farsóttir breiðast út vegna þess að fólk og dýr séu flutt um heiminn . Og flutningur apakatta sé talinn valda mestri hættu á útbreiðslu sjúkdóma úr dýraríkinu.

Villtir apakettir eru taldir meðal hættulegustu smitbera dýraríkisins.

„Þetta snertir alla heimsbyggðina og því finnst mér ekki óeðlilegt að segja að Ísland beri einhverja ábyrgð, í ljósi þess að Ísland er ein meginstoppistöð apanna á flutningi og flugfélagið sem flytur þá er íslenskt. Íslenskum yfirvöldum ber að standa vörð um heilbrigði á heimsvísu,“ segir Lisa.

Þegar Kveikur var á Keflavíkurflugvelli nýlega var einmitt verið að hlaða frakt inn í vél Bláflugls – hraðsendingum og fersku sjávarfangi. Það hljómar ekki girnilega að matvæli séu í sömu vél og apar sem gengu örna sinna inni í litlum kössum og sagðir eru geta verið smitberar.

Hlaðmenn vinna að því að ferma TF-BBU, eina af vélum Bláfugls sem notuð hefur verið í apaflutningum. Í þessari ferð voru hraðsendingar og ferskt sjávarfang meðal þess sem flytja átti. 

Lisa geldur varhug við þessu og segist sjálf myndu vilja fá vissu fyrir að vélarnar væru vandlega sótthreinsaðar. „Ef vélin er full af öpum á mánudegi og svo með póstsendingar á þriðjudegi, þá þætti mér það óþægilegt“.

Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir, tekur í sama streng. „Mér finnst sjálfsagt að menn hafi aðeins varann á. Og hugi að þessu. Það þarf kannski að sinna þessum dýrum og þá þurfa menn að kunna til verka. Vera upplýstir umað það getur verið falin einhver áhætta í þessu.“

En hann segir að reglur um hvernig eigi að hreinsa flugvélar séu fastmótaðar og hefur ekki áhyggjur af að nein atvik kom upp. Þetta sé allt til staðar og það kunni menn.

Bláfugl varð Bluebird, svo Bluebird Nordic og loks BBN Airlines Nordic. Nú hafa verið stofnuð systurfélög í Slóvakíu, Indónesíu, Tyrklandi og sótt hefur verið um leyfi í Taílandi. En félagið er að hætta starfsemi á Íslandi, rétt um fjórum árum eftir að litáískt flugrekstarfyrirtæki keypti það. Samningar um flutninga flytjast samkvæmt heimildum Kveiks til nýju félaganna, einkum félagsins í Slóvakíu. Vélar íslenska félagsins færast líka að mestu þangað. Og ef apaflutningar frá Asíu til Bandaríkjanna halda áfram verða vélarnar kannski ekki íslenskar en á jafnlitlum vélum og notaðar voru hjá Bláfugli er erfitt að komast hjá millilendingu í Keflavík. Með nokkur hundruð villta smitbera um borð.