Listar yfir fjárfestingar voru í drögum að skýrslunni

Listar yfir fjárfestingar útgerðarfélaga og tengdra félaga í íslensku atvinnulífi voru í drögum að skýrslu sjávarútvegsráðherra sem ríkisskattstjóri sendi ráðuneytinu í júlí. Listarnir voru ekki í seinni drögum og ekki í endanlegri skýrslu sjávarútvegsráðherra til Alþingis.

Listar yfir fjárfestingar voru í drögum að skýrslunni

Sjávarútvegsráðherra skilaði Alþingi í ágúst skýrslu um fjárfestingar stærstu útgerðarfélaga landsins og tengdra félaga í fyrirtækjum sem ekki eru útgerðarfélög. Í skýrslunni voru birtar samtölur fyrir hvert fyrirtæki, en ekki kom fram í hvaða fyrirtækjum var fjárfest.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sem lagði fram beiðni um skýrsluna ásamt fleiri þingmönnum, sagði þegar skýrslan kom út að hún segði ekki hálfa þá sögu sem beðið var um.

Í skýrslubeiðninni var jafnframt óskað eftir upplýsingum um raunverulega eigendur útgerðarfélaganna og tengdra félaga, en ríkisskattstjóri taldi ekki heimilt að veita þær upplýsingar.

Kveikur óskaði á þriðjudaginn í síðustu viku eftir öllum gögnum sem tengdust skýrsluskrifunum bæði frá atvinnuvegaráðuneytinu og ríkisskattstjóra. Gögnin bárust frá ríkisskattstjóra eftir hádegi í dag en þau svör fengust frá ráðuneytinu að ekki tækist að afhenda þeirra hluta gagnanna fyrir helgi.

Meðal gagna frá ríkisskattstjóra eru skýrsludrög sem ríkisskattstjóri sendi atvinnuvegaráðuneytinu í júlí. Þar er að finna lista yfir fjárfestingar hvers útgerðarfélags og tengdra félaga. Hér sést eitt slíkt dæmi.

Svar við spurningu 1 í drögum að skýrslunni þar sem sýndar eru fjárfestingar útgerðarfélagsins Brims í öðrum félögum.

Í síðari drögum og í lokaútgáfu skýrslunnar er slíka lista aftur á móti ekki að finna.

Svar við spurningu 1 í lokaútgáfu skýrslunnar. Þar er ekki að finna lista yfir einstakar fjárfestingar Brims.

Kveikur óskaði nú síðdegis skýringa frá ráðuneytinu. Í svari segir að þessar upplýsingar hafi ekki verið hluti af skýrslunni þar sem Alþingi hafi ekki óskað eftir þeim. Ráðuneytið ítreki að í skýrslunni hafi verið birtar allar upplýsingar sem óskað var eftir og heimilt var að birta. Jafnframt segir að upplýsingar um eignarhluti einstakra fyrirtækja séu opinberar í ársreikningum umræddra fyrirtækja og geti hver sem er flett þeim upp á vef Skattsins.

Í skýrslubeiðninni er ekki óskað berum orðum eftir lista yfir þau fyrirtæki sem útgerðarfélög og félög tengd þeim hafa fjárfest í.

Hanna Katrín sagði þó í samtali við Kveik í kvöld að hún hafnaði svari ráðuneytisins. Engum sem læsi skýrslubeiðnina og greinargerðina með henni gæti dulist um hvað var beðið.

Fram kemur í greinargerðinni að skýrslubeiðendur telji mikilvægt að upplýsingar um eignarhluti 20 stærstu útgerðarfélaga landsins og tengdra aðila í óskyldum atvinnurekstri séu teknar saman, með greiningu á fjárfestingum þeirra.

Þess má geta að þótt listar yfir einstakar fjárfestingar útgerðarfélaganna og félaga tengdum þeim hefðu fylgt í lokaútgáfu skýrslunnar hefði það þó ekki gefið heildarmynd af umsvifum útgerðarmanna í íslensku viðskiptalífi. Sem dæmi um þetta má nefna að fjárfesting Samherja í Eimskipafélagi Íslands er í gegnum félagið Samherji Holding. Það félag var ekki hluti af samantektinni þar sem það telst, samkvæmt viðmiðum sem notast var við, ekki tengt útgerðarfélaginu Samherja.